Oddvitarnir í R suður og þjóðkirkjuhugtakið

Áhugavert er að skoða Alþingiskönnun DV, því að þar lýsa langflestir frambjóðendur til Alþingis 2013 viðhorfum sínum til hinna fjölbreytilegustu mála.  Frambjóðendur voru m.a. spurðir þessarar spurningar:

Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að á Íslandi sé þjóðkirkja?

Spurningin virðist hafa vafist fyrir mörgum, enda ekki alveg augljóst hvað við sé átt. Hér virðist ekki vísað til Þjóðkirkjunnar með stóru Þorni, trúfélagsins sem heitir Hin evangelísk- lútherska Þjóðkirkja, heldur til þess hvort fólk sé hlynnt eða andvígt þjóðkirkju á Íslandi. En hvað er þjóðkirkja?

Þjóðkirkjur (national churches) tengjast tiltekinni þjóð og menningu hennar föstum böndum og gjarnan í gegnum aldagamla sögu. Hugmyndir um þjóðkirkjur voru mikið ræddar á 19. öldinni í tengslum við vaxandi áherslur á þjóðarhugtakið, þjóðtungu og aukna þjóðernistilfinningu. Þjóðkirkjur lúta innlendu valdi biskupa. Þær halda gjarnan úti þjónustu á landsvísu. Rómversk-kaþólska kirkjan er ekki þjóðkirkja, heldur alþjóðleg kirkja og einstakir staðbundir söfnuðir eru heldur ekki þjóðkirkjur.

Það gæti verið ástæða til að óttast þjóðkirkju sérstaklega ef stjórnmálamenn teldu að kirkjuhugsun hennar væri rasísk og ógnaði innflytjendum, eða vegna þess að þjóðarhugtakið sé í uppnámi. Nationalismi getur verið bæði þjóðarstolt og þjóðernishyggja  Mig fýsti að vita meira um viðhorf frambjóðenda til þjóðkirkjunnar og hvort stuðningur eða andúð á þjóðkirkju hefði eitthvað með afstöðu til þjóðernis, þjóðtungu og innflytjendamála að gera.Ég er kjósandi í Reykjavík suður og kannaði því hvað oddvitar hvers stjórnmálaflokks hafa um þetta að segja í svörum við fjórum spurningum könnunarinnar sem hafa með þjóðkirkju, þjóðerni, þjóðtungu og hælisleitendur að gera  (Flokk heimilanna, Regnbogann, Alþýðufylkinguna og Sturlu Jónsson vantar í könnunina). Þetta var niðurstaðan :

  • Róbert Marshall:  Mjög hlynntur þjóðkirkju, mjög andvígur því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, mjög sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur, finnst spurningin um að það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu kjánaleg og vill ekki svara.
  • Hanna Birna Kristjánsdóttir: Frekar hlynnt þjóðkirkju, hvorki-né skoðun á rýmri reglum um hælisleitendur, hlutlaus gagnvart því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, ósammála því að það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir: Frekar andvíg þjóðkirkju, mjög andvíg því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, mjög sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur, ósammála því að það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Vigdís Hauksdóttir: Mjög hlynnt þjóðkirkju, hvorki-né skoðun á rýmri reglum um hælisleitendur, mjög hlynnt því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, ósammála því að það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Svandís Svavarsdóttir: Mjög hlynnt þjóðkirkju, frekar andvíg því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, mjög sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur,   ósammála því að það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Þórður Björn Sigurðsson: Mjög andvígur þjóðkirkju, frekar andvígur því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, mjög sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur, hefur ekki skoðun á því hvort það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Jón Þór Ólafsson: Mjög andvígur þjóðkirkju, mjög hlynntur því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, mjög sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur, hefur ekki skoðun á því hvort það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Þórhildur Þorleifsdóttir: Frekar andvíg þjóðkirkju, frekar hlynnt því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, mjög sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur, vill ekki svara hvort það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Jón E. Árnason: Hlutlaus í afstöðunni til þjóðkirkjunnar, mjög hlynntur því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur, vill ekki svara hvort það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.

Það er ekki að sjá að afstaða fólks til þjóðkirkju á Íslandi hafi neitt með það að gera hvort það er stolt af föðurlandi sínu og uppruna, eða haldist í hendur við skoðanir á innflytjendum, hælisleitendum eða verndun tungumálsins. Verið getur að einhverjir hafi túlkað spurninguna á þann hátt að verið væri að meina hvort fólk væri hlynnt sambandi ríkis og kirkju. Það er hins vegar alls ekki sami hluturinn og að amast við þjóðkirkju í tilteknu landi.

Ætli þeir stjórnmálamenn sem eru andvígir eða mjög andvígir tilvist þjóðkirkju séu andvígir orþodoxakirkjunum í Austur-Evrópu sem allar eru þjóðkirkjur, þótt minnihluti landsmanna tilheyri þeim í flestum tilfellum? Eða er það bara hér á Íslandi sem má ekki vera þjóðkirkja?

Eitt svar við “Oddvitarnir í R suður og þjóðkirkjuhugtakið”

  1. […] Guðmarsdóttir rýnir í svör oddvita flokkanna í Reykjavík-Suður við spurningu DV um afstöðu til þjóðkirkjunnar. Þetta er […]

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: