Ásta Bjarnason (1927-2010)

Ketty Ásta Rasmussen Bjarnason fæddist í Marstal á dönsku eynni Ærö 1. febrúar 1927.

Foreldrar Ástu voru Pálína Guðrún Guðbjartsdóttir Rasmussen frá Furufirði á Ströndum og Karl Jóhann Rasmussen sem fæddur var í Marstal. Karl Jóhann var yfirkokkur á skipi, hann hafði kynnst Pálínu á Íslandssiglingum og flutti konuefnið með honum til hans heimabæjar í Danmörku. Pálínu Guðrúnu og Karli Jóhanni varð átta barna auðið og fimm komust á legg. Elstar voru Karla og Ellen, fæddar 1920 og 1923,  þá telpur tvær Ásta og Tove sem létust sem ungbörn, eitt barn óskírt síðan Ásta, sem reyndar var skírð Ketty Ásta. Lestina ráku bræðurnir tveir, Ove og Poul sem fæddust 1932 og 1945. Foreldrar Ástu létust á 8. Áratug síðustu aldar og þrjú af systkinunum eru látin, en Ellen og Poul lifa systur sína. Þau eru bæði búsett í Danmörku.

Ásta var strax mjög söngvin í æsku og kom víða fram m.a. í kirkjum á Ærö. Forðum tíð hafði mamma hennar fellt hugi til sjómanns og siglt með honum á vit nýs lífs í Danmörku. Ásta eignaðist líka ung sinn sjómann. Hann heitir Baldur Bjarnason frá Ögurnesi í Ísafjarðardjúpi.  19 ára fluttist Ásta með Baldri til Íslands og hugðist stunda þar söngnám. Það hafa eflaust verið mikil vonbrigði fyrir unga söngstjörnu frá Danmörku að koma til Reykjavíkur og minna fór fyrir söngnáminu en vonir stóðu til. Ásta talaði litla íslensku og átti því ekki auðvelt með íslensku dægurlögin, en söng þó lög eftir Tólfta September í Gúttó fyrst eftir komuna frá Danmörku. Síðan var hún komin með heimili og börn og aðrar annir tóku við, en hún unni alltaf söng og tónlist.

Ásta vann í fiski suður með sjó fyrst eftir að hún kom til Íslands en var mest heimavinnandi eftir að börnin fæddust.  Ásta og Baldur bjuggu fyrst á Njálsgötunni og eignuðust frumburðinn Bjarna Einar þar 1948. Snemma á sjötta áratugnum fluttu Ásta og Baldur  síðan upp í Blesugróf í gamlan sumarbústað, byggðu við hann og nefndu Laufás. Þar fæddust yngri börnin, Karl Jóhann fæddur 1954 og Ásta Brynja 1974. Í Blesugrófinni hafði verið komið upp ýmsum húsum sem þróast höfðu án sérstaks skipulags í húsnæðisskortinum upp úr heimstyrjöldinni síðari. Kallaðist hverfið um um tíma Breiðholtshverfi, enda tilheyrði þetta svæði áður jörðinni Breiðholti.  Í Blesugrófinni, bæði þeirri efri og neðri bjuggu barnmargar og efnalitlar fjölskyldur. Það hafði sína kosti líka að alast upp í borgarjaðrinum og krakkarnir í Blesugrófinni vörðu miklum tíma úti í náttúrunni. Ásta og Baldur höfðu mikið yndi af blómarækt og skógrækt og kostuðu kapps við að rækta sem mest upp af landinu í kringum Laufás. Ásta hélt alltaf góðu sambandi við fjölskylduna í Danmörku og heimsótti hana reglulega með fjölskyldunni. Hún var mikill barnavinur og dýravinur og mátti ekkert aumt sjá. Laufás var alltaf fullur af krökkum og einu sinni var þar haldið jólaball fyrir krakkana í hverfinu af því að stofan þeirra var svo stór. Ásta átti alltaf ketti og þau tóku að sér púðluhúnd sem átti að lóga og höfðu hjá sér í fimmtán ár í trássi við hundabannið í Reykjavík.

Ásta og Baldur bjuggu í Blesugrófinni vel á sjötta áratug og sáu útborgarhverfin í Árbæ og Breiðholti rísa allt í kringum sig. Síðust árin hafa þau haldið til á vistheimilinu Grund við Hringbraut og naut Ásta þar góðrar aðhlynningar.

Ásta var ljósberi og hún bar með rentu nafn ástar og kærleika. Börn Ástu minnast hennar sem góðrar móður með mikla réttlætiskennd og reisn, og sem alltaf var gott að leita til vegna úrræðasemi hennar og danska húmorsins. Það var alltaf bjart yfir henni þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í lífinu. Og hún átti til að bera hlýju, jákvæðni og ástúð sem fylgdi henni alla tíð og breytt gat depurð þeirra í gleði sem hana heimsóttu.

Ásta Bjarnason lést  28. nóvember s.l. á Grund. Hún hafði lengi verið heilsuveil, en andlát hennar bar snöggt að. Afkomendur hennar og Baldurs eru sjö, þrjú börn, tvö barnabörn og þrjú barnabarnabörn með einu fósturbarni.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: