Æviágrip Matthildar Þóreyjar Marteinsdóttur, Stellu (1930-2012)

Stella fæddist 13. apríl 1930 og var elst af börnum hjónanna Marteins Halldórssonar bifreiðastjóra og Katrínar Hólmfríðar Jónsdóttur húsfreyju. Var Marteinn fæddur á Melum á Kjalarnesi, en Katrín í Reykjavík. Yngri systkini Stellu eru Guðlaug, Halldór og Jónas og lifa þau öll systur sína. Stella var Vesturbæingur og þekkti þar hvern hól og hús. Hún var alin upp á Brekkustíg 4, en skammt undan bjuggu móðuramma og afi á Vesturgötunni. Stella gekk í Miðbæjarskólann og skaraði snemma fram í námi. Hún var vinsæl, kát og skemmtileg og hafði lag á að skapa gott andrúmsloft í kringum sig. Hún fermdist lýðveldisárið og þreytti sama vor inntökupróf í Menntaskólann í Reykjavík, en skólinn var þá sex bekkir. Hin fjórtán ára Reykjavíkurmær stóð sig með glans á prófinu og hún skilaði annari hæstu einkunn þeirra 117 nemenda sem prófið þreyttu, ágætiseinkunninni 9,29.

Menntaskólaárin voru ánægjulegur tími fyrir Stellu, hún las af kappi, réði sig sem kaupakonu í sveit að Möðrufelli í Eyjafirði eitt sumar , fór í ferðalag til að skoða Heklugosið mikla 1947 með öðrum menntaskólanemum og stofnaði saumaklúbb í fjórða bekk með sex öðrum kátum námsmeyjum. Saumaklúbburinn hefur starfað allar götur síðan og skarðið sem höggvið er með fráfalli Stellu er mikið. Stella flutti með foreldrum sínum úr Vesturbænum 1947 og í Stórholt. Hún varð ástfangin af pilti sem hét Árni Ólafsson og var einu ári á undan henni í skóla. Haustið 1949 settu hún og Árni upp hringana áður en hann fór til utan til að setjast á skólabekk í Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna. Vorið eftir lauk Stella stúdentsprófi og kvaddi heimhagana strax um haustið. Hún og Árni giftu sig í Bandaríkjunum 30. september 1950 og settust að í Seattle. Þau hófu búskap í lítilli risíbúð sem þau leigðu af fólkinu á neðri hæðinni en áttu líka eftir að búa í húsbát í höfninni. Eldri sonur þeirra hjóna, Ólafur fæddist 1951, og sá yngri, Marteinn Gísli árið 1955. Stella vann á ljósmyndastofu um tíma en var heimavinnandi eftir að Marteinn fæddist.

Eiginmaður Stellu lauk námi 1955 og fékk vinnu hjá amerísku fyrirtæki með sjávarfang í Texas. Þau bjuggu nálægt landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og upplifðu fjölskrúðugt bæjarlíf. Þau fluttu vítt og breitt um Bandaríkin næstu ár allt eftir því hvert vinnan bar Árna, frá Texas til Saint Louis og New Orleans. Á sjötta áratugnum var alskilnaðarstefna hvítra og svartra í algleymingi í suðurhluta Bandaríkjanna og átti Stella oft eftir að lýsa upplifun sinni af þessu skelfilega óréttlæti. Hún átti það til að setjast aftast í vagninn en ekki á fremstu bekkina hjá hvíta fólkinu og lét eins og hún heyrði ekki þegar bílstjórinn skammaði hana fyrir að hafa stigið yfir hina ósýnilegu línu húðlitarins. Hún borgaði þeldökku heimilishjálpinni sinni líka mannsæmandi kaup, sem var ekki vel séð í vinkvennahópnum. Stella var alla tíð þrjósk og staðföst og gaf sig ekki undan hópþrýstingi þegar henni fannst réttlætinu hallað.

Stella og Árni fluttu til Maryland og loks í White Plains í norðurjaðri New York borgar þegar Árni fékk vinnu hjá sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Það hefur eflaust verið mikið átak fyrir liðlega tvítuga stúlku ofan af Íslandi að kveðja allt sitt fólk og hefja nýtt líf í Ameríku, eignast börn og geta ekki fengið ráð og hvatningu nema gegnum bréfasamskipti. Allt gekk þetta þó vel hjá Stellu, hún var fljót að aðlagast nýjum aðstæðum og hafði yndi af því að kynnast ólíkri menningu og að ala upp börnin sín. Hún var góð móðir og vildi sonum sínum allt hið besta. Katrín móðir Stellu heimsótti hana í White Plains og þá höfðu mæðgurnar hvorki heyrst né sést í sex ár. Urðu þar fagnaðarfundir.

Stella og Árni fluttu heim í árslok 1961 og bjuggu skamman tíma hjá foreldrum Stellu í Stórholtinu áður en þau fluttust í eigið húsnæði við Háaleitisbraut og síðan Hraunbraut í Kópavogi.  Þau hjónin ferðuðust mikið innanlands með strákana litla. Meðan þeir veiddu gekk Stella um og skoðaði blómin . Hún hafði mestan áhuga á blómum sem skutu rótum í auðninni, geldingahnappi og lambagrasi, harðgerðum jurtum sem héldu velli á gráum melnum. Og þannig komu fram sterkar andstæður í Stellu. Hún var glæsileg kona og veraldarvön, framandleg og með sinn sérstaka stíl, en líka náttúrubarn sem elti uppi lítil blóm og steina sem aðrir sáu ekki.

Eitt af því fyrsta sem aðstandendur Stellu sögðu mér var að hún hefði á efri árum haft mikið yndi af steinum. Hún safnaði steinum. Hún leitaði þá uppi, burðaðist með þá ofan af heiðum og neðan frá sjó. Hún fyllti garðinn sinn og híbýli af steinum og fegurð þeirra og litbrigði glöddu hana. Sófaborðið hennar á Hraunbraut og Bræðraborgarstíg var glerborð og hún raðaði steinunum undir glerið. Stella vissi allt um steina og steinafræði, hvað þeir hétu, hvaðan þeir komu og hvaða tilbrigði voru til af tiltekinni tegund og það var þessi samblanda af sögu og fegurð steinanna sem að heillaði hana svo mjög.

Þegar leið á sjöunda áratuginn ákvað Stella að fara að lesa ensku og bókasafnsfræði við Háskóla Íslands og lét sér hvergi bregða þótt flestir nemendurnir væri tæpum tuttugu árum yngri en hún sjálf. Hún lauk BA prófi árið 1972 með hárri einkunn og fjallaði lokaverkefni hennar skrá yfir greinar í Læknablaðinu  frá upphafi blaðsins 1946 til1970. Stella hóf störf hjá læknisfræðisafni Borgarspítalans og átti eftir að una sér vel á þrettándu hæð spítalans þar sem vel sá yfir Fossvoginn. Hún hélt áfram að bæta við skrána sem hún byrjaði á í lokaverkefninu. Hefur skráin orðið öðrum söfnum að miklu gagni og rann síðan inn í Ritaskrá lækna þegar hún varð til. Stella lagði þannig lóð á vogarskálar  til íslenskra heilbrigðisvísinda með vinnu sinni.  Hún tók við stjórn Bókasafns Borgarspítala árið 1973 og gegndi því til starfsloka árið 2000.

Stella og Árni höfðu skilið snemma á níunda áratugnum. Hún bjó um tíma áfram á Hraunbrautinni en fluttist síðan á sínar bernskuslóðir í Vesturbænum og byggði sitt bú á Bræðraborgarstíg.  Hún kynntist listmálaranum Veturliða  Gunnarssyni og þau áttu saman góð ár seinni hluta níunda áratugarins. Veturliði vakti með Stellu áhuga á myndlist og þau áttu steinasöfnunina sameiginlega, fóru saman í ferðalög út um mela og móa og báru heim ótal fagra steina. Þau söfnuðu líka plasti, dóti og rekaviðum úr fjörunni sem þau fylltu skottið á bílnum af og sem að Veturliði notaði til að búa til úr listaverk.

Stella var listfeng kona. Frá barnæsku hafði hún verið bókaormur hinn mesti. Ástin á bókunum átti eftir að fylgja henni allt hennar líf, og það er eflaust engin tilviljun að hún valdi sér ævistarf innan veggja bókasafns. Hún var fróðleiksfús og hætti aldrei að bæta í sarpinn, enda fannst barnabörnunum hennar að hún vissi allt. Eftir því sem henni óx þroski og vit, þá bættist við ást á fleiri listgreinum. Henni var ekki nóg að njóta, hún þurfti líka að vita allt í kring um verkin og var vel að sér í listasögu. Hún átti alltaf miða í leikhúsið og fylgdist vel með menningarlífinu. Hún dundaði sér við krossgátur og hafi gaman af að spila bridds.

Barnabörn Stellu þær Tinna og Stella Ólafsdætur fæddust 1976 og 1984 og átti Stella eftir að reynast þeim afbragðs amma sem þær eiga við góðar og hlýjar minningar. Hún kom fram við barnabörnin sín eins og þau væru fullorðin, fylgdist vel með vinum þeirra, og það var óhætt að treysta henni fyrir leyndarmáli. Seint á níunda áratugnum tók Ólafur sonur hennar saman við Þuríði Vigfúsdóttur sem lagði með sér þrjú börn í búið, þau Vigdísi Örnu, Guðna Elís og Dagnýju Rut. Tók Stella börnum Þuríðar einstaklega vel. Guðni Elís lést fyrir þremur árum og Vigdís Arna býr á Spáni, en hin barnabörnin eru hér og kveðja ömmu sína ásamt sonum Stellu tveimur og tengdadóttur. Vigdís Arna hafði samband við mig í gær og bað fyrir kveðju sína hingað frá sér og Áróru Elí. Hún minnist Stellu með hlýhug og virðingu fyrir húmor hennar og lífsgleði. Í bréfi sínu til mín segir Vigdís Arna:

“Stella hafði að leiðarljósi fallega lífsýn um að njóta lífsins gæða og taka fullan þátt fram á síðasta dag. Krankleika lét hún ekki  halda aftur af sér og neitaði að láta líkamlega andspyrnu fjötra sig og fanga. Væntumþykju hennar finnum við enn og munum ylja okkur við minningar um fallega konu sem kom inn í líf okkar þegar æskuvinirnir Þuríður og Óli ákváðu að binda saman sitt trúss. Hún fann sjálf upp á því að kalla sig Antique ömmu, til aðgreiningar frá öllum hinum ömmunum í lífi barna minna. En eins og önnur antique var Stella einstök og sem slík mun hún ætíð eiga stað í okkar hjörtum.”

Barnabarnabörnin eru 3 og með fósturbarnabörnunum eru þau orðin tíu.

Marteinn yngri sonur Stellu flutti heim til Íslands árið 2003 og eftir það bjó hann að mestu með móður sinni. Stella hafði yndi af ferðalögum og fór í ferðir með systur sinni, mági og skólasystur, m.a. til Króatíu og Kýpur sem Stella hafði mikla gleði af. Hún greindist með sykursýki fyrir fjörutíu árum og reyndust þessi veikindi henni oft erfið og orsökuðu minnisleysi síðustu misserin sem hún lifði. Stella fékk heilablóðfall í svefni 11. október og var flutt á spítala. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi, þar sem hún hafði unnið svo lengi þann 25. október s.l.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: