Hjaltatal

Frænka hans Rögnvalds mannsins míns hét Kristín Svanhildur Helgadóttir og var með afbrigðum ættfróð og skemmtileg kona. Við áttum ættfræðiáhugann sameiginlegan og þegar ég kom í heimsókn setti hún mig venjulega niður í stól og hóf mál sitt um sögu Hvítanesættarinnar. Hún hóf gjarnan mál sitt á því þegar ættfaðirinn Einar Tómasson prestur drukknaði í Vestmannsvatni og Hálfdán sonur hans (seinna prófastur) fór í fóstur hjá Jóni á Möðrufelli þar sem hann kynntist Álfheiði frændkonu sinni, sem seinna átti eftir að verða konan hans. Einu sinni sótti ég um Grenjaðarstað og reyndi að mýkja Aðaldælinga með því að segja þeim að forfaðir Rögnvalds hefði drukknað í Vestmannsvatni, en þeir létu sig ekki og annar fékk brauðið. Ég mæli ekki með að umsækjendur um brauð beiti þessu kosningatrikki.

Ég á dreng sem heitir Hjalti. Kristín frænka hans hafði oft sagt mér frá því hvernig Hjaltanafnið hefur borist mann fram af manni í ættinni allar götur frá Barna-Hjalta á Stóru-Borg sem Jón Trausti gerði frægan í ástarsögunni um Önnu á Stóru-Borg, en mér gekk illa að festa röðina í minni. Nokkrum árum eftir að ég vígðist til prests kom Helgi sonur Kristínar í heimsókn til okkar hjóna á Suðureyri. Ég bað hann um að segja mér sögu Hjaltanafnsins í ættinni og hann romsaði upp úr sér ættartölunni, enda glöggur eins og móðirin. Ég geymdi blaðið með tölu Helga lengi og mundi hana nokkuð vel, en nú virðist ég hafa glatað því.

Þegar strákarnir voru yngri og við vorum á ferðalögum undir Eyjafjöllum sagði ég þeim söguna af Önnu og Hjalta á Stóru-Borg. Ég held mikið upp á þessa sögu og hef alltaf verið stolt af hinum sögulegu tengslum við alla Hjaltana í ættinni. Mér finnst ég eiga eitthvað í þeim. Ég ákvað því á góðum degi að fletta upp Hjaltanafninu í ættinni og treysti á Íslenskar æviskrár eins og svo oft áður og Íslendingabók þar sem æviskrárnar þrýtur.

1. Hjalti Magnússon, bóndi á Stóru-Borg 1500-1570.

2. Magnús Hjaltason, lögréttumaður í Teigi í Fljótshlíð, f. um 1535.

3. Páll Magnússon, bóndi á Heylæk í Fljótshlíð, f. um 1580.

4. Hjalti Pálsson, bóndi í Teigi í Fljótshlíð,  um 1610-1650.

5. Dómhildur Hjaltadóttir,prestsfrú í Möðrudal á Fjalli og síðar Þingeyrarklaustri, um 1639-1715.

6. Hjalti Þorsteinsson, prestur og málari í Vatnsfirði, f. 1665-1754.

7. Guðrún Hjaltadóttir, bjó í Vatnsfirði f. um 1699.

8. Þorbergur Einarsson, prestur á Eyri í Skutulsfirði, 1722-1784.

9. Hjalti Þorbergsson, prestur á Stað í Grunnavík, 1759-1840. Nefndi sig Thorberg.

10. Ólafur Hjaltason Thorberg, prestur á Þingvelli, 1792-1873.

11. Kristín Ólafsdóttir Thorberg, húsfreyja á Hvítanesi, 1835-1894.

12. Hálfdán Einarsson, bóndi á Hesti, 1863-1938. Systkini Hálfdáns voru Helgi Guðjón 1876-1936, Hjalti 1873-1954 og Ólöf Svanhildur 1880-1965 meðal annarra.  Helgi og Svana ólu upp tengdamóður mína Helgu Svönu Ólafsdóttur á Skarði í Skötufirði, þar sem Helgi var bóndi og hreppstjóri og Svana stýrði búi. Helgi var faðir Kristínar Svanhildar sem áður er getið. Við lát Helga fluttust þær nöfnur til Hjalta bróður Svönu sem var sjómaður í Bolungarvík.

13. Hálfdán Ólafur Hálfdánarson, bóndi í Tröð og sjómaður í Bolungarvík, 1891-1973.

14. Helga Svana Ólafsdóttir, kennari í Bolungarvík, 1926.

15. Rögnvaldur Guðmundsson, MBA í Reykjavík, 1963.

16. Hjalti Rögnvaldsson, sérfræðingur í samskiptamiðlun, Kópavogi, 1987.

Þannig hljóðar Hjaltatal frá Barna-Hjalta til Hjalta míns.

Hjalti á stóru borg

 

Mynd frá uppfærslu Leikfélags Austur-Skaftfellinga á Önnu á Stóru-Borg tekin af Vísi.is 14. apríl 2014.  

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: