Dagbók frá Nain

Þessi prédikun var flutt sunnudaginn 23. september í Guðríðarkirkju. Hægt er að hlusta á messuna á vef RÚV, sjá hér.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ég les fyrir ykkur úr dagbók óþekkta Íslendingsins sem bæði er ekki til
og gæti þó alveg eins verið til.

Þar segir:
“Undur og stórmerki.
Ég er við það að hætta að gráta.
Ég er búin að fara fimm sinnum fram
og hef notað upp eina og hálfa rúllu af pappír.
En það er loksins að létta yfir mér.
Sólin er komin upp og breiðir geisla sína yfir sjúkrastofuna.
Hún fikrar sig fyrst yfir vegginn.
Fyrr en varir er sjúkrarúmið baðað ljósi.
Ég horfi á sólina leika við vanga sjúklingsins í forundran.
Mér finnst þetta vera tákn, en ég veit ekki um hvað,
veit það eitt að þetta er gott tákn.

Tíminn líður hægt hér í sjúkrastofunni
Ég hef sökkt mér niður í bók sem ég opna sjaldan
en hefur fylgt mér eiginlega allt mitt líf.
Og þegar óróleikinn grípur mig.
dreg ég upp þessa bók sem ég þekki svo lítið
en segir sögur svo margra.
Biblían, það er heilög ritning stendur á fyrstu blaðsíðunni.
Mér finnst að sumar sögurnar séu um mig.
Þessi saga gerir mér gott.
Það er henni að þakka að ég hef lokið við að gráta í bili.

Sagan sem ég velti fyrir mér núna,
þegar ég sit við rúm sonar míns og fletti fornri bók
er um ekkjuna í Nain.
Ég tel línurnar á sögunni sem ég var að lesa.
Ein….tvær…bíðum við…tólf línur milli lífs og dauða.
Það er allt og sumt í sögu þar sem fáir mæla orð frá vörum.
En þó gerist svo margt í þessari sögu
um ekkju og einkason, samúð, huggun og upprisu.

Ekkjan í Nain er dálítið eins og ég.
Munur okkar er sá að hún átti einu sinni mann,
en ég hef aldrei átt mér maka.
Ég hef aðeins átt þennan eina strák um ævina
og mitt líf hefur að mestu snúist um hann,
að ala hann upp, að vinna mikið,
að hafa nóg til að framfæra okkur báðum,
að passa að hann væri sæmilega klæddur
fengi nóg að borða og væri ekki strítt.
Það hefur lífið hjá ekkjunni í Nain örugglega snúist um líka.
Ég sé hana fyrir sér með sitt bogna bak
af vinnu, erfiði og fjárhagsáhyggjum
konu með ákveðið takmark
sem hún leggur allt í sölurnar fyrir
allt til þess að hennar eini sonur
gæti eignast gott líf.

Ég sit við rúm sonar míns.
Stundum sit ég alveg kyrr og hreyfi mig ekki,
þannig að hjúkrunarfólkið tekur ekki eftir mér.
Það gengur um stofuna,
dregur hljóðlega frá gluggatjöldin
og hrekkur í kút þegar ég hreyfi höfuðið.
Það er eins og ég sé með stjarfa
og ég get setið svona tímunum saman.
En nú er eitthvað að þiðna inni í mér
vegna þess að sagan og sólarljósið gerir mér gott.

Sonur minn liggur alveg kyrr
og yfir honum er þessi heiðríkja sem einkennir sofandi fólk.
Ég hef ekki séð hann svona friðsælan síðan hann var lítill drengur.
Ég sat lengi og horfði á hann í nótt.
Andardráttur hans var hraður.

Þessi kona sem Biblían segir frá, ekkjan í Nain…
hún á ekkert nafn.
Hún segir ekki eitt einasta orð í sögunni.
Og samt er hún mín kona,
sú sem ég samsama mig meðí lestrinum.
Hún grætur bara
og ég heyri í ekkasogum hennar mín eigin hljóð,
minn eigin harm,
skort minn og allsleysi
sem ég get svo sjaldan komið í orð
eða stunið upp við neinn.
Það er eitthvað í þessum gráti
sem kallast á við minn eigin grát
og mín eigin tár.

Stundum finnst mér ég ekki eiga neitt nafn heldur
frekar en þessi kona,
vera bara aðstandandi og kennitala og gsm númer og númer á blaði.
Ekkjan á engan son og mér finnst þegar ég horfi á drenginn minn
að það sé á mörkunum að ég eigi dreng heldur.
Við syrgjum fortíðina,
ég og ekkjan frá Nain
Við fyllumst óöryggi í nútíðinni
og við hræðumst það
sem framtíðin ber í skauti sínu.

Á mig skín sól.
Þessi sól verður daufari í vetur.
En hún hverfur mér aldrei.
Og í dag fyllir hún mig villtri gleði
þegar hún breiðir sig yfir andlit sonar míns.
Þessi gleði gerir mig hissa.
Hún fyllir mig von
einmitt þegar ég hélt að ég taldi mig uppiskroppa
með allt sem tengist vonum, kjark og kærleika.

Ég velti því fyrir mér hver sonur konunnar var
og hvers konar lífi hann lifði.
Kannski hefur hann verið augasteinn móður sínnar
og huggun hennar í einsemd og fátækt.
Kannski hefur hann borið hana á höndum sér
verið bjartsýnn og kátur, vinsæll og vel metinn.
Kannski voru horfur á því að hún gæti átt góða elli
í skjóli sonar síns.
Það var að minnsta kosti mikill fjöldi sem fylgdi honum til grafarinnar.
Kannski varð hann veikur.
Kannski varð hann fyrir slysi.

Svo getur verið líka að konan við kistuna sé að syrgja meira
en dauða drengsins síns.
Hún gæti horft til tapaðrar æsku, glataðra ára
vímu, rifrilda og barsmíða.
Ekki væru tár hennar færri ef svo hefði verið.

Ég horfi niður á þig sonur minn
þar sem þú liggur í rúminu þínu
og strýk yfir ör þín og sár.

Meðan ég hlusta á þig anda
þá les ég kaflann um það þegar Drottinn sá konuna.
Guðspjallið segir að Jesús hafi kennt í brjósti um hana.

Er það ekki merkilegt
að í öllum sögunum
þar sem Jesús reisir einhvern upp frá dauðum,
þá koma konur og menn jafnt við sögu?
Hann reisir einkadóttur Jaírusar barnunga,
hann reisir vin sinn Lasarus aftur til lífsins
eftir að hafa talað við hina grátandi systur Mörtu.
Og nú stendur hann hér í borginni Nain með miklum mannfjölda
í miðri jarðarför
og horfist í augu við einstætt foreldri
sem á ekki neitt.

Jesús sá konuna.
Hann horfði ekki bara í gegnum hana eða glápti á hana.
Hann leit heldur ekki undan.
Frelsarinn frá Nasaret virðist hafa haft þann einstæða eiginleika
að geta greint einstaklinga í mannhafinu
og borið sig eftir þörfum þeirra.
Hann sér ekki aðeins hrúgu af fólki,
heldur Siggur og Gunnur og Guðmunda og Jóna
sem öll eiga sögur
gleðisögur
sorgarsögur
hversdagssögur og sparisögur.

Jesús frá Nasaret horfði í augu konunnar frá Nain
og í því augnadjúpi komst á einhvers konar tenging
skilningur og samstaða.
Jesús sá sorg konunnar og hann fann til með henni.
Hann gekk að.
Hann bað hana að gráta ekki.

Sagan segir að hann hafi snert líkbörurnar.
Ég las það á netinu að sá sem snerti líkbörur, dána manneskju
eða kistu á dögum Jesú
braut bann lögmálsins um að hina dauðu mætti ekki snerta
og að viðkomandi yrði þar með óhreinn í sjö daga.
Jesú virðist vera alveg sama þótt hann yrði óhreinn.
Svo býður hann unga manninum að standa upp.
Ungi maðurinn fór að tala og Jesús gaf hann móður sinni.
Og fólkið hrópaði „Guð hefur vitjað lýðs síns!“

Ég horfi á brjóst þitt sonur minn
Þar sem það bærist undir sænginni.
Og ég ímynda mér
að Jesús frá Nasaret gangi inn á þessa sjúkrastofu,
geri hana að borginni Nain,
horfi í augun á mér,
segi mér að hætta að gráta,
snerti rúmið þitt,
og segi þér að rísa upp.

Ég hugsa um það sem þú myndir segja
og hvað ég myndi segja.
Mér finnst eins og það sé svo ótal langt síðan
að við horfðumst síðast í augu
og töluðum saman.
Ég veit hvað þyrfti að gerast til þess að þú værir gefinn mér aftur.
Ég trúi því að þú hafir ennþá möguleika á bata.
Ég vona að þú eigir eftir að rísa upp og mæla
lifa góðu lífi
og verða mér gefinn aftur.
En ég veit líka að þó að þú gerir það ekki
þá ertu ekki Guði gleymdur,
því að Guð sér
finnur til
gengur að,
mælir: „Grát þú eigi“
og reisir upp hin stjörvu og dauðu.

Þess vegna eru augun á mér ekki lengur þrútin.

Fyrir ótal mörgum árum fór ég með þig í kirkju
Og við sungum um elsku Jesú sem er svo dásamleg.
Við teygðum hendurnar og sungum:
Svo há, ég kemst ekki yfir hana,
Svo djúp og svo víð.
Og þú hlóst og skríktir.
Við fórum ekkert oft, en það var gaman og þessi minning lifir hjá mér.
Minningin af því þegar þú varst glaður
og þegar þú varst áhyggjulaust barn.

Ég hef líka sungið sálminn um blómið
og ég veit að minn ljúfur lifir,
lausnarinn himnum á.
Ljúfur ert þú, ljúfurinn minn
sem ég vaggaði forðum við brjóst mér.
Og ljúfurinn er líka Jesús sem elskar okkur bæði
sem vaggar mér í örvæntingu minni
og lætur mig halda í vonina
um að að ég eigi framtíð
og að þín framtíð sé falin Guði
hvort sem þú lifir eða deyrð
og hvort sem líf þitt verður þyrnum stráð
eða auðvelt og hamingjuríkt.

Svo há, ég kemst ekki yfir hana
Svo djúp, ég kemst ekki undir hana
Svo víð, ég kemst ekki út úr henni
Elska svo dásamleg.

Minn Guð vinnur í ósköp venjulegum aðstæðum.
Minn Guð átti einkason
og hefur upplifað dauða hans og upprisu.
Minn Guð er sterkari en dauðinn.
Og hann birtist mér sem norðlæg sól á hausti
þegar ég þarf mest á því að halda
og hef grátið ofan í eina og hálfa klósettrúllu.

Ég sé Guð minn hér á þessari sjúkrastofu
þegar sjúkraliðarnir baða son minn
og fara um hann mjúkum höndum.
Þegar ræstitæknirinn þvær gólfið hans
og strýkur af borðinu hans og rúminu.
Þegar læknarnir skoða hann
og hjúkrunarfræðingarnir skipta um lyfin sem renna um æðar hans.
Þegar sjúkrahúspresturinn og djákninn koma og heilsa upp á mig.
Þau snerta öll börurnar sem sonur minn liggur á.
Þau sjá mig og þau sjá hann.
Þau horfa í augun á okkur.
Þau kasta á mig og einkason minn kveðju.
Þau ganga að og það gerir líka ótal margt annað gott fólk.

Ég sé Guð í sólinni sem skín úti fyrir
og varpar geislum sínum yfir þessa sjúkrastofu
þar sem ég hef átt svo erfiðar stundir
þar sem ég hef grátið mikið
Og átt svo fá orð til að lýsa því sem fyrir hefur komið.

Ég loka bókinni.
„Guð hefur vitjað lýðs síns“ og sú elska er dásamleg.“

Þannig lýkur dagbókarbroti hins óþekkta Íslendings.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Sjálfur friðarins Guð helgi yður algjörlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists. Amen.

Myndin er eftir Jean Tissot.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: