Minnug þess að sumarið er að verða búið ákvað ég að ganga niður í Nóatún í dag og taka út peninga úr hraðbanka. Sólin skein og ég fór af stað berfætt í sandölum með slegið hár og í þunnri peysu. Skammt var liðið á ferðalagið þegar ég uppgötvaði að norðangjósturinn frá Esjunni var kaldur og að vindblásturinn væri nægilegur til að breyta mér í dægilegt lukkutröll.
Ég staulaðist hríðskjálfandi niður í Nóatún og tróð visakortinu í raufina. Vélin rumdi og taldi peninga og sagði mér síðan að taka kortið. En kortið vildi ekki út. „Taktu kortið!“ sagði tölvan og ég klóraði utan raufina í fullkominni örvæntingu. „TAKTU KORTIÐ!“ sagði hraðbankinn með hástöfum, spýtti síðan út peningunum og tók kortið mitt.
Næstu tuttugu mínúturnar talaði berfætta konan með vindblásna hárið við þjónustufulltrúa hjá Valitor og Landsbankanum, sem voru mjög elskulegar, lokuðu kortinu og lofuðu að senda það til Suðureyrar, en ég er einmitt með visakortið hjá sparisjóðnum þar. Þetta var alveg sjálfsagt mál.
Fyrir utan Nóatún var lítill drengur að selja kerti á fimm hundruð kall í norðannepjunni. „Ég á bara þúsundkall“ sagði ég. „Það er allt í lagi,“ sagði strákur, „þú kaupir bara meira.“
Færðu inn athugasemd