„Nýársdagur“ eftir Octavio Paz

Það fer vel á því að hefja nýtt ár á að snara ljóði eftir Octavio Paz:

NÝÁRSDAGUR
Árdyrnar opnast
eins og gáttir málsins
móti hinu óþekkta.
Í nótt sagðir þú við mig:
Á morgun
þurfum við að hugsa upp tákn,
teikna landslag, leggja á ráðin
á opnu dags og pappírs.
Á morgun þurfum við
að nýju
að finna upp veruleik heimsins.

Ég opnaði augu mín seint og um síðir.
Og sekúndubrot af sekúndu
upplifði ég það sem Astekarnir fundu,
meðan þeir biðu í ofvæni
á tindi fjallsins
eftir óvissu afturhvarfi tímans
gegnum brotna sjónarröndina.

Nei, árið hefur snúið aftur.
Það fyllti upp allt herbergið
og ég snerti það næstum með augnaráðinu.
Tíminn, án minnstu aðstoðar okkar
hefur á nákvæmlega sama hátt og áður
sett hús á tómar götur
breitt snjó yfir húsið
lagt þögn yfir snjóinn.

Þú hvíldir við hlið mér
og bærðir ekki á þér.
Dagurinn hafði fundið þig upp
en þú hafðir enn ekki kannast við
að vera uppfinning dagsins
eða að ég hefði mögulega verið fundinn upp líka.
Þú tilheyrðir öðrum degi.

Þú hvíldir við hlið mér
og ég sá þig, eins og snjóinn
sem svaf í sýndinni.
Tíminn, án minnstu aðstoðar okkar
finnur upp hús, stræti, tré
og sofandi konur.

Þegar þú opnar augun
göngum við, að nýju,
milli stundanna og uppfinninga þeirra.
Við göngum í sýndinni
og berum tíma og háttum hans vitni.
Kannski munum við opna dyr dagsins
og ganga inn í hið óþekkta.

Gleðilegt ár!
Octavio-Paz

2 svör við “„Nýársdagur“ eftir Octavio Paz”

  1. Takk fyrir þetta. Þýddir þú ljóðið sjálf?

    1. Já, ég gerði það. Mér fannst það svo fallegt.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: