Mannréttindi og tvær leiksýningar

Ég hef átt því láni að fagna að sjá tvær leiksýningar í þessum mánuði. Sú fyrri er „Maður að mínu skapi“ í Þjóðleikhúsinu og sú seinni er sýning Borgarleikhússins á „Húsi Bernhörðu Alba“ í Gamla Bíói. Sýningarnar eiga það sameiginlegt að Jón Viðar Jónsson hefur rakkað þær niður í leikdómum sínum. Báðar eru þær eru umdeildar og umtalaðar. Það sem helst er sett út á við fyrri sýninguna er að aðalsögupersónan sé skrípamynd af vel þekktum íslenskum háskólaprófessor og að verið sé að gera grín að samkynhneigð hans í leikritinu. Það sem pirrar fólk hins vegar mest við seinni sýninguna, er að leikstjórinn hefur valið að skjóta inn í texta Lorca nokkrum frægum innslögum af femínískum tilsvörum og persónum. Þar ganga fram á sviðið Malala Yousafzai, Simone de Beauvoir, ein af Pussy Riot stelpunum og fleiri baráttukonur 20. og 21. aldar. Með öðrum orðum má segja að mannréttindamál séu það sem umræða um þessar tvær leiksýningar fjalli um, að of lítil virðing fyrir mannréttindum einkenni fyrri sýninguna en að í þeirri síðari sé mannréttindum beinlínis troðið upp á mann og trufli söguþráðinn.

Það er einkenni góðra leiksýninga að þær sitja eftir hjá manni. Þær láta mann ekki í friði. Og stundum sér maður í þeim nýtt samhengi hlutanna eftir að heim er komið og maður hefur náð að velta þeim betur fyrir sér. Það er af þessum ástæðum sem mér finnst bæði „Maður að mínu skapi“ og „Hús Bernhörðu Alba“ vera góðar leiksýningar sem ég hvet fólk til að sjá.

„Maður að mínu skapi“ greip mig ekkert sérstaklega í fyrstu. Mér fundust karakterarnir reyndar áhugaverðir en að það skorti mikið upp á söguþráðinn til þess að hann næði til mín. Ég nefni sem dæmi umræðu um fósturson einnar persónunnar og faðerni hans sem verið er að byggja spennu um alla sýninguna, en reynist svo efni sem lítið er unnið með og rennur einhvern veginn út í sandinn. Salurinn var þungur og það var eins og fólk biði í ofvæni eftir því að farið væri að klæmast á háskólaprófessornum. Í hléi heyrði ég konu fyrir aftan mig segja: „Þetta er bara miklu skárra en ég átti von á.“ Það var eins og hún hafi verið á leiðinni í endajaxlatöku. Leikmyndin er þung og mikil og byggð upp eins og leikritið sé hurðafarsi á borð við „Fló á skinni“, en textinn er of efnismikill til þess að hann virki almennilega sem farsi einn og sér. Mér fannst einnig skrýtið að ein sögupersónan klifrar öðru hvoru upp á leikmyndina og horfir niður á hana. Og endirinn er heldur ekki eins og í venjulegu leikhúsi. Þarna var heilmikið um að vera sem truflar öryggiskennd hins almenna leikhúsneytanda og viðhorf hennar um það hvernig leikarar eigi að hegða sér í leikhúsi.

En leikritið vann á eftir því sem ég hugsaði meira um það. Mér finnst leikritið merkilegt sem þjóðfélagsháðsádeila eftir hrun. Við lifum tíma þar sem menn eru í óðaönn að þrífa upp hrunið og breyta minningunum. Ég las viðtal við fjárfestinn Hannes Smárason í helgarblaði Fréttablaðsins þar sem hann sagðist að sönnu skulda Íslendingum afsökunarbeiðni, af því er virðist fyrir ekki neitt, því að hann hafi samt ekkert gert af sér. Þessu slá Íslendingar upp á forsíðu fimm árum eftir hrun. Karakterarnir í leikritinu eru spilltur stjórnmálamaður, spunameistari að baki hans sem við fyrstu sýn virðist hinn indælasti maður, en reynist vera siðblindur inn við beinið, hrekklaus og góð yfirstéttarkona sem meinar vel, harðduglegur ungur piltur sem í fyrstu lætur glepjast af spunameistaranum er lætur krók koma á móti bragði þegar hann upplifir svik, hin seiga og sívinnandi verkakona og síðan bróðir hennar sem er bitur og reiður og hefur rannsakað glæpi spillta ráðherrans. Ég get ekki séð að verið sé að gera grín að samkynhneigð tiltekins einstaklings. Það er ekki of lítið af mannréttindum í verkinu að mínu viti, heldur fjallar það um þau mannréttindi sem verið er að brjóta á venjulegu fólki á Íslandi alla daga með ójöfnuði og yfirklóri. Allir þessir karakterar eru prýðisvel leiknir og það er verkakonan sem öðru hvoru bregður sér upp á myndina og horfir á þetta leikhús sem er samfélagið hennar. Ekki kemur á óvart þótt einhver sakleysinginn sé drepinn í lokin og við áhorfendurnir klöppum eins og fífl. Þetta er góð sýning.

Það var stórkostleg upplifun að verða vitni að „Húsi Bernhörðu Alba“ í Gamla Bíói. Ég held að ég hafi aldrei heyrt svona margar konur öskra í leikhúsi og öskrið kom alveg neðan úr legi. Sjálfri voru mér þessi öskur úr frumdjúpunum einhver fró, vegna þess að mig langar oft til að öskra alveg neðan úr legi. Leikmyndin var stórkostleg, hún var köld og kallaði fram hjá manni innilokunartilfinningu. Hún kallaðist líka á við gráa kjólinn hennar Bernhörðu og minnti mann á hversu mikið af rimlum hugarfarsins voru fólgnir í persónu þessarar konu. Gólfið var alveg autt, sem gaf leikurunum tækfæri á að nýta líkamann og líkamsmálið til hins ítrasta. Leikurinn var frábær, en það truflaði mig að Bernharða skyldi vera leikin af karlmanni. Þetta er kvennasýning um tilfinningar, sturlun og valdbeitingu kvenna.

Hvað varðar femínísku innslögin fundust mér þau yfirleitt ekki vera til bóta, heldur truflunar. Það átti sérstaklega við fannst mér um ræðu Tawakkol Karman frá Yemen, friðarverðlaunahafa Nóbels 2011 sem hélt síma á loft og talaði um að konurnar í leikritinu væru fastar. Það þurfti ekki Tawakkol til að segja þeim sem urðu vitni að innilokun, ástríðum og afbrýði Albasystra að þær væru fastar og þarna þótti mér útskýringarnar orðnar helst til forræðislegar. Reyndar þótti mér innslag Simone de Beauvoir vera undantekning á þessu og setning hennar: „Hættið að segja ég, segið við“ þótti mér viðeigandi, því að það var sundurlyndið, hvernig systurnar ráku hnýflana hver í aðra sem studdi vald móðurinnar yfir þeim. Vinnukonan í Albahúsinu gegndi að sumu leyti svipuðu hlutverki eins og vinnukonan í „Maður að mínu skapi“, því að hún sá Simone og gat talað við hana, rétt eins og hin gat horft yfir leikmyndina.

Sem sagt, farið í leikhús elskurnar mínar, sjáið mokað yfir hrunið í Þjóðleikhúsinu og heyrið öskrað neðan úr legi í Gamla Bíói. Það er furðulega hressandi. Og í anda mannréttinda.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s