Þegar ég hlusta á söguna þína breytir hún mér

Undanfarna daga hef ég tekið þátt ráðstefnu um guðfræði og málefni frumbyggja í tilefni nýstofnaðrar sannleiks- og sáttanefndar í málefnum Sama í Norður-Noregi. Ráðstefnan fjallaði um rannsóknir guðfræðinga á þætti trúar í slíkum sáttaferlum. Á ráðstefnunni sátu fulltrúar frá Suður-Afríku sem töluðu um sáttahlutverk Desmund Tutu nefndarinnar eftir Apartheid-tímabilið og fulltrúar fyrstu þjóða Kanada sögðu frá sáttaferlinu við ríkisstjórn Kanada um ofbeldi á börnum í heimavistarskólum, stolin heimalönd og tapaða menningu. Á ráðstefnunni sagði einn fulltrúinn þessi orð:  „Þegar ég hlusta á söguna þína, breytir hún mér.“ 

Þessi ráðstefna hafði mikil áhrif á mig. Ég velti fyrir mér tilgangi sáttarferla, hversu mikilvægt það er að fólk fái að segja söguna sína, hversu mikilvægt það er að þau með völdin hlusti og láti söguna breyta sér í stað þess að framleiða ódýrar skyndilausnir. Hlustunin breytir ekki atburðunum sem þegar hafa gerst. En hún glæðir vonina um að framtíðin geti orðið öðru vísi og að fólk hafi tækifæri til að treysta öðrum aftur. Sumir vilja ræða um fyrirgefningu í því sambandi, aðrir tala um að rísa aftur til lífsins eða nota enn önnur orð.

Meðan ég sat ráðstefnuna hefur farið fram umræða á Íslandi um þátt kirkjunnar í kúgun samkynhneigðs fólks. Áslaug Arna dómsmálaráðherra hélt ræðu í Kirkjuþingi og minnti réttilega á að kirkjan hefði ekki „skilið kall tímans“ í upphafi 21. aldarinnar. Agnes biskup kom fram í Sjónvarpinu og bað samkynhneigt fólk afsökunar.

Ég hlustaði á fræðimennina frá Suður Afríku og Kanada segja frá þessum mikilvægu sannleiksnefndum. Og svo hugsaði ég um mína eigin þjóð, mína eigin kirkju, og allar sögurnar sem við eigum að halda áfram að hlusta á og láta breyta okkur. Ég held að afsökunarbeiðni Agnesar biskups geti verið ágætur upptaktur að slíku ferli. Lokahnykkur er hún ekki, við erum tæpast byrjuð að hlusta.

Kirkjan hefur svo mikið að svara fyrir. Kirkjan, hver er kirkjan í þessu sambandi?  Það sem „Kirkjan“ þarf að svara fyrir er tvö þúsund ára túlkunarsaga helgra hefða. Sú hefð hefur síður en svo verið samkynhneigðu fólki hjálpleg og kúgun kirkjunnar á þeim sem ekki stóðust kynferðisviðmið hennar spannar tuttugu aldir. „Kirkjan“ er þýlyndi geistlegra yfirvalda við stjórnvald fyrri tíðar. „Kirkjan“ er stjórnun kynferðismála þjóðarinnar á fyrri tíð með blöndu af lagabókstaf og guðsorði. „Kirkjan“ er útilokun og grimmd gagnvart samkynhneigðu fólki og fjölskyldum þeirra. „Kirkjan“ er þögn og afskiptaleysi. „Kirkjan“ er hörð orð kirkjunnar fólks úr prédikunarstól, í fjölmiðlum, í lobbíisma og í álitsgerðum til Alþingis, hvenær sem réttarbætur til samkynhneigðs fólks komu fram á þingi.

„Kirkjan“ sem stofnun og aldagamalt áhrifavald í nánum tengslum við ríkisvaldið hefur mikið að svara fyrir. „Kirkjan“ sem hreyfing er auðvitað meira en þessi völd, áhrif og forréttindi. Þaðan kemur viðspyrnan.

„Kirkjan“ sú er tvær konur sem elska hvor aðra og tárast frammi fyrir altarinu þegar presturinn segir að þær séu „rétt hjón“ frammi fyrir Guði og mönnum. Kirkjan sú eru þau þau sem unnu með ÁST áhugafélagi um samkynhneigð og trú og FAS, samtökum foreldra og aðstandenda samkynhneigðra. Og hetjurnar sem nenntu að mæta á safnaðarfundi til að útskýra fyrir almennu safnaðarfólki, hvers vegna það væri allt í lagi að samkynja fólk elskaði hvort annað, ætti börn saman og gengi í hjónaband.  Og öll hin, sem ekki hafa gefist upp á því verki að túlka kærleiksboðskap kristinnar trúar inn í líf sitt frekar en forréttindin, hómófóbiuna, rasismann og sexismann sem kristin saga geymir.

„Kirkjan“ er líka prestarnir sem óskuðu samkynhneigðum til hamingju þegar staðfest samvist var  samþykkt. Og vígðu þjónarnir sem beittu sér fyrir því að kirkjan yrði tilbúin að vígja fólk af sama kyni í hjónaband á því augnabliki sem ein hjúskaparlög gengu í gegn. Ég hef alltaf verið stolt af því að hafa tilheyrt þeim hópi kollega. Á mælikvarða aldanna og í samanburði við allt hitt er þetta geistlega framlag eins og upp i nös á ketti. Ég er stolt af litla ljósinu. En ég skammast mín fyrir stóra skuggann.

Meðan ég sit á ráðstefnunni og læri um vinnsluferli erfiðrar undirskipunar- og kúgunarreynslu minnihlutahópa, þá hugsa ég um það hversu mikilvægt það er að sannleikur hvers og eins fái að njóta sín, að þjáning, vonbrigði og reiði fái öruggt rúm sem kallar ekki aftur fram áföllin, að við þessum tilfinningum sé tekið og að ferlið stuðli að umbreytingu. Að skömmin sé játuð, og að við höldum áfram að játa hana með að hlusta, líka þegar við höfum engar forsendur til að setja okkur inn í það sem gerst hefur.

Það er sú skömm að tilheyra kirkju sem hefur ekki verið í fararbroddi mannréttinda heldur stundum látið draga sig grenjandi í átt til þeirra.

Og að þau okkar sem viljum vera „kirkjan“ hættum ekki að hlusta fyrr en síðasta sagan er sögð og henni hefur af Guðs náð tekist að umbreyta mér og þér.

 3.11.: Eftir lestur á eigin grein í morgun fannst mér ég ekki hafa greint nógu vel milli kirkjunnar sem valdastofnunar og kirkjunnar sem almennrar hreyfingar. Ég breytti því greininni lítillega.

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s