Biskupsgarður

Undanfarið hafa skapast umræður um bústað Biskups Íslands í Reykjavík eftir að upplýst var að biskupinn borgar um það bil 90 þúsund fyrir einbýlishús í miðbæ Reykjavíkur. Margir eru ósáttir við að biskupinn hafi aðgang að þessu húsi til einkaafnota fyrir lítið verð og spyrja hver sé tilgangurinn með þessu fíneríi.

Mér finnast þessar umræður að mörgu leyti ósanngjarnar og að mörgu leyti áhugaverðar. Þær eru ósanngjarnar að mínu viti þegar þær beinast persónulega að Agnesi Sigurðardóttur, Biskupi Íslands. Í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 segir að biskupinn „hafi aðsetur í Reykjavík“ og að vígslubiskuparnir tveir hafi „aðsetur á hinum fornu biskupsstólum, í Skálholti í Biskupstungum og á Hólum í Hjaltadal.“ Þar sem kirkjulögin krefjast þess að biskuparnir sitji á ákveðnum stöðum eru þeim líka lagðir til biskupsgarðar til aðseturs gegn lágri leigu. Þessi hús eru heimili biskups og fjölskyldu hennar/hans ef því er að skipta, en einnig opinber móttökuhús kirkjunnar sem biskupinn er fulltrúi fyrir. Það er því ósanngjarnt að mínu viti að fjalla um biskupsgarðinn í Reykjavík eins og þar sé á ferðinni eitthvað sérstakt peningaplokk Agnesar Sigurðardóttur. Hún einfaldlega gekk inn í þann lagaramma og hefð sem myndast hefur vegna þess að Biskup Íslands er samkvæmt lögum skyldug til að hafa aðsetur í Reykjavík.

Það sem mér finnst áhugavert við þessa umræðu, er spurningin um það hvort það sé virkilega þörf á því að biskup eigi að „hafa aðsetur“ í Reykjavík og hafa þar með þar embættisbústað í Reykjavík. Í þessari grein langar mig að spinna þá umræðu í tvær áttir.

Hvers vegna á Biskup Íslands að hafa aðsetur í Reykjavík?  Það er ekki flókin aðgerð að hvetja Alþingi Íslendinga til að breyta orðalagi þessarar greinar í kirkjulögunum frá „aðsetri“ yfir í að segja að Biskupsstofa skuli staðsett í Reykjavík, eða að starfsstöð Biskups Íslands sé í Reykjavík. Með þessari einföldu orðalagsbreytingu væri undirstrikað að biskupinn hefði skrifstofuna sína í Reykjavík, en að sjálf geti hún búið hvar sem henni sýnist, í Efra-Breiðholti, Bolungarvík eða Bahrain, svo fremi sem hún sinni skyldustörfum sínum í Reykjavík. Þegar biskupinn er ekki lengur skikkuð til að eiga heima á tilteknum stað fellur líka burtu þörfin á að halda úti sérstökum embættisbústað fyrir hana. Hún gæti séð sér fyrir húsnæði sjálf og skilin milli biskupsins sem einkapersónu og opinberrar persónu yrðu skýrari. Þjóðkirkjan gæti sparað peninga með því að selja dýra eign í miðbænum og í staðinn leigt húsnæði undir móttökurnar sínar og/eða haldið þær í safnaðarheimilum kirkna.

Hvers vegna á Biskup Íslands að vinna í Reykjavík? Hin hugmyndin sem mig langar til að kasta út í kosmosið er ekki ný af nálinni. Hún er heldur ekki mín. Árið 1958 settu fjórtán alþingismenn úr öllum þingflokkum frá sér þingsályktunartillögu þar sem embætti biskups Íslands var flutt frá Reykjavík í Skálholt.  Þingsályktunin var birt í Tímanum 30. mars 1958 og þar segir í greinargerð flutningsmanna:

Kirkja há og tíguleg er risin þar af grunni hinna fornu dómkirkna og veglegt íbúðarhús hefir þar verið reist. En hver á að búa í þessu húsi og hver á á helgum stundum að standa fyrir altari hinnar fornu kirkju og láta kristinn boðskap hljóma innan veggja hennar? Þannig er hugsað og þannig er spurt.

Í Skálholti sátu biskupar Íslands allt þar til Hólastóll varð til og biskupsdæmin urðu tvö. Biskupsdæmin voru sameinuð á ný í lok átjándu aldar og biskupsstólinn færður til Reykjavíkur. En það er ekkert náttúrulögmál að biskupinn sitji í höfuðstaðnum. Þau sem vilja halda úti biskupsstólum í Skálholti og á Hólum beita sögulegum rökum og fjalla um að stólarnir tengi saman kirkju og þjóð í þúsund ár. Þeir benda á að erkibiskupa Svía og Englendinga sem enn sitja hina fornu stóla í Uppsölum og Kantaraborg vegna sögulegs samhengis þessara staða.

Í Skálholti er góður biskupsbústaður. Í Skálholti er góður salur sem hægt er að nota fyrir móttökur á vegum Þjóðkirkjunnar. Skálholt er vel í sveit sett í fagurri náttúru, samgöngur þangað eru góðar og þaðan er stutt til Reykjavíkur. Með því að leggja niður eitt vígslubiskupsembætti og selja biskupsgarðinn í Reykjavík (sem hefur enga sögulega þýðingu fyrir Þjóðkirkju Íslands eða biskupsembættið) má spara töluverðar fjárhæðir. Og nú vill svo til að Skálholtsstóllinn er laus og biskupskosningar þar á næsta leiti.

Verksvið Kirkjuþings og Biskups Íslands eru ólík. Þjóðkirkjunni er stjórnað af Kirkjuþingi og Kirkjuráði af lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Þjóðkirkjan er vinnuveitandi, og fer með opinbert fé og starfsstöðin er miðstýrð frá Reykjavík. Höfuðhlutverk biskupsins er að hafa tilsjón með hinni vígðu þjónustu og kenningu kirkjunnar, vígja presta og djákna og vísitera söfnuði. Hlutverk biskupsins eru samkvæmt skilgreiningu dreifð um allt land og ekki flóknara að vinna þau verk frá Skálholti en frá Reykjavík.

„Hver á að búa í þessu húsi? Hver á að standa fyrir altari hinnar fornu kirkju?“ spurðu alþingismennirnir forðum. Þannig er hugsað og þannig er spurt.

Ein athugasemd við “Biskupsgarður

  1. >“Það er því ósanngjarnt að mínu viti að fjalla um biskupsgarðinn í Reykjavík eins og þar sé á ferðinni eitthvað sérstakt peningaplokk Agnesar Sigurðardóttur.“

    Hver hefur verið að segja það?

    Og það er gott dæmi um ósjalfstæði Þjóðkirkjunnar að það er Alþingi sem ákveður hvar æðsti biskupinn ykkar skal vera.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s