Frídagarnir í miðri viku

Í gær var tekin fyrir tillaga til borgarstjórnar um að borgin reyndi að semja við stéttarfélög um að færa staka frídaga í miðri viku. Þannig gæfist fólki kostur á að færa frídagana að helgi og búa til þriggja daga fríhelgi.

Mér þykir vænt um þessa þrjá daga og hlakka alltaf til þeirra. Þeir eru ólíkir og eiga sér ólíka sögu. Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur Hörpu að fornu tímatali. Um hann er getið í elstu heimildum íslenskum og hann hefst alltaf á fimmtudegi. Sumardagurinn fyrsti er dagur þar sem fólk gleðst saman yfir vorinu, margir taka þátt í skrúðgöngu og börnum er enn gefnar sumargjafir. Um hann eru miklar og fornar hefðir eins og lesa má um í Sögu daganna eftir Árna Björnsson. Uppstigningardagur er kirkjuleg hátíð tíu dögum fyrir páska til að minnast himnafarar Jesú Krists og á sér amk sextán alda sögu. Sá dagur er kirkjudagur eldri borgara á Íslandi og er gjarnan notaður til að vekja athygli á handverki og tómstundum eldra fólks. 1. maí er aþjóðlegur baráttudagur verkafólks, þar sem fjölmennar kröfugöngur eru haldnar aðstæðum verkafólks til stuðnings og ýmsum öðrum málefnum. Gangan í Reykjavík var óvenju fjölmenn í ár þegar Græna gangan, ganga fólks sem gekk fyrir umhverfið bættist við, en í þá göngu mættu amk 5000 manns.

Ég er mótfallin því að hægt sé að færa til frí í tengslum við sumardaginn fyrsta, uppstigningardag og 1. maí. Ástæðurnar eru tvíþættar:

1) Ég óttast að um leið og farið verður að róta með þessi frí og þau verða hluti af samningapakka stéttarfélaganna líði ekki á löngu þar til dagarnir tapast sem frídagar launafólks.

2) Ég tel að gildi sameiginlegra frídaga fyrir félagsauð hverfa, bæja og byggða sé ótvírætt.  Hugmyndin um að eiga slatta af frídögum sem ég tek þegar mér hentar er gagnólík þeirri hugsun að eiga frídag með samfélaginu sínu og ber vott um vaxandi einstaklingshyggju.

Góð kona sagði við mig í gær:  „Ég berst ekki fyrir réttindum launafólks á leiðinni í sumarbústaðinn.“ Ég er alveg sammála henni.

Á myndinni má sjá skrúðgönguna á sumardaginn fyrsta koma upp brekkuna á Kristnibraut í Grafarholti. 

Sumardagurinn 2012

2 athugasemdir við “Frídagarnir í miðri viku

  1. Takk fyrir þetta, Sigríður.

    Sumardagurinn fyrsti og uppstigningardagur eru báðir fimmtudagar eins og öllum er kunnugt og þú nefnir. Um 1. maí gegnir öðru máli. Sá dagur var á miðvikudegi í ár, verður á fimmtudegi 2014 og föstudegi 2015 og svo á sunnudegi 2016, væntanlega vegna hlaupárs.

    Hvernig væri að einhverjir 2 aðrir frídagar væru færðir inn á föstudagana í kjölfar umræddra fimmtudaga þannig að fólk eigi þá langa helgi 2 x á ári. Eða að fólk taki 2 daga af orlofi sínu og nái þannig 2 löngum helgum árlega?

    Er algjörlega mótfallinn því að pólitíkusar raski aldagömlum hefðum. Koma þá ekki bara af þeirra hálfu fram hugmyndir um að jólin verði aldrei um helgar og ekki páskar heldur eða hvítasunna þannig að fólk fái meira frí!

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s