Rómversk-kaþólska kirkjan greiðir „bætur“

Í DV í dag er sagt frá viðbrögðum ungs manns við skaðabótunum sem rómversk-kaþólska kirkjan greiddi honum, eftir að hann hafði lýst ofbeldi sem hann varð fyrir sem barn í Landakotsskóla og í sumarbúðum kirkjunnar af hendi starfsmanna skólans fyrir fagráði kaþólsku kirkjunnar. Fréttina má nálgast hér og þar kemur fram að hvorki hafi verið um að ræða skaða eða miskabætur frá kirkjunni, heldur hafi fjárins verið aflað með frjálsum framlögum.

Ekkibótagreiðslur rómversk-kaþólsku kirkjunnar til þeirra sem hafa ásakað séra Ágúst George, Margrét Muller og fleiri um misnotkun og einelti meðan þau störfuðu fyrir skólann eiga sér allnokkurn aðdraganda og mig langar til að rifja þann aðdraganda upp.

Árið 2011 var skipuð sjálfstæð rannsóknarnefnd sem skyldi rannsaka framkomnar ásakanir um ofbeldi innan Landakotsskóla og skilaði hún skýrslu sinni 2. nóvember 2012.  Skyldi hlutverk nefndarinnar vera tvíþætt, þ.e. í fyrsta lagi að rannsaka „hvort um mistök, vanrækslu eða vísvitandi þöggun eða tilraun til þöggunar hafi verið að ræða af hálfu vígðra þjóna og starfsmanna kirkjunnar, eða annarra þeirra sem gegnt hafa trúnaðarstörfum í þágu kirkjunnar, eftir að ásakanir um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot voru komnar fram og hverjir kunni að bera ábyrgð á því,“ og í öðru lagi „að koma með ábendingar og tillögur um starfshætti kaþólsku kirkjunnar í þeim tilvikum þegar upp koma ásakanir um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot af hálfu vígðra þjóna eða starfsmanna hennar“ (bls. 13-14).

Hvað varðar fyrra verkefni nefndarinnar þá gerir hún „alvarlegar athugasemdir“ við að nánast engar skráningar um hagi nemenda hafi verið varðveittar frá þeim tíma sem skólinn var á ábyrgð kaþólsku kirkjunnar (bls. 96). Hún gerir þáverandi biskupa rómversk-kaþólsku kirkjunnar á Íslandi ábyrga fyrir því að gögnin voru ekki tryggð (bls. 96).  Rannsóknarnefndin telur líka rómversk-kaþólsku kirkjuna á Íslandi hafa brugðist seint við framkomnum ásökunum, og að hún hefði haft „fullt tilefni“ til þess að bregðast við með forvörnum, skráningu og góðum starfsháttum fyrr en gert var í ljósi allrar þeirrar umræðu sem fram fór um kynferðisbrot presta innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar á heimsvísu síðustu áratugi.

Rannsóknarnefndin hefur sem sagt rekið sig á vegg snemma í rannsókninni þar sem henni er ætlað að rannsaka meint mistök, vanrækslu eða vísvitandi þöggun, þann vegg að annað hvort hafa gögn verið skráð og þeim síðan eytt, eða þá að gögnin voru aldrei skráð. Aðferðafræði nefndarinnar til að komast að niðurstöðu er að rekja hvernig og hvenær ásakanir voru settar fram. Síðan segir:

Í ályktunum sínum telur rannsóknarnefndin rétt að ganga út frá því að samkvæmt viðurkenndu verklagi kirkjunnar hafi prestum, nunnum og öðrum starfsmönnum borið að tilkynna biskupi um öll tilvik þar sem grunur lék á því að ofbeldi hafi átt sér stað. Það hafi þá verið á ábyrgð biskups að tryggja að mál yrði skráð og að það fengi réttláta og sanngjarna meðferð (bls. 98).

Rannsóknarnefndin tók viðtöl við fjölda fólks sem taldi sig hafa orðið fyrir kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi í Landakotsskóla og sumarbúðum kirkjunnar í Riftúni. Hún greinir frá því að fram komi í vitnisburðunum að komið hafi verið á framfæri kvörtunum og ásökunum og ofbeldi séra George, Margrétar og fleiri aðila allar götur frá 1964. Foreldrar og börn hafi rætt við nunnur, presta, biskupa, kennara og starfsfólk eða gert tilraunir til þess (bls. 99-107).  Vegna þess að skráningar vantar og þeir starfsmenn sem um ræðir séu meira og minna látnir ályktar rannsóknarnefndin almennt um þetta tímabil að „skort hafi á að starfsfólk kirkjunnar hafi sýnt dómgreind í verki“,  en telur að öðru leyti erfitt að álykta um umrætt tímabil og einbeitir sér að viðbrögðum eftir 1988 þegar heimildir og heimildarmenn eru frekar fyrir hendi.

Í ályktun nefndarinnar kemur fram að systir Immaculata og séra Patrick hafi vanrækt að tilkynna yfirmönnum sínum um ásakanir (bls. 108). Nefndin telur líka að biskup Jolson hafi sýnt alvarlega vanrækslu með því að bregðast ekki við tilkynningum sem honum var kunnugt um, auk þess sem hann hafi sýnt vanrækslu í að sjá til þess að upplýsingar um þessar ásakanir væru skráðar og varðveittar (bls. 109).  Biskup Gijsen hafi einnig gert mistök í að eyðileggja umslag sem talið er kann hafa innihaldið upplýsingar um óviðeigandi háttsemi séra George. Rannsóknarskýrslan telur biskup Gijsen sekan um alvarlega vanrækslu. Hún telur sitjandi biskup, biskup Burcher hafa vanrækt skyldur sínar (bls. 111). Nefndin telur séra George hafa vanrækt að bregðast við ásökunum um einelti Margrétar Muller (bls. 114). Hún telur að séra Hjalti hafi sem skólastjóri Landakotsskóla vikið sér undan því að taka á málum Margrétar (bls. 116).  Nefndin telur að biskuparnir Jolson, Gijsen og Frehen og skólastjórinn séra Hjalti hafi bælt niður ásakanir um andlegt ofbeldi Margrétar og þar með gert sig seka um þöggun (bls. 116).

Hvað varðar seinna hlutverk nefndarinnar þá gagnrýnir nefndin starfshætti rómversk kaþólsku kirkjunnar í meðferðum upplýsinga og ásakana um ofbeldisbrot og tekur hana ranga (bls. 119). Einnig er gagnrýnt að prestar og starfsfólk kirkjunnar fái enga fræðslu um íslensk lög og reglur og þá ekki síst vanþekking presta á barnaverndarlögum. Nefndinni finnst sérstakt áhyggjuefni hvernig rómversk-kaþólskum prestum sem hún ræddi við finnst nauðsynlegt að vega og meta vitnisburði barna áður en þeir ákveðið hvernig viðbragða verði gripið til (bls. 123) og kemur síðan með leiðbeiningar um fyrirmyndarvinnubrögð.

Fagráð rómversk kaþólsku kirkjunnar á Íslandi er síðan skipað 5. nóvember 2012, sem hefur eitt að meginviðfangsefnum sínum að meta bótarétt þolenda kynferðisofbeldis og annars ofbeldis. Í kjölfarið lýsti fagráðið eftir því að heyra í þolendum fyrir 1. júní 2013.  17 kröfugerðir bárust og birti fagráðið niðurstöðu sína 15. nóvember s.l. Niðurstaða hennar er sú að ein krafa sé bótaskyld. Kaþólska kirkjan send út fréttatilkynningu, sagðist hafa sent öllum þolendum bréf og almenna fyrirgefningarbeiðni , en öll málin væru fyrnd og kirkjan ekki bótaskyld. Þvínæst hrósar kirkjan sér í hástert fyrir að hafa varið tíma, orku og peningum í að upplýsa málið og lýsir sig reiðubúna til að annast sálusorgun, „enda sé það hlutverk hennar“.+

Ég gerði í upphafi viðtal við ungan mann í DV í dag að umtalsefni. Hann fékk 82.070 krónur af frjálsum framlögum af því að kirkjan taldi sig ekki bótaskylda gagnvart honum.

Eftir að hafa þrílesið fréttatilkynninguna óg farið í gegnum rannsóknarskýrsluna finnst mér mál þetta allt með ólíkindum. Gerendurnir í kynferðis-, ofbeldis og eineltismálunum eru látnir. Það sem hins vegar stendur eftir og rannsakað var var stjórnsýslan, viðbrögðin, starfshættirnir. Dómurinn sem eftir stendur er ótvíræður. Hann fjallar um að þau hafi höggvið sem hlífa skyldu, að valdamikið fólk í rómversk-kaþólsku kirkjunni hafi séð í gegnum fingur sér, gert mistök, sýnt vanrækslu, sýnt alvarlega vanrækslu, bælt niður og þaggað ásakanir um ofbeldi. Það er skömm að því, skömm sem rómversk-kaþólska kirkjan á Íslandi ber vegna þess að hún gætti ekki nógu vel að börnunum sem henni var treyst fyrir og hafði hag þeirra ekki í fyrirrúmi. Kirkjan hefði að horfast í augu við þessa skömm með því að greiða þolendunum myndarlegar miskabætur. Ekki vegna þess að þær bætur yrðu endilega sóttar með lögum, þar sem fyrningar og lagakrókar eru í fyrirrúmi, heldur vegna þess að kirkja sem vill njóta trúnaðar fólks skammast sín þegar hún hefur gert rangt. Hún skuldar fólki þann trúnaðarmiska.

Að lokum vil ég taka undir orð fréttatilkynningar. Sálusorgun er hlutverk kirkjunnar. Það var hlutverk hennar að hlusta á föðurinn sem kom 1964. Og börnin sem sögðu nunnunni frá árið 1985. Og prestinum árið 1989. Og biskupnum árið 1990. Og öllum hinum.

Myndin er tekin af vef Reykjavíkurborgar

landakotskoli (Large)

9 svör við “Rómversk-kaþólska kirkjan greiðir „bætur“”

  1. Og fyrir að ræða skýrlsuna og notkun hennar var mér útúðað sem andstyggilegum manni.

    Þér til upplýsingar séra Sigríður, þá fékk rannsóknarnefndin upplýsingar frá mér, en valdi aðeins að birta ummæli þeirra sem halda því fram að nýðst hafi verið á þeim. Ég var þó sá fyrsti sem sagði frá illsku Margrétar Müller.

      1. Sæll, ég eyddi athugasemdinni.

  2. Það kemur víða fram í rannsóknarskýrslunni að tilgangur hennar er ekki að sanna eða afsanna ásakanir á hendur starfsmanna Landakotsskóla. Tilgangur hennar er sá að rannsaka stjórnsýslu og viðbrögð fólks sem starfaði hjá rómversk-kaþólsku kirkjunni við ásökunum um kynferðisofbeldi og annað ofbeldi. Niðurstöður skýrslunnar eru mjög skýrar. Nefndin telur að yfirmenn kirkjunnar hafi gert mistök, sýnt af sér vanrækslu, alvarlega vanrækslu og þöggun. Efni þessarar greinar er að rekja þessar niðurstöður sem hafa farið furðu hljótt í fjölmiðlum og ég lýsi yfir undrun minni yfir þær litlu greiðslur sem bárust þeim sem sögðu frá hafi þurft að koma frá frjálsum framlögum.

  3. Þú dæmir hér fólk án sannana. Ekkert kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem sannar sekt tveggja útlendinga sem störfuðu hjá kaþólsku kirkjunni. Hversk konar prestur ert þú eiginlega? Hvar lærðir þú trúfræði, hvaða réttlæti fylgir þú? Á hvers vegum ert þú eiginlega?

      1. Viltu vera svo væn að skýra þennan hatursfulla dóm þinn yfir mér „arnork“, og koma fram undir fullu nafni. Það er ekkert andstyggilegt í því að benda á þá staðreynd, að menn eru ekki sekir fyrr sekt þeirra eru sönnuð.

        Er það ekki sannleikurinn sem getur verið viðbjóðslegur, þegar hann skyndilega brýtur niður lygaheim þinn? Barnagirnd og dæmdir barnaníðingar koma fæstir úr kirkjum. Mun fleiri starfa í alls kyns barna- og ungliðastarfi hjá íþróttafélögum osfr. Flest börn þegja ekki yfir þessum glæpum. Af hverju ættu 3-4 börn í sumarbúðum kaþólikka á Íslandi að gera það frekar en önnur börn. Viljið þið halda því fram að máttur kaþólsku kirkjunnar yfir börnunum hafi verið stærri og meira ógnandi en annara sem framið hafa ódæði gagnvart börnum á Íslandi?

        Lútherska kirkjan á Íslandi hefur einnig átt í vanda, eins og vart hefur farið framhjá nokkrum manni, og er hún búin að brennimerkja biskup sinn fyrrv., vel að merkja án sannana. Við eru komin aftur á tíma nornabrenna og múgæsingar þegar slíkt gerist.

        Að mínu mati, þó ég sé ekki kristinn, er trú ekki ástæðan fyrir því að við sjáum fjölgun í níðingshætti gagnvart börnum. Ég er nokkuð viss um að hann hefur alltaf verið til í jafnmiklum mæli og nú. Nú þora menn að tala um hann en sumir gera þetta fyrirbæri að eins konar trúarbrögðum

        Varast ber að dæma fólk sem er saklaust. Mér skilst að smiðssonurinn frá Nazaret hafi verið saklaus af öllum ásökunum. Barnaníðingar finnast líka á meðal trúleysingja og t.d. femínista, eins og mál sem komið hafa upp í Svíþjóð hafa sannað.

        1. Vinsamlegast haldið ykkur við efni greinarinnar í umræðum um hana á síðunni minni. Efni greinarinnar er rannsóknarskýrslan og hvernig rómversk-kaþólska kirkjan á Íslandi hefur brugðist við niðurstöðum þeirrar skýrslu.

          1. Og fyrir að ræða skýrsluna og notkun hennar var mér útúðað sem andstyggilegum manni.

            Þér til upplýsingar séra Sigríður, þá fékk rannsóknarnefndin upplýsingar frá mér, en valdi aðeins að birta ummæli þeirra sem halda því fram að níðst hafi verið á þeim. Ég var þó sá fyrsti sem sagði frá illsku Margrétar Müller.

            Gerð skýrslunnar og rannsóknarinnar var mjög ábótavant.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: