Kirkjan öllum opin

Þegar framtíðarsýn er mótuð fyrir íslensku Þjóðkirkjuna er ekki úr vegi að skoða skilning síðustu biskupa á því hvað kirkja er og hvaða hlutverki biskupsembættið þjónar í kirkjunni. Ég fletti upp í hirðisbréfi Péturs Sigurgeirssonar biskups sem var biskup á árunum 1981-1989. Biskupar senda söfnuðum og vígðum þjónum hirðisbréf eða encyclical (sem þýðir eiginlega það sem dreift er) og þykir gott að það sé samið snemma á ferli biskupsins.  Hirðisbréfið birtir bæði guðfræðilega sýn og stefnumótun hirðisins fyrir hjörð sína og er sent til uppörvunar, hvatningar og áminningar.

Hvað segir Pétur biskup um Þjóðkirkjuna, erindi hennar og stöðu biskupsins?

Pétur hefur mál sitt á kafla um fyrstu kristni á Íslandi, en gerir síðan grein fyrir viðhorfi sínu til kirkjunnar í nútímanum í öðrum kaflanum. Þessi kafli heitir sama nafni og hirðisbréfið allt, „Kirkjan öllum opin“.

Í kaflanum dregur Pétur margar fagrar líkingar af því hvernig kirkjan geti verið öllum opin. Hann bendir á himnastigann í fyrstu Mósebók 28 þar sem himnarnir stóðu opnir, stigi stóð milli himins og jarðar og englarnir fóru upp og niður eftir stiganum. Hann minnir á skírn Jesú í Jórdaná í Matt. 3, þar sem dúfan kemur af himni og kunngjörir hinn elskaða son, og dregur fram líkingu Jesú um sjálfan sig sem opnar dyr í Jóhannesi 10. Pétur skrifar:

Kirkjan er opin. Enginn getur lokað dyrum hennar. Við erum í Kristi og kirkju hans frammi fyrir Guði og játum með Ágústínusi kirkjuföður: „Því þú hefur skapað oss handa þér og hjarta vort er órótt uns það hvílist í þér.“ (bls. 20)

Pétur ver sérstökum kafla í að tala til æskulýðsins, hinnar ungu kirkju. Í kafla 13. fer Pétur síðan að tala um hina virku leikmannakirkju sem byggir á prestdómi trúaðra.

Kjarninn í hinum almenna prestdómi er sá, að kærleikur Guðs, sem Kristur auðsýndi, kemur til okkar gegnum fólk, er uppbyggist sameiginlega. Það verður hver að skilja að hann er kirkjan. Á því meginatriði byggist hið órjúfanlega samfélag kristinna manna. Þannig er kirkjan „Guðs hús“, „uppbyggt af lifandi steinum“. (73)

Þegar almenna prestdómnum hafa verið gerð skil víkur Pétur sér að hinni vígðu þjónustu. Hann hvetur til þess að hin þrískipta vígða þjónusta biskups, prests og djákna verði tekin upp á Íslandi og sá draumur hans átti síðar eftir að rætast.

Íslenska þjóðkirkjan finnur sig í annarri samfélagsgerð en þeirri sem Pétur skrifar um til safnaða sinna. Nú tilheyra ekki lengur 90% þjóðarinnar þjóðkirkjunni og hún þarf að aðlaga sig nýjum veruleika, þar sem hún getur leikið stórt hlutverk, en þarf jafnframt að gera ráð fyrir öðrum leikendum. Engu að síður held ég að hin sterka og bjartsýna sýn Péturs sé einstaklega viðeigandi um þessar mundir. Við þurfum á kirkju að halda sem er opin öllum án tillits til kynferðis, aldurs stéttar, kynhneigðar, efnahags, kynþáttar og uppruna af því að Guð fer ekki í manngreinarálit og himinninn stendur öllum opinn. Eins tel ég að við getum mikið af hirðisbréfinu lært um það hvernig það umgengst hina vígðu og leiku þjónustu. Það er svo skýrt í bréfi Péturs að almennur prestdómur liggur til grundvallar öllu starfi kirkjunnar og hin vígða þjónusta er síðan sett til að hjálpa mönnum til að uppgötva þetta embætti. „Þannig er kirkjan „Guðs hús“, „uppbyggt af lifandi steinum“. Þannig verður kirkjan öllum opin.

Eitt svar við “Kirkjan öllum opin”

  1. […] leiðtogar” “Kirkjan öllum opin” “Lýðræði og ný þjóðkirkjulög” “Valddreifing og valdefling í […]

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: