Saga sóknargjaldanna

Sóknargjöld hafa nokkuð verið í umræðunni undanfarin ár. Sumir telja að sóknargjöldin séu styrkur ríkisins til trúfélaganna á meðan aðrir telja þau vera félagsgjöld.

Í dag rakst ég á vef héraðsskjalasafna á Íslandi. Þar hefur verið tekið saman safn  hlekkja á fyrri lög um sóknarnefndir og sóknargjöld, sjá hér. Ég  rak nefið í þessi gömlu lög og langar í þessum pistli að rekja sögu sóknargjaldanna.

Sóknargjöld eiga upphaf sitt í tíundargreiðslunum 1096, fyrstu skattalöggjöf á Íslandi. Skyldi fjórðungi tíundargreiðslna varið til viðhalds kirkju, fjórðungi til prests, fjórðungi til biskupsstóls og fjórðungi til þurfamanna. Ari fróði segir í tíunda kafla Íslendingabókar frá því að tíund hafi ólíkt ýmsum öðrum löndum verið tekin upp með miklum friði á Íslandi:

Gizurr byskup var ástsælli af öllum landsmönnum en hverr maðr annarra, þeira er vér vitim hér á landi hafa verit. Af ástsælð hans ok tölum þeira Sæmundar, með umbráði Markús lögsögumanns, var þat í lög leitt, at allir menn tölðu ok virtu allt fé sitt ok sóru, at rétt virt væri, hvárt sem var í löndum eða í lausaaurum, ok gerðu tíund af síðan. Þat eru miklar jartegnir, hvat hlýðnir landsmenn váru þeim manni, er hann kom því fram, at fé allt var virt með svardögum, þat er á Íslandi var, ok landit sjálft ok tíundir af gervar ok lög á lögð, at svá skal vera, meðan Ísland er byggt.

Lengi var fjárhagur kirkna og prests í höndum höfðingja sem héldu presta á jörðum sínum, en deilt var um forræði yfir kirkjunum í Staðamálunum fyrri og síðari á tólftu og þrettándu öld.  Deilurnar voru hatrammar en lauk með sáttargjörðinni í Ögvaldsnesi 1297. Þá fluttust jarðir sem kirkjan átti að meira en helmingi yfir á forræði biskups, sem afhenti þær prestunum til léns. Áttu eignir brauðsins að standa undir framfærslu prestsins og viðhaldi og rekstri kirkjunnar. Bændur héldu hins vegar þeim jörðum sem þeir áttu að meirihluta.

Sóknarnefndir verða til með lögum nr. 5/1880 og áttu fyrst í stað að vera sóknarprestinum til aðstoðar um að efla reglu, siðsemi og uppfræðslu ungmenna. Tveimur árum síðar voru samþykkt lög nr. 20/1890 um að söfnuðurinn geti tekið að sér að innheimta tekjur kirkju. Ef greiðendur gátu ekki goldið í peningum gátu þeir reitt kirkjugjaldið af hendi í „sauðfénaði, hvítri ull, fisk eða dúni.“

Fyrstu lög um sóknargjöld eru nr 5/1909. Síðan hefur sóknargjaldanafnið festst við kirknaféð.  Sóknargjöldin voru á árinu 1909 lögð á allt þjóðkirkjufólk 15 ára og eldra og skyldi hver sóknarmaður greiða 75 aura á ári til umsjónar og fjárhalds kirkju. Um leið voru afnumin fyrri gjöld svo sem „ljóstollur, legkaup, lausamannagjald og skilduvinna sóknarmanna við kirkjubyggingu“. Með lögum nr. 29/1929 er upphæðinni breytt í 1 krónu og 25 aura og með lögum nr. 72/1941 er „rúmfast fólk 67 ára og eldri“ undanþegið sóknargjöldum.

Með lögum um sóknargjöld nr. 36/1948 er ákveðið að fólk sem tilheyrir öðrum trúfélögum en þjóðkirkjunni skuli greiða trúfélagsgjöld til síns félags sem nemi sóknargjöldum að lágmarki. Þau sem ekki tilheyra neinu trúfélagi eiga hins vegar að greiða gjald í prófgjaldasjóð Háskóla Íslands. Sóknarnefndirnar eiga sem fyrr að annast innheimtu sóknargjaldanna og í lögunum 1948 kemur fram að sóknarnefndirnar fái 6% sóknargjalda í innheimtuhlut. Sóknargjöldin voru nefskattur. Þó er það nýmæli í lögunum frá 1948 að ef tekjur sóknar hrökkva ekki fyrir útgjöldum er sóknarnefndum leyfilegt að jafna niður því sem á vantar sem hundraðshluta af útsvari skv. 3. grein, ef safnaðarfundur heimilar slíka ráðstöfun.

Sóknarnefndirnar voru innheimtuaðilar sóknargjaldanna allar götur frá lögunum 1909 og í mörgum tilfellum tóku þær við fjárhaldi kirknanna 1890, eins og áður sagði. Sóknarnefndirnar gátu líka falið oddvitum eða innheimtumönnum þinggjalda að innheimta sóknargjöldin og geta lögin frá 1948 þess að þessir tilkvöddu innheimtuaðilar eigi þá líka að innheimta gjöldin fyrir þau sem standa utan þjóðkirkju. Lögin nr. 24/1954 og 40/1964 fjalla um upphæð þá sem greiða skuli og er hún komin í allt að 100 krónur á ári en má í sérstökum tilfellum fara upp í kr. 250 á ári. Þar með hafa sóknarnefndir fengið ákveðið svigrúm til að ákveða sóknargjöld í sínum söfnuðum sjálfir eftir stöðu kirknanna.

Með lögum nr. 80/1985 voru gerðar miklar breytingar á sóknargjöldunum. Í stað þess að sóknarnefndirnar annist innheimtu nefskattsins eins og áður var, eru sóknargjöldin felld inn  sem hlutfall af útsvari allra gjaldskyldra manna 16 ára og eldri.  Sóknarnefndin skuli ákveða hversu hátt hlutfallið skyldi verða innan ákveðinna marka og á grundvelli fjárhagsáætlunar. Prófgjaldasjóður Háskólans hefur verið lagður niður og því runnu gjöld þeirra sem stóðu utan trúfélaga til Háskólasjóðs. Í lögunum frá 1985 er það nýmæli að lögbundin innheimta þeirra sem standa utan trúfélaga færist til sveitarfélaganna, en sóknarnefndirnar og forstöðuaðilar trúfélaga geta valið hvort þau rukka sóknargjöldin inn sjálf eða fela gjaldtökuna innheimtuaðilum sveitarfélaga.

Núverandi lög eru númer 91/1987 og voru sett samhliða nýjum skattalögum sem byggðu á staðgreiðslu. Frumvarpið um sóknargjöldin var lagt fram sem stjórnarfrumvarp af dómsmálaráðherra Jóni Sigurðssyni og skýrir hann anda laganna í framsöguræðu sinni sem nálgast má hér. Horfið var aftur til nefskatts frekar en hlutfalls. Lagður er á sérstakur tekjuskattur til að standa undir tekjustofnum þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga og ríkissjóður á að standa skil á tekjustofnum sóknanna. Í staðinn fyrir að sóknarbörnin greiði beint til sóknanna eins og verið hafði allar götur frá 1909, fá sóknirnar, önnur trúfélög og Háskólinn hlutdeild í tekjuskattinum.  Þrjú meginsjónarmið laganna eru tekin fram í athugasemdum með frumvarpinu (sem nálgast má hér). Fyrsta sjónarmiðið laganna er að að kirkjan haldi tekjustofnum sínum óskertum, í öðru lagi að reglurnar „tryggi stöðugleika á tekjustofnum sókna“ og í þriðja lagi að regluramminn verði þannig úr garði gerður að “ framkvæmd verði sem einföldust“.

Í greinargerðinni með frumvarpinu var aðferðafræðinni við útreikning sóknargjaldanna lýst á svohljóðandi hátt:

Þessari fjárhæð er deilt niður á alla sem hafa náð 16 ára aldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári miðað við 31. desember 1986 og síðan fundin út grunntala sem er mánaðarleg greiðsla sem ríkissjóði ber að skila fyrir hvern mann 16 ára og eldri. Grunntala þessi breytist einu sinni ári er samsvarar þeirri hækkun er verður á tekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan gjaldári.

Þannig hafa sóknargjöld verið innheimt frá árinu 1909 og kirkjuskattur og tíund fyrir þann tíma. Lengst af voru sóknargjöldin innheimt beint frá sóknarbarni, en frá 1987 hefur ríkið annast innheimtuna. Í stað hins beina gjaldsambands milli sóknarbarna og sóknarnefndar var prósenta tekjuskattsins hækkuð 1987 og sóknargjöldin síðan greidd úr ríkissjóði til sóknanna.

Að framansögðu má sjá að sóknargjöldin eru ekki styrkur úr ríkissjóði til safnaðanna. Ríkið tók yfir innheimtu sóknargjalda, annarra trúfélagsgjalda og greiðslu manna utan trúfélaga í Háskólasjóð af sóknarnefndunum og hækkaði tekjuskattinn til að mæta þessum lið. Þessi tekjuskattur sem lagður var á til að standa undir viðhaldi og fjárhalds kirkju og annarra bæn- og guðshúsa er innheimtur að fullu í skattheimtu ríkisins.

10 svör við “Saga sóknargjaldanna”

  1. Sæl Sigríður, ég var að fara yfir umræðurnar og lögin frá 1909 (https://www.vantru.is/2018/05/11/09.00/), og það er alveg kolrangt í þessari færslu þinni að: „Sóknargjöldin voru á árinu 1909 lögð á allt þjóðkirkjufólk 15 ára og eldra og skyldi hver sóknarmaður greiða 75 aura á ári til umsjónar og fjárhalds kirkju.“

    Sóknargjöld árið 1909 voru lögð á alla (eina undantekningin var ef þú varst í trúfélagi sem var viðurkennt af konungi og borgaðir ákveða upphæð til þess). Þannig að fólk sem hafði engin tengsl við Þjóðkirkjuna og vildi ekkert með þau gera var þvingað til að borga sóknargjöld til Þjóðkirkjunnar.

    1. Sæll Hjalti Rúnar,
      Stjórnarskráin frá 1875 heimilaði fólki að stofna trúfélög en ekki var vikið að þeim sem vildu standa utan trúfélaga. Trúfélagsákvæðunum var ekki breytt 1909, en árið 1915 var stjórnskipunarlögum breytt . Samkvæmt stjórnskipunarlögum nr. 12/1915 gátu þau sem stóðu utan trúfélaganna greitt til hins nýstofnaða Háskóla Íslands.

      Í orðunum sem þú vitnar til er ég að ræða um formlega trúfélagsaðild, ekki viðhorf þeirra sem eru í trúfélaginu eða hvort þau vildu vera þar. Það er söguleg staðreynd og ekki ágreiningsmál okkar á milli að fólk sem vildi standa utan trúfélaga og vera undanþegið sóknargjöldum til Þjóðkirkjunnar átti þess ekki kost fyrir 1915. Það breytir því ekki að árið 1909 töldust öll þau vera Þjóðkirkjufólk sem ekki voru skráð í önnur samþykkt trúfélög.

      Bestu kveðjur, Sigríður

  2. ,,Að framansögðu má sjá að sóknargjöldin eru ekki styrkur úr ríkissjóði til safnaðanna.“

    Hvað merkir það að félag sé fjármagnað af ríkissjóði? Einfalt svar er: Allir greiða í ríkissjóð, ríkissjóður greiðir félaginu. Þetta á við um sóknargjöldin, ALLIR greiða þau (þar með ég sem stend utan trúfélaga) gegnum tekjuskatt og ríkið greiðir svo trúfélögunum.

    Ef staðan værir sú að ríkið innheimti eingöngu gjöld af þeim sem eru skráðir í trúfélög og greiddi þau svo áfram til trúfélaganna þá væri rétt að segja að ríkið fjármagnaði ekki félögin. Ríkið væri í því tilfelli einungis innheimtuaðili fyrir trúfélögin. Sú er hins vegar ekki raunin.

    1. Blessaður og sæll Sigurður Örn,
      Greinin fjallar um sögu sóknargjaldanna frá tíundarskatti til innheimtu sóknarnefndanna og þær forsendur sem lágu til grundvallar því að ríkið tók yfir þessa innheimtu. Í lögunum frá 1987 er þetta orðað á þann hátt að trúfélög „skuli eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti“. Ég er sammála þér í því að það er óeðlilegt að þau sem standi utan trúfélaga greiði þennan skatt.

  3. Ég er sammála Ólöfu. Takk fyrir greinargott yfirlit Sigríður.

  4. Að framansögðu má sjá að sóknargjöldin eru ekki styrkur úr ríkissjóði til safnaðanna. Ríkið tók yfir innheimtu sóknargjalda, annarra trúfélagsgjalda og greiðslu manna utan trúfélaga í Háskólasjóð af sóknarnefndunum og hækkaði tekjuskattinn til að mæta þessum lið. Þessi tekjuskattur sem lagður var á til að standa undir viðhaldi og fjárhalds kirkju og annarra bæn- og guðshúsa er innheimtur að fullu í skattheimtu ríkisins.

    Gallinn við þessa röksemdafærslu þína er sú að þú gefur þér að það sé einhver prósenta af innheimtum tekjuskatti sem er sérstaklega merktur sem „sóknargjöld“ og eign trúfélaga og að sú prósenta sé alveg óháð sóknargjaldaupphæðinni.

    Raunin er sú að sú prósenta sem er merkt fyrir kirkjuna er reiknuð út frá því hvað er borgað fyrir hvern skráðan meðlim. Í ár er það víst 701kr á mánuði, og því er „hlutdeild trúfélaga í innheimtum tekjuskatti“ miðuð út frá því. Það er engin önnur upphæð til sem að lýsir einhverri „alvöru“ upphæð á því sem er innheimt.

    Með því að lækka sóknargjaldsupphæðina hefur ríkið einfaldlega ákveðið að trúfélögin ættu minna hlutfall í innheimtum tekjuskatti, en það þýðir ekki að trúfélögin eigi enn gamla hlutfallið og að mismunurinn sé á einhvern hátt líka „innheimt sóknargjöld“

    1. Sæll Hjalti, skilningur þinn er í samræmi við þann skilning sem liggur að baki niðurskurði á sóknargjöldum og öðrum trúfélagsgjöldum í fjárlögum. Ég er ekki sammála þeim skilningi og skrifa aðra grein á næstunni, komst ekki mikið lengra en til ársins 1987 í þessum pistli, enda efnið stórt og vítt.

  5. Gott yfirlit með heilum þræði sem gefur innsýn í eðli sóknargjalda

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: