Umdeildir leiðtogar

Biskupskosningar eru í fullum gangi og fólk í óðaönn að virða fyrir sér kandídatana, kosti þeirra og galla. Biskup íslensku þjóðkirkjunnar er leiðtogi hennar og einingartákn. Þess vegna segja sumir að fýsileg biskupsefni megi alls ekki vera umdeild í samtímanum. Leita verði að leiðtoga sem enginn styrr stendur um til þess að friður ríki í kirkjunni eftir langvarandi erfiðleika.

Ég hef tekið umdeildar ákvarðanir og er umdeild persóna.  Þeirri spurningu hefur verið varpað til mín hvort það myndi ekki sprengja kirkjuna í loft upp ef ég yrði biskup.  Og þess vegna má spyrja:  Getur Þjóðkirkjan borið umdeildan leiðtoga og getur sá leiðtogi einhvern tímann orðið það einingartákn sem biskupsembættinu er ætlað að vera?

Ég hef tekið ákvarðanir sem ég veit ekki hvort eru réttar. Ég til dæmis velti því oft fyrir mér hvort það hafi verið rétt af mér að bjóða mig fram til prestsþjónustu eftir Súðavíkurslysið 1995. Ég var tæplega þrítug þriggja barna móðir og tók yngri tvö börnin með mér vestur á firði, lagði litla barnið í hendur tengdamóður minnar í Bolungarvík, fékk inni fyrir hitt á leikskóla og keyrði Óshlíðina inn á Ísafjörð alla daga í verstu veðrum til að hjálpa til eftir snjóflóðið. Stundum lagði ég mig í lífshættu, einu sinni sá ég snjóflóð falla fyrir framan mig og keyrði næstum inn í nýfallið flóð öðru sinni. Það þurfti hugrekki og kraft til að gera það sem ég gerði og umhyggju fyrir þeirri kirkju sem ég þjóna. En ég hef aldrei vitað fyrir víst hvort ég tók rétta ákvörðun með tilliti til fjölskyldu minnar. Fjölskyldan hefur oft þurft að leggja mikið á sig vegna þess að ég er prestur af lífs og sálar kröftum. Og ég veit ekki hvort það hefur alltaf verið sanngjarnt sem ég lagði á hana. Þessa ákvörðun ég deili um við sjálfa mig í djúpi sálar minnar, en fæstir myndu gagnrýna mig fyrir hana í fjölmiðlum.

Aðrar ákvarðanir hef ég tekið að vandlega athuguðu máli jafnvel þótt ég vissi að ég yrði harðlega gagnrýnd fyrir þær. Það er ekki það sama fyrir hvað maður er umdeildur. Ég er umdeild fyrir skýra rödd í ýmsum réttlætismálum sem þjóðkirkjan hefur staðið fyrir á undanförnum árum.

Ég hef sótt stjórnsýslumál og jafnréttismál á hendur þjóðkirkjunni og verið stefnt fyrir Hæstarétt af sömu stofnun. Dóminn má lesa hér. Ákvörðunina um að fara í mál var ég lengi að taka. Ég taldi mig ekki eiga annars úrkosti ef að ætti að takast að bæta jafnréttið og stjórnsýsluna í þjóðkirkjunni. Þeirrar ákvörðunar hef ég ekki iðrast, þótt hún hafi kostað mig mikið. Og ég veit að hún hefur haft fordæmisáhrif sem nýst hefur til jafnréttis í kirkjunni og lagt þeim til rökstuðning sem vilja vegna reynslu sinnar og menntunar njóta sannmælis við stöðuveitingar.

Ég hef verið framarlega í flokki með þeim sem vildu að samkynhneigt fólk fengi réttindi til hjúskapar í þjóðkirkjunni. Við sem þar gegndum leiðtogahlutverki höfum stundum verið ásökuð um að vilja kljúfa kirkjuna. Því er ég ekki sammála. Að viðurkenna samkynhneigt fólk til jafns við gagnkynhneigt fólk er ekki klofningsákvörðun. Slíkt viðhorf gengur öllu heldur út á það að opna augun fyrir því að kirkjan er stærri og fjölbreyttari en við oft höldum.

Ég gekk líka fram fyrir skjöldu þegar málefni kvennanna sem ásökuðu Ólaf Skúlason um kynferðisbrot komu fram aftur árið 2010. Ég skrifaði grein þar sem ég lagði til að rannsóknarnefnd yrði skipuð um málið og barðist fyrir því að henni yrði komið á. Ég baðst líka afsökunar í sömu grein á að hafa ekki tekið eindregnari afstöðu árið 1996. Greinina má lesa hér. Og þegar rannsóknarnefndin hafði skilað skýrslu sinni talaði ég skýrt.

Já, ég er umdeildur leiðtogi og hef tekið ákvarðanir sem margir eru ósáttir við. Ég lít á þjóðkirkjuna sem annars vegar sem samband safnaða sem nærir prestdóm allra trúaðra sem vilja tilheyra henni og hins vegar sem stofnun sem þjónar þessum prestdómi trúaðra. Ég hef lagt líf mitt í hættu fyrir kirkju Krists, þjónað henni í meira en tvo áratugi, stefnt þjóðkirkjunni, verið stefnt af þjóðkirkjunni, ásökuð um klofning í þjóðkirkjunni, hef hvatt til rannsóknar á viðbrögðum þjóðkirkjunnar og sagt þá skoðun mína opinberlega að biskup eigi að taka ábyrgð.  Ég elska þjóðkirkjuna en það hefur oft verið mitt hlutskipti að vera fleinn í holdi stofnunarinnar.

Fleinar eru mikilvægir samviskuþornar sem reknir eru í síðu valds. Rosa Parks var fleinn. Anna Politkovskaya og Oscar Romero voru fleinar. Nelson Mandela er fleinn og Desmond Tutu. Kristinn siður geymir og heiðrar minningu marga fleina,  Martein Lúther sem stóð af því að hann gat ekki annað, Dietrich Bonhoeffer, Felicitas og Perpetúu. Ég er ekki að líkja mér við þetta afreksfólk réttlætis og trúar, en bendi á nauðsyn fleina fyrir samfélag trúar, vonar, kærleika og sannleika.

Samfélög þurfa á heiðarleika, hreinskilni og réttlætiskennd að halda til að öðlast heilbrigði. Og nú um stundir er mikil þörf á heilbrigði og umönnun í samfélagi og kirkju. Við þurfum að tala um fjölhyggju, umburðarlyndi, kærleika og trú, jafnrétti kynjanna og réttlætið, fátækt og misrétti,  landið okkar og umhverfisvernd, vonina og leitina að hinu nýja Íslandi. Við þurfum að tala skýrt og af einurð. Ég held að þegar við tökum afstöðu til umdeildra leiðtoga væri gott að líta til hins hebreska hugtaks um friðinn. Friður (sjalom) að hebreskum sið merkir ekki ládeyðu heldur hreyfiafl jafnvægisins. Slíkum friði nær aðeins sá leiðtogi sem getur haldið fleininum og einingunni í jafnvægi, réttlætinu og trúfestinni, fagnaðarerindinu og hinni opnu kirkju.

Þjóðkirkjan þarf að eiga sér fleina. En eiga þessir fleinar að verða biskupar? Og því er það ekki að ósekju sem menn spyrja:  “Ertu meira en fleinn? Ertu leiðtogi sem getur byggt upp?”

Ég get ekki svarað þeirri spurningu á annan hátt en að vísa í verkin mín síðustu tvo áratugi. Ég hef ræktað akur Drottins á Suðureyri og í Ólafsfirði og nú síðast í Grafarholti. Ég hef verið fleinn í opinberri umræðu, en ég hef ekki verið umdeildur prestur í þeim söfnuðum sem ég hef þjónað.  Ég hef verið lánsöm í mínum prestskap, hef notið góðs samverkafólks úr röðum sóknarnefnda á öllum þessum stöðum, hef fundið kraftinn sem leynist í byggingarnefndum, meðhjálpurum, kirkjuvörðum og öðru starfsfólki og sjálfboðaliðum. Nú síðast hef ég átt þátt í að byggja upp kraftmikið kirkjustarf í fagurri kirkju upp úr engu í Grafarholti.

Hér ríkir eining og eindrægni, hér hefur ekkert verið sprengt í loft upp og leiðtoginn situr á friðarstóli meðal annarra öldunga og unglinga safnaðarins. Þess vegna held ég að ég geti verið meira en fleinn. Þess vegna býð ég mig fram til biskupssþjónustu.

Geta fleinar orðið biskupar? Geta umdeildir leiðtogar skapað einingu? Getur friður skapast um slíkt fólk?  Í Davíðssálmi 85 segir að með Guðs hjálp geti aðstæður myndast þar sem “elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.” Þessi fleinn og umdeildi leiðtogi er tilbúinn til að leggja sig fram um að vinna í þeim anda á biskupsstóli.

2 svör við “Umdeildir leiðtogar”

  1. […] Eins og sjá má í könnun sem DV er að gera þessa dagana hefur Sigríður Guðmarsdóttir yfirburði yfir hina kandídatana, hún er komin með yfir 200 atkvæði eða „læk“, þegar þetta er ritað. Sá næsti á eftir er með 170. Velgengni hennar kemur mér ekki á óvart. Hún hefur verið áberandi undanfarið sem málsvari þeirra sem krefjast skýrra svara og úrlausna í ýmsum hitamálum. Bæði kynferðisafbrotamálum innan kirkjunnar, réttindi samkynhneigðra og ýmislegt fleira. Hún skrifar góða pistla á síðuna sína: sigridur.org, sá síðasti fjallar um það að hún lítur á sig sem efni í góðan leiðtoga. […]

  2. […] “Umdeildir leiðtogar” “Kirkjan öllum opin” “Lýðræði og ný þjóðkirkjulög” “Valddreifing og valdefling í kirkjukosningum”  “Lifur líkamans” “Þjóðkirkjan á breytingaskeiðinu” “Gegnum glerþakið” […]

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: