Ég er miður mín yfir fréttum gærdagsins um að lögð hafi verið fram þingsályktunartillaga um viðræðuslit við ESB, en samkvæmt fréttum er yfirgnæfandi meirihluti innan beggja þingflokka við tillöguna.
Ég er í hópi þeirra sem vilja nýja stjórnarskrá og aukið lýðræði, þar sem vilji þjóðarinnar hverju sinni komi fram með sem skýrustum hætti. Íslenska þjóðin var á vegferð til beinna lýðræðis á árunum eftir hrun og tillögurnar að nýrri stjórnarskrá undirstrikuðu þessa þrá eftir nýrri sjálfsmynd og aukinni ábyrgð almennings á eigin framtíð.
Á síðasta kjörtímabili voru raddirnar um að þjóðin fengi að kjósa og að hlustað yrði á vilja þjóðarinnar sterkar innan stjórnarandstöðunnar. Til urðu hreyfingar, sem söfnuðu undirskriftalistum og þrýstingi til að koma umdeildum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og fólkið í landinu ræddi málin. Það kom á kjörstað og lýsti vilja sínum. Það axlaði ábyrgð á eigin framtíð.
Nú eru uppi aðrir tímar, þar sem sjálfsagðar og eðlilegar kröfur almennings um að fá að hafa áhrif á eigið líf eru hunsaðar. Stjórnarflokkarnir sýna með þessu gríðarlega forræðishyggju. Stjórnarskrármálið er í molum og íslensk þjóð fær ekki að kjósa um aðild að ESB.
Hvers vegna eru menn svona hræddir við lýðræði?
Færðu inn athugasemd