Tag: borgvæðing

Sérþjónustan

Íslenska þjóðkirkjan byggir sóknaskipulag sitt á fornum grunni sveitasamfélagsins. Þéttbýlismyndun í upphafi síðustu aldar leiddi til þess að þetta gamla skipulag riðlaðist að einhverju leyti og allnokkrir prestar voru fluttir til bæjanna úr sveitunum. Borgvæðing síðustu áratuga hefur einkennst af enn meiri fólksflutningum en áður og í stað flutninga í sjávarþorp og kaupstaði, flytja flestir á höfuðborgarsvæðið. Ég ræði töluvert um borgvæðingu í pistli mínum „Áskoranir og tækifæri kirkju og þjóðar í kreppu“ sem nálgast má hér.

Sístækkandi borgarsamfélagið leiðir til þess að leiðirnar sem höfuðborgarsöfnuðirnir hafa til að snerta við og tengjast safnaðarfólki sínu eru ekki eins skilvirkar og áður. Einu sinni starfaði ég í 300 manna söfnuði í Súgandafirði þar sem sem sóknarmörkin höfðu ekki breyst síðan á tólftu öld, en presturinn var hins vegar færður inn í þorpið á áttunda áratug síðustu aldar. Ég hafði góða yfirsýn yfir söfnuðinn minn á Suðureyri, allir unnu, lifðu og hrærðust í firðinum og af því að samgöngur voru svo slæmar var lítið leitað út fyrir fjörðinn. Ég hafði frumkvæði að heimsóknum til eldra fólks og þeirra sem ég vissi að áttu undir högg að sækja. Þegar sóknarbörnin fóru á sjúkrahúsið á Ísafirði heimsótti ég þau. Og auðvitað vissi ég flest það sem var um að vera í söfnuðinum. Nú er ég sóknarprestur í 5700 manna prestakalli og ég hef ekki yfirsýn yfir líf sóknarbarna minna á sama hátt og áður. Möguleikar mínir til að mæta þeim í erfiðleikum þeirra og gleði eru einfaldlega minni og yfirsýn mín takmarkaðri.

Ég er svo þakklát fyrir sérþjónustuna. Ég er svo þakklát fyrir að til skuli vera prestar og djáknar sem sinna sóknarbörnum mínum sem leggjast inn á sjúkrahús, sem sinna þeim sem eru fötluð, öldruð, heyrnarskert, í varðhaldi eða af erlendum uppruna. Ég er svo þakklát prestum og djáknum á sjúkrahúsi sem sinna mörgum næturútköllum, sem ég finn mig vanbúna til að sinna með erfiðu kalli. Ég er svo þakklát fyrir að geta vísað á presta erlendis sem taka við fólkinu mínu sem hrekst úr landi vegna efnahagsástandsins eða er á leiðinni í skóla. Ég átti því láni að fagna að vinna við hlið vímuvarnarprests þjóðkirkjunnar um tveggja ára skeið og kynntist þá starfi hans náið, en sérþjónusta hans var einmitt staðsett í Guðríðarkirkju. Það var mikill sjónarsviptir af henni og sárt að sjá á bak blómlegu starfi. Sérþjónustan er kannski skýrasta merki þess að við eigum þjóðkirkju, sem mætir þjóðinni allri, sumum í landfræðilegum sóknum, öðrum í söfnuðum, hjálparstarfi eða í starfi kirkjunnar erlendis.  Við erum eining í margbreytileika, bæði á sóknar- og sérþjónustuvísu.

Sérþjónustan er eitt af mikilvægustu svörunum okkar við áskorunum borgvæðingarinnar. Það væri ekki nóg að fjölga prestum í hinum staðbundnu söfnuðum í borginni. Borgarfólk lifir svo stórum hluta hvers dags utan heimilis og utan síns heimahverfis og félagsleg tengsl þeirra eru þvert á öll sóknarmörk. Þess vegna getur þjónustan og tengslamyndunin ekki einskorðast við hina landfræðilegu sókn eins og áður var. Það þarf að mæta fólki þar sem það er og það er það sem sérþjónustan leitast við að gera. Sérþjónustan sinnir líka fólki á landsvísu og þannig njóta dreifbýlissöfnuðirnir hennar líka. Ef til vill er mikilvægasta ástæða þess að standa vörð um sérþjónustuna að velflest þau sem hún þjónar standa ekki styrkum fótum í samfélaginu og geta ekki varið hana sjálf.

Sérþjónustan tekur breytingum eins og önnur þjónusta kirkjunnar. Þess vegna skiptir máli að erindisbréf og starfslýsingar séu skýrar og þarfirnar séu metnar reglulegar, t.d. með tilliti til tilsjónar. Ég hef ekki í huga að gefa nein fjárskuldbindandi kosningaloforð, vegna þess að ég vil berjast fyrir því að kirkjuþing ráði sem mestu um það hvernig sameiginlegum sjóðum kirkjunnar er varið.  Ég hef ritað grein um þetta efni sem heitir „Búrlyklar biskupsins“ og hana má finna hér.  En hugur minn til sérþjónustunnar er hlýr, ég átta mig á mikilvægi hennar og ég vil veg hennar sem mestan.

Áskoranir og tækifæri kirkju og þjóðar í kreppu

Í þessum pistli ætla ég að greina helstu áskoranir þjóðkirkjunnar eftir hrun sem m.a. birtast í siðferðilegri, stjórnmálalegri og efnahagslegri kreppu íslensku þjóðarinnar og bregðast þannig við spurningum sem til mín hefur verið varpað, sjá hér og hér.

Þjóð-kirkja er lykilorð í þessu samhengi. Fyrir 25 árum tilheyrði meira en 90% þjóðarinnar þjóðkirkjunni og til skamms tíma hefur næstum því verið hægt að setja samasemmerki á milli þjóðarinnar og þjóðkirkjunnar. Nú er hlutfallið komið niður í 78% á landsvísu. Í Reykjavík voru 74,5% þjóðarinnar skráð í þjóðkirkjuna um mitt síðasta ár. Á síðasta ári ritaði biskup Íslands áhugaverða grein um úrsagnir og áskoranir þeirra sem nálgast má hér. Þessar miklu sviptingar þjóðkirkjunnar eiga sér einkum þrjár orsakir, borgvæðingu, fjölhyggju og það sem kalla má séríslenskar aðstæður.

Borgvæðing

Fækkun í þjóðkirkjunni helst að einhverju leyti í hendur við samsvarandi fækkun á Vesturlöndum. Áhrif borgvæðingarinnar á íslensku þjóðkirkjuna eru margvísleg. Skipulag kirkjunnar sem mótast hefur í samfélagi sveitanna á þúsund árum og síðan í þéttingu byggðakjarnana út um land á erfitt með að fylgja þéttbýlisþróuninni á höfuðborgarsvæðinu. Möskvar kirkjunetsins eru stærri fyrir sunnan og hinn lifandi veruleiki kirkjunnar í mörgum tilfellum minni, þótt víða sé rekið kraftmikið og umfangsmikið starf. Brugðist hefur verið við fækkun á landsbyggðinni með því að færa embætti úr strjálbýlinu í þéttbýlið. Þótt þessar aðgerðir hafi að einhverju leyti eflt kirkjustarfið á höfuðborgarsvæðinu hafa í staðinn myndast göt í þjónustukerfi þjóðkirkjunnar í strjálustu byggðunum. Dæmi eru um að átta sóknir fyrirfinnist í einu og sama prestakallinu og á sumum stöðum eru mörg hundruð kílómetrar á milli presta. Borgvæðingin skapar þannig ólíkar áskoranir fyrir þjóðkirkju í sveit og borg sem orsakar bæði núning og samkeppni. Borgvæðingin skapar mikið álag á presta og annað starfsfólk þjóðkirkjunnar, annars vegar vegna þeirra sem búa við gríðarlegt starfsálag vegna fólksfjölda í sóknum, hins vegar þeirra sem sinna þjónustu á gríðarstóru svæði, í einangrun og við erfiðar einyrkjaaðstæður. Borgvæðingin er einn þáttur vistkreppunnar sem ætti að vera sérlega aðkallandi verkefni trúarbragða sem heiðra vilja Guðs góðu sköpun. Eitt af mest aðkallandi verkefnum þjóðkirkjunnar sem borgvæðingin kallar á er vönduð og öflug starfsmannastefna þar sem haldið er utan um starfsmenn hennar með símenntun, öflugri fjölskyldustefnu, samvinnu, handleiðslu og markvissri tilsjón.

Fjölhyggja

Samfara borgvæðingunni er samsetning þjóðarinnar snarlega að breytast. Trúarleg viðhorf landsmanna eru orðin fjölbreyttari, fólksflutningar milli landa algengari og fjöldi Íslendinga af erlendum uppruna að vaxa. Í stað þess að þjóð og þjóðkirkja séu að mestu sama mengið, stendur nú tæplega fjórðungur þjóðarinnar utan þjóðkirkjunnar. Sumir eru þar vegna þess að þeir játa aðra trú eða tilheyra öðrum kirkjudeildum. Aðrir eru trúlausir og hafa fundið nýja farvegi fyrir þá lífsskoðun. Til stendur að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og trúfélaga á þessu þingi sem undirstrikar enn sterkar en fyrr nýjar aðstæður þjóðkirkjunnar sem stórrar fjöldahreyfingar meðal margra annarra trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Sérstakar aðstæður

Auk þeirra tveggja þátta sem þegar hafa verið nefndir og móta allt trúarlíf á Vesturlöndum má nefna þrennar aðstæður sem eiga sér hliðstæður annars staðar í veröldinni en hafa skekið þjóðkirkjuna allverulega á undanförnum árum og orsakað fjöldaúrsagnir úr henni. Í fyrsta lagi vil ég nefna deilur um samkynhneigð og hjónaband sem hafa reynt mjög á einingu kirkjunnar. Annað það sem hraðað hefur úrsögnum úr þjóðkirkjunni er aðkoma ýmissa valdamikilla manna úr yfirstjórn þjóðkirkjunnar að því þegar konur ásökuðu Ólaf Skúlason biskup um kynferðisbrot á árinu 1996 og 2009. Góðu heilli eru þessi tvö mál komin vel á leið til lausnar, en þau þarfnast þess að sár séu áfram grædd. Samkynhneigt fólk hefur fengið full réttindi til borgaralegs hjúskapar og kirkjulegrar hjónavígslu þó að fordómum í þeirra garð sé hvergi nærri eytt í íslensku samfélagi. Stofnuð var rannsóknarnefnd sem rannsakaði viðbrögð þjóðkirkjunnar við ásökunum á hendur Ólafi biskupi. Niðurstöður þeirrar vinnu voru kynntar alþjóð og síðan hefur nefnd á vegum kirkjuþings unnið að því að gera sátt við konurnar um þau atriði sem rannsóknarnefndin taldi að miður hefðu farið. Þriðja atriðið sem lýtur sérstaklega að íslenskum veruleika er efnahagshrunið í október 2008, sem hefur kallað fram mikla efnahagserfiðleika og aukið á fátækt landsmanna. Þjóðin hefur orðið fyrir stjórnmálalegu, siðferðilegu og efnahagslegu áfalli sem meðal annars lýsir sér í minnkandi trausti til stofnana og að kröfur um lýðræði, jafnrétti, gagnsæi og góða stjórnsýslu eru háværar. Inn í þennan veruleika þarf þjóðkirkjan að tala með sannfærandi hætti, með fyrirmyndar stjórnsýslu, með því að vera samkvæm sjálfri sér í jafnréttismálum og með því að stórauka hjálparstarf sitt og taka sér betri stöðu meðal þeirra sem minnst mega sín.

Tvær leiðir: Herping og opnun

Tvær leiðir virðast nærtækar kirkju sem stendur frammi fyrir hinum þreföldu áskorunum sem ég hef lýst, borgvæðingunni, fjölhyggjunni og hinum sérstöku aðstæðum. Þjóðin er í ákveðinni tilvistarkreppu, kreppu um það hver þjóðarsálin er og hvort hún geti lengur kallast ein. Hún getur sömuleiðis farið tvær samsvarandi leiðir til móts við nýja tíma.

Fyrri leiðin sem býðst bæði þjóð og þjóðkirkju er leið herpingarinnar, sem er í flestum tilfellum hið ósjálfráða viðbragð við sársauka og ógnandi aðstæðum. Vöðvi sem verður fyrir höggi herpist saman og manneskjur sem verða fyrir árás bregðast gjarnan við með því að hnipra sig saman í vörn eða þjálfa upp hjá sér árásarhneigð til sóknar. Þjóð sem velur herpingarleiðina leitar leiða til varna og einangrunar. Vaxandi þjóðernishyggja er oft fylgifiskur varnarviðbragða svo og leit að skarpri sjálfsmynd sem aðgreinir þjóðina frá öðrum. Þjóðkirkja sem velur herpingarleiðina getur spilað stórt hlutverk í slíkri einangrunarhyggju, orðið táknmynd þjóðlegrar menningar og runnið saman við sögulega hefð. Hún getur orðið lóð á vogarskálar við að skerpa andstæður milli okkar og hinna.

Seinni leiðin er leið opnunarinnar. Kona sem fæðir neyðist til að þjálfa með sér viðbrögð sem eru andstæð því sem henni kunna að vera sjálfráð við sársauka. Hún þarf að opna og slaka, búa öðrum rúm og farveg. Seinni leiðin er líka í leit að sjálfsmynd og sjálfspeglun, en sú sjálfsmynd er mótuð í samræðu frekar en andstæðu. Dæmi um þjóð sem hefur valið seinni kostinn í kjölfar áfalls er norska þjóðin, sem brást við fjöldamorðunum í Útey í júlí s.l. með meiri opnun á grundvelli fjölhyggju. Ég prédikaði um atburðina í Útey og hvað læra mætti af þeim. Prédikunina má finna hér. Þjóðkirkja sem velur síðari kostinn velur að vera gestrisin í garð annarra trúarbragða og lífsskoðana. Hún er næm fyrir mannréttindamálum, gagnsæi og jafnrétti. Hún velur samræðu sem er bæði erfið og nauðsynleg. Hún er meðvituð um hið flókna samspil milli þjóðar og þjóðkirkju, en afbyggir jafnframt það samspil í sögu og samtíð.

Fyrri leiðin lítur á fjölhyggjuna og aðstæður hrunsins sem áskorun og leitar afturhvarfs til fyrra ástands. Seinni leiðin sér ekki aðeins áskoranir heldur tækifæri. Hún horfir fram til nýrra tíma. Ég tel miklu varða að seinni leiðin marki áherslur þjóðkirkjunnar með skýrum hætti á komandi tíð.