Tag: þjóðkirkja

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um þjóðkirkjuna

Í skýrslu ríkisendurskoðunar frá síðasta hausti komu fram ábendingar til þjóðkirkjunnar í fimm liðum. Skýrslu ríkisendurskoðunar má í heild nálgast hér.Í þessum pistli hyggst ég bregðast við ábendingum ríkisendurskoðunar og tek fyrir fyrstu þrjár ábendingarnar fyrst.

1. BREYTA ÞARF SKIPAN KIRKJURÁÐS
Það er mat Ríkisendurskoðunar að breyta þurfi lögum á þann veg að dregið verði sem mest úr skyldum biskups til að sinna fjármálaumsýslu kirkjunnar. Endurskoða þarf ákvæði í 10. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 þess efnis að biskup sé forseti kirkjuráðs í þá veru að hann sitji í ráðinu með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.

VINNA ÞARF AÐ HEILDARSTEFNUMÓTUN UM MÁLEFNI BISKUPSSTOFU
Þjóðkirkjan þarf að móta stefnu um þá starfsemi sem fram fer á Biskupsstofu, þar sem fram komi lykilmarkmið og árangursmælikvarðar. Þá þarf að forgangsraða og tímasetja aðgerðir til að framfylgja stefnunni. Liður í slíkri stefnumótun er að meta hvort kirkjan á að sinna öllum þeim verkefnum sem nú er sinnt á Biskupsstofu.

2. SKIPTA ÆTTI UPP NÚVERANDI VERKEFNUM BISKUPSSTOFU
Skipta ætti upp verkefnum sem nú eru unnin á Biskupsstofu í trúarleg verkefni og veraldleg verkefni. Verkefnin ættu að falla undir tvær stjórnunarlega aðskildar skipulagseiningar sem hvor hefði sinn yfirmann. Móta þyrfti skipurit og skriflegar starfsreglur fyrir báðar einingarnar.

3. AUKA ÞARF GAGNSÆI Í FJÁRMÁLUM ÞJÓÐKIRKJUNNAR
Fjármál þjóðkirkjunnar verða að vera gagnsærri en nú er. Þannig er t.d. æskilegt að helstu sjóðir kirkjunnar, þ.e. Kirkjumálasjóður, Kristnisjóður, Jöfnunarsjóður sókna og Hinn almenni kirkjusjóður verði sameinaðir í einn Kirkjusjóð. Að auki þarf að vinna skýrar verklagsreglur um styrkveitingar á vegum kirkjunnar, þar sem m.a. komi fram með hvaða hætti umsóknir eru metnar og hvernig eftirfylgni með nýtingu fjárins sé háttað.

Fyrstu spurningunum þremur er auðvelt að svara og ég hef þegar gert það að hluta í pistlinum „Lýðræði og ný þjóðkirkjulög“ sem nálgast má hér.  Ég vil fá biskupinn úr rekstrarumsýslunni eins og kostur er og að stjórnsýsla biskupsstofu verði einfölduð. Styð ég því eindregið ályktanir ríkisendurskoðunar um þetta efni.

Víkur þá að fjórða atriðinu:

4. SAMEINA VERÐUR SÓKNIR
Sóknir á Íslandi eru margar og algengt að þær séu fámennar. Ríkisendurskoðun telur að stefna eigi að sameiningu fámennra og illa starfhæfra sókna í stað þess að leggja einungis áherslu á að efla samvinnu milli þeirra. Stofnunin telur því að nauðsynlegt sé að sett verði skilyrði um lágmarksfjölda sóknarbarna í hverri sókn. Færa ber frumkvæði að sameiningu sókna frá biskupafundi til kirkjuþings.

Ég hygg að hér skipti miklu máli hversu sjálfstæðar íslensku sóknirnar eru. Það eru margar góðar ástæður fyrir því að sameina sóknir og margar smáar sóknir hafa einmitt tekið á það ráð, enda samstarf milli sóknanna oft mikið. En meginmálið er að slík sameining á ekki að verða til við valdboð að ofan eða að sunnan, heldur vegna gildra ástæðna um þjónustu heima fyrir. Ég myndi því fara mér hægt í þessu efni og aðstoða heimamenn frekar við að taka sínar ákvarðanir, heldur en að keyra í gegn sameiningar. Þjóðkirkjan hefur á að skipa öflugu sóknarfólki sem unnið hefur að vönduðu sameiningarferli og þessi þekking á eftir að nýtast öðrum.

Síðasta ábending ríkisendurskoðunar er svona:

5. UMSÝSLA OG EIGNARHALD PRESTSSETRA VERÐI HJÁ SÓKNUM
Ríkisendurskoðun telur að eignarhald og viðhald prestssetra eigi að vera hjá sóknum, að undanskildum prestssetursjörðum. Sóknirnar eru grunneiningar kirkjunnar og það er þeirra að ákvarða um heimilisfesti sóknarpresta í samráði við þá og hvernig að þeim skuli búið. Þessari breytingu þyrfti að fylgja fjármagn til sóknanna frá Kirkju-málasjóði. Húsaleigutekjur vegna prestssetranna myndu með sama hætti renna til þeirra. Þá þyrfti við úthlutun úr Jöfnunarsjóði sókna að horfa til þeirra viðhalds-verkefna sem munu hvíla á sóknunum.

Um síðasta atriðið um að umsýsla og eignarhald prestsetra verði hjá sóknum er ég ósammála niðurstöðu skýrslunnar, því að prestsetrin tengjast sóknarsjóðunum ekki með nokkru móti, heldur samkomulaginu um kirkjueignir. Hins vegar finnst mér vel koma til greina að starfsmaður sem starfar við prestsetrin sé staðsettur einhvers staðar úti á landi, enda um hreint landsbyggðarmál að ræða. Prófastar höfðu lengi umsjá með ósetnum prestsetrum og tóku út prestsetur. Vel færi á því að umsjá með prestsetrum færi að einhverju leyti aftur heim í hérað undir umsjá prófasta.

Skýrsla ríkisendurskoðunar er vönduð og kemur fram á mikilvægum tíma sem hvati að stjórnunarlegum breytingum. Þær eigum við að takast á hendur með djörfung og krafti.

Hjartaspjöld og mannauður

Í stefnumótun þjóðkirkjunnar 2004 til 2010 voru margir kallaðir til að marka framtíðarsýn fyrir þjóðkirkjuna. Stefnumótunin er öll hin áhugaverðasta og hana má nálgast hér.  Þar var heilum lið varið í að ræða um starfsmannamál og sýnir það framsýni stefnunnar. Markmið starfsmannastefnunnar er sett fram á stuttan og greinargóðan hátt svohljóðandi:

Þjóðkirkjan vill hafa á að skipa hæfu og áhugasömu starfsfólki. Hún vill skapa því
góð starfsskilyrði og möguleika til að vaxa og dafna í starfi. Kirkjan vill vera góður
vinnustaður, þar sem gott starf er unnið af áhugasömu, samstilltu og ábyrgu fólki í
anda jafnræðis.

Síðan eru dregin fram átta atriði sem tryggja eiga að markmið starfsmannastefnunnar nái fram að ganga. Þau eru: 1)  aukin áhersla á samstarf, 2)  efld afleysingaþjónusta, 3) aukið sjálfboðaliðastarf, 4) starfsmannaviðtöl á hverju ári, 5) að lögð sé vinna í starfsþjálfun, endur- og símenntun, 6) að tekið sé tillit til fjölskylduhags þeirra semt vinna í kirkjunni, t.d. með sveigjanlegum vinnutíma, 7) útbúin verði starfslýsing fyrir hvert starf og 8) að ágreiningsmál verði leyst fljótt og vel.

Allir þessir málaflokkar eru gagnlegir útgangspunktar um það sem brennur á þeim sem starfa í kirkjunni. Níunda atriðið hefði að ósekju mátt fjalla um prestssetramál, því að fátt markar eins vellíðan eða vansæld prestsfjölskyldna í strjálbýli eins og sá staður sem þeim er gert að byggja.

Auk þeirrar stefnumótunarvinnu sem ég hef hér getið var starfsmannastefna þjóðkirkjunnar samþykkt á kirkjuþingi 2002. Stefnumótunarvinnan átti að endurskoðast 2010 og starfsmannastefnan „eftir þörfum“. Starfsmannastefnu þjóðkirkjunnar má nálgast hér.  Í upphafi þeirrar stefnu er getið meginmarkmiða sem eru nánast samhljóma  þeim markmiðum sem seinna birtust í stefnumótun þjóðkirkjunnar. Síðan koma undirkaflar þar sem rætt er um: 1)  ábyrgð og skyldur stjórnenda og starfsmanna, 2) upplýsingar, boðmiðlun og samskipti, 3) Jafnrétti, starf og fjölskyldu, 4) skipun og ráðningu starfsmanna, 5) starfsþjálfun, 6) símenntun og handleiðslu, 7) starfsmannaviðtöl, 8) launamál og orlof, 9) siðareglur og starfsaga, 10) starfsaðstöðu og starfsumhverfi og 10) loks framkvæmd og gildistíma.

Af öllu þessu má ráða að þjóðkirkjan hefur markað sér stefnu í starfsmannamálum og er það vel.  Öðru máli gegnir um það hvernig hefur gengið að framfylgja því sem ákveðið hefur verið. Sýnir það veikleika stefnumótunarvinnunnar að hún birtir markmiðin og verkefnin, en leiðirnar til úrlausnar vantar. Í þessi mikilvægu skjöl vantar að tilgreina hver eigi að sjá um að stefnunni sé framfylgt, hvernig það verði best gert og hver eftirfylgdin eigi að vera.

Boðskapurinn sem þjónar kirkjunnar flytja í sveit, bæ og borg, í vígðri þjónustu, launuðu og ólaunuðu starfi er það dýrmætasta sem sem kirkjan getur boðið öðru fólki. Það er vegna boðskaparins sem við erum send út til að sinna kærleiksþjónustu, fræðslu, menningarstarfi, helgihaldi og boðun. Sum gera það með því að skúra kirkjuna. Önnur skíra börn eða veita æskulýðsfélaginu forgöngu, rita fundargerðir sóknarnefndar, jarða, sækja héraðsfundi, vera með sunnudagaskólann eða dytta að kirkjunni. Allt miðar þetta í þá átt að við erum farvegur fyrir erindið sem Kristur sendi okkur með. Eða hvað segir ekki postulinn:

Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum. Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi. (2. Kor. 3:2-3).

Ef við sem erum lærisveinar Krists erum „hjartaspjöld úr holdi“ og „bréf“ eins og Páll segir, þá skiptir miklu máli að póstþjónustan sé í lagi. Það þarf að hlúa að bréfunum og halda utan um hjörtun á mjög skýran og markvissan hátt og í anda þeirrar stefnu sem kirkjan hefur markað sér og þarf að uppfæra og aðlaga að nýjum tímum.

Ég held að þessi póstþjónusta starfsmannanna skipti gríðarlega miklu máli á þeirri öld sem við lifum. Ég hef tvisvar upplifað það í starfi að komast nálægt því að bræða úr mér. Í annað skiptið voru það vönduð samtöl hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar sem hjálpuðu mér frá því að kulna í starfi, í síðara skiptið fékk ég stutt námsleyfi á heppilegum tíma. Kraftur, áhugi og brennandi trú eru ekki sjálfgefnar orkulindir, heldur eitthvað sem þarf að huga að vernda, varðveita og meta. Annars beyglast hjartaspjöldin og bréfið týnist í póstinum. Og það sem einu sinni hefur verið beyglað tekur tíma að rétta úr kútnum aftur.

Nú þegar biskupskosningar standa fyrir dyrum og framtíðarsýn kirkjunnar er rædd, þarf að byrja á því að huga að heilsu og starfsgleði prestanna og djáknanna, vegna þeirrar yfirsýnar sem þeir hafa yfir starfið í söfnuðunum og þeirrar sérstöku ábyrgðar sem að biskupinn hefur gagnvart hinni vígðu þjónustu. Sinna þarf vel um hina launuðu starfsmenn safnaðanna, t.d. með ráðgjöf við sóknarnefndirnar sem starfsmennirnir standa í vinnuréttarlegu sambandi við og með því að ítreka ákvæði starfsmannastefnunnar, t.d. um jafnrétti, að allar stöður séu auglýstar og að starfsmönnum beri ákveðin vinnuskilyrði. Starfsmannastefnan getur í litlu sjálfboðaliðanna, en þeir eiga auðvitað heima í henni líka. Í stefnunni þarf að koma fram umhyggjan fyrir sjálfboðaliðum safnaðarins, sýnin á að hvernig þeir geta vaxið og dafnað í sínu mikla og óeigingjarna starfi.

Starfsmannastefnan er óendanlega mikilvæg og við eigum að flagga henni, glíma við hana, uppfæra hana og fara eftir henni. Starfið er til vegna boðskaparins og stjórnsýslan er til svo að starfið sé gott.  Ég tel að það eigi að vera forgangsmál nýs biskups að endurskoða starfsmannastefnuna í samtali við þau sem þjóna í kirkjunni. Í þetta skiptið þurfum við að láta það fylgja með hvernig stefnunni verði best framfylgt. Virkja þarf prófastana til að skipuleggja í auknum mæli afleysingar og símenntun hinna launuðu starfsmanna. Ráð þarf  menntaðan starfsmannastjóra til að fylgja málinu eftir, taka viðtöl við starfandi presta og djákna og leggja endurskoðaða starfsmannastefnu fyrir kirkjuþing. Ræða þarf við presta og djákna um það hvernig best er að koma fyrir faglegri handleiðslu í framtíðinni. Ég tel að brýnna sé að ráða starfsmannastjóra heldur en biskupsritara og mun beita mér fyrir því ef ég næ kjöri sem biskup. Hugsum um hjartaspjöldin og komum erindi Krists á framfæri, því bréfi sem okkur er treyst fyrir.

Síðasti liður stefnumótunarinnar gerði ráð fyrir því að „ágreiningsmál yrðu leyst fljótt og vel“. Kannski er það táknrænt að einmitt sama ár og stefnumótunin tók gildi var lögð fram tillaga á kirkjuþingi um stofnun handleiðsluteymis innan íslensku þjóðkirkjunnar, sem skyldi aðstoða við úrlausn ágreiningsmála. Tillagan var borin fram af sr. Guðjóni Skarphéðinssyni og sr. Sighvati Karlssyni, en auk þeirra unnu sr. Elínborg Gísladóttir og sr. Ragnheiður Karítas Pétursdóttir að gerð hennar. Tillöguna má nálgast hér. Hún náði ekki fram að ganga á sínum tíma, sem er mikil synd, því að hún er gott innlegg inn í þessa umræðu um starfsmannamálin. Er ekki kominn tími til að taka hana upp aftur?

Áskoranir og tækifæri kirkju og þjóðar í kreppu

Í þessum pistli ætla ég að greina helstu áskoranir þjóðkirkjunnar eftir hrun sem m.a. birtast í siðferðilegri, stjórnmálalegri og efnahagslegri kreppu íslensku þjóðarinnar og bregðast þannig við spurningum sem til mín hefur verið varpað, sjá hér og hér.

Þjóð-kirkja er lykilorð í þessu samhengi. Fyrir 25 árum tilheyrði meira en 90% þjóðarinnar þjóðkirkjunni og til skamms tíma hefur næstum því verið hægt að setja samasemmerki á milli þjóðarinnar og þjóðkirkjunnar. Nú er hlutfallið komið niður í 78% á landsvísu. Í Reykjavík voru 74,5% þjóðarinnar skráð í þjóðkirkjuna um mitt síðasta ár. Á síðasta ári ritaði biskup Íslands áhugaverða grein um úrsagnir og áskoranir þeirra sem nálgast má hér. Þessar miklu sviptingar þjóðkirkjunnar eiga sér einkum þrjár orsakir, borgvæðingu, fjölhyggju og það sem kalla má séríslenskar aðstæður.

Borgvæðing

Fækkun í þjóðkirkjunni helst að einhverju leyti í hendur við samsvarandi fækkun á Vesturlöndum. Áhrif borgvæðingarinnar á íslensku þjóðkirkjuna eru margvísleg. Skipulag kirkjunnar sem mótast hefur í samfélagi sveitanna á þúsund árum og síðan í þéttingu byggðakjarnana út um land á erfitt með að fylgja þéttbýlisþróuninni á höfuðborgarsvæðinu. Möskvar kirkjunetsins eru stærri fyrir sunnan og hinn lifandi veruleiki kirkjunnar í mörgum tilfellum minni, þótt víða sé rekið kraftmikið og umfangsmikið starf. Brugðist hefur verið við fækkun á landsbyggðinni með því að færa embætti úr strjálbýlinu í þéttbýlið. Þótt þessar aðgerðir hafi að einhverju leyti eflt kirkjustarfið á höfuðborgarsvæðinu hafa í staðinn myndast göt í þjónustukerfi þjóðkirkjunnar í strjálustu byggðunum. Dæmi eru um að átta sóknir fyrirfinnist í einu og sama prestakallinu og á sumum stöðum eru mörg hundruð kílómetrar á milli presta. Borgvæðingin skapar þannig ólíkar áskoranir fyrir þjóðkirkju í sveit og borg sem orsakar bæði núning og samkeppni. Borgvæðingin skapar mikið álag á presta og annað starfsfólk þjóðkirkjunnar, annars vegar vegna þeirra sem búa við gríðarlegt starfsálag vegna fólksfjölda í sóknum, hins vegar þeirra sem sinna þjónustu á gríðarstóru svæði, í einangrun og við erfiðar einyrkjaaðstæður. Borgvæðingin er einn þáttur vistkreppunnar sem ætti að vera sérlega aðkallandi verkefni trúarbragða sem heiðra vilja Guðs góðu sköpun. Eitt af mest aðkallandi verkefnum þjóðkirkjunnar sem borgvæðingin kallar á er vönduð og öflug starfsmannastefna þar sem haldið er utan um starfsmenn hennar með símenntun, öflugri fjölskyldustefnu, samvinnu, handleiðslu og markvissri tilsjón.

Fjölhyggja

Samfara borgvæðingunni er samsetning þjóðarinnar snarlega að breytast. Trúarleg viðhorf landsmanna eru orðin fjölbreyttari, fólksflutningar milli landa algengari og fjöldi Íslendinga af erlendum uppruna að vaxa. Í stað þess að þjóð og þjóðkirkja séu að mestu sama mengið, stendur nú tæplega fjórðungur þjóðarinnar utan þjóðkirkjunnar. Sumir eru þar vegna þess að þeir játa aðra trú eða tilheyra öðrum kirkjudeildum. Aðrir eru trúlausir og hafa fundið nýja farvegi fyrir þá lífsskoðun. Til stendur að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og trúfélaga á þessu þingi sem undirstrikar enn sterkar en fyrr nýjar aðstæður þjóðkirkjunnar sem stórrar fjöldahreyfingar meðal margra annarra trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Sérstakar aðstæður

Auk þeirra tveggja þátta sem þegar hafa verið nefndir og móta allt trúarlíf á Vesturlöndum má nefna þrennar aðstæður sem eiga sér hliðstæður annars staðar í veröldinni en hafa skekið þjóðkirkjuna allverulega á undanförnum árum og orsakað fjöldaúrsagnir úr henni. Í fyrsta lagi vil ég nefna deilur um samkynhneigð og hjónaband sem hafa reynt mjög á einingu kirkjunnar. Annað það sem hraðað hefur úrsögnum úr þjóðkirkjunni er aðkoma ýmissa valdamikilla manna úr yfirstjórn þjóðkirkjunnar að því þegar konur ásökuðu Ólaf Skúlason biskup um kynferðisbrot á árinu 1996 og 2009. Góðu heilli eru þessi tvö mál komin vel á leið til lausnar, en þau þarfnast þess að sár séu áfram grædd. Samkynhneigt fólk hefur fengið full réttindi til borgaralegs hjúskapar og kirkjulegrar hjónavígslu þó að fordómum í þeirra garð sé hvergi nærri eytt í íslensku samfélagi. Stofnuð var rannsóknarnefnd sem rannsakaði viðbrögð þjóðkirkjunnar við ásökunum á hendur Ólafi biskupi. Niðurstöður þeirrar vinnu voru kynntar alþjóð og síðan hefur nefnd á vegum kirkjuþings unnið að því að gera sátt við konurnar um þau atriði sem rannsóknarnefndin taldi að miður hefðu farið. Þriðja atriðið sem lýtur sérstaklega að íslenskum veruleika er efnahagshrunið í október 2008, sem hefur kallað fram mikla efnahagserfiðleika og aukið á fátækt landsmanna. Þjóðin hefur orðið fyrir stjórnmálalegu, siðferðilegu og efnahagslegu áfalli sem meðal annars lýsir sér í minnkandi trausti til stofnana og að kröfur um lýðræði, jafnrétti, gagnsæi og góða stjórnsýslu eru háværar. Inn í þennan veruleika þarf þjóðkirkjan að tala með sannfærandi hætti, með fyrirmyndar stjórnsýslu, með því að vera samkvæm sjálfri sér í jafnréttismálum og með því að stórauka hjálparstarf sitt og taka sér betri stöðu meðal þeirra sem minnst mega sín.

Tvær leiðir: Herping og opnun

Tvær leiðir virðast nærtækar kirkju sem stendur frammi fyrir hinum þreföldu áskorunum sem ég hef lýst, borgvæðingunni, fjölhyggjunni og hinum sérstöku aðstæðum. Þjóðin er í ákveðinni tilvistarkreppu, kreppu um það hver þjóðarsálin er og hvort hún geti lengur kallast ein. Hún getur sömuleiðis farið tvær samsvarandi leiðir til móts við nýja tíma.

Fyrri leiðin sem býðst bæði þjóð og þjóðkirkju er leið herpingarinnar, sem er í flestum tilfellum hið ósjálfráða viðbragð við sársauka og ógnandi aðstæðum. Vöðvi sem verður fyrir höggi herpist saman og manneskjur sem verða fyrir árás bregðast gjarnan við með því að hnipra sig saman í vörn eða þjálfa upp hjá sér árásarhneigð til sóknar. Þjóð sem velur herpingarleiðina leitar leiða til varna og einangrunar. Vaxandi þjóðernishyggja er oft fylgifiskur varnarviðbragða svo og leit að skarpri sjálfsmynd sem aðgreinir þjóðina frá öðrum. Þjóðkirkja sem velur herpingarleiðina getur spilað stórt hlutverk í slíkri einangrunarhyggju, orðið táknmynd þjóðlegrar menningar og runnið saman við sögulega hefð. Hún getur orðið lóð á vogarskálar við að skerpa andstæður milli okkar og hinna.

Seinni leiðin er leið opnunarinnar. Kona sem fæðir neyðist til að þjálfa með sér viðbrögð sem eru andstæð því sem henni kunna að vera sjálfráð við sársauka. Hún þarf að opna og slaka, búa öðrum rúm og farveg. Seinni leiðin er líka í leit að sjálfsmynd og sjálfspeglun, en sú sjálfsmynd er mótuð í samræðu frekar en andstæðu. Dæmi um þjóð sem hefur valið seinni kostinn í kjölfar áfalls er norska þjóðin, sem brást við fjöldamorðunum í Útey í júlí s.l. með meiri opnun á grundvelli fjölhyggju. Ég prédikaði um atburðina í Útey og hvað læra mætti af þeim. Prédikunina má finna hér. Þjóðkirkja sem velur síðari kostinn velur að vera gestrisin í garð annarra trúarbragða og lífsskoðana. Hún er næm fyrir mannréttindamálum, gagnsæi og jafnrétti. Hún velur samræðu sem er bæði erfið og nauðsynleg. Hún er meðvituð um hið flókna samspil milli þjóðar og þjóðkirkju, en afbyggir jafnframt það samspil í sögu og samtíð.

Fyrri leiðin lítur á fjölhyggjuna og aðstæður hrunsins sem áskorun og leitar afturhvarfs til fyrra ástands. Seinni leiðin sér ekki aðeins áskoranir heldur tækifæri. Hún horfir fram til nýrra tíma. Ég tel miklu varða að seinni leiðin marki áherslur þjóðkirkjunnar með skýrum hætti á komandi tíð.

Spurningar til biskupskandídata

Til okkar biskupskandídatanna hefur verið beint fjórum spurningum. Þeir eru beðnir um að gera grein fyrir eftirfarandi atriðum:

1) hvað ógnar Þjóðkirkju Íslands eins og hún birtist þjóðinni í siðferðis-, stjórnmála- og efnahagskreppu.
2) hvernig hún getur mætt þjóðinni, þar sem hún er stödd nú (sjá 1)
3) hvaða verkefni þeir setja á oddinn, til að kirkjan geti mætt þjóðinni (sbr. 2)
4) hvernig þeir hyggjast beita sér til að bæta Þjóðkirkju Íslands.

Þetta eru fínar spurningar sem ég ætla að svara með nokkrum greinum hér á blogginu og á http://www.tru.is á næstunni. Meðan ég leggst undir feld þá bendi ég á yfirlýsinguna mína og þær greinar sem ég hef ritað undanfarið. Í yfirlýsingunni bendi ég á fjóra þætti sem ég ætla að leggja áherslu á ef ég verð biskup. Ég byrja á hinu víðasta og þrengi hringinn smám saman frá hinu almenna samtali, til safnaðanna og síðan inn í stjórnsýslu og starfsmannamál þjóðkirkjunnar. Yfirlýsinguna má nálgast hér. Ég bendi líka á sjö greinar sem ég hef skrifað að undanförnu og birt hér á Afgrunninu:

„Umdeildir leiðtogar“
„Kirkjan öllum opin“
„Lýðræði og ný þjóðkirkjulög“
„Valddreifing og valdefling í kirkjukosningum“ 
„Lifur líkamans“
„Þjóðkirkjan á breytingaskeiðinu“
„Gegnum glerþakið“

Á morgun ríð ég á vaðið með fyrstu grein:  „Hvað ógnar þjóðkirkjunni eins og hún birtist þjóðinni í siðferðis-, stjórnmála- og efnahagskreppu?“  Fylgist með.

Áramótahugvekja: Þjóðkirkjan á breytingaskeiðinu

Margar fagrar líkingar eru til um kirkjuna. Eitt frægasta tákn kirkjunnar er skipið. Kirkjan er musteri byggt úr lifandi steinum. Fyrstu kristnu söfnuðirnir notuðu gjarnan fisktákn um sjálfa sig. Móðurmyndin er kristnu fólki hugstæð þegar það túlkar kirkjuna með myndum, sbr. sálminn „Kirkjan er oss kristnum móðir“. Og síðan er það myndin af kirkjunni sem líkama Krists sem Páll postuli (og þeir seinni tíma höfundar sem rit hans eru eignuð) draga upp fyrir okkur í bréfum Nýja testamentisins. Hver mynd á sér sína styrkleika og vankanta og þess vegna er gott að eiga þær nokkrar í handraðanum.

Það sem mér finnst áhugaverðast við líkamsmynd Páls um kirkjuna er að megineinkenni líkama er að taka breytingum. Að þessu leyti eru líkingarnar af skipi og líkama gjörólíkar. Það er ekki hluti af eðlilegu ferli skipa að breytast. Þau verða fyrir hnjaski og stórsköðum og svo geta eigendurnir sent þau í slipp til meiri háttar breytinga og andlitsupplyftingar. En líkamar breytast af sjálfu sér í takt við tíma og ytri aðstæður. Þeir þroskast og stækka, fitna og grennast, styrkjast og bila. Sumir líkamar fæða af sér aðra líkama. Sum líffæri verða ekki virk fyrr en ákveðnum þroska er náð, eiga sín skeið og hætta síðan störfum. Önnur visna og deyja og líkaminn þarf að aðlagast nýju ferli. Að lokum deyr líkaminn og aðrir líkamar taka við.

Ég held að fátt kæmi Þjóðkirkjunni betur í upphafi nýs árs 2012 en að hugsa lífrænt og líkamsmiðað um þær breytingar sem fram undan eru í kirkjunni. Þess vegna fjallar þessi áramótahugvekja um breytingaskeið líkamans.

Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá

segir áramótasálmurinn góði. Er það ekki bara allt í lagi?

Það er þversögn fólgin í því að tíðahvörf kvenna skuli á íslensku vera kallaðar „breytingaskeið“. Í orðanna hljóðan liggur að einu breytingarnar sem verði á líkömum séu líkamar miðaldra kvenna, sem jafnframt falli í verði við breytingarnar. En líkamar eru almennt á sífelldu breytingaskeiði. Á einum sprettur hár, hárið gránar og þynnist á öðrum, brýst út í ógurlegum augabrúnum og hökuhárum á þeim þriðja, sá fjórði fellir allt hár. Líkaminn spilar á raddbönd með nýjum hætti, tekur stakkaskiptum að vexti, frjósemi og heilsu, uppgötvar nýjar tegundir vellíðunar og nýjar þjáningar með. Og líkaminn endurnýjar sig stöðugt. Líkaminn er breytingaskeið og stöðnun er helsta hætta sem hann stendur frammi fyrir.


Hér er mynd af síðu Wellcome Images og er eftir Spike Walker. Wellcome Images er ljósmyndasafn sem sérhæfir sig í myndum í þágu vísinda og félagssögu. Myndin er af úrgangi sem nýrun hreinsa yfirleitt. Ef hann nær að safna utan á sig verður hann að nýrnasteinum sem gerir engum gagn. Það sem áður var hluti af eðlilegu flæði getur staðnað, stíflað og skemmt líkamsstarfsemina.

Einhvern tímann las ég að allar frumur líkamans endurnýji sig á sjö ára fresti. Það þýðir að líkami Sigríðar Guðmarsdóttur sem kom heim frá námi í Bandaríkjunum fyrir rúmum sjö árum að taka við nýstofnuðu Grafarholtsprestakalli er allur dáinn og endurnýjaður. Ég er í vissum skilningi þátttakandi í sístæðri upprisu. Og það erum við öll.

Hvert og eitt okkar á sér líkama sem er þátttakandi í stöðugu breytingaskeiði. Kirkjan er það líka og við ættum að taka hverju breytingaskeiði kirkjunnar opnum huga. Hún er lifandi. Hún er líkami. Okkar helsta verkefni ætti að vera að finna út hvernig við ræktum þennan líkama best, hvað haldi honum starfhæfum og samhæfðum, hvað fylli hann orku, gleði og heilbrigði, hvernig hann geti ræktað sérleik sinn og skyldleika við aðra líkama jarðar.

Ég er sannfærð um að ef Páll (eða öllu heldur hinir pálínsku höfundar sem skrifuðu undir merki hans) væri að skrifa um líkama Krists í dag myndu þeir ekki tala um Krist sem höfuð líkamans, heldur DNA líkamans. Það er að segja ef hann/þeir hefðu raunverulegan áhuga á því hvernig líkamar starfa. Forskriftin er ekki lengur fólgin í höfðinu eins og áður var haldið, heldur í hinum margvíslegu og sístarfandi frumum líkamans. Efesusbréf 21. aldarinnar myndi gera að yrkisefni sínu þessa merkilegu hæfni líkama til að stefna í ákveðna átt og móta frumur sínar eftir forskrift sem mótar bæði skyldleika þessa líkama við aðra félagslega líkama og sérleik hans. Og það myndi gera upp allt úrelta líkingamálið um að konur ættu að vera undirgefnar karlmönnum eins og kirkjan er undirgefin Kristi, en þessa samspyrðingu feðraveldisins og kirkjufræðinnar er að finna í þessum sömu textum.

Breyting er merkileg. Breytingar eru ekki allar til hins betra eða verra. Breytingar eru einfaldlega hluti af því að vera lifandi líkami. Og hví skyldu breytingar á líkama Krists vera eitthvað skelfilegri eða óeðlilegri en aðrar breytingar?

Það berst víða að ákallið um að Þjóðkirkjan, þessi líkami Krists á Íslandi taki breytingum. Kröfur um breytingar má heyra víða í samfélaginu. Nýverið birti Ríkisendurskoðun greinargóða skýrslu um stjórnsýslu kirkjunnar þar sem kemur fram að skipurit séu „flókin og nánast villandi“, að mikil þörf sé á að auka gagnsæi, umbreyta stjórnsýslueiningum, fækka sóknum, sameina sjóði og breyta verkaskiptingu milli biskups Íslands og annarra stjórnvalda kirkjunnar. Í skýrslunni eru einnig birtar niðurstöður af spurningalistum til presta þar sem þessir lykilstarfsmenn kirkjunnar kvarta yfir handahófskenndri stjórnsýslu og skorti á handleiðslu.

Verið er að vinna að nýju frumvarpi að Þjóðkirkjulögum á Kirkjuþingi sem m.a. miðar að því að auka vægi, vald og sjálfstæði þingsins og stuðla að skýrari verkaskiptingu milli Kirkjuþings og biskupsembættisins. Í umræðum um hið nýja frumvarp mátti heyra á máli margra þingmanna óþreyju eftir margháttuðum breytingum.

Víða má heyra óskir um að kirkjan verði nútímalegri, lýðræðislegri, sinni betur þörfum barna sinna, að hún sé veitulli í garð þeirra sem ekki fylgja henni, að hún berjist með virkari hætti fyrir mannréttindum og gegn fátækt og að um hana blási ferskari guðfræðivindar.

Á næstu vikum ætla ég að skrifa nokkra pistla um þessi tilteknu efni. Ég ætla að ræða lagafrumvarpið sem fram er komið, fjalla um Biskupsstofu í fortíð, nútíð og framtíð, m.a. út frá skýrslu Ríkisendurskoðunar, og setja fram guðfræðilega framtíðarþanka mína um þennan Krists líkam sem ég í þjóna. Takið endilega þátt í umræðunum það er svo örvandi fyrir blóðrás líkamans! Velkomin á breytingaskeiðið!

1. Kor. 12:27-28a: Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig. Guð hefur gefið öllum hlutverk í kirkjunni.
Ef 4:16: Við eigum að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans sem er höfuðið, Kristur. Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.
Kól 1:18a: Kristur er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið.