Vertu ekki svona reið
Greta Thunberg.
Vertu ekki svona hrædd,
svona leið,
svona þreytt.
Eiginlega væri best
ef þú fyndir ekkert til.
Og vertu ekki svona ung.
Vertu heldur eins og við hin,
afslappaðri,
minna upptekin af að gera rétt,
tilfinningasnauðari,
og helst nokkrum árum eldri.
Þú hlýtur að skilja
að við höfum miklar áhyggjur af þér.
Við sjáum hvað þú ert þreytt, reið og leið.
Það ætti enginn að vera
og allra síst börn og unglingar.
Þið eigið að lifa vernduðu lífi,
án þess að skipta ykkur af þjáningu og neyð
stríðum, átökum og loftslagsbreytingum.
Þið eigið ekki að óttast
og bera kvíðboga fyrir framtíðinni,
heldur vera vafin inn í bómull og hafa það fínt
alltaf.
Svo vertu ekki með þessa ábyrgðartilfinningu alltaf hreint,
ekki berjast fyrir nokkru sem skiptir máli,
ekki gera neitt sem hefur afleiðingar.
Segðu þetta við hana sem þú varst,
í fyrra,
þegar þú sast alein fyrir utan þinghúsið í Stokkhólmi:
Ekki gera neitt fyrr en þú fullorðnast,
Greta Thunberg.
Annars gætir þú óvænt skapað hreyfingu
þar sem milljónir af manneskjum streyma út á göturnar
og krefjast nýrrar loftslagsstefnu.
Er þá ekki töluvert betra
að bera sorgina og óttann ein
eða láta eins og allt sé í lagi
eins og venjulegt, heilbrigt fólk gerir?
Og mundu,
þetta segjum við bara af hreinni umhyggju.
Það eina sem við viljum
er að þú hafir það gott.
Sindre Skeie, 25. september 2019, þýð: SG