Æviágrip Ólafs Óskars Angantýssonar (1953-2012)

Ólafur Óskar Angantýsson fæddist á Flateyri við Önundarfjörð 30. apríl 1953 og var því á sextugasta aldursári þegar hann lést. Foreldrar hans voru Angantýr Guðmundsson skipsstjóri og Arína Þórlaug Íbsensdóttir húsmóðir og ritari. Voru þau hjónin bæði borin og barnfædd í Súgandafirði. Angantýr og Arína Þórlaug eignuðust alls níu börn og létust þrjú í eða skömmu eftir fæðingu. Af þeim sex börnum sem upp komust er Ibsen elstur, þá Bára og Auður, Haukur var fjórði, Ólafur fimmti og Guðrún er yngst. Arína og Angantýr ólu einnig upp Soffíu Jónu Vatnsdal Jónsdóttur sem lést árið 1993. Haukur bróðir Ólafs lést í maímánuði síðastliðnum en hin systkinin fjögur lifa bróður sinn.

Fyrsta lífsárið sitt átti Ólafur í rauða Svíahúsinu á Flateyri, en fluttu til Keflavíkur þegar Ólafur var á öðru ári haustið 1954. Ólafur hóf skólanám í barnaskólanum í Keflavík en settist síðan á skólabekk í Vogaskóla þegar fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur árið eftir. Ólafur hefur átt góða og trausta vini allt frá Vogaskólaárum og átti góða bernsku í faðmi fjölskyldu sinnar. Hann var óframfærinn sem barn og lét gjarnan hin systkinin hafa orð fyrir sér. Þannig bar hann út Vikuna sem strákur og fékk þá gjarnan Guðrúnu litlu systur til að koma með sér að rukka. Ólafur og Guðrún áttu fleiri skemmtilegar minningar saman frá dögum Kanasjónvarpsins, þegar þau lágu undir borðstofuborðinu og horfðu á The Untouchables í gegnum glerið á millihurðinni, löngu eftir að þau áttu að vera farin inn að sofa. Litla systir var ólöt að skoppa út í búð eftir prinspólói og lakkrísrörum fyrir stóra bróður. Ólafur fór til Súgandafjarðar á hverju sumri til hjónanna Gissurar og Indíönu, eða Jönu. Ólafur hafði verið látinn heita eftir syni þeirra og héldu þau mikið upp á hann. Angantýr faðir Ólafs lést úr hjartasjúkdómi innan við fimmtugt þegar Ólafur var ellefu ára og var hið sviplega andlát föðurins mikið áfall fyrir fjölskylduna alla. Það eru því þung spor að kveðja Ólaf á besta aldri nú 48 árum síðar við svipaðar aðstæður.

Ólafur spilaði á gítar sem unglingur og það var mikið sungið heima hjá honum. Móðuramma hans Lovísa var hjá þeim í tvö ár vegna heilsubrests þegar Ólafur var í kringum fermingu og þá voru spiluð og sungin ættjarðarlög ömmu til dægrastyttingar. Ólafur fékk í fermingargjöf að fara með Ibsen bróður sínum til Risör við Oslóarfjörð, þar sem verið var að lengja bát Ibsens. Var Noregsferðin honum mikil upplifun, enda ekki algengt að fermingardrengir væru á faraldsfæti út fyrir landssteina á sjöunda áratugnum. Þegar Ólafur stálpaðist vann hann á sumrin í frystihúsinu með Gissuri, en fór síðan á rækju með Ibsen bróður sínum á Ásgeiri og síðar síld með Hauki á Ísafold.  Sumartúrarnir á sjónum urðu margir og hjálpuðu til að fleyta Ólafi í gegnum skólanámið. Hann var sjóveikur og ákvað því snemma að leita sér að öðru ævistarfi en sjómennskunni.

Ólafur gekk í Menntaskólann við Tjörnina eftir landspróf og var í hópi fyrsta útskriftarárgangs þess skóla. Það var líf og fjör í menntaskóla um og uppúr 1970 og MT ingarnir þóttu róttækir. Fjölskyldan minnist þess þegar Ólafur fór með vinum sínum að sjá hina umdeildu mynd Green Berets. Myndin fjallaði um landgönguliða í Víetnam og dró upp mjög jákvæða mynd af hernaðarumsvifum Bandaríkjamanna þar í landi. Fjölmenntu menntskælingar til að sjá hana eitt miðvikudagskvöld í október 1970.  Til uppþota kom á bíóinu sem lýst er með miklum upphrópunum í Mánudagsblaðinu í sömu viku undir fyrirsögninni „Rennusteinslýður truflar kvikmyndasýningar.“

Kommúnistaskríll, rauðsokkusubbur og loðinbarðar gerðu uppsteit í Austurbæjarbíói í fyrrakvöld, miðvikudag, er hefja átti níusýningu á bandarísku myndinni The Green Berets. Ruddust þeir inn miðalaust og settust á svið bíósins í mótmælaskyni við myndina. Það er kominn tími til að lögreglan sýni þessum lubbum í tvo heimana.

Ólafur var einkar hárprúður í menntaskóla og raunar æ síðan. Hann sat hinn rólegasti á bíósýningunni með poppið sitt , en lögreglan hefur greinilega séð í honum „loðinbarða“ og þessi prúði piltur var settur í steininn alveg óvart með fjórum sárreiðum mótmælendum. Hinum saklausa fanga Ólafi líkaði vel við „rennusteinslýðinn“ og sagði oft frá því síðar að nóttin í fangaklefanum hefði breytt honum og gert úr honum friðarsinna og jafnaðarmann. Þessi upprennandi jafnaðarmaður átti bíl með mömmu sinni, grænan volvó, sem jafnan gekk undir nafninu „Græna Hættan“ í fjölskyldunni.

Ólafur kynntist konuefni sínu Álfheiði Kristveigu Lárusdóttur í menntaskólanum og þau fóru snemma að búa á Laugavegi 76. Hann fór í viðskiptafræði í Háskóla Íslands strax eftir stúdentspróf og var þar í námi í tvö ár, en söðlaði þá um og fékk vinnu hjá Sjónvarpinu í staðinn. Nokkuð var liðið frá því að Ólafur hafði horft á Kanasjónvarp gegnum gler undir borðstofuborði. Nú var hann orðinn fullorðinn maður og vann sem tæknimaður hjá Sjónvarpinu við myndblöndun og lýsingu í myndveri Sjónvarps um þriggja ára skeið. Þessi nýja reynsla við hið upprennandi ríkissjónvarp Íslendinga opnaði fyrir Ólafi nýjar dyr. Hann ákvað að leggja fyrir sig fjölmiðlafræði við Stokkhólmsháskóla og þau Álfheiður giftu sig sama ár og þau fluttu til Svíþjóðar.

Ólafur stundaði námið í fjölmiðlafræði af miklum áhuga, las jafnt kvikmyndafræði, félagsfræði og sálfræði til fil. Kand. prófs. Hann dýrgði tekjurnar með því að keyra strætó og vinna garðvinnu auk þess sem hann fór á sjó á sumrin. Árið 1981 eignuðust þau einkasoninn Styrmi Þór og átti Ólafur eftir að reynast honum einstaklega góður faðir. Ólafur og Álfheiður skildu tveimur árum eftir fæðingu sonarins og bjó Ólafur áfram í Svíþjóð um tveggja ára skeið þar til hann hafði lokið námi. Er Styrmir að mestu alinn upp í Svíþjóð, en kom alltaf heim til föður síns á sumrin og gjarnan á stórhátíðum líka. Eftir að heim var komið bjó Ólafur um tíma í Breiðholti með móður sinni og systkinunum Auði og Hauki, en keypti sér síðan íbúð á Bjargarstíg og síðar Þorfinnsgötu. Veturinn sem Styrmir Þór gekk til prestsins dvaldi hann hjá pabba sínum á Íslandi og áttu þessar samvistir eftir að vera þeim báðum dýrmætar. Þeir feðgar fóru í ferðalög á sumrin, stundum tveir og í önnur skipti með stórfjölskyldunni. Á síðari árum fór Ólafur að hafa áhuga á að veiða og renndi gjarnan fyrir bröndu þegar farið var vestur í Ármúla þar sem Guðrún systir hans á sumarbústað. Ólafur hafði mikinn áhuga á fótbolta og hélt með West Ham í ensku knattspyrnunni. Hann og Styrmir héldu líka báðir með sænska liðinu AEK og fóru saman á leik með félaginu nú í sumar. Kona Styrmis er Sandra Ingrid Penttinen og þau eiga tvær dætur, Miröndu Ingrid Arínu og Ölvu Björk auk þess sem þriðja barnabarnið er á leiðinni. Ólafur var góður afi og hélt uppi sambandi við sonardæturnar milli þess sem þau hittust með því að spjalla við þær á Skype.

Eftir að Ólafur flutti heim frá Stokkhólmi 1985 var hann í lausamennsku um hríð. Hann var dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu og vann að viðtalsþáttum og erindum um kvikmyndir og tónlist og hélt úti kvikmyndagagnrýni í Helgarpóstinum og fleiri blöðum og tímaritum.  Á sama tíma starfaði hann sem framhaldsskólakennari í Flensborg í Hafnarfirði og hjá Námsflokkum Reykjavíkur. Árið 1990 hóf hann störf hjá Iðntæknistofnun sem sameinaðist öðrum stofnunum undir nafninu Nýsköpunarmiðstöð Íslands fyrir nokkrum árum. Þessi tuttugu og tvö ár sem Ólafur vann hjá Iðntæknistofnun og Nýsköpunarmiðstöðinni voru honum mikill ánægjutími. Það má segja að Ólafur hafi lifað fyrir starfið sitt og hann átti þar bæði vini og starfsfélaga. Síðustu ár hefur hann unnið hjá sviði sem þjónustar öll hin sviðin og kynntist því flestum starfsmönnum á þessum stóra og kraftmikla vinnustað. Hann var fagmaður fram í fingurgóma, hafði næmt auga fyrir grafískri hönnun og var vandvirkur og smekkvís í öllum sínum störfum. Starf hans var fólgið í að hanna prentgripi, bæklinga og upplýsingar sem frá Nýsköpunarmiðstöð komu, en eftir því sem árin liðu jókst vægi stafræns efnis líka. Hann tók upp ráðstefnur og viðtöl og breytti oft litla skrifstofuhorninu sínu í stúdíó með grænu tjaldi. Ólafur vandaði sig ekki aðeins við vinnuna, heldur lét hann líka til sín taka í félagslífi starfsmannanna. Ég fór og heimsótti Nýsköpunarmiðstöðina í gær og fékk að sjá árshátíðarskemmtiefni starfsmannanna frá í fyrra. Þar fer Ólafur á kostum og er búinn að klippa saman hið dægilegasta myndband með starfmönnum í kúrekabúningum syngjandi og leikandi Roy Rogers sem er búið að blanda saman við gamlar kábojmyndir. Ólafur kemur hvergi fram í myndbandinu og samt er handbragðið hans yfir og allt um kring, í vandaðri vinnunni, húmornum og gleðinni.

Ólafur var alltaf mættur á réttum tíma og yfirleitt búinn að hella upp á könnuna þegar aðrir mættu í hús. Þess vegna brá starfsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands illilega í brún þriðjudaginn 6. nóvember þegar þau mættu í vinnu, með engu kaffi og engum Ólafi. Ólafur Óskar Angantýsson hafði látist á heimili sínu um nóttina og með fráfalli hans er höggvið stórt skarð, bæði í raðir fjölskyldu og starfsmanna.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: