Erla Sigurdís Arnardóttir leit dagsins ljós með miklum látum á fæðingarheimili Reykjavíkur þann 27. janúar 1964, 18 marka stúlka með kolsvart hár. Hún var dóttir Höllu Geirlaugar Hjálmarsdóttur og Arnar Árnasonar og lést faðir hennar árið 2006 og fyrsta barn þeirra beggja. Erla eignaðist síðar átta hálfsystkin. Eru Helga Eygló og Jóna Hlín henni sammæðra og ólst hún upp með þeim, en Hanna, Ingvar, Reynir Strandberg, Selma Margrét og Linda Borg samfeðra. Ingvar lést árið 1987, en hin systkinin lifa Erlu.
Foreldrar Erlu slitu samvistum fyrir hennar barnsminni og átti hún fyrstu bernskuárin á Vitastíg hjá afa sínum og ömmu, þeim Jónínu Geirlaugu Jónsdóttur og Hjálmari Sveinbjörnssyni. Erla var snemma mikil afastelpa og sótti mikið í ömmu sína og afa. Hjálmar afi leyfði henni alltaf að vinna í Ólsen Ólsen og Erla fylgdi honum eftir hvert sem hann fór. Halla móður hennar flutti vestur um haf með stúlkuna þegar hún var rúmlega þriggja ára og þær bjuggu í Brunswick í Mainefylki næstu tvö árin. Erla upplifði ýmislegt skondið og skemmtilegt í Ameríkunni, þótt ung væri. Í næsta húsi bjuggu barnlaus hjón sem áttu simpansa sem þau klæddu upp í kjól og lék Erla jafnt við apann og krakka í kring. Hún lærði ensku og gekk í kindergarten eða forskóla þar ytra. Þær mæðgur fluttu aftur heim á Vitastíginn þegar Erla var fimm ára, og fyrst í stað vildi hún bara tala ensku. Hún fór í Austurbæjarskólann og lauk þar þriðja bekk.
Erla flutti með móður sinni og þáverandi eiginmanni hennar, Guðjóni Elí Skúlasyni á Unnarbraut á Seltjarnarnesi og settist á skólabekk í Mýrarhúsaskóla. Í Mýró voru tveir bekkir í árgangi og man ég vel eftir þessum harðsoðna töffara í hinum bekknum sem mætti á staðinn í tíu ára bekk. Hún var með munninn fyrir neðan nefið og lét engan eiga neitt hjá sér. Ragnhildur Rúriksdóttir, Naddý, bekkjarsystir Erlu og æskuvinkona hringdi í mig frá Bandaríkjunum í gærkvöldi og sagði mér frá ýmsum bernskubrekum og skemmtunum þeirra skólasystranna, þar sem meðal annars voru teknir upp eldhressir skemmtiþættir á kassettur, sem enn eru til. Þar er til dæmis upptaka af Rauðhettu og úlfinum í útgáfu þeirra stallsystranna og gellur smitandi hláturinn í Erlu hæst á hljóðsnældunum. Biður Naddý fyrir kærar kveðjur hingað í dag og þakkar Erlu fyrir góðar og skemmtilegar minningar frá æskuárunum.
Eftir tólf ára bekkinn lá leiðin í Valhúsaskóla. Erla hafði alltaf gaman af að spila og þær voru ófáar frímínúturnar í Való sem við sátum flötum beinum á nælonteppinu í Való krakkarnir að spila Kana. En það var spilaður kani á fleiri stöðum, Kanaútvarpið var spilað í botni með Wolfman Jack og Casey Cayson í eyrunum, danssporin tekin úr Grease og Rocky Horrow Picture Show og skellt inn smáskvettu af Meatloaf inn á milli. Sjálf á ég skemmtilega minningu af Erlu frá árunum í Való þegar við stelpurnar í árganginum vorum látnar vera fjórum tímum lengur en strákarnir í skólanum eitt árið. Við þurftum nefnilega að læra matreiðslu en ekki þeir og ég lenti í hóp með Erlu. Við stelpurnar vorum ekki par hrifnar af þessu kynbundna óréttlæti og hefur það eflaust haft áhrif á það hversu illa við létum í matreiðslunni. Einu sinni var aspas kastað upp í loftið og hann hékk þar í nokkrar vikur án þess að húsmæðrakennarinn tæki eftir því. Í eitt skiptið áttum við að baka vöfflur, en hveiti, sykri og eggjum var svo naumt skammtað að ekki var nóg deig nema í þrjár til fjórar vöfflur. Þetta fannst Erlu alveg ómögulegt. Hún vatt sér inn í búrið og náði sér í nokkur egg og mjöl. Þegar tími var kominn til að setjast að borðum var einn hópurinn frekar seinn vegna þess að við vorum enn að baka fjórtándu vöffluna. Ég minnist með gleði þessarar stundar þar sem við sátum skríkjandi við borðið, húsmæðrakennarinn öskuillur og Erla með stríðnisglottið og hláturinn hinum megin við stóra vöffluhlaðann. Þegar ég hugsa til Erlu og vöffluhlaðans, þá finnst mér henni hafa tekist að gera mikið úr vöffludeiginu sínu í lífinu og bakstur vináttu og ástar sem hún lætur eftir sig að 48 árum loknum er stór og mikill.
