Æviágrip Skúla Þórs Jónssonar (1922-2012)

Skúli Þór var fæddur á aðfangadag 1922 og hefði því orðið níræður á næstu jólum. Hann var sonur hjónanna Jóns Sigtryggssonar lögfræðings og konu hans Guðrúnar Skúladóttur og fæddur á Grundarhól á Hólsfjöllum. Skúli var þriðja barn Jóns og Guðrúnar af fjórum. Svanhildur og Margrét voru eldri en Gógó yngst og lifði Skúli öll systkini sín. Skúli var alinn upp á Seyðisfirði. Jón faðir hans lést 1939 55 ára að aldri og Guðrún sex árum síðar, 51 árs að aldri.

Í lok fjórða áratugarins voru margir Norðmenn á Seyðisfirði og lærði Skúli af þeim norsku. Norðmennirnir töluðu um að enginn fjörður væri fegurri en Óslóarfjörður og hét Skúli því að sigla einhvern tímann inn þennan norska fjörð. Þetta gamla loforð gat hann loksins efnt árið 2005 þegar hann var á ferðalagi með dóttur sinni og var það honum mikið gleðiefni.

Skúli kom til Reykjavíkur þegar heimsstyrjöldin síðari við skollin á og ók strætó og síðar mjólkurbílnum í Hvalfirði. Hann vann fyrir herinn mestöll stríðsárin í Hvalfirði. Þar kynntist hann konuefni sínu Hólmfríði Guðmundsdóttur úr Eyrarsveit á Snæfellsnesi. Þeim varð alls sex barna auðið, tvö létust nýfædd,  en eftirlifandi börn Skúla eru Guðrún Margrét, Þóra, Rósa og Marteinn. Þau Hólmfríður gerðust bændur um tíma á fæðingarstað Skúla á Grundarhól . Skúli átti síðan eftir að vinna fyrir herinn á Keflavíkurflugvelli en fjölskyldan bjó á Akranesi.  Síðar fluttu þau í Sandnámið á Kjalarnesi og Skúli varð verksstjóri hjá Steypustöðinni. Á sjöunda áratugnum fluttu þau síðan á Njálsgötuna í Reykjavík og síðar í Kópavog. Skúli vann fyrst sem kranamaður hjá Togaraafgreiðslunni og síðan lengi hjá Vita- og Hafnarmálastofnun þar sem hann ferðaðist um landið, skipti um ljósaperur í vitunum  og vann við að dýpka hafnirnar. Eftir að hann komst á eftirlaun og hætti fastri vinnu greip hann í að mála hús, því alltaf varð hann að hafa nóg fyrir stafni.

Skúli og Hólmfríður skildu á níunda áratugnum. Eftir það bjó hann lengst af hjá dóttur sinni, en einnig í efra Breiðholti. Árið 2003 fluttist hann síðan í nýbyggða blokk í nýbyggðu hverfi í Grafarholti, einn af fyrstu frumbyggjum þess hverfis. Skúli var lengst af mjög hraustur og varð sjaldan misdægurt. Hann naut aðhlynningar á Skjóli síðasta árið og fékk friðsælt andlát eftir langa og viðburðarríka ævi þann 30. ágúst s.l.

Ég minnist þess þegar ég flutti inn á litla bráðabirgðaskrifstofu í Þórðarsveignum, skáhallt á móti íbúðinni hans Skúla. Skúli var fyrst ekkert hrifinn þegar ég sagði honum að ég væri prestur. En fáir áttu eftir að reynast mér betur í þessu góða samfélagi en einmitt hann. Skúli kom hlaupandi langar leiðir til að hleypa mér og öðrum inn sem drápu á dyr í Þórðarsveignum. Hann bar inn fyrir mig kassa og hjálpaði mér á ýmsa lund. Hann heilsaði alltaf með virktum og kallaði mig stundum elskuna sína. Oft var hann með sólhatt á höfðinu eftir að fuglinn Bíbí kom til sögunnar. Hann var ýmist syngjandi kátur eða í vondu skapi en aldrei neitt þar á milli. Skúli Þór var aldrei hálfvolgur í áhuganum, heldur alltaf brennandi í andanum. Hann var hress í bragði, það var hreyfiafl í kringum hann og aldrei nein lognmolla. Með okkur skapaðist vinátta og þess vegna þykir mér vænt um að megi standa hér yfir moldum hans í dag og kveðja hann hinstu kveðju.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: