Skerí, skerí, úrskurðarnefnd

Ef söfnuður kallar eftir því að guðfræðimenntaður starfsmaður safnaðarins sé vígður til prestsembættis, þarf þá að auglýsa stöðuna?  Er þetta sama staðan, eða verður sjálfkrafa til nýtt prestsembætti þegar t.d. æskulýðsfulltrúa er breytt í prest?  Er slík tilhögun í samræmi við jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar?  Má takmarka starfssvið prests með ráðningarsamningi? Má takmarka vígsluvald biskups með starfsreglum og lögum?

Þetta eru allt spurningar sem stjórnsýslan í kirkjunni hefur tekist á við á undanförnum árum. Þessar spurningar fjalla líka um guðfræðilegan skilning á embætti prests og biskups.

FJÖGUR ÁLITAMÁL

Í dag sendi Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar frá sér álit vegna ágreinings Prestafélags Íslands og biskups Íslands frá því fyrr á þessu ári. Úrskurðinn má í heild sinni lesa hér. Ágreiningurinn fjallar um að biskup taldi sér heimilt að vígja guðfræðinga til prests án þess að stöður þeirra hafi verið auglýstar sérstaklega. Biskup vísaði til hefðar, en Prestafélagið taldi hins vegar að þjóðkirkjulögin, starfsreglur og lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hefðu átt að breyta þessari fyrri tíðar hefð.   Í 39. grein þjóðkirkjulaga segir:

Þegar prestakall eða prestsstaða losnar eða nýtt prestakall er stofnað auglýsir biskup Íslands embættið með fjögurra vikna umsóknarfresti hið skemmsta. Nánari reglur um val á sóknarpresti og presti skv. 35. gr., m.a. um skilyrði til almennra kosninga, skal setja í starfsreglur skv. 59. gr.

Biskup taldi að þessi lög og reglur gætu ekki bundið vígsluvald sitt, en Prestafélagið taldi að svo væri. Fyrrverandi biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson var gagnaðili í þessu máli en Prestafélagið málshefjandi og beindi Prestafélagið fjórum spurningum til Úrskurðarnefndarinnar.

Prestafélagið vildi í fyrsta lagi vita hvort þjóðkirkjulög heimiluðu vígslur án undangenginnar auglýsingar prestsembættis, í öðru lagi hvort slíkar vígslur brjóti í bága við jafnréttisáætlun kirkjunnar, í þriðja lagi hvort um ekki verði um nýtt starf sé að ræða þegar starfsmaður er vígður prestsvígslu og í fjórða lagi hvort söfnuður geti þrengt verksvið  presta með ráðningarsamningi með því t.d. að banna þeim að annast tiltekin prestsverk.

NIÐURSTAÐA ÚRSKURÐARNEFNDARINNAR

Niðurstaða Úrskurðarnefndarinnar er sú að vísa erindinu frá.

Samkvæmt álitinu kallaði Úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um slíkar vígslur frá árinu 1980. Hún ályktar að slíkar vígslur hafi viðgengist um langa hríð og að allir biskupar á því tímabili sem nefndin rannsakaði hafi talið sér það heimilt að vígja án auglýsingar. Um þetta hafði reyndar ekki verið neinn ágreiningur svo að vitað sé.  Þvínæst klykkir Úrskurðarnefndin út með eftirfarandi ályktun:

Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar telur gagnaðila hafa sýnt fram á með framlögðum gögnum að sú framkvæmd sem málshefjandi telur ólögmæta sé venjuhelguð. Þá telur úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar ljóst af því yfirliti sem nefndinni barst frá gagnaðila að hluti starfandi presta þjóðkirkjunnar hóf prestferil sinn með slíkri vígslu. Fullyrðing málshefjanda um að gildistaka stjórnsýslulaga, laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar hafi átt að breyta þessari löngu hefð fær ekki stoð í gögnum málsins því framkvæmdin hélt óbreytt áfram hvað sem leið gildistöku þessara laga.

Hér er Úrskurðarnefndin alveg úti á túni að mínu mati. Ágreiningsatriðið er ekki um það hvort biskup Íslands hafi haldið áfram venju fyrri biskupa að vígja presta eftir eigin geðþótta og án undangenginnar auglýsingar. Ágreiningurinn fjallar um það hvort þessi embættisfærsla standist lög um stjórnsýslu, starfsmenn ríkis og þjóðkirkjulögin. Fyrri biskupar þurftu ekki að fara eftir þessum lögum, en herra Karl og frú Agnes þurfa að gera það, svo og þeir vígslubiskupar sem hugsanlega væru kallaðir inn í forföllum þeirra.

Úrskurðarnefndin ályktar sumsé svo að biskupinn megi vígja presta án auglýsingar af því að hann hafi alltaf gert það og af því að hann hafi haldið því áfram þrátt fyrir að ný lög hafi verið sett. Þetta er nú meiri vitleysan, því þar með er ekki tekin afstaða til þess hvort embættisgerningurinn hafi verið í samræmi við lög eða ekki.

Að þessari niðurstöðu fenginni svarar  Úrskurðarnefndin fyrstu og þriðju spurningu Prestafélagsins að hún hafi ekki vald til að hnekkja hinni venjuhelguðu reglu eða leggja mat á hvort hún sé rétt. Nefndin bendir annars vegar á að skeri þurfi út um málið hjá dómstólum eða að Kirkjuþing setji skýrar starfsreglur um málið. En…..er 39. grein þjóðkirkjulaganna eitthvað  óskýr? Þar stendur skýrum stöfum að auglýsa eigi prestsembætti. Spurningin er frekar um hvort biskupi Íslands beri að fara eftir lögunum í landinu.

JAFNRÉTTISMÁL OG VÍGSLUR

Um fjórðu spurninguna svarar Úrskurðarnefndin því til að Prestafélagið sé ekki aðili málsins. Það er athyglisverð niðurstaða í ljósi þess að Prestafélagið vill fá almennan úrskurð um hvort það prinsípp haldi að söfnuðir geti þrengt starfssvið presta með ráðningarsamningi úr frá þeim lagaramma sem þjóðkirkjan býr við.

Þriðju spurningunni um jafnréttismálin vísar úrskurðarnefndin einnig frá sér á þeirri forsendu að jafnréttisnefnd þjóðkirkjunnar sé úrskurðaraðili varðandi jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar. Úrskurðarnefndin hefur þó það fram að færa til jafnréttisumræðunnar að 28 karlkyns guðfræðingar og 25 kvenkyns guðfræðingar hafi verið vígðir án undangenginnar auglýsingar. Því telur nefndin að: „hin venjuhelgaða framkvæmd dragi ekki taum annars hvors kynsins.“

Ályktun nefndarinnar um jafnréttismálin er í hæsta máta neyðarleg. Núverandi jafnréttisstefna þjóðkirkjunnar er frá 2009 og hana má nálgast hér.   Í fyrri stefnu var jafnréttisnefnd þjóðkirkjunnar úrskurðaraðili um stefnumálin.  Upphaflegu jafnréttisáætlunina frá árinu 1998 má nálgast hér. Þar var talað um úrskurðarhlutverk jafnréttisnefndarinnar í 6. lið, en þessi grein var felld út úr jafnréttisáætluninni við endurskoðunina 2009.  Núverandi jafnréttisnefnd hefur því ráðgjafarhlutverk við biskup og kirkjuráð, en ekki úrskurðarhlutverk.

Seinni ályktun Úrskurðarnefndarinnar um jafnréttismálin er engu minna neyðarleg en sú fyrri. Þar hefur nefndin misskilið spurningu Prestafélagsins um það hvort prestsvígslur utan auglýsingar standist jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar.  Spurning Prestafélagsins fjallar ekki um það hvort biskupsstofa mismuni fólki jafnt eftir kynjum með því að sleppa því að auglýsa stöður.  Í jafnréttisstefnunni koma fram fjögur markmið jafnréttisstefnunnar og það fyrsta hljóðar svo:

Að skapa forsendur fyrir konur og karla í kirkjunni til að njóta þess jafnréttis sem tryggt er í lögum.

Þetta er það sem málið snýst um, að konur og karlar njóti lögverndaðs jafnréttis í embættisveitingum innan þjóðkirkjunnar, hafi jafnan rétt til að sækja um embætti og að umsóknir þeirra séu metnar á málefnalegum forsendum.

SKERÍ, SKERÍ, ÚRSKURÐARNEFND

Eftir að hafa lesið í gegnum úrskurð Úrskurðarnefndar sannfærist ég endanlega um ágæti þeirrar tillögu í nýjum þjóðkirkjulögum að leggja nefndina niður. Helsta afrek nefndarinnar í þessu máli er að álykta um efni sem enginn ágreiningur var um, sumsé að biskupar hafi lengi vígt presta án auglýsingar. Úrskurður nefndarinnar virðist aðallega fjalla um að skera frá allt sem nefndin gæti mögulega átt að álykta um og svo klykkir nefndin á því að benda fólki á að það geti sótt mál sitt fyrir dómstólum. Eh, takk, það hafði Prestafélaginu örugglega aldrei dottið í hug…..

Þetta mál þarf að komast á hreint og innlegg Úrskurðarnefndarinnar hefur lítið hjálpað. Skerum, skerum burt úrskurðarnefnd.

Myndin er fengin úr myndasafni .www.kirkjan.is.

2 svör við “Skerí, skerí, úrskurðarnefnd”

  1. Takk Magnús, ég er alveg sammála. Þetta mál er allt hið undarlegasta.

  2. Ég tek undir með Sigríði að það er nokkuð undarlegt að úrskurðarnefnd skuli álíta að hefðarréttur sé svo ríkur að hann víki til hliðar starfsreglum samþykktum af Kirkjuþingi.

    Svo má líka velta þessu fyrir sér út frá Gullnu relgunni, sem er auðvitað undirstaða allls siðferðis. Ef biskp vill að aðrir kirkjunnar þjónar fari eftir starfsreglum en geri ekki bara eins og þeir eru vanastir þá ætti biskup auðvitað að ganga á undan með góðu fordæmi.

    Vandinn í þessu úrskurðarmáli er auðvitað sá að alls engar strarfsreglur hafa verið settar um embætti biskups Íslands, sem er eitt valdamesta embættið innan Þjóðkirkjunnar. Að vísu segir svo í 10. gr. Þjóðkirkjulaganna: „Biskup Íslands hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu. Hann er forseti kirkjuráðs. Hann fylgir eftir reglum er kirkjuþing setur, samþykktum kirkjuþings og markaðri stefnu þess og prestastefnu…“

    Nú hefur úrskurðarnefnd komist að þeirri niðurstöðu að biskup þurfi ekki að fylgja reglum eða samþykktum Kirkjuþings ef hefðin segi annað. Ja, hérna! Það er margt skrýtið og skondið í kýrhausnum hjá blessaðri Þjóðkirkjunni!

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: