Frekja Freyju og minn eigin hæfismi

Það hefur komið mér á óvart hvað athugasemd Freyju Haraldsdóttur á Facebook 4. des. s.l. hefurvakið sterk viðbrögð. Þar gagnrýndi hún Vigdísi Finnbogadóttur fyrrum forseta fyrir að hafa notað orðasambandið að „Ríkisútvarpið væri nú fatlað“ um ástandið í kjölfar niðurskurðarins hjá RÚV. Vísir tók síðan stöðuuppfærslu Freyju upp sem frétt undir fyrirsögninni „Frú Vigdís móðgar fatlaða“ sem uppskar einar 70 athugasemdir, þar á meðal fræðslu (væntanlega til hins móðgaða fatlaða fólks) um það hvað orðið fötlun þýðir samkvæmt orðabók.  Freyja er samkvæmt „virkum í athugasemdum“ bæði frek og ofurviðkvæm.

Fyrir mér snýst þessi umræða aðeins um eitt og það er þetta:  „Getur ófatlað fólk tekið leiðbeiningum fólks með fötlun um það hvað því finnst vera viðeigandi og óviðeigandi orðræða um fötlun sína?“

Þetta er svona einfalt. Forræðishyggja og hroki gagnvart fólki með fötlun kallast hæfismi, á ensku ableism. Þetta er óvenjulúmsk kúgunaraðferð sem auðvelt er að flækja sig í.  Mig langar að nefna nýlegt dæmi um minn eigin hæfisma.

Það er ekki mjög langt síðan að ég ákvað að dusta rykið af gamalli prédikun sem ég hafði samið í árdaga í stað þess að semja nýja (Já, séra Sigvaldi lifir enn og ég flyt stundum gamlar ræður, sem ég tel eiga erindi aftur við fólk). Ræðan var skrifuð út frá texta í guðspjöllunum þar sem Jesús læknar daufdumban mann, þannig að hann getur skyndilega bæði heyrt og talað. Ég hef greinilega ekki lesið ræðuna nógu vel í gegn áður en ég fór með hana í stólinn, því að í miðri ræðu uppgötva ég það að ræðan fjallar um málefni döff einstaklinga í yfirfærðri merkingu um þann sem ekki hlustar um Guð og talar ekkert gott. Og þarna stóð ég í prédikunarstól Guðríðarkirkju og saup hveljur yfir því sem ég var í þann veginn að segja sóknarbörnunum og horfðist á meðan í augu við fólk með fötlun sem sat undir þessu. Ég endaði á því að skálda upp allan seinni hluta ræðunnar og flytja drynjandi tölu með öllu sem andinn blés mér í brjóst, því að ég uppgötvaði í miðri ræðu að þessi ágæta prédikun var fleytifull af hæfisma.

Það er ekki viðeigandi lengur að nota blindu sem tákn um andlega siðspillingu, þótt fólki hafi þótt það í fínu lagi á dögum Jesú. Það er ekki viðeigandi að tala um tregðu við að hlusta á boðskap Krists sem heyrnarleysi, þótt það hafi þótt sjálfsagt á fyrri öldum.

Það sem er hins vegar viðeigandi er að ófatlaðir einstaklingar eins og ég, Vigdís Finnbogadóttir og fleiri velmeinandi manneskjur hlustum á þau sem búa við fötlun og lærum af þeim að nota tungumálið á nýjan hátt.

Áfram Freyja „frekja“! Við þurfum á þessu að halda.

Ableism

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: