Mér finnst Ólöf Nordal hafa komið vel fram með því að tilkynna um að hún muni ekki gefa kost á sér áfram. Hver og ein/n getur hætt í pólitík þegar henni sýnist og sagt af sér ábyrgðarstörfum. En það lýsir ábyrgðartilfinningu og umhyggju fyrir landi og eigin stjórnmálaflokki að hætta með góðum fyrirvara og taka þá ákvörðun átta mánuðum fyrir alþingiskosningar svo að nægur tími vinnist til að þétta raðirnar. Ég vona að umræðan um að mikilvægt sé að Sjálfstæðisflokkurinn endurspegli þverskurð samfélagsins haldi áfram. Þverskurður getur ekki verið af aðeins öðru kyninu og ómögulegt að allar silkihúfur flokksins séu karlkyns.
Nú er ég að vona að Jóhanna Sigurðardóttir tilkynni bráðum að hún gefi ekki kost á sér aftur sem formaður Samfylkingar. Ég ber virðingu fyrir Jóhönnu og tel að hún hafi tekið við erfiðu búi á ögurstundu. En ef hún metur flokkinn sinn ofar eigin egói, þá stígur hún til hliðar núna.
Færðu inn athugasemd