Ég skrifaði bloggfærslu í dag um mikilvægi þess að gefa upp nöfn umsækjenda um opinbera stöðu, sjá hér. Í umræðunni á Facebook og víðar hefur spurningunni verið varpað fram um hvers vegna þetta sé mikilvægt. Margir umsækjendur vildu gjarnan losna við að nöfn þeirra séu birt. Þetta fólk gegnir embættum eða öðrum störfum og vill ekki rugga bátnum ef það fær ekki hið nýja starf. Hvers vegna er svo mikilvægt að þetta ráðningarferli fari fram fyrir opnum tjöldum? Er það kannski óþarfa vesen, forvitni og sparðatíningur að vera að heimta þessi nöfn?
Ég fletti upp í athugasemdunum sem fylgdu með upplýsingalögunum þegar forsætisráðherra lagði þau fram á Alþingi árið 1996. Það er fjórða greinin, fjórði liður sem fjallar um að gefa skuli upp nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda um opinberar stöður. Svona hljóða athugasemdir með þessum hluta fjórðu greinar, en frumvarpið með athugasemdunum má nálgast hér:
Í 4. tölul. er tekið af skarið um það að öll gögn máls, sem snerta ráðningu, skipun eða setningu opinberra starfsmanna, séu undanþegin aðgangi almennings. Umsóknir, einkunnir, meðmæli, umsagnir um umsækjendur og önnur gögn í slíkum málum, sbr. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins, eru því undanþegin aðgangi almennings.
Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 13. október 1995 í málinu nr. 1097/1994 vakti umboðsmaður athygli forsætisráðherra og Alþingis á því að brýnt væri að Alþingi tæki með lögum af skarið um hvort veita bæri almenningi upplýsingar um nöfn þeirra sem sótt hefðu um opinber störf.
Nefnd sú sem samdi þetta frumvarp tók til rækilegrar skoðunar hvort rétt væri að lögfesta þá reglu að hver sem er ætti rétt á að fá lista yfir nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda um opinberar stöður. Tvenns konar sjónarmið vegast hér aðallega á. Annars vegar tillitið til umsækjenda, þar á meðal er talið að menn í störfum hjá einkaaðilum veigri sér við því að sækja um opinber störf af ótta við að missa viðskiptavini þegar fréttist af umsókn þeirra. Hins vegar er það sjónarmiðið um ,,opna stjórnsýslu„ en upplýsingar um umsækjendur stuðla m.a. að umræðu um ráðningu í opinberar stöður er veitir stjórnvöldum án efa nokkurt aðhald.
Með tilliti til aðalmarkmiðs frumvarpsins og þeirrar reynslu, sem fengist hefur síðustu ár af því að birta lista yfir umsækjendur, var ákveðið að taka síðastnefndu rökin fram yfir hin fyrrnefndu. Í frumvarpinu er því lagt til að farin verði svipuð leið og í norsku upplýsingalögunum. Þegar umsóknarfrestur er liðinn ber stjórnvaldi að útbúa lista yfir nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda, svo og að veita almenningi aðgang að þessum lista sé þess óskað. Forsætisráðherra setti stjórnarráðinu reglur sama efnis hinn 16. janúar 1996 og öðluðust þær gildi við birtingu auglýsingar um setningu þeirra í Lögbirtingablaði 26. janúar 1996.
Svo ég dragi saman þau sjónarmið sem koma fram í athugasemdunum þá hefur almenningur ekki aðgang að umsóknargögnum vegna ráðningar í opinberar stöður af tillitssemi við þau sem sækja. Hins vegar hefur almenningur rétt á upplýsingum um nöfn umsækjenda vegna sjónarmiðsins um opna stjórnsýslu. Með því að upplýsa um þau sem sækja um stöður er ráðningarferlið haft eins opið og kostur er. Þannig getur almenningur haft skoðun og upplýsingar um ráðningar á vegum hins opinbera og veitt þeim aðhald sem sýsla með opinbert fé.
Almenningur og umsækjendur eiga rétt á því að umsóknarferlið sé réttlátt og að hæfasti umsækjandinn sé valinn í hvert sinn. Það verður best gert með gagnsæi.
Færðu inn athugasemd