Baldur Bjarnason (1923-2012)

Baldur Bjarnason var fæddur á Ísafirði 28. maí 1923.

Baldur var sonur hjónanna Bjarna Einars Einarssonar útvegsbónda og fiskmatsmanns í Ögurnesi og konu hans Halldóru Sæmundsdóttur. Foreldrar Baldurs voru bæði fædd í Djúpinu. Halldóra var fædd að Galtarhrygg í Mjóafirði og alin upp í Hörgshlíð, en Bjarni Einar  í Reykjafirði og alinn upp á prestsetrinu í Vatnsfirði og síðar í Skálavík í Mjóafirði. Bjarni Einar og Halldóra bjuggu lengst af í Bjarnahúsi í Ögurnesi og þar voru æskustöðvar Baldurs. Baldur var næstyngstur í röð tíu systkina. Elst var Kristjana, þá Lára Sigríður, Bjarni Einar, Sæmundur Marteinn, Gunnar Hjörtur, Jón Snorri, Ingibjörg Þórunn og Jakob Rósinkars, þar næst kom Baldur sjálfur og Sigríður Jóhanna var yngst. Baldur lifði öll systkini sín.

Foreldrum Baldurs, Halldóru og Bjarna er þannig lýst af sveitungum sínum í minningar og afmælisgreinum að hún hafi verið dugmikil kona sem vann mikið og árangursríkt lífsstarf, en hann hafi verið harðduglegur maður, sen gekk með kappi að hverju verki, harðskeyttur sjómaður, glöggur og eftirtektarsamur, auk þess sem hann sinnti félagsstörfum. Má segja að vinnusemin, dugnaðurinn og félagsstörfin sem Baldur þekkti frá foreldrum sínum hafi gengið í arf til sonarins. Mikið þurfti að vinna á stóru heimili , Baldur og bræður hans fóru með föður sínum á sjó og tók hver við af öðrum þegar aldur leyfði. Í upphafi fimmta áratugarins var faðir Baldurs orðinn farinn að heilsu, blindur og rúmfastur. Fluttu þau hjón þá til Ísafjarðar, en Baldur var á eigin vegum og lengstum á sjó. Hann tók minna mótorvélstjórapróf í Reykjavík 1943 og  réri á ýmsum bátum á stríðsárunum.

Stuttu eftir stríð var  Baldur sjómaður á Jóni Þorlákssyni RE-6. Hann var staddur í bænum Marstal á dönsku eynni Ærö fyrir tilviljun að láta gera við vélina í bátnum og var boðinn heim í kaffi til systur kunningja síns. Þar kynntist hann heimasætunni Ketty Ástu, eða Ástu eins og hún var ævinlega kölluð og felldu þau hugi saman. Þau skrifuðust á um tíma en síðan fluttist Ásta með Baldri heim il Íslands. Þá var hún nítján ára en hann 23 ára.

Árið 1948 mátti sjá eftirfarandi tilkynningu í Dagbók Morgunblaðsins:

Föstudaginn 27. febrúar voru gefin saman í hjónaband af séra Sigurjóni Árnasyni ungfrú Kitty Asta Rasmussen, Þvervegi 2 og Baldur Bjarnason, sjómaður, Laugavegi 70B.

Ásta var komin sjö mánuði á leið þegar þau giftu sig og frumburðurinn Bjarni Einar fæddist rúmum tveimur mánuðum síðar. Baldur og Ásta réðu sig með Bjarna nýfæddan  í fiskvinnu í Sandgerði og bjuggu í verbúð þar. Fyrir vinnuna í fiskinum tókst þeim að öngla saman fimm þúsund krónum sem nægðu til að kaupa sumarbústaðinn Laufás í Blesugróf, þar sem heimili þeirra stóð uppfrá því. Karl Jóhann fæddist 1954 og  yngsta barnið Ásta Brynja 1974. Afkomendur Ástu og Baldurs eru átta með fósturbarni og sá níundi á leiðinni.

Baldur fékk magasár sem ungur maður og gat uppfrá því ekki verið á sjónum.  Hann átti um tíma vélbát sem var geymdur í garðinum í Laufási og var stundum settur á flot. Baldur fékk vinnu hjá útgerðarfyrirtæki og vann síðan lengi við frystihúsin Kirkjusand og Hraðfrystistöðina. Hann starfaði um tíma sem verkstjóri. Hann vann einnig mikið við beitningu og þótti mjög góður beitningarmaður. Eftir að hann hætti í fiskinum vann hann lengi hjá Eimskipum við togaraafgreiðslu og útskipun, en skipti síðan yfir í byggingarvinnu.

Baldur var eldheitur Alþýðubandalagsmaður og keypti að sjálfsögðu Þjóðviljann. Hann var í tvisvar í framboði fyrir Alþýðubandalagið í sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík, vermdi 21. sætið 1966 og það ellefta árið 1974. Hann sat í trúnaðarráði Dagsbrúnar á sjöunda áratugnum, og í stjórn Dagsbrúnar í rúman áratug, fyrst sem varamaður, síðan meðstjórnandi og loks sem gjaldkeri á miklum átakatímum í stéttarfélagsbaráttu. Á þessum tíma flutti Baldur til að mynda ávarp á 1. maí í Reykjavík, sat þing ASÍ og reglulega var haft eftir honum í blöðum. Árið 1972 er vitnað í ræðu hans á ASÍ þinginu. Þar brýnir Baldur verkamenn til að minnast baráttu fyrri tíðar fyrir lýðræði og atvinnu og endar á að segja þessa mögnuðu setningu:

Maðurinn er gullið þrátt fyrir allt.

„Maðurinn er gullið, þrátt fyrir allt“ og þetta gull mennskunnar ræktaði Baldur í félagsstörfum sínum. Hann átti sér einnig annað starf utan erfiðisvinnunnar og félagsstarfanna. Það var Laufás og garðurinn. Það tók hann og Ástu 10 ár að byggja húsið. Fyrst var steypt upp viðbygging við gamla sumarbústaðinn til austurs, síðan var vesturgaflinn hlaðinn í kringum gamla bústaðinn og hann loks rifinn innanfrá. Sumarbústaðurinn hafði verið ein stofa og hol, en þegar húsið í Laufási var fullbyggt var þar betur hýst en gerðist og gekk í Blesugrófinni. Ásta vildi alltaf hafa stórt og fallegt jólatré og það var haldið jólaball fyrir krakkana í Blesugrófinni í stofunni í Laufási. Garðurinn skipti engu minna máli fyrir Baldur en húsið sjálft. Hann naut sín vel úti í náttúrunni við að girða, planta og græða upp garðinn sinn, vinna í hinum gríðarstóra kartöflugarði, hlúa að matjurtum og berjarunnum. Baldur hafði tekið sér ólaunað leyfi frá störfum til að annast Ástu Brynju sem hvítvoðung vegna veikinda konu sinnar og sambandið feðginanna var sterkt. Bræðurnir áttu aftur það áhugamál með föður sínum að fara í eggjaleitir, en þeir feðgarnir gengu gjarnan um Suðurnesin í leit að sílamávseggjum.

Í Baldri skiptist á félagsveran sem sinnti félagsmálum og stéttabaráttu af miklum áhuga og hins vegar einfarinn, þsem þurfti að hafa gott svæði í kringum sig í eggjaleitinni, eða rækta í friði í Laufási. Hann var alltaf að, átti erfitt með að vera kyrr og borðaði alltaf á hlaupum. Hann var jarðbundinn og flíkaði ekki tilfinningum sínum. Svartur húmor og kaldhæðni einkenndi skaphöfn hans, hann hafði áhuga á ættfræði og spurði menn gjarnan að upprunanum þegar hann hitti þá í fyrsta sinn. Hann var samviskusamur maður og lagði mikið upp úr því að orð skyldu standa. Hann var stundvís og lagði mikið á sig í vinnu. Það skipti hann miklu máli að standa sig vel í vinnu og hann vann alltaf mikið og lengi. Hann hafði ríka réttlætiskennd og hljóp alltaf í vörn fyrir þau sem minna máttu sín. Hann átti það til að ríma vísur og skrá á blöð og höfðu vísurnar oftar en ekki að geyma þjóðfélagsádeilu og baráttu stéttanna. Hann átti sínar bestu stundir í garðinum í Laufási og eins minnast börn hans skemmtilegra sumarfría á Ærö, þar sem þau heimsóttu fjölskyldu Ástu.

Baldur hætti að vinna 1988 og þótti það erfitt. Vinnan hafði verið svo mikill farvegur fyrir félagsþörf hans og hann einangraðist meira á seinni árum. Ásta kona hans hafði lengi verið heilsuveil og fluttist á Grund 2005. Baldur bjó næstu árin einn í Laufási. Hann var þá orðinn farinn að heilsu og fluttist á Grund árið 2008. Þar lést hann 20. júlí s.l. á nítugasta aldursári.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: