Prófasturinn og skógarbjörninn…. eða Afmælisboð

Varúð!  Afmælisboð!

Fimmtíu ár eru stór hluti af einu mannslífi. Meira en helmingurinn. Meira en helmingur lífsins er liðinn og vel það. Og hvað hafði Oskari afrekað? Var trú hans ennþá fölskvalaus og sterk? Oskari Huuskonen hafði lagt stund á og orðið doktor í guðfræði, verið settur til þjónustu í eigin söfnuði, skipaður í kirkjulegt embætti, átti fjölskyldu og þennan sumarbústað. Það var ekki svo mikið.

„En ég á þó minn eigin skógarbjörn!“

Þannig segir finnski rithöfundurinn Arto Paasilinna frá Oskari Huuskonen sem er doktor í guðfræði, prófastur í hinni evangelísku lúthersku kirkju í Finnlandi og frekar sérkennilegur maður að dómi sóknarbarnanna. Í upphafi bókar verður Oskari fimmtugur.  Sóknarbörnin taka upp á því að gefa honum skógarbjarnarhún í afmælisgjöf en móðir húnsins hafði einmitt elt kökumeistara bæjarins upp í rafmagnsstaur eftir að hafa étið allar kökurnar sem áttu að vera í afmæli prófastsins. Birnan og kökugerðarkonan komust báðar í kast við rafmagnslínu, húnninn varð munaðarlaus og kökulaust í fimmtugsafmælinu . Bókina „Prófasturinn og hans stórundarlegi þjónn“ las ég á flugvelli í Þrándheimi í nóvember á leið til Íslands og skemmti mér svo vel að ég gleymdi handfarangrinum á flugvellinum. Enda er ég sjálf að verða fimmtug eftir hálfan mánuð og á sitthvað annað sameiginlegt með Oskari prófasti.

En ég á reyndar engan skógarbjörn.

Nema hvað.

Ég er sem sagt að verða fimmtug og ég hlakka mikið til. Ég á afmæli á dramatískasta degi ársins þegar Brútus drap Sesar forðum, 15. mars. Eftir því sem ég verð eldri verð ég kátari og þakklátari yfir því að draga enn andann, hafa lesð svona margar skemmtilegar bækur og hafa svona mikla gleði af vinum og ættingjum. Og 15. mars ber einmitt upp á sunnudag í ár, hvað gæti verið heppilegra?

Af lævísi minni skipulagði ég vikulagt árvisst námsleyfi presta í prófastdæminu á þann hátt að ég væri heima á Íslandi á afmælisdaginn. Það er mér hjartans mál að eyða fimmtíu ára afmælisdeginum mínum með því að hitta vini mína, samstarfsfólk og kunningja sem ég hef kynnst á langri ævi, ættingjana sjónumfríðu, kollegana frómu, öll þau sem ég hef kynnast á flakki um landið og miðin og allar lífverur undir sólinni nema snáka og köngulær.

Þess vegna læt ég það boð hér með út ganga að ég ætla að messa í Guðríðarkirkju á dánar- og fæðingardegi okkar Sesars 15. mars næstkomandi klukkan ellefu að staðartíma. Og ég vona innilega að ég fái að sjá ykkur sem flest á kirkjubekkjunum. Vel getur verið að ég ræði svolítið í prédikuninni um örlög Oskari prófasts og skógarbjarnarins og hvað gerðist þegar Oskari var að æfa sig í lóðréttu spjótkasti og biskupinn kom í heimsókn. Það er almennileg saga og vel einnar ferðatösku virði. Og prédikunar. Það verður kirkjukaffi eftir messu, ég splæsi í bakkelsið og kökumeistarinn hefur fengið skýr skilaboð um að halda sig fjarri rafmagnslínum og skógarbirnum. Þið eruð boðin bæði í messu og kaffi, eða bara messu eða bara kaffi eftir því sem ykkur hentar best. En það myndi gleðja mig mjög ef sem flestir þeim sem mér þykir vænt um og hef kynnst gætu komið. Þau eru mörg, sem betur fer og þá hefur maður ekki lifað til einskis.

Oskari fannst hann helst hafa borið það úr býtum á lífsferlinum að eignast skógarbjörn. Nú vill svo til mér er fárra hluta vant og mig langar ekkert sérstaklega í bjarnarhún. Það einasta sem mig vantar eru orgelpípur.

Guðríðarkirkja í Grafarholti hefur verið að safna fyrir orgeli í allnokkur ár og orgelið hefur verið smíðum hjá Björgvini Tómassyni á Eyrarbakka. Nú eru loksins horfur á því að hægt verði að setja upp orgelið í kirkjunni í vor og mig langar til að leggja hönd á nótnaborð.  Ef ég fengi að vera innan um vini mína á afmælisdaginn og fengi orgelpípur í afmælisgjöf væri fögnuður minn fullkominn. Það má halda ræður í kaffinu ef þær eru stuttar, skemmtilegar og fjalla allar um mig. Gaman væri að fá nokkur falleg afmæliskort með péning og þeir sem hafa viðurstyggð á afmæliskortum geta lagt inn á orgelreikninginn  reikn 0114-15-380396 og merkt framlagið afmælinu.

„Fimmtíu ár eru stór hluti af einu mannslífi“ og mig langar að fagna. Verið velkomin í afmælið mitt 15. mars.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: