Svarta Kaffið

Svarta Kaffið er uppáhaldsviðkomustaður minn á Laugaveginum. Þetta litla, bikaða hús við Laugaveginn lætur lítið yfir sér, en þar er að finna allt í senn, matsölustað, kaffihús og bar. Ég hef átt þar margar skemmtilegar stundir. Ég uppgötvaði hann fyrir þremur árum þegar elsti sonur minn tók saman við yngstu dóttur eiganda staðarins. Smám saman fór ég að detta inn á Svarta Kaffið við ólíklegustu tækifæri. Nú finnst mér eiginlega ómögulegt að labba Laugaveginn án þess að koma við.

Svarta Kaffið er lítill staður, tekur u.þ.b. sextíu manns í sæti. Borðin og stólarnir eru lítil og létt og þegar staðurinn er fullur af fólki er svo skemmtilegt að sjá húsgögnin færast til eftir því hversu margir sitja við hvert borð.  Í miklum önnum verður fólkið og húsgögnin eins og ársstraumur sem vellur fram á eyrum staðarins. Á veggjunum hangir ýmiss konar dót, sem gefur staðnum sinn sérstæða karakter. Veitingastaðurinn er hálfri hæð ofan við götu og ég leik mér að því að horfa á fólkið ganga úti fyrir. Stundum sé ég einhvern sem ég þekki og ber í gluggann. Þegar fer að skyggja er notalegt að sitja þar við kertaljós með bjór í glasi. Um miðjan dag er fínt að koma með tölvuna og drekka þar kaffi. Á Svarta Kaffinu er hægt að fá sér ýmsa smárétti, en það sem helst einkennir staðinn eru súpur í brauði. Súpurnar þar eru mergjaðar og þykkar og bornar fram á undrahraða. Það er hægt að skella sér inn á Svarta Kaffið og koma þaðan út pakksaddur eftir kortér. Svo er líka hægt að hanga þar lengi, lengi og njósna um samferðamenn á Laugaveginum, allt eftir smag og behag.

Ég hef  komið mér upp ákveðnum siðvenjum sem tengjast Svarta Kaffinu. Á Menningarnótt er það fastur siður að detta inn í bjór á Svarta Kaffinu, sérstaklega þegar maður er orðinn uppgefinn af að hvetja aðra í langhlaupum dagsins. Og svo förum við fjölskyldan alltaf sérferð á Svarta Kaffið einu sinni á aðventunni til að borða hreindýrasúpu. Hreindýrasúpan á Svarta Kaffi er gómsæt og er að verða jafnómissandi í jólaritúalinu eins og hamborgarahryggurinn á aðfangadagskvöld.

En það sem mér finnst best við Svarta Kaffið er fólkið sem vinnur þar. Stanko Miljevic rekur staðinn og sér yfirleitt um þjónustuna sjálfur.  Hann kemur upphaflega frá Króatíu, sem í þá daga var hluti af Júgóslavíu, en fagnaði 40 ára búsetu á Íslandi nú um daginn. Stanko er hvikur kall um sextugt með næmt auga fyrir salnum, glaður og hress og alltaf á tánum. Ég held að þetta skemmtilega andrúmsloft sem er á staðnum helgist af blöndu af balkönskum og norrænum andblæ sem Stanko ber með sér. Tinna dóttir hans og tengdadóttir mín vinnur þar líka, Luka sem upprunninn er frá Serbíu og talar þrumandi flotta íslensku og margt fleira gott fólk. Mér virðist eftir nákvæmar rannsóknir á gestum Svarta Kaffisins að gestgjafarnir þekki meiri hluta þeirra sem reka inn nefið á degi hverjum með nafni og öllum er okkur fagnað.

Svarta Kaffið er á Laugavegi 54a og á sér heimasíðu á FB sem ég er að sjálfsögðu búin að láta mér líka við, sjá hér.  Þar get ég fylgst með súpuúrvalinu á degi hverjum. Svarta kaffið er langflottast.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: