Árstíðasálmur um náðargjafir

„Sólin hlær á hlýjum degi,“ er eini sálmurinn sem ég hef ort frá grunni, en ekki þýtt. Hann var frumfluttur í útvarpsmessu í Guðríðarkirkju í mars árið 2011. Sálmalaginu kynntist ég á námsárum í Bandaríkjunum. Það er upphaflega írsk vögguvísa, Ar Hyd y Nos. Þessi laglína lét mig ekki í friði og loks var ég búin að smíða fjögurra versa sálm, þar sem hvert vers er tengt einni árstíð og einni náðargjöf, biblíu, skírn, kvöldmáltíð og bæn.

Ég hef gaman að gera tilraunir með orð um guðdóminn og leggja til orð í fleiri kynjum en í hinu ómarkaða karlkyni. Ég er hrifin af náttúrulíkingum um guðdóminn og byrjaði að fella slíkt táknmál í sálm í „Þú fagra tré“ frá 2008. Hér held ég áfram að tala um Guð með náttúrulíkingum og kalla Guð „eldsumarlyng“, „brimlands blik“, „bjartþríeiningu,“ „vildisá“, „vonarlaug“, „þrifgæði“ og „heilladrífu.“ Sum þessi orð hef ég fundið upp sjálf, en þrifgæðirinn og brimlands blikið eru sótt í eitt fegursta trúarkvæði norrænna miðalda, Líknarbraut sem er í miklu uppáhaldi hjá mér (og rituð á glugga Guðríðarkirkju).

Sólin hlær á hlýjum degi
heiðtjald um kring,
ástargeislinn yndislegi,
eldsumarlyng.
Orð þitt ljós er
lífs míns vegi,
leið svo eigi týna megi.
Brimlands þitt í blik mig hneigi,
bjartþríeining.

Hellidemban hrín við skjáinn.
Haustleg er tíð.
Ólgar þráin, eftirsjáin,
ergelsi´og stríð.
Skírnar seytlar vatn í sáinn
sogast váin úr í bláinn.
Vellur frá þér vildisáin,
vonarlaug blíð.

Vex mér fjör þótt vetur sýni
valdsmannsbrag sinn,
seint þótt hlýni´og sól ei skíni,
sollna´á kinn.
Sett er borð með björtu líni,
bakstursskríni, eðalvíni.
Sorg á þeirri þekju´eg týni,
þrifgæðir minn.

Vors þá mína veður ýfa
vesældarsút.
Hjálpa mér þann hreinsa´og þrífa
hrösunargrút.
Bið ég þig við böli´að hlífa,
burt mig hrífa, heilladrífa.
himinþey með hratt ég svífa,
haf vil á út.

Hér er Ar Hyd y Nos sungið á gelísku: https://www.youtube.com/watch?v=TiB3zmvFPkw

Myndina úr Guðríðarkirkju tók Rögnvaldur Guðmundsson árið 2011.

Eitt svar við “Árstíðasálmur um náðargjafir”

  1. Ja, þetta er nú meiri dugnaðurinn og eljan, kæra systir.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: