Tag: eftirlaun

Eftirlaun biskupa

Mér finnst mikilvægt að það verði aftur kosningar á árinu 2018, verði ég biskup. Þá eru siðbótarafmælið mikla liðið, en á árinu 2017 eru 500 ár frá því að Marteinn Lúther negldi upp skjal í 95 greinum á kirkjudyrnar í Wittenberg. Kirkjan þarf alltaf á siðbót að halda og í lok árs 2017 vænti ég þess að búið að ganga frá nýju frumvarpi til þjóðkirkjulaga sem breytir mjög stöðu biskupsins. Ég er sannfærð um að margt annað gott og gagnlegt hafi gerst í þjóðkirkjunni á þeim tíma.  Þá væri gott að kjósa aftur og eftir nýjum lögum. Þess vegna gef ég kost á mér til takmarkaðs uppbyggingartíma fram yfir siðbótarafmæli. Ég hef ekki áhuga á að sitja til sjötugs.

Í dag barst mér góð spurning sem tengist því að ég gef einungis kost á mér til skamms tíma. Spurningin er um eftirlaun biskupa og fjallar um það hvort biskupar sem láta af störfum á besta aldri geti lifað hamingjusamir til æviloka á uppsprengdum eftirlaunum á kostnað kirkjunnar eða almennings.

Svarið er nei. Biskupar njóta ekki eftirlauna á sama hátt og forseti Íslands, ráðherrar, alþingismenn og hæstaréttardómarar. (Lögin um eftirlaun þeirra frá árinu 2003 voru reyndar numin úr gildi fyrir þremur árum, en þeir sem hafa þegar áunnið sér eftirlaunarétt halda þeim, sjá hér).

Ólíkt þeim sem lögin um eftirlaunarétt fjalla um eru biskupar opinberir starfsmenn eins og prestar og greiða í lífeyrissjóð af tekjum sínum. Ég hef minn lífeyri sem ég safna  eins og aðrir opinberir starfsmenn. Ég verð ekki orðin nógu gömul til að hætta á fullum eftirlaunum árið 2018. Verði ég biskup í ár og láti síðan af embætti á árinu 2018, er líklegast að ég myndi fara aftur í prestsskap eða háskólakennslu að biskupstíðinni lokinni og þiggja síðan eftirlaun í samræmi við það, þegar ég verð sjötug. Allt eru það greiðslur sem ég hef safnað fyrir sjálf á minni starfsævi með því að greiða í minn lífeyrissjóð.

Lífeyrismál biskupsins eru þannig allt öðruvísi en lífeyrir forsetans og engin hætta á að fólk sitji uppi með raðir af fyrrverandi biskupum á topp eftirlaunum. Þó að þeir hætti á besta aldri.