Erla var snemma harðdugleg og vann með skólanum í sjoppu öll unglingsárin. Eftir að grunnskólaprófi lauk kynntist hún Jóni Halldóri Guðmundssyni sem var að nema hárskeraiðn og þau hófu búskap í risinu hjá ömmu og afa á Vitastígnum. Unga parið flutti með móður Erlu og ömmu í Fljótasel í Breiðholti haustið 1982 og um veturinn varð Erla ófrísk að þeirra fyrsta barni. Halla Karen fæddist á heitum og sólbjörtum degi vorið 1983 þegar Erla var 19 ára og um sama leyti keyptu þau sína fyrstu íbúð á Bjargarstígnum. Þau voru ungir foreldrar á níunda áratugnum á fullri ferð út í lífið, með barn, íbúð bíl og atvinnurekstur. En þau voru ekkert sérstaklega ráðsett heldur, höfðu gaman af að skemmta sér og hitta fólk. Jón og Erla giftu sig 1987 og opnuðu hárgreiðslustofu sama ár. Þau fluttu oft næstu árin, stöldruðu við á Ásvallagötu, Leifsgötu, Hvassaleiti, Gautlandi og Spóahólum, þar sem önnur dóttir, Elín Klara bættist við árið 1992. Úr Spóahólum lá síðan leiðin upp í Viðarás í Árbæ, þar sem sonurinn Hjálmar Gauti fæddist 1994. Erla og Jón skildu fyrir tíu árum og fluttist Erla þá hingað í Þorláksgeislann þar sem hún átti heima til dauðadags.
Þau Jón höfðu gaman af að ferðast, fóru tvær ferðir með vinum sínum og Höllu Karenu um Mið og Suður-Evrópu og í sólarfrí á Benidorm og til Krítar. Fjölskyldan ferðaðist líka mikið innanlands með vinum sínum , þau fóru í tjaldútilegur keyptu sér jeppa og ferðumst um hálendið. Erla og Jón gengu bæði Fimmvörðuháls og Laugaveginn og Þórmörk og Landmannalaugar voru staðir sem Erlu voru hugstæðir og hjartfólgnir.
Erla vann í Vörumarkaðinum á Eiðistorgi eftir að hún lauk grunnskólaprófi. Síðar starfaði hún í Aðalbanka Búnaðarbankans við Austurstræti, VÍB og fleiri stöðum, en var heimavinnandi eftir að yngri börnin fæddust. Krakkarnir minnast þess með þakklæti og gleði að mamma var alltaf heima á daginn þegar þau komu heim úr skólanum. Hún var í kvöldskóla meðan börnin voru lítil og einnig hin seinni ár þar sem hún vann að því að að ljúka stúdentsprófi. Einnig fór hún í tölvuskóla og fékk fyrir örfáum árum lögverndun sem bókari frá Háskólanum í Reykjavík. Síðustu árin starfaði Erla sem skrifstofustjóri hjá Sigurplasti þar sem hún kunni einstaklega vel við sig. Erla varð amma fyrir átta árum þegar Embla Eir fæddist og síðan Hekla árið 2008.
Líf Erlu breyttist mikið eftir skilnaðinn. Sambandið við systurnar styrktist og gömlu vinkonurnar líka og hún eignaðist líka nýjar. Þessi stóri kvennahópur umlukti Erlu. Hún var þar hrókur alls fagnaðar eins og venjulega og alltaf til í að skemmta sér eins og forðum. Systur hennar og móðir bjuggu um tíma á Spáni og átti Erla þar góðar stundir ásamt börnunum. Hún var frá vinnu vegna brjóskloss um tveggja ára skeið og var þess vegna mikið heima.
Erla var félagslynd og rak hálfgert félagsheimili heima hjá sér þar sem komu saman vinir og kunningjar, en seinna meir einnig vinir og kunningjar barna hennar. Þegar unglingsstrákarnir fylltu herbergið hans Hjálmars fór Erla að kalla herbergið Hrútakofann. Hún var alltaf til í að spjalla við börn og unglinga, það var notaleg stemmning hjá henni, kveikt á kertum og tónlistin venjulega höfð í botni. Yfirleitt eru það foreldrarnir sem reyna að skrúfa niður í græjunum hjá börnunum, en heima hjá Erlu voru það krakkarnir sem skrúfuðu niður í látunum hjá Erlu. Hún fylgdist vel með tíðaranda og tónlist, m.a. þeirri sem sem krakkarnir hennar hlustuðu á og var lengi með 50 cent sem hringitón í símanum. Sá mikli mannfjöldi sem fylgir Erlu hér í dag af sýnir vel hversu vinföst Erla var og hversu auðvelt hún átti með að hafa samband við fólk af ólíkum kynslóðum.
Erla var frábær kokkur og höfðingi heim að sækja. Hún var veisluglöð og hafði gaman af því að bjóða heim gestum í mat. Eins og í Való forðum hafði hún gaman af að taka spil og vinahópur þeirra Jóns hittist næstum í hverri viku yfir kana, vist og appolólakkrís. Eftir að Erla skildi fór hún að hafa áhuga á Tarotspilum og sat einatt í sama horninu og rýndi í framtíðina með aðstoð spilanna sinna. Hún var dugleg að prjóna og prjónaði jafnt á börnin, sjálfa sig og vinkonurnar. Erla var skvísa, það var reisn yfir henni, hún vandaði klæðaburð sinn og fylgdist vel með tískunni.
Erla var metnaðarfull, bæði fyrir hönd sjálfra sín og barna sinna og óumræðilega stolt af þeim öllum þremur. Hún var dugleg og þrautseig og sagði alltaf hug sinn. Hún var baráttukona og barðist fyrir sínu með kjafti og klóm. Hún var ákveðin og gat verið tunguhvöss ef henni þótti við einhvern. Hún var skapkona og lét ekki nokkurn mann vaða yfir sig. En jafnframt var Erla hress og jákvæð, hún horfði ekki of mikið til baka, eða velti sér upp úr því sem erfitt var, heldur lifði í núinu. Erla hafði skemmtilega frásagnargáfu og mannlýsingar hennar og orðatiltæki voru með því skrautlegra sem gerist. Hún hafði megnustu andstyggð á sykuráti og kallaði sykraðar vörur „rotvarnarviðbjóð“. Óvönduðu fólk vandaði hún ekki kveðjurnar og kallaði „drullujurtir“, hún setti reglulega upp „krókódílabros“ og taldi það ekki eftir sér að rífa reglulega „kjaft út á axlir“. Hún gat orðið örþreytt á „aulum með hor í eyra og kúk í bandi“ og svo lék hún þetta allt saman svo að viðmælendur hennar stóðu á öndinni af hlátri. Þá talaði Erla um að „hlæja eins og hross“ og það gerði hún líka reglulega.
Ein af vinkonum Erlu vakti athygli mína á myndinni sem Erla deildi á Facebók síðasta daginn sem hún lifði. Þetta er mynd af Landmannalaugum, þar sem koma fyrir fjölbreytileiki litanna í fjöllunum. Sandöldurnar ganga fram og í þeim má finna brúna, blágræna og rauða liti, en ofar vex dökkgrænn gróðurinn sem slær á fjólubláum bjarma. Erla hafði sótt heim Landmannalaugar oftar en einu sinni og þótti vænt um þann stað. Landslagið þar er hrjúft og skrautlegt og skapað af miklum andstæðum. Þar er stundum hrjóstrugt á að líta, þetta er ekki dúllulegt eða krúttlegt landslag á neinn hátt. Þar má lika finna hlýja, ylmjúka og gróðursæla reiti, dýjamosa og blómabreiður sem taka við af þurrum hrjóstrum. Ef manneskjur væru landslag gæti ég vel ímyndað mér Erlu eins og Landmannalaugar. Hún var skrautlegur karakter með fjölmörgum litbrigðum. Hún dáði sterka liti. Í henni fundust andstæður. Hún var stórlynd en einnig hlý. Hún var borgarbarn, en þótti einkar vænt um hrjóstruga náttúru Íslands. Mér er huggun í því að hugsa til þess að síðasta verk Erlu á Facebók hafi verið það að dást að náttúru Landmannalauga.
Andlát Erlu bar brátt og óvænt að. Hún hafði verið með flensu um mánaðarskeið sem henni gekk illa að losa sig við. Hún fór í saumaklúbb með vinkonum sínum eitt miðvikudagskvöld fyrir tæpum hálfum mánuði, var þungt fyrir brjóstinu og ákvað að fara upp á spítala til að láta mynda á sér lungun. Erla dó á bráðadeildinni þetta kvöld 10. október. Og flestum okkar finnst að lífið hafi orðið ögn fátækara fyrir vikið.
Myndin er fengin af FB síðu Erlu Sigurdísar Arnardóttur.
Færðu inn athugasemd