Þátturinn „Lark Rise to Candleford“ hefur verið sýndur að undanförnu í RÚV. Segir þar frá lífi ensks fólks í þorpum tveim í lok nítjándu aldar. Í síðasta þætti sem sýndur var í gær greinir frá Susan Braby, ungri fjölskyldukonu sem mætir dag einn með stórt glóðarauga í þorpið. Hún leitar uppi dómarann og ákærir eiginmanninn Sam fyrir að hafa lagt á sig hendur eftir að hafa drukkið sig fullan á kránni. Þorpsbúar skiptast í tvö horn með eða á móti Susan og jafnvel þau sem sem vilja styðja hana eru efins um að hún eigi að blanda yfirvöldunum í málið. Þau telja að réttast sé að leysa vandamál einkalífsins heima fyrir, ekki í hinu opinbera rými. Sam snýr heim úr fangelsinu nýr og betri maður eftir að hafa unnið eið um ævilangt bindindi og allt fellur í ljúfa löð á Lævirkjahæð.
Bresku þættirnir eiga að gerast fyrir rúmri öld, en viðhorfið til heimilisofbeldis sem fram kemur í þessum þætti hefur reynst furðanlega lífseigt. Ekki er langt síðan að menn veltu því enn fyrir sér hvort heimilisofbeldi væri til á Íslandi. Aðrir viðurkenndu að ofbeldi væri til en töldu það eiga sér eðlilegar orsakir. Ég minnist samtals sem ég varð vitni sem unglingur milli eldri hjóna sem ég bar mikla virðingu fyrir. Konan var að segja manninum frá atviki sem hafði gerst fyrr í vikunni þar sem maður hafði gengið í skrokk á konu sinni. Maðurinn svaraði á móti: „Hún hefur eflaust verið búin að leggja inn fyrir því.“ Ég hef aldrei getað gleymt þessu tilsvari og því viðhorfi til heimilisofbeldis og stöðu kvenna sem það endurspeglaði. Susan Braby hefur örugglega „lagt inn“ fyrir glóðarauganu líka.
Á þessu ári eru þrír áratugir liðnir síðan að samtök um kvennaathvarf voru stofnuð í Reykjavík. Ekki leist öllum á blikuna og þannig skrifar Herbert Guðmundsson umsjónarmaður Sandkorns um fyrirhugað kvennaathvarf í DV 20. júlí 1982 undir fyrirsögninni: „Hvers eiga karlarnir nú að gjalda?“ (bls. 31, sjá hér).
Undanfarið hefur hópur þrýstinna kvenna haft uppi í fjölmiðlum kenningar um volæði kynsystra sinna sem þær segja misþyrmt af eiginmönnum og sambýlismönnum. Er hópurinn mjög áfram um að komið verði á fót svokölluðu kvennaathvarfi, eins konar flóttakvennabúðum.
Ástæðulaust er að gera lítið úr þessu vandamáli,sem efalaust er til þótt skýrslur frá Skandinavíu segi okkur nákvæmlega ekkert um aðstæður hér á landi. Hitt er þó jafnvafalaust að vandamálið snýr fjarri því alfarið að volæði kvenna. Ýmsar fregnir, fyrr og síðar, benda til þess að heimiliserjur bitni ekkert síður á körlum en konum, bæði andlega og líkamlega.
Þess vegna er rökstuðningurinn fyrir stofnun kvennaathvarfs meiri háttar blekking um afleiðingar persónulegra árekstra á íslenzkum heimilum. Þar er öll sökin felld á karlana og neyðin dæmd konunum sem er staðlaus sleggjudómur. Þetta vandamál er ekki svona einfalt, því miður. Ef samfélagið á að fást við það, þarf að sneiða hjá þröngsýni af þvi tagi sem kvennahópurinn hellir nú yfir karlpeninginn í landinu eins og hann leggur sig.
Grein Herberts hefur að geyma ýmis klassísk stef í umræðunni um kvennaathvarf og heimilisofbeldi. Hann byrjar á að vísa til „þrýstinna“ kvenna og erfitt er að átta sig á hvort konurnar sem um er rætt hafa verið svona þéttholda eða svona frekar í umræðunni. Konurnar hafa uppi meintar kenningar, og þær rannsóknir sem þær vísa til á Norðurlöndunum telur greinarhöfundurinn ekki marktækar. Og þó að eitthvað væri til í þessu með ofbeldið hjá þrýstnu konunum, þá dregur Herbert fram annað spil úr erminni sem hann telur sterkara málflutningi kvennanna. Heimilisofbeldi kemur nefnilega alveg eins niður á körlum og konum að hans mati. Hann ræðir hvergi um ofbeldi, heldur „heimiliserjur“ og „persónulega árekstra“. Loks sker greinarhöfundur upp herör gegn „sleggjudómum“ , „blekkingum“ og „þröngsýni“ hinna þrýstnu kvenna sem höfðu leyft sér að benda á kynbundna vídd heimilisofbeldis.
Svo dregið sé saman, þá er heimilisofbeldi að herbertskum sið:
- hugsanlega til
- ekki stutt rannsóknum (af því að aðstæður hér á landi séu eflaust allt öðru vísi en á hinum Norðurlöndunum)
- ekki kynbundið, heldur komi jafnt niður á körlum og konum, ekki sérstakt „volæði“ kvenna
- „persónulegir árekstrar“ sem þar með komi hinu opinbera rými lítið við
- jafnt sök kvenna og karla (skyldu þær hafa lagt inn fyrir því?)
- og engin þörf fyrir kvennaathvarf, því að slíkar „flóttakvennabúðir“ muni einungis ýta undir „sleggjudóma“ gegn karlmönnum.
Afneitun á kynferðisofbeldi, lítið gert úr fræðilegum upplýsingum, afneitun á því að ofbeldi geti verið kynbundið, krafa um að heimilisofbeldi tilheyri hinu persónulega rými, sök sett á þau sem verða fyrir ofbeldinu, þörfin á úrræðunum töluð niður. Kannast einhver við slíka orðræðu um kynferðislegt ofbeldi?
Samtök um kvennaathvarf gerðu athugasemdir við skrif Herberts í sama blaði 6. ágúst s.á., þar sem bent var á tölur Borgarspítalans um heimilisofbeldi gegn konum. Svargreinina má nálgast hér.
Þrjátíu ár eru liðin og fáir andæfa nú veruleika heimilisofbeldis opinberlega. Það gengur hins vegar hægt að uppræta það og þörfin á kvennaathvarfi er rík nú sem fyrr. Ég hef á undanförnum árum flutt tvær prédikanir í Guðríðarkirkju um heimilisofbeldi. Þær má nálgast hér og hér. Ég hvet þig til að lesa þær.
Við þurfum að halda vöku okkar.
Enginn „leggur inn“ fyrir ofbeldi.
Viðurkenning á kynbundnu ofbeldi er ekki áfellisdómur yfir öllum karlmönnum.
Susan Braby átti ekki glóðaraugað skilið. Volæðið sem Herbert nefnir er nefnilega ekki volæði kynsystranna, heldur þeirra sem beita ofbeldi. Við þurfum öll á „þrýstnum“ konum og körlum að halda til að binda enda á volæði kynbundins ofbeldis.
Færðu inn athugasemd