Biskupsvísitasía Guðna Ágústssonar

Í dag bárust fréttir af því að Guðni Ágússon fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins væri ósáttur vegna  óvæginnar umfjöllunar Davíðs Þórs Jónssonar guðfræðings um forsetann og sjálfan sig á bloggsíðu þess síðarnefnda fyrir viku.  Davíð Þór hefur lokið starfsþjálfun sem prestsefni og gegnir nú um stundir afleysingastarfi sem óvígður fræðslufulltrúi í Austurlandsprófastdæmi.

Grein Davíðs Þórs má lesa hér og hefur hún eflaust fengið talsverðan lestur í dag eftir að fréttist af biskupsheimsókn Guðna. Í greininni dregur Davíð Þór upp sjö atriði sem hann telur styðja það að forseti Íslands sé bæði lygari og rógtunga og hvetur kjósendur til að gefa honum ekki atkvæði sitt.  Ennfremur vísar Davíð Þór í yfirlýsingar tveggja formanna nýnasistahreyfingarinnar „Norrænt mannkyn“ um að Guðni hafi verið félagi í þeim samtökum.

Í viðtali við Morgunblaðið (sjá hér) greinir Guðni frá því að hann hafi gengið á fund biskups Íslands frú Agnesar M. Sigurðardóttur í gær fimmtudag og kvartað yfir Davíð Þór. Ennfremur kemur fram að Guðni íhugi það að höfða mál gegn Davíð Þór. Aðspurður að því sem rætt var á fundi hans og biskups segir Guðni:

Ég sagði við hana að mér þætti þetta vera ófær framkoma hjá hennar þjóni. Ég gerði kröfur til þess sem heiðarlegur maður og kristinn að þessi maður gjaldi fyrir orð sín bæði í minn garð og forsetans.

DV hefur líka haft samband við Guðna vegna málsins og biskupsgöngunnar (sjá hér). Í samtalinu við DV segir Guðni:

Ég tel hárrétt að ávíta þennan mann og að biskup og kirkja skoði gang sinn að vera með svona þjón sem kemur svona fram við almenna borgara og forseta landsins.

Ég ætla ekkert að ræða skoðanir Davíðs Þórs á forsetanum sérstaklega. Ég hef sjálf valið að kjósa ekki sitjandi forseta vegna gagnrýni rannsóknarskýrslunnar á hann og ólíkra skoðana um eðli forsetaembættisins (sem lesa má hér), en ég tek ekki undir skoðanir Davíðs Þórs á að hann sé lygari og rógtunga. Né heldur hef ég áhuga á að velta upp gömlum málum um meinta félagsaðild Guðna í „Norrænu mannkyni“ á fyrri hluta tíunda áratugarins. Mér þykir grein Davíðs heldur flækjast við þessa aðildarvenslan sem er ekki beinlínis tengd efni pistilsins um forsetann. En nú er ég víst ekki að skrifa ritdóm um grein Davíðs Þórs, heldur að velta fyrir mér hvort hann megi hafa þá skoðanir sem hann setti fram.

Ég tel að málfrelsi sé mikilvægt í nútímasamfélagi og veiti valdsstjórnum nauðsynlegt aðhald. Davíð Þór má sem almennur borgari í þessu landi hafa hvaða skoðun sem hann vill á því hvernig forseti Íslands situr Bessastaði á hverri tíð. Hann má líka hafa skoðun á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, Alþingi Íslendinga, þjóðkirkjunni, Hæstarétti og hverju því öðru sem hann langar til að tjá sig um.

En á að gera ríkar kröfur til kirkjunnar þjóna eins og Guðni lagði áherslu á í heimsókninni til biskupsins? Til eru siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar sem nálgast má í heild sinni hér.  Greinin sem umkvartanir Guðna gæti flokkast undir er væntanlega þessi hér:

13. Sýna ábyrg rafræn samskipti og netnotkun.

Og þá er það spurningin:  Flokkast það undir óábyrga netnotkun að vara kjósendur við frambjóðenda vegna þess að viðkomandi telur hann ekki trausts kjósenda verður?

Það vill svo merkilega til að texti næsta sunnudags fjallar um köllun Jeremía spámanns. Í textanum í upphafi spádómsbókar Jeremía vantreystir spámaðurinn sér þegar Guð kallar hann til að verða spámaður sinn. Guðdómurinn situr fastur við sinn keip og Jeremía lætur undan. Þessi tregi spámaður átti eftir að verða fleinn í holdi síðustu konunganna í Júda, þeirra Jósía, Jóahasar, Jójakíms, Jójakíns og Sedekía. Jeremía skammaði konungana stöðugt fyrir valdníðslu, hjáguðadýrkun og trúleysi. Annar spámaður, Jesaja, gekk um á lendaskýlu í þrjú ár í mótmælaskyni við valdhafa sem hann taldi óréttláta. Þegar lesið er í gegnum spámannaritin  kemur fram mikil samfélagsleg ádeila og spámennirnir eru óhræddir við að láta kónga og hirðslekti heyra það.

Ég velti því fyrir mér meðan ég les textann frá köllun Jeremía hvort hann hefði verið fyrirmynd í ábyrgum netsamskiptum ef rafrænir samfélagsmiðlar hefðu verið til á hans tíð.  Ég held ekki.

Vegna hinnar spámannlegu hefðar og hinnar ríku samfélagsgagnrýni sem einkennir hinn gyðing-kristna arf tel ég að Davíð Þór Jónsson hafi fullan rétt sem kirkjunnar þjónn til að segja að forsetinn sé lygari og rógtunga fyrst honum finnst það , færir fyrir máli sínu  allnokkur rök og gefur kost á lýðræðislegri umræðu um skoðanir sínar á vefsíðu sinni. Ég þarf ekki að vera sammála rökunum eða ályktuninni. En ég virði rétt hans til að hafa þessar skoðanir.  Að mínu viti á hann ekki að fá neina áminningu fyrir slíka gagnrýni, hann á ekki „að gjalda fyrir orð sín“ og ég tel ekki að rétt sé að kirkjan  „skoði gang sinn að vera með svona þjón.“

Kirkja sem hlypi upp til handa og fóta vegna þess að einn starfsmaður hennar lýsti yfir óánægju með einn af valdhöfunum væri ekki mjög spámannleg.

3 athugasemdir við “Biskupsvísitasía Guðna Ágústssonar

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s