Hoppað í Paradís

Prédikun á páskadag í Guðríðarkirkju 20. apríl 2014

Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins
að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin. Sl. 118

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Steinn flýgur um loftið
og ég tek stökkið á eftir honum,
lendi naumlega inn í ferhyrningnum
og berst við að halda jafnvæginu.
Ég er með sand á hnjánum og strá í hárinu
því að það er vor á Seltjarnarnesi.
Ég er glöð því að ég gat stokkið alla þessa löngu leið
og hróðug yfir árangrinum.
Ég set steininn í vasann og brosi
því að nú er svo stutt eftir,
ég stekk inn í hringinn sem opnar sig móti mér
og mér léttir,
heimleiðin verður ljúf.

Einn af uppáhaldsleikjum mínum sem barn var að hoppa í parís.
Við krakkarnir teiknuðum parís á stéttina ef við áttum krítar
eða krotuð hann í mölina og sandinn í fjörunni með steini.
Það voru aðallega við stelpurnar sem fórum í parís,
stundum létu strákar til leiðast að spila með okkur,
en ég man ekki eftir því
að strákar hafi einir hoppað í parís í uppvexti mínum.
Þetta var stelpuleikur.
Einu sinni þegar ég var 7 eða 8 ára
komu frændur mínir af Austfjörðum í heimsókn
og ég bauð þeim í parís.
Strákarnir sættust á það, með því skilyrði
að leikinn væri hnífaparís með vasahnífunum þeirra.
Þetta er skuggalegasti parís sem ég hef spilað,
en hélt þó öllum tám á eftir.

Ekki vissi ég þá að parísarleikurinn
er iðkaður um víða veröld
og gengur undir ýmsum nöfnum.
Víða í Evrópu ber leikurinn með sér trúarlegt táknmál.
Í Danmörku og Noregi er talað um at hoppe paradis
og frá Danmörku barst leikurinn til Íslands.
Til eru heimildir í orðasöfnum um
að leikurinn hafi fyrst verið kallaður paradís hér á landi
og síðar styttur í parís.
Í Þýskalandi leika krakkar sér í Himmel und Hölle
eða himni og helvíti.
Og víða í rómönskum löndum er talað um leikinn sem la peregrina
eða litla pílagríminn.

Á páskadegi gleðjumst við yfir sigri lífs yfir dauða
og fögnum því að enn á ný hefur vonin sigrað óttann og dauðann.
Og þá leitar eitthvað svo undarlega á mig
þessi minning af parísarleikjum frá æskuárunum,
hendur sem grafa parís í fjörusand,
hlátrasköll og gleði sem óma í höfðinu,
steinn sem fer í vitlausan reit,
vonbrigðin að stíga á strik,
að skrika fótur, að detta á rassinn,
að spila stundum hættulegan parís með hnífum.

Og ég velti því fyrir mér hvort parísinn sé ekki gott tákn
fyrir göngu lífsins með öllum sínum bakföllum og sigrum,
sínum skörpu andstæðum á góðum dögum og vondum,
á myrkri vonbrigða og kvíða
og síðan borginni góðu sem bíður við enda göngunnar.
Hún er Paradísin,
himininn,
upprisan,
lífið sjálft
sem gefur okkur von og kjark
og gerir okkur kleift að halda leiknum áfram,
henda steininum aftur,
hoppa í einn gluggann enn,
þótt við séum hvorki fótviss eða með gott jafnvægi
litlir pílagrímar í parís.

II.

Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins
að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin.

Lexía heilags páskadags er lofgjörðarsálmur frá fornri tíð.
Í upphafi þakkar skáldið Guði fyrir gæsku í sinn garð.
Það lýsir þungri reynslu sem það hefur orðið fyrir:

Í þrengingunni ákallaði ég nafn Drottins…
framandi þjóðir umkringdu mig….
þeir umkringdu mig eins og býflungasveimur,
fuðruðu upp eins og eldur í þyrnum…
mér var hrint og var nærri fallinu,

segir skáldið.

Og svo gengur það af stað inn í musterið í helgigöngu með öðru fólki.
Fagnaðar- og sigurhrópin óma
og skáldið upplifir gleði og létti,
meðan það lætur berast með straumnum inn í hið heilaga rými.
Guð hefur bænheyrt skáldið,
hjálpað því í þungri raun.
Og það syngur við raust:

Ég mun eigi deyja heldur lifa
og kunngjöra dáðir Drottins.

Kannski hefur Jesús rifjað upp þetta forna bænamál
þegar hann gekk í fyrsta sinn inn í musterið tólf ára að aldri.
Kannski komu þessi orð í huga hans
þegar hann gekk í musterið fáum dögum fyrir dauða sinn,
þegar allt var orðið svo breytt
og hann átti þungan tíma og sársauka í vændum.
Kannski hugguðu þau hann á dauðastundinni.
Kannski vonaðist hann til þess að verða hyrningarsteinninn
sem smiðirnir höfðu hafnað,
eins og sálmurinn segir.

Á páskadaginn verður þessi hornsteinn kristninnar til.
Steinninn sem loka átti inni dauðann og ofbeldið
sem Jesús hafði verið látinn þola
verður tákn um eitthvað annað og betra
en ósigur og myrkur.
Þess vegna eru orð sálmaskáldsins túlkuð upp á nýtt
í ljósi dauða og upprisu Jesú Krists.
Hún hefur sérstaka merkingu fyrir okkur sem komum saman
til að fagna því að steininum hefur verið velt frá.
Og það er ástæða til að fagna,
fagna því að við getum sett steininn í vasann,
andað léttar í borginni góðu,
þar sem allir eru öruggir,
þar sem enginn stígur á strik
þaðan sem heimferðin er auðveld og stökkin létt.

Það er erfitt að trúa því stundum
að það sé til nein borg, nein paradís
neinn hringur við enda paríssins.
Þegar við berum heiminn á herðum okkar
og sjáum ekki út úr kvíða, angist og veikindum,
þegar okkur finnst Guð hafa yfirgefið okkur
eins og Kristur sagði á krossinum
þegar veröldin er eins og allt sé á ská,
þar sem steinum hefur verið skipt út fyrir hnífa
við getum ekki neitt rétt og rekum okkur sífellt á nýjar og nýjar hindranir
er ekkert auðvelt að trúa því að við séum komin í örugga höfn.
Mörgum kann að líða eins og þeir séu fastir í endalausum parís,
þar sem sífellt þarf að kasta steininum lengra
og taka lengra stökk inn í næsta ferhyrnda glugga.

Þannig segir guðspjallið líka að konunum hafi liðið.
Þær stóðu í gröfinni og skelfdust.
Í elstu útgáfu sögunnar segir að þær hafi farið heim
og ekki sagt nokkrum manni frá
því sem fyrir þær hafði komið.
Nýtt steinkast, nýtt stökk út í óvissuna.
Og stökkið það verður alltaf örvæntingarfyllra og ómarkvissara,
dæmt til að mistakast.

Eða hvað?
Hvað merkir það að Kristur sé upprisinn og hafi sigrað dauðann?
Hvað varðar þessi fullyrðing mig og þig?
Hvað þarf að gerast til þess að okkar steini verði velt frá
og áhyggjum og angist létti?
Hvað getur orðið til þess að páskar brjóti sér leið
inn í hjarta sem er fullt af angist og kvíða,
opni fyrir sólskin og villta gleði
í mínum parís og þínum, hér og nú?

III.
Þegar ég var barn og teiknaði parís í sandinn með leikfélögum mínum
hugsaði ég um parísinn eins og manneskju sem lá á jörðinni.
Fyrst teiknuðum við fótastokkinn, þrjá glugga, hvern upp af öðrum
og síðan tvo glugga hlið við hlið upp af þeim
sem voru hendurnar á kallinum eða kellingunni,
þá einn glugga fyrir hálsinn og loks risastóran hring fyrir hausinn.

Hringur er tákn eilífðarinnar að kristnum skilningi,
ferhyrningur er tákn mennskunnar,
lífi á jörðu sem að fornu var talið samansett af eldi, lofti, vatni og jörð.

Það eru til kenningar um það
að parísarleikirnir í Evrópu hafi orðið til
sem eftirmyndir stóru miðaldasteinkirknanna,
basilíkanna sem byggðar voru í krossformi.
Krossforminu, basilíkunni og mannsforminu svipar saman
og í fyrra Korintubréfi talar Páll einmitt um kirkjuna sem líkama Krists
sem hefur Krist að höfuði.
Fótastokkur paríssins samsvarar fremri hluta kirkjuskipsins,
svo koma útskotin tvö,
og loks er gengið upp að altarinu, örugga staðnum,
þaðan sem fólkið þáði boðskapinn um öryggi, ljós, gleði
og sigur yfir dauða,
sem það tók með sér út í lífið aftur.
Við kirkjudyrnar, í myrkrinu í vestri
var skírnarfonturinn sem vísaði mönnum leið,
og síðan var gengið á móti austrinu,
til upprisusólarinnar sem braust fram fyrir ofan altarið.

Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins
að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin.

Sumir hafa látið sér detta í hug
að börn hafi fundið teikningar byggingarmeistaranna
og séð úr þeim líkama og skemmtilegan leik,
teiknað basilíkurnar á jörðina og búið til sína eigin leiki,
eigin pílagrímagöngur,
þar sem myndmáli líkama og kirkju, sigurs og ósigurs
lífs, erfiðleika, helgigöngu og upprisu
eru gerð skil með einfaldri teikningu og einum steini.

Þegar ég var barn
þurfti sú eða sá sem vildi verða góð/ur í parís
helst að eiga nógu góðan stein
sem hægt var að miða vel með í kassana.
Sléttu steinarnir í fjörunni voru bestu parísarsteinarnir,
þungir og sléttir og féllu til jarðar með dynki
einmitt þangað sem maður vildi að þeir færu.
Fyrst kastaði maður í fyrsta hólfið og stökk þangað,
sótti steinninn og stökk í næsta glugga
allt þar til maður var kominn í hausinn.
Svo varð að halda vel jafnvægi en það gekk ekki alltaf vel,
því stundum var stigið á strik
og stundum datt maður aftur fyrir sig og þurfti að byrja aftur.

Ég man alltaf hvað það var gott
þegar ég var búin að stökkva langa leið
og komin alla leið í borgina stóru við enda paríssins.
Þar var nóg pláss til að snúa sér við og engin hætta á að stíga á strik.
Þaðan var heimleiðin aftur til baka stutt og auðveld.
Eftir öll þessi ár, kallar stóri teiknaði hringurinn í barnaleiknum
fram hjá mér öryggi, hreykni og gleði,
eins konar páskatilfinningu minninganna.

Hoppið okkar, tilvist okkar
tengir okkur saman sem líkamlegar og andlegar verur,
sem tökum út andlegan sársauka og gleði á líkama okkar
og upplifir líkamann á andlegan hátt.
Við getum rifjað upp þessar góðu gömlu minningar
og séð í þeim parísinn okkar, lífsparís, sem leiðir okkur til paradísar
eftir hopp og stökk og ótal stig á strik.
Í þeim parís erum við ekki í keppni við neinn.
Steinaköst okkar eiga eftir að geiga stundum,
við eigum eftir að stíga á strikin, detta aftur fyrir okkur og reka olnbogana í.

En það sem máli skiptir, er að Kristur er upprisinn
að líkaminn er lifandi og höfuðið er Kristur.
Og þess vegna gerir ekkert til
þótt við séum lengi að ganga inn eftir þessu gólfi
tökum mörg hopp út í loftið og þurfum að byrja aftur stundum.
Páskarnir eru fyrir okkur öll, paradísin og parísinn.
Lífið okkar er pílagrímsganga með mörgum ljúflingsleiðum
og öðrum þyngri allt í áttina til páskanna,
til upprisunnar og gleðinnar
sem gefur okkur kraft til að horfast í augu við dauðann
og annað sem þyngir líf okkar,
og hoppa út í annan dag af okkar hversdagslega lífi.
Gleðilega páska!

Ég finn yl af páskasól í lofti.
heyri skvaldrið í krökkunum fyrir aftan mig
heyri ölduna gjáfra við fjöruborðið.
Bráðum nær hún alla leið að parísnum
og þurrkar hann út
en það er allt í lagi
við búum bara til nýjan parís seinna.
Það er þari á ströndinni
og salt í loftinu.
Ég kasta steininum hátt og nákvæmt
og svo stekk ég
beint
inn
í
Paradís.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: