Bláberjaskúffukaka

Ég tíndi fullt af bláberjum í Efstadal í gær og var að vandræðast með hvað ég ætti að gera við alla þessa dýrð. Þá datt mér í hug að baka það sem Ameríkaninn kallar „crumb cake“. Crumb cake er tvískipt kaka úr venjulegu deigi með sykurmulningi ofan á. Ég fann uppskrift af bláberja-mulnings-köku í einhverjum uppskriftabanka á netinu sem ég finn ómögulega aftur. Ég er sem sagt ekki höfundurinn að þessari köku, en er búin að íslenska, stækka, breyta og aðlaga uppskriftina. Hún er dásamlega góð og gefur tækifæri á að nýta eitthvað af bláberjunum. Ég er líka viss um að hægt sé að baka þessa köku með alls konar ávöxtum, t.d. frosnum.

En hér kemur uppskriftin: Smyrjið litla ofnskúffu (ofnskúffuformið mitt er 26×38 cm) eða tvö form. Hitið ofninn í 170 gráður á Celcíus.

Mulningur:
1/2 bolli strásykur
2/3 bolli púðursykur
2 tsk kanill
1/4 tsk negull
200 gr brætt smjör
2 1/2 bolli hveiti

Sykri, púðursykri, kanil og negul er blandað saman í skál, brædda smjörinu hellt saman við og síðast hveitinu. Hrærið í þykkan jafning og geymið.

Deig:
250 gr mjúkt smjör
1 1/2 bolli strásykur
4 stór egg
2 tsk vanilludropar
1 msk sítrónusafi
1 1/2 bolli súrmjólk
2 1/2 bolli hveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 bollar bláber

Hrærið saman mjúkt smjörið og sykurinn í 4-5 mínútur og bætið við eggjunum, einu og einu í senn. Síðan er vanilludropunum, sítrónusafanum og súrmjólinni bætt við og loks lyftidufti, matarsóda og salti. Hveitið er hrært hægt saman við deigið með sleif og að lokum er bláberjunum varlega blandað saman við (það er líka hægt að strá bláberjunum ofan á deigið í forminu, ef fólk kýs það frekar). Setjið deigið í form. Mulningurinn er mulinn í höndunum yfir deigið og sléttað yfir með lófanum. Bakað í 40-50 mínútur.

Njótið vel!

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: