Okkar eigin Steubenville

Nýlega hafa fréttir af nauðgun í Steubenville í Ohio verið áberandi í fréttum. Tveir ungir menn í bænum nýttu sér neyð ungrar stúlku í ágúst 2012, tóku verknaðinn upp og dreifðu á You tube. Myndbandið sýnir svo ekki verður á móti mælt að piltarnir tveir voru sekir um nauðgun. Eftirmál atburðanna í Steubenville urðu þau að meirihluti bæjarbúa stóð með ungu mönnunum sem voru upprennandi íþróttamenn í amerískum háskólafótbolta og þessi mikla samúð með ofbeldismönnunum breiddist út. Sjónvarpsstöðin CNN flutti fréttir af því þegar dómur var kveðinn upp og miðaðist fréttaflutningurinn fyrst og fremst við sjónarhorn þeirra sem ofbeldinu ollu, tilfinningar þeirra og foreldra þeirra og fjölskyldu en ekki aðstæður stúlkunnar sem var nauðgað. Fluttar voru fréttir af brostnum vonum ofbeldismannanna um skólagöngu og bjarta framtíð. Fjölmiðlar fluttu fréttir og vorkenndu drengjunum. Twitter fór af stað með athugasemdum eins og “þeir gerðu það sem flestir í þeirra aðstöðu hefðu gert,” og “þetta er ekki nauðgun og þú ert lauslát, full drusla.” Aðrir notuðu tækifærið til ráðlegginga eins og t.d. : “Takið ábyrgð á ykkur sjálfum stelpur, svo að ykkar drykkjuóðu ákvarðanir eyðileggi ekki saklaus líf.“

Laurie Penny skrifar í vikuritinu New Statesman um Steubenville réttarhöldin:

Myndirnar frá Steubenville sýna ekki aðeins stúlku sem er nauðgað. Þær sýna að það er horft framhjá nauðgunum, hvatt er til þeirra og þær eru í hávegum hafðar.  Hvers konar menning getur mögulega framleitt slíkar birtingarmyndir?  Það getur aðeins gerst í samfélagi þar sem sjálfræði kvenna og réttur þeirra til öryggis þykir svo lítilmótlegur að nauðgararnir og þeir sem héldu á myndavélunum upplifðu athæfi sitt sem “fullkomlega réttlætanlegt”.

Spyrja má hvort samfélag þar sem sjálfræði kvenna og réttur til líkamlegs, andlegs og kynferðislegs öryggis er fyrir borð borinn sé sérbandarískt fyrirbrigði, eða hvort Steubenville, Ohio fyrirfinnist á fleiri stöðum. Til dæmis á Húsavík.

Í kvöld var sýnt viðtal í Kastljósi við unga konu sem kærði nauðgun á Húsavík á vormánuðum 1999, en hún var 17 ára þegar jafnaldri hennar braut gegn henni. Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Norðurlands í árslok 1999 stúlkunni í vil. Hæstiréttur staðfesti síðan héraðsdóminn í apríl 2000, en hækkaði miskabætur til stúlkunnar, „með hliðsjón af því, að framangreint brot hefur valdið henni óvenju mikilli félagslegri röskun,“ eins og segir í dómnum.

Áhorfendur Kastljóss fengu nokkurn nasaþef af því í kvöld hvers konar „félagslega röskun“ stúlkan hafði búið við á Húsavík eftir að hún kærði nauðgunina. Þessi félagslega röskun fólst í því að fólk hætti að heilsa henni á götu. Það hringdi í hana og gagnrýndi hana fyrir að hafa kært nauðgunina. Það dró ofbeldið í efa. Það talaði illa um hana. Ein kona vatt sér að dansfélaga hennar á balli og sagði: „Passaðu þig, að vera ekki nauðgað!“ Og síðan tóku 113 bæjarbúar sig til og birtu í bæjarblaðinu Skráin stuðningsyfirlýsingu við hinn dæmda unga mann, nafngreindu hann, slógu því upp að þeir vonuðu og trúðu því að réttlætið næði fram að ganga, „vegna þess að mæður eiga líka syni“.

Ef „móðirin“ í þessu tilfelli er Húsavík, samfélagið og heimkynnin sem stóðu að þessum tveimur ungu manneskjum á ógæfukvöldi árið 1999, hvers vegna skipta þá aðeins hagsmunir, tilfinningar og afdrif sonanna máli? Hvers vegna skiptu dætur mæðranna ekki máli í Steubenville? Eiga mæður, feður og samfélög ekki líka dætur? (Með þessu er ég vitanlega ekki að segja að allir Húsvíkingar hafi tekið þátt í hinni „félagslegu röskun“. En stúlkan missti heimkynni sín og félagslegt öryggi sem þeim heimkynnum og samfélagi tengdust.)

Í Kastljósviðtalinu kom einnig fram að sóknarpresturinn á Húsavík hafi komið að málinu með þrennum hætti. Hann hafi reynt að fá stúlkuna til að hætta við að kæra málið. Hann hafi reynt að fá þau sem rituðu undir yfirlýsinguna til að birta hana ekki og birti sjálfur yfirlýsingu í Skránni þar sem hann hvatti söfnuð sinn til að sýna stillingu, taka tillit til fjölskyldna og tilfinninga hvers annars og koma hver fram við aðra á þann hátt sem Gullna reglan segir . (Þessi yfirlýsing er birt í heilu lagi í frétt DV, en Skrána hef ég ekki fundið á netinu). Í þriðja lagi lét hann þau orð falla í viðtali við DV að hann tryði á sáttargjörð, og hefði íhugað „hvort rétt væri að leita aðstoðar fagaðila eins og sálfræðinga í þeim efnum“, eins og segir í frétt DV.

Mér þykir vænt um að starfsbróðir minn skyldi berjast fyrir því í sínum söfnuði að nafnalistinn væri ekki birtur. Ég get tekið undir hvert orð sem hann sagði í yfirlýsingu sinni frá 2000 og tel að ónauðsynlegri þjáningu hefði verið afstýrt ef sóknarbörnin hefðu hlustað á þau orð hans. Það eru hins vegar önnur afskipti hans af málinu sem ástæða er til að staldra við, nú þegar málið er rifjað upp að nýju. Sóknarpresturinn hefur í viðtali við Fréttablaðið sem kemur út á morgun, en hefur verið birt á netinu tekið fram að hann rengi ekki orð stúlkunnar, en muni þau illa og hafi ætlað þau til stuðnings. En á hvaða hátt getur það verið til stuðnings fyrir þau sem fyrir ofbeldi verða að dregið sé úr þeim að kæra?

Nauðgun er glæpur.

Ég veit að þetta virðist augljóst, en það er samt nauðsynlegt að segja það oft: Nauðgun er glæpur og heyrir undir hegningarlög. Nógu oft til þess að einn daginn trúum við því nógu vel til þess að þessi vitneskja hafi áhrif á orð okkar og gjörðir.

Ég velti því fyrir mér hvað hefði gerst ef ekki hefði verið um nauðgun að ræða, heldur ölvunarakstur, þar sem ungi maðurinn hefði valdið ungu konunni stórum skaða með sannanlegum hætti. Allur bærinn hefði tekið þátt í sorg foreldranna og endurhæfingu stúlkunnar. Hann hefði líka tekið þátt í sorg unga mannsins og stutt fjölskyldu hans. Bænum hefði þótt sjálfsagt að málið færi fyrir lögreglu og dómara. Dómur í héraðsdómi og Hæstarétti hefði engu breytt í því efni og það er stjarnfræðilega ólíklegt að unga stúlkan á hjólastólnum hefði verið flæmd úr bænum fyrir að láta keyra á sig, eða hún ásökuð fyrir að vera að flangsast þetta í umferðinni.

Ölvunarakstur er glæpur. Af hverju virðast stundum önnur lögmál gilda um nauðganir en aðra glæpi í samfélaginu, sbr. Steubenville réttarhöldin?  Getur það verið vegna þess að undir niðri er sú skoðun enn ríkjandi að brot gegn kynverund kvenna séu engin sérstök brot, heldur minni háttar ávirðingar, sem hægt sé að leysa með öðrum hætti og valkvætt við hegningarlögin?

Mig langar að lokum að segja nokkur orð um sáttargjörð. Ég trúi nefnilega líka á hana og veit að hún skilar oft miklum árangri. Sáttargjörð er samin á hverjum degi í hjónaböndum, milli barna og foreldra og milli vina og starfsfélaga sem hafa orðið ósáttir. Sáttargjörð er einstakt dýrmæti sem hjálpar til að græða sár og mistök. Sáttargjörð er iðkuð í vaxandi mæli í forræðisdeilum. Í átökum landa þar sem borgarastyrjöld og ofbeldi hefur ríkt hefur stundum tekist að koma á sáttargjörð í stað blóðsúthellingar. Dæmi um það eru í Suður-Afríku og í Rwanda. Sáttargjörð er ekki valkvæð við hegningarlögin, heldur eitthvað sem gripið er til þegar önnur úrræði eru ekki til, til dæmis í samskiptum hversdagsins, mikilvægum samskiptum þar sem dómstólaleiðin er ekki endilega fýsileg og vegna þjóðarharmleiks sem engin réttur nær að rúma og orða. Sáttargjörð er aðeins möguleg ef fólk vill koma að borði, segja frá mistökum sínum og öðlast fyrirgefningu.

Konan sem sagði sögu sína af yfirvegun og æðruleysi í Kastljósviðtalinu hefur byggt upp gott líf í Noregi. Það er enn sárt fyrir hana að koma heim, vegna þess að móðirin Húsavík sinnti bara sonum sínum þegar á reyndi og dóttirin þurfti hennar með.  Ef hún vill og kærir sig um, þá er eflaust tækifæri til sáttargjörðar á Húsavík. Sú sáttargjörð er ekki endilega við þann sem braut á ungu konunni vorið 1999, því að það mál var rekið fyrir dómstólum og sökin og miskinn voru viðurkennd. Hin sorgin er eftir, eineltið, misskildi stuðningurinn, fólkið sem skrifaði á listann, en sér eftir því núna, samfélagið sem tekur synina fram yfir dæturnar.

Því að mæður eiga líka dætur og samfélög geta brugðist víðar en í Steubenville. Og það er gott að biðjast fyrirgefningar á því sem maður hefur gert rangt.

9 athugasemdir við “Okkar eigin Steubenville

 1. Takk fyrir góða grein. Því miður er afstaða til réttarstöðu kvenna enn of lík afstöðu hins forna karlasamfélags, eins konar talibanaafstaða, sem einnig má enn sjá í helstu trúarritum Vesturlanda. Skrítið að við skulum enn tala sérstaklega um kvennréttindi á 21. öld rétt eins og þau séu ekki einfaldlega hluti af almennum mannréttindum. Hvað ætli menn segðu ef t.d. einum af ráðamönnum samfélagsins væri nauðgað? Væri dauðarefsing jafnvel tekin upp að nýju? — Engum sæmandi (einstklega ókarlmannlegt) að verja ekki heiður dætra , hvað þá gegn ofbeldi og nauðgunum, karlar ættu að vera þar í fremstu röð. Það er æfafornt verkefni öflugra karlapa að verja ungviði og kvenndýr gegn ofbeldi og misnotkun. Varla vilja menn vera slakari.

 2. Frábær skrif og hafðu kærar þakkir fyrir Sigríður. Málið er ljótt og sárt og Guðný er sterk og skynsöm að koma fram og skýra frá því, ánægjulegt að sjá hvað henni hefur vegnað vel. Vonandi læra einhverjir eitthvað af þessu og þeir sem hlut eiga að máli fari loks að skammast sín og biðja Guðnýju fyrirgefningar.

 3. Mér finnst samt umhugsunarvert fyrir okkur, sem nú við þessa umfjöllun virðist þykja það sjálfsagt að rakka bæjarfélagið Húsavík niður – já og helst öll lítil samfélög með í leiðinni að sleppa því bara alveg að líta á þá staðreynda að það voru innan við 5% íbúa bæjarins sem skrifuðu nafnið sitt á þennan lista (á Húsavík bjuggu árið 1999 samtals 2.432). Flestir þeir sem það gerðu tengdust gerandanum fjölskylduböndum og einhverjir þeirra voru enn á barnsaldri þegar þeir tóku þá röngu ákvörðun. Skömm þeirra er vissulega mikil en finnst þér virkilega sanngjarnt að líkja Húsavík við Steubenville þar sem MEIRIHLUTI bæjarbúa studdu nauðgarana með ráð og dáð? Flestir bæjarbúa virðast hins vegar hafa neitað að skrifa undir títtnefndan lista, ritstjóri bæjarblaðsins neitaði lengi vel að birta hann og fjölmargir sýndu Guðnýju og fjölskyldu hennar stuðning og hlýju.
  Ég vil taka það fram að ég tengist Húsavík ekki á neinn hátt. Ég bý hins vegar í litlu samfélagi og þekki mátt samhugar og samstöðu. Mér finnst sjálfsagt að draga svona mál fram í dagsljósið til að við sem þjóð getum lært af viðbrögðunum en finnst einnig að við ættum að fara varlega í að yfirfæra gagnrýni okkar á stóran hóp sem ekki á það skilið.

  1. Sæl Þórunn og takk fyrir þetta. Ég tók sérstaklega fram í þessum pistli mínum að ég héldi því alls ekki fram að allir Húsvíkingar hafi tekið sér stöðu móti brotaþolanum í málinu. Ég er öllu heldur að tala um samfélagslegu heildina Húsavík sem konan missti við kæruna, félagslegt öryggi og heimkynni sem hún taldi sig ekki lengur hafa aðgang að. Hópur einstaklinga hafa margfalt meiri áhrif en hver einstaklingur einn og sér og Guðný Jóna lýsir þessum áhrifum vel í Kastljósviðtalinu. Hópstemmningar verða til sem hafa gríðarleg áhrif á bæjarbrag og umræðu og þau sem eru hluti af slíkri stemmningu hafa þannig meiri og háværari áhrif en hinn þögli meirihluti.

   Ég staldra við það að þú talar um að „taka Húsavík fyrir“. Ég hef búið í litlum sjávarplássum á landsbyggðinni og tel ekki að Húsavík sé lakari staður eða öðruvísi en gerist og gengur. Þetta eru einfaldlega erfið mál fyrir lítil samfélög sem byggð eru upp á sterkum ættarsamböndum. Og það skiptir miklu máli fyrir heilbrigði hvers slíks samfélags að þar ríki ekki meðvirkni.

   Svipuð umræða fór reyndar fram í Steubenville og fólk var sárt yfir því að bærinn þeirra sem þau voru svo stolt af skyldi verða eins konar táknmynd nauðgunarmenningar. En kannski er ástæða til að snúa spurningunni við og benda á ábyrgð þeirra sem tóku afstöðu í erfiðu máli á Húsavík þar sem málið hafði verið rannsakað og fallið hafði dómur.

   1) Þau ollu brotaþolanum þjáningu með því að sýna stuðning sinn opinberlega við hinn dæmda geranda.
   2) Þau nafngreindu gerandann opinberlega og sú nafnbirting hélt síðan áfram í landsblöðin þegar DV fékk áhuga á listanum og birti hann. Nafn hans kom reyndar líka fyrir í dómnum, en dómar voru ekki eins aðgengilegir í lok 20. aldar og nú er.
   3) 113 einstaklingar í litlu sveitarfélagi birtu illa ígrundaða yfirlýsingu opinberlega þar sem nauðgunardómi var hafnað. Með þessu kom þessi stóri hópur óorði á samfélagið allt, umræðuhefð þess og gildismat, sem á einhvern hátt verður að bregðast við.

   Bestu kveðjur, Sigríður

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s