Tag: fjármál

Saga sóknargjaldanna

Sóknargjöld hafa nokkuð verið í umræðunni undanfarin ár. Sumir telja að sóknargjöldin séu styrkur ríkisins til trúfélaganna á meðan aðrir telja þau vera félagsgjöld.

Í dag rakst ég á vef héraðsskjalasafna á Íslandi. Þar hefur verið tekið saman safn  hlekkja á fyrri lög um sóknarnefndir og sóknargjöld, sjá hér. Ég  rak nefið í þessi gömlu lög og langar í þessum pistli að rekja sögu sóknargjaldanna.

Sóknargjöld eiga upphaf sitt í tíundargreiðslunum 1096, fyrstu skattalöggjöf á Íslandi. Skyldi fjórðungi tíundargreiðslna varið til viðhalds kirkju, fjórðungi til prests, fjórðungi til biskupsstóls og fjórðungi til þurfamanna. Ari fróði segir í tíunda kafla Íslendingabókar frá því að tíund hafi ólíkt ýmsum öðrum löndum verið tekin upp með miklum friði á Íslandi:

Gizurr byskup var ástsælli af öllum landsmönnum en hverr maðr annarra, þeira er vér vitim hér á landi hafa verit. Af ástsælð hans ok tölum þeira Sæmundar, með umbráði Markús lögsögumanns, var þat í lög leitt, at allir menn tölðu ok virtu allt fé sitt ok sóru, at rétt virt væri, hvárt sem var í löndum eða í lausaaurum, ok gerðu tíund af síðan. Þat eru miklar jartegnir, hvat hlýðnir landsmenn váru þeim manni, er hann kom því fram, at fé allt var virt með svardögum, þat er á Íslandi var, ok landit sjálft ok tíundir af gervar ok lög á lögð, at svá skal vera, meðan Ísland er byggt.

Lengi var fjárhagur kirkna og prests í höndum höfðingja sem héldu presta á jörðum sínum, en deilt var um forræði yfir kirkjunum í Staðamálunum fyrri og síðari á tólftu og þrettándu öld.  Deilurnar voru hatrammar en lauk með sáttargjörðinni í Ögvaldsnesi 1297. Þá fluttust jarðir sem kirkjan átti að meira en helmingi yfir á forræði biskups, sem afhenti þær prestunum til léns. Áttu eignir brauðsins að standa undir framfærslu prestsins og viðhaldi og rekstri kirkjunnar. Bændur héldu hins vegar þeim jörðum sem þeir áttu að meirihluta.

Sóknarnefndir verða til með lögum nr. 5/1880 og áttu fyrst í stað að vera sóknarprestinum til aðstoðar um að efla reglu, siðsemi og uppfræðslu ungmenna. Tveimur árum síðar voru samþykkt lög nr. 20/1890 um að söfnuðurinn geti tekið að sér að innheimta tekjur kirkju. Ef greiðendur gátu ekki goldið í peningum gátu þeir reitt kirkjugjaldið af hendi í „sauðfénaði, hvítri ull, fisk eða dúni.“

Fyrstu lög um sóknargjöld eru nr 5/1909. Síðan hefur sóknargjaldanafnið festst við kirknaféð.  Sóknargjöldin voru á árinu 1909 lögð á allt þjóðkirkjufólk 15 ára og eldra og skyldi hver sóknarmaður greiða 75 aura á ári til umsjónar og fjárhalds kirkju. Um leið voru afnumin fyrri gjöld svo sem „ljóstollur, legkaup, lausamannagjald og skilduvinna sóknarmanna við kirkjubyggingu“. Með lögum nr. 29/1929 er upphæðinni breytt í 1 krónu og 25 aura og með lögum nr. 72/1941 er „rúmfast fólk 67 ára og eldri“ undanþegið sóknargjöldum.

Með lögum um sóknargjöld nr. 36/1948 er ákveðið að fólk sem tilheyrir öðrum trúfélögum en þjóðkirkjunni skuli greiða trúfélagsgjöld til síns félags sem nemi sóknargjöldum að lágmarki. Þau sem ekki tilheyra neinu trúfélagi eiga hins vegar að greiða gjald í prófgjaldasjóð Háskóla Íslands. Sóknarnefndirnar eiga sem fyrr að annast innheimtu sóknargjaldanna og í lögunum 1948 kemur fram að sóknarnefndirnar fái 6% sóknargjalda í innheimtuhlut. Sóknargjöldin voru nefskattur. Þó er það nýmæli í lögunum frá 1948 að ef tekjur sóknar hrökkva ekki fyrir útgjöldum er sóknarnefndum leyfilegt að jafna niður því sem á vantar sem hundraðshluta af útsvari skv. 3. grein, ef safnaðarfundur heimilar slíka ráðstöfun.

Sóknarnefndirnar voru innheimtuaðilar sóknargjaldanna allar götur frá lögunum 1909 og í mörgum tilfellum tóku þær við fjárhaldi kirknanna 1890, eins og áður sagði. Sóknarnefndirnar gátu líka falið oddvitum eða innheimtumönnum þinggjalda að innheimta sóknargjöldin og geta lögin frá 1948 þess að þessir tilkvöddu innheimtuaðilar eigi þá líka að innheimta gjöldin fyrir þau sem standa utan þjóðkirkju. Lögin nr. 24/1954 og 40/1964 fjalla um upphæð þá sem greiða skuli og er hún komin í allt að 100 krónur á ári en má í sérstökum tilfellum fara upp í kr. 250 á ári. Þar með hafa sóknarnefndir fengið ákveðið svigrúm til að ákveða sóknargjöld í sínum söfnuðum sjálfir eftir stöðu kirknanna.

Með lögum nr. 80/1985 voru gerðar miklar breytingar á sóknargjöldunum. Í stað þess að sóknarnefndirnar annist innheimtu nefskattsins eins og áður var, eru sóknargjöldin felld inn  sem hlutfall af útsvari allra gjaldskyldra manna 16 ára og eldri.  Sóknarnefndin skuli ákveða hversu hátt hlutfallið skyldi verða innan ákveðinna marka og á grundvelli fjárhagsáætlunar. Prófgjaldasjóður Háskólans hefur verið lagður niður og því runnu gjöld þeirra sem stóðu utan trúfélaga til Háskólasjóðs. Í lögunum frá 1985 er það nýmæli að lögbundin innheimta þeirra sem standa utan trúfélaga færist til sveitarfélaganna, en sóknarnefndirnar og forstöðuaðilar trúfélaga geta valið hvort þau rukka sóknargjöldin inn sjálf eða fela gjaldtökuna innheimtuaðilum sveitarfélaga.

Núverandi lög eru númer 91/1987 og voru sett samhliða nýjum skattalögum sem byggðu á staðgreiðslu. Frumvarpið um sóknargjöldin var lagt fram sem stjórnarfrumvarp af dómsmálaráðherra Jóni Sigurðssyni og skýrir hann anda laganna í framsöguræðu sinni sem nálgast má hér. Horfið var aftur til nefskatts frekar en hlutfalls. Lagður er á sérstakur tekjuskattur til að standa undir tekjustofnum þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga og ríkissjóður á að standa skil á tekjustofnum sóknanna. Í staðinn fyrir að sóknarbörnin greiði beint til sóknanna eins og verið hafði allar götur frá 1909, fá sóknirnar, önnur trúfélög og Háskólinn hlutdeild í tekjuskattinum.  Þrjú meginsjónarmið laganna eru tekin fram í athugasemdum með frumvarpinu (sem nálgast má hér). Fyrsta sjónarmiðið laganna er að að kirkjan haldi tekjustofnum sínum óskertum, í öðru lagi að reglurnar „tryggi stöðugleika á tekjustofnum sókna“ og í þriðja lagi að regluramminn verði þannig úr garði gerður að “ framkvæmd verði sem einföldust“.

Í greinargerðinni með frumvarpinu var aðferðafræðinni við útreikning sóknargjaldanna lýst á svohljóðandi hátt:

Þessari fjárhæð er deilt niður á alla sem hafa náð 16 ára aldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári miðað við 31. desember 1986 og síðan fundin út grunntala sem er mánaðarleg greiðsla sem ríkissjóði ber að skila fyrir hvern mann 16 ára og eldri. Grunntala þessi breytist einu sinni ári er samsvarar þeirri hækkun er verður á tekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan gjaldári.

Þannig hafa sóknargjöld verið innheimt frá árinu 1909 og kirkjuskattur og tíund fyrir þann tíma. Lengst af voru sóknargjöldin innheimt beint frá sóknarbarni, en frá 1987 hefur ríkið annast innheimtuna. Í stað hins beina gjaldsambands milli sóknarbarna og sóknarnefndar var prósenta tekjuskattsins hækkuð 1987 og sóknargjöldin síðan greidd úr ríkissjóði til sóknanna.

Að framansögðu má sjá að sóknargjöldin eru ekki styrkur úr ríkissjóði til safnaðanna. Ríkið tók yfir innheimtu sóknargjalda, annarra trúfélagsgjalda og greiðslu manna utan trúfélaga í Háskólasjóð af sóknarnefndunum og hækkaði tekjuskattinn til að mæta þessum lið. Þessi tekjuskattur sem lagður var á til að standa undir viðhaldi og fjárhalds kirkju og annarra bæn- og guðshúsa er innheimtur að fullu í skattheimtu ríkisins.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um þjóðkirkjuna

Í skýrslu ríkisendurskoðunar frá síðasta hausti komu fram ábendingar til þjóðkirkjunnar í fimm liðum. Skýrslu ríkisendurskoðunar má í heild nálgast hér.Í þessum pistli hyggst ég bregðast við ábendingum ríkisendurskoðunar og tek fyrir fyrstu þrjár ábendingarnar fyrst.

1. BREYTA ÞARF SKIPAN KIRKJURÁÐS
Það er mat Ríkisendurskoðunar að breyta þurfi lögum á þann veg að dregið verði sem mest úr skyldum biskups til að sinna fjármálaumsýslu kirkjunnar. Endurskoða þarf ákvæði í 10. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 þess efnis að biskup sé forseti kirkjuráðs í þá veru að hann sitji í ráðinu með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.

VINNA ÞARF AÐ HEILDARSTEFNUMÓTUN UM MÁLEFNI BISKUPSSTOFU
Þjóðkirkjan þarf að móta stefnu um þá starfsemi sem fram fer á Biskupsstofu, þar sem fram komi lykilmarkmið og árangursmælikvarðar. Þá þarf að forgangsraða og tímasetja aðgerðir til að framfylgja stefnunni. Liður í slíkri stefnumótun er að meta hvort kirkjan á að sinna öllum þeim verkefnum sem nú er sinnt á Biskupsstofu.

2. SKIPTA ÆTTI UPP NÚVERANDI VERKEFNUM BISKUPSSTOFU
Skipta ætti upp verkefnum sem nú eru unnin á Biskupsstofu í trúarleg verkefni og veraldleg verkefni. Verkefnin ættu að falla undir tvær stjórnunarlega aðskildar skipulagseiningar sem hvor hefði sinn yfirmann. Móta þyrfti skipurit og skriflegar starfsreglur fyrir báðar einingarnar.

3. AUKA ÞARF GAGNSÆI Í FJÁRMÁLUM ÞJÓÐKIRKJUNNAR
Fjármál þjóðkirkjunnar verða að vera gagnsærri en nú er. Þannig er t.d. æskilegt að helstu sjóðir kirkjunnar, þ.e. Kirkjumálasjóður, Kristnisjóður, Jöfnunarsjóður sókna og Hinn almenni kirkjusjóður verði sameinaðir í einn Kirkjusjóð. Að auki þarf að vinna skýrar verklagsreglur um styrkveitingar á vegum kirkjunnar, þar sem m.a. komi fram með hvaða hætti umsóknir eru metnar og hvernig eftirfylgni með nýtingu fjárins sé háttað.

Fyrstu spurningunum þremur er auðvelt að svara og ég hef þegar gert það að hluta í pistlinum „Lýðræði og ný þjóðkirkjulög“ sem nálgast má hér.  Ég vil fá biskupinn úr rekstrarumsýslunni eins og kostur er og að stjórnsýsla biskupsstofu verði einfölduð. Styð ég því eindregið ályktanir ríkisendurskoðunar um þetta efni.

Víkur þá að fjórða atriðinu:

4. SAMEINA VERÐUR SÓKNIR
Sóknir á Íslandi eru margar og algengt að þær séu fámennar. Ríkisendurskoðun telur að stefna eigi að sameiningu fámennra og illa starfhæfra sókna í stað þess að leggja einungis áherslu á að efla samvinnu milli þeirra. Stofnunin telur því að nauðsynlegt sé að sett verði skilyrði um lágmarksfjölda sóknarbarna í hverri sókn. Færa ber frumkvæði að sameiningu sókna frá biskupafundi til kirkjuþings.

Ég hygg að hér skipti miklu máli hversu sjálfstæðar íslensku sóknirnar eru. Það eru margar góðar ástæður fyrir því að sameina sóknir og margar smáar sóknir hafa einmitt tekið á það ráð, enda samstarf milli sóknanna oft mikið. En meginmálið er að slík sameining á ekki að verða til við valdboð að ofan eða að sunnan, heldur vegna gildra ástæðna um þjónustu heima fyrir. Ég myndi því fara mér hægt í þessu efni og aðstoða heimamenn frekar við að taka sínar ákvarðanir, heldur en að keyra í gegn sameiningar. Þjóðkirkjan hefur á að skipa öflugu sóknarfólki sem unnið hefur að vönduðu sameiningarferli og þessi þekking á eftir að nýtast öðrum.

Síðasta ábending ríkisendurskoðunar er svona:

5. UMSÝSLA OG EIGNARHALD PRESTSSETRA VERÐI HJÁ SÓKNUM
Ríkisendurskoðun telur að eignarhald og viðhald prestssetra eigi að vera hjá sóknum, að undanskildum prestssetursjörðum. Sóknirnar eru grunneiningar kirkjunnar og það er þeirra að ákvarða um heimilisfesti sóknarpresta í samráði við þá og hvernig að þeim skuli búið. Þessari breytingu þyrfti að fylgja fjármagn til sóknanna frá Kirkju-málasjóði. Húsaleigutekjur vegna prestssetranna myndu með sama hætti renna til þeirra. Þá þyrfti við úthlutun úr Jöfnunarsjóði sókna að horfa til þeirra viðhalds-verkefna sem munu hvíla á sóknunum.

Um síðasta atriðið um að umsýsla og eignarhald prestsetra verði hjá sóknum er ég ósammála niðurstöðu skýrslunnar, því að prestsetrin tengjast sóknarsjóðunum ekki með nokkru móti, heldur samkomulaginu um kirkjueignir. Hins vegar finnst mér vel koma til greina að starfsmaður sem starfar við prestsetrin sé staðsettur einhvers staðar úti á landi, enda um hreint landsbyggðarmál að ræða. Prófastar höfðu lengi umsjá með ósetnum prestsetrum og tóku út prestsetur. Vel færi á því að umsjá með prestsetrum færi að einhverju leyti aftur heim í hérað undir umsjá prófasta.

Skýrsla ríkisendurskoðunar er vönduð og kemur fram á mikilvægum tíma sem hvati að stjórnunarlegum breytingum. Þær eigum við að takast á hendur með djörfung og krafti.

Fermingartollar og fleiri tollar

Ég hef verið beðin um að segja mína skoðun á fermingartollum. Það fyrirkomulag að greiða prestum sérstaklega fyrir unnin prestverk varð til með lögum árið 1907, sem enn eru í gildi og nálgast má hér. Þar segir í þriðju grein:

3. gr. Auk launa þeirra, sem ákveðin eru í undanförnum greinum, ber hverjum presti borgun fyrir aukaverk eftir gildandi lögum,  þó svo, að borgun fyrir aukaverk í þarfir þurfamanna greiðist úr sveitarsjóði. Presturinn innheimtir sjálfur borgun fyrir aukaverk.

1931 voru síðan sett lög um ákveðna gjaldskrá, sjá hér,  sem ákvörðuð skyldu á 10 ára fresti fyrir alla presta. Síðasta gjaldskrá var sett fyrir níu árum og hana má finna hér. Skírn kostar 3500 krónur, hjónavígsla 6500, fermingargjaldið er 9300 krónur, og útför kostar 13,900 en síðasttalda gjaldið greiðist úr kirkjugarðasjóði. Auk þess geta prestar farið fram á bensínkostnað ef þeir þurfa að keyra langar leiðir til að vinna prestverk. Reglurnar um það má finna hér.

Þessi lög eru enn í gildi og því innheimta prestar greiðslur fyrir unnin prestsverk.

Árið 2004 sendi foreldri fermingarbarns inn kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna fermingargjaldsins. Niðurstöðu umboðsmanns frá 2005 má finna hér. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að prestum sé heimilt að innheimta tollinn, en telur þó að dóms- og kirkjumálaráðuneytið ætti að taka til endurskoðunar gjaldskrárákvæðin frá 1931 vegna þess að ríkið er skuldbundið samkvæmt kirkjueignasamkomulaginu að standa undir launum presta. Auk þess telur umboðsmaður að skilgreina þurfi nánar í lögum hvað eigi að teljast aukaverk presta þjóðkirkjunnar. Þessari endurskoðun sem umboðsmaður fór fram á er ekki lokið.  Tillaga var samþykkt á kirkjuþingi 2007 um að lagt verði til við dóms og kirkjumálaráðherra að gjaldtaka fyrir skírn og fermingarfræðslu verði felld niður, sjá hér, en niðurstaða í málið hefur ekki verið fengin ennþá.

Þess má geta að ákveðið var fyrir nokkrum árum að prestar tækju ekki gjald vegna skírnar í messu. Litið er svo á að verið sé að borga sérstaklega fyrir útkallið, en ekki skírnina sjálfa. Foreldrum skírnarbarna gefst því kostur á að þurfa ekki að greiða fyrir skírnina, ef hún fer fram í messu. Ef þau kjósa að kalla prestinn sérstaklega út, þá borga þau honum líka sérstaklega fyrir.

Fermingargjaldið sker sig nokkuð úr öðrum tollum sem innheimtir eru vegna prestverka. Fermingargjaldið er vegna fermingarfræðslu sem sett er með skipulögðum hætti yfir allan veturinn. Þar er ekki um útkall að ræða heldur verk sem er unnið jafnt og þétt yfir veturinn.

Fjórar leiðir eru færar við tilhögun vegna fermingarfræðslunnar.

Sú fyrsta er að halda áfram á þeirri leið sem við erum á, að foreldrar greiði fermingartollinn. Kosturinn við það að fermingarfræðslan greiðist af foreldrum er sá að presturinn getur fengið aðra fræðara með sér og deilt út fermingartollinum. Fleira velmenntað fólk kemur að fræðslunni, með því áhugaverða hreyfiafli sem fylgir því þegar margir góðir leggja saman í púkk. Hver greiðir skatt af sínum hluta. Og prestur með gríðarmörg fermingarbörn getur létt af sér álagi með þessu móti. Gallinn er hins vegar augljós, því að margt fólk munar mjög um þessar upphæðir og telur það óréttlátt að þurfa að greiða sérstaklega fyrir fermingarfræðslu í söfnuðinum sínum, ekki síst vegna þess að hér er ekki um útkall að ræða.

Önnur leiðin er sú sem lagt var til með samþykktinni á Kirkjuþingi 2007. Þar var mælst til þess að gjald vegna fermingar og skírnar verði afnumið, en þess gætt að kjör presta rýrni ekki. Ef laun presta yrðu hækkuð í samræmi við þá kjaraskerðingu sem þeir verða fyrir væri tilmælum umboðsmanns til dóms og kirkjumálaráðuneytis mætt. Á móti kæmi að ríkið þyrfti að greiða meira til presta en áður og í núverandi árferði er ekki mikill áhugi á því. Annar galli sem kemur fram á þessu viðhorfi er sá að ekki er lengur hægt að deila út tollinum með jafnauðveldum hætti og áður.

Þriðja leiðin er sú að gjaldskráin verði aflögð og prestar taki á sig kjaraskerðinguna. Slíkar aðgerðir eru vitaskuld lítt vinsælar af prestum. Í þeim tilfellum þar sem prestar hafa deilt tollinum með öðrum og fengið þannig fleiri með sér í starfið er ekki fyrst og fremst um kjaraskerðingu að ræða, heldur missi af samstarfsmönnunum. Í mínu prestakalli erum við fjögur í fermingarfræðslunni. Þetta fyrirkomulag hefur létt af mér miklu álagi sem eina prestinum í tæplega 6000 manna sókn og veitt mér gleði af því að vinna með öðrum. Fræðslan hefur orðið betri vegna þess að ég er ekki ein með 71 barn. Þau verða um 100 á næsta ári. Fyrir mig er kjaraskerðingin ekki aðalmálið, heldur missir frábærra samstarfsmanna og að gæði kennslunnar fari niður.

Fjórða leiðin og sú byltingarkenndasta er sú að breytt verði því fyrirkomulagi að fermingarfræðslan sé eingöngu á ábyrgð prestanna. Kirkjustarfið er rekið mestmegnis fyrir tilstilli tveggja tekjustofna.  Ríkið stendur skil á launum til presta og ýmiss konar stjórnsýslu kirkjunnar. Í öðru lagi innheimtir ríkið trúfélagsgjöld fyrir öll trúfélög á landinu, líka trúfélagsgjöldin til þjóðkirkjunnar sem kölluð eru sóknargjöld. Þau eru nú um 700 krónur á mánuði fyrir hvern trúfélagsmeðlim 16 ára og eldri, eða sem nemur um 7400 krónum á ári. Þessir fjármunir eru notaðir til að standa straum af kirkju og safnaðarheimili, þar sem því er að skipta, hita og rafmagni, kertum og blómum og öllu starfinu í kirkjunni, helgihaldinu, barnastarfinu, æskulýðsstarfinu, starfi með eldri borgurum, foreldramorgnum, sorgarhópum og svo framvegis.

Einhver hefði haldið að fermingarfræðslan ætti heima sem þáttur í kostnaðarliður í safnaðarstarfinu en svo er ekki vegna þessara samninga um aukaverkin sem áður er getið. Sóknin hefur að vísu greitt hluta af fermingarferðalagi fermingarbarna með foreldrum og stöndugar sóknir hafa margar hverjar getað borgað allt fermingarferðalagið. Best af öllu væri að mínu viti ef fermingarfræðslan væri kostnaðarlegur hluti safnaðarstarfsins og að í fjölmennum söfnuðum væri til þess ráðið vel menntað fólk  til að búa til skemmtileg fræðsluteymi ásamt presti eða prestunum utan um fermingarfræðsluna. Það er til fjöldinn allur af góðu fólki með sérmenntun í guðfræði og kennslufræði sem tæki nýjum atvinnutækifærum fagnandi. Það væri líka í takt við það sem hefur verið að gerast á hinum Norðurlöndunum. En í augnablikinu virðist lítið svigrúm fyrir slíkar breytingar. Sóknirnar eru velflestar mjög illa staddar fjárhagslega vegna þeirrar ákvörðunar ríkisvaldsins að skerða sóknargjöldin um fjórðung eftir hrun.

Og á meðan stöndum við frammi fyrir leiðunum fjórum:  Hver á að borga, fjölskyldurnar, ríkið, prestarnir eða sóknin?  Þar liggur efinn. Og ef ríkið greiddi sóknunum þá peninga sem þeim ber samkvæmt lögum, væri ég ekki í vafa hvert svarið ætti að vera.

Búrlyklar biskupsins

Undanfarið hef ég fengið ýmsar spurningar sem varða starfið í söfnuðum og sérþjónustu. Fólk vill vita um hug minn til æskulýðsstarfs, starfs meðal Íslendinga erlendis, lítilla safnaða, stórra safnaða, ýmissa rannsóknarverkefna, verkefna á Biskupsstofu og sérþjónustu. Fólk vill vita hvort ég muni beita mér fyrir fjárstuðningi til þessara málaflokka ef ég verð biskup.

Það er óábyrgt að gefa kosningaloforð sem erfitt er að standa við í núverandi árferði. Kreppunni er ekki lokið, tekjustofnar hafa verið skertir og þjóðkirkjan á erfitt uppdráttar. Hinir sameiginlegu sjóðir sem standa undir starfi kirkjunnar eru takmarkaðir og ákvarðanirnar þegar eitt starf fær að lifa og annað er lagt niður eru blóðugar og sárar. Allt þetta veit fólk og sá boðskapur gleði og einingar sem stafar inn í kirkjuna með nýju biskupskjöri breytir því ekki að erfiðar ákvarðanir eru framundan. Þær þarf að taka á vandaðan hátt, með þátttöku margra og með reisn.

Í þessu sambandi hef ég líka velt því fyrir mér hvort væntingar til biskups geti ekki á köflum orðið misvísandi.  Hægt er að gera þær kröfur til biskupsins að hann sé eins og stöndug húsfreyja á heimili með búrlyklana festa við beltið. Húsfreyjan skammtar hverjum og einum í askana, fjölskyldu sinni, gestum, vinnuhjúum, ómögum og förumönnum og gætir að því að enginn komist í sperðlana og skyrtrogin í búrinu svo vistirnar renni ekki út á miðjum vetri. Húsfreyjan með búrlyklana er tákn samfélagsgerðar sem lengi hefur verið við lýði á Íslandi.

Í þjóðkirkjunni sem á öðrum vettvangi íslensk samfélags eru uppi kröfur um aukið lýðræði og valddreifingu. Ég hef rætt um þessar væntingar í þremur nýlegum greinum, sjá hér, hér og hér. Meðal annars liggur nýtt frumvarp fyrir kirkjuþingi sem gerir ráð fyrir miklum breytingum á biskupsembættinu. Þar er gert ráð fyrir að biskupinn sitji í takmarkaðan tíma, að hann stjórni ekki lengur kirkjuráði og að fjárstjórnarvald þjóðkirkjunnar færist frá kirkjuráði til kirkjuþings. Skoðanir um þessi ákvæði hinna nýju laga eru mjög skiptar. Sumir vilja meina að biskupinn verði að vera myndugur stjórnandi í kirkjunni til að hafa áhrif. Þess vegna sé mikilvægt að hann sé áfram í forsvari fyrir kirkjuráðið. Aðrir vilja skilgreina biskupinn sem leiðtoga fyrst og fremst, sem hafi málfrelsi og tillögurétt og fylgist vel með öllum málum og eigi setu í kirkjuráði,  en sé ekki beinn aðili að fjárstjórnarvaldinu. Hlutverk þessa leiðtoga eigi þar með að vera að á grundvelli yfirsýnar hans með allri kirkjunni og virðingar sem hún/hann nýtur á biskupsstóli. Sumir segja að með þessari breytingu sé verið að eyðileggja biskupsembættið. Aðrir telja að verið sé að létta af biskupnum erfiðum rekstrarskyldum sem aðrir geti innt betur af hendi svo að hann hafi ráðrúm til að gera það sem biskupar eiga að gera, vísitera, vígja og hafa tilsjón.

Ég tilheyri seinni flokknum. Ég vil að fjárstjórnarvaldið færist til kirkjuþings. Og þess vegna er ég treg til að svara spurningum um það hvaða starf ég vilji efla á vegum þjóðkirkjunnar og hvaða starf ég vilji skera niður á tíma skortsins. Ástæðan fyrir tregðunni er ekki ótti við að missa vinsældir, heldur vil ég skila þessum búrlyklum biskupsins til fólksins.

Ég talaði áðan um yfirsýn. Ég sinnti nokkurri prestsþjónustu við Íslendinga í Bandaríkjunum meðan ég bjó þar. Ég vann í samráði við sendiráðið. Ég hef búið í útlöndum og þekki vel hversu dýrmætt trúarlíf, sjálfskilningur og menning eru Íslendingi á erlendri grund. Ég hef átt því láni að fagna að vinna við hlið vímuvarnarprests í þjóðkirkjunni í nokkur ár og hef ég gegnum starf hans og annarra kollega kynnst því hvílíku grettistaki sérþjónustan er að lyfta dag hvern í íslensku samfélagi. Ég ber virðingu fyrir starfi djákna og finnst það áhyggjuefni hversu mjög þeim hefur fækkað í efnahagsþrengingunum. Ég starfa í yngsta söfnuði landsins þar sem æskulýðurinn er grundvöllur alls starfs. Æskulýðsstarfið er geysimikilvægt fyrir kirkjuna. Ég hef þjónað litlum og stórum söfnuðum í þéttbýli og strjálbýli og ferðalög mín undanfarna daga um dreifðar byggðir Íslands hafa hjálpað mér til að setja mig inn í þau tækifæri og erfiðleika sem steðja að smæstu söfnuðunum.

Í mínum huga er þetta verkefni biskupsins, að hafa yfirsýn yfir allt starf kirkjunnar, í sveit, bæ og borg, í kirknasamfélagi heimsins, í alheimsþorpinu, á sjúkrastofnuninni og í starfinu erlendis, meðal hinna ungu og öldnu. Það er gríðarlegt verkefni og verður aðeins gert með biskupi sem er mannblendin/n, vongóð/ur, er fljót/ur að setja sig inn í hluti og sýnir frumkvæði að samskiptum.Leiðtogi við þessar aðstæður er góður greinandi, hann getur orðað vandamálin og haft áhrif í gegnum áhrifavald sitt.  Slíkur leiðtogi uppörvar, ekki síst þau sem búa við rýran kost vegna niðurskurðar og erfiðleika.

Mín framtíðarsýn um búrlyklana er sú að ómagar, vinnuhjú og fyrirmenn hafa komist að niðurstöðu um að vetrarforðinn er allur á þeirra sameiginlegu ábyrgð.  Enginn einn á þjóðkirkjuna og enginn er þar ómagi eða vinnuhjú heldur. Í þriðja og fjórða kafla Galatabréfisins er talað um kristið fólk sem erfingja eftir fyrirheitinu, ekki þræla, heldur frjálsborið fólk.

Þessari sýn um frelsið fylgir líka mikil og þung ábyrgð. Þegar húsfreyjan hefur búrlyklana bera sig allir upp við hana og reyna að hafa áhrif á það hvernig hún skammtar á askana. Einn er askur æskulýðsstarfsins, annar askur fræðslustarfsins og sá þriðji sérþjónustunnar, í þann fjórða fer þjónustuþörfin á landsbyggðinni. Við getum öll pirrað okkur á húsfreyjunni og hvernig hún skammtar, flestir telja hana setja of lítið í einn askinn og vilja fá meiri skerf. Margir upplifa höfnun og reiði vegna þess hvernig skammtað er.

Hið nýja frumvarp gerir ráð fyrir því að húsfreyjan skili búrlyklunum á borðið og að heimilismenn verði sjálfir að ákvarða matarskammtinn á lýðræðislegan hátt og þannig að matarforðinn endist út veturinn. Getum við það sem fólk borið til frelsis?

Friðriki Schram svarað

Í Fréttablaðinu 20. september 2011 birtist stutt grein eftir Friðrik Schram prest íslensku Kristskirkjunnar undir yfirskriftinni „Hafður fyrir rangri sök“. Í greininni átelur Friðrik Fréttablaðið fyrir að hafa skrumskælt boðskap sinn varðandi samkynhneigð. Ennfremur gagnrýnir Friðrik mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar í grein sinni vegna nýafstaðinnar úthlutunar úr Kirkjubyggingarsjóði Reykjavíkurborgar, þar sem umsókn íslensku Kristskirkjunnar var hafnað á grundvelli afstöðu safnaðarins til samkynhneigðar, en þessa afstöðu má lesa út úr pistlum Friðriks sjálfs, til dæmis „Nú er ráð að gæta að sér“, „Sorgardagur hjá þjóð og kirkju“, og „Foreldrar, gætið barnanna ykkar fyrir Samtökunum 78“ sem finna má á heimasíðu Íslensku Kristskirkjunnar. Í þriðja lagi telur Friðrik að hann og söfnuður hans verði fyrir aðkasti fólks vegna afstöðu sinnar til samkynhneigðar. Friðrik álítur að ef samkynhneigt fólk hafi áður orðið fyrir mismunun vegna kynhneigðar sinnar hafi dæmið nú snúist við. Þannig sé gagnkynhneigðu fólki sem er í nöp við samlíf fólks af sama kyni nú mismunað og umburðarlyndi skorti fyrir skoðunum þeirra.

Í þessari grein hyggst ég hvorki svara fyrir ritstjórn Fréttablaðs eða mannréttindastjórann heldur beina sjónum mínum að þriðju umkvörtun greinarhöfundar, sumsé þeirri að hann og söfnuður hans verði fyrir fordómum, umburðarleysi og misrétti vegna afstöðu sinni til samkynhneigðar.

Friðrik Schram tekur það skýrt fram að hann beri engan kala til samkynhneigðs fólks og telji hneigð þess til sama kyns hvorki til syndar né glæps. Hann gerir þannig skýran greinarmun á hneigð og „framkvæmd“, svo vitnað sé í pistil hans „Nú er ráð að gæta að sér“. Í sama pistli biður Friðrik fólk um að lasta ekki þá „sem eru afbrigðilegir á einhvern hátt“. Vegna þessarar tvískiptingar skilur Friðrik ekkert í því að menn væni sig um fordóma gagnvart samkynhneigðu fólki, því að hann er ekki á móti samkynhneigðu fólki, aðeins kynlífi þess.

Tvískipting kynverundarinnar í kynlíf annars vegar og hneigð hins vegar hefur reyndar fyrir löngu gengið sér til húðar og er að engu leyti í samræmi við þær tegundir kristinnar siðfræði sem láta sig nútíma þekkingu á kynlífi, kynferði og kyngervi einhverju skipta. Siðfræðingurinn Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent við guðfræðideild Háskóla Íslands, sem er fróðust kristinna guðfræðinga um kynlífssiðfræði bendir á í bók sinni Ást, kynlíf og hjónaband (Salka, Reykjavík, 2008, bls. 79-86) á fimm viðhorfum til samkynhneigðar þar sem dregnar eru upp hliðstæður við „siðferðisskort“, „sjúkdóm“,“blindu“ „litblindu“ og „örvhendni“ eftir því hversu neikvætt viðhorfið er til samkynhneigðar. Þeir sem hafa hliðstætt viðhorf til samkynhneigðar og sjúkdóma telji að fólki sé vorkunn sem „þjáist“ af samkynhneigð, því þau geti ekki að raun sinni gert. Eina ráðið við þessum harmkvælum í greiningu Sólveigar Önnu sé þannig það sama og hjá alkóhólistum, þ.e. að halda sig frá skaðvaldinum, gerast óvirkir hommar og lesbíur.

Ég get ekki lesið út úr pistlum Friðriks neina tilraun til að útskýra samkynhneigð eða draga hliðstæður við aðstæður á borð við sjúkdóma eða áfengisböl. Ég tel hins vegar að hliðstæðan við sjúkdóminn og áfengisbölið hjá Sólveigu Önnu falli vel saman við málflutning Friðriks, þar sem samkynhneigt fólk er talið „afbrigðilegt á einhvern hátt“ og þennan afbrigðileika verður að umbera og koma á hann einhverjum böndum. Sólveig Anna segir frá því að þau sem hafa þetta viðhorf til samkynhneigðar telji sig ekki alls ekki hafa fordóma gagnvart hommum og lesbíum. Þetta einkenni „sjúkdómshópsins“ í greiningunni getur skýrt sárindi Friðriks yfir því hvernig honum finnst Fréttablaðið og í raun allur almenningur vera að fara með sig og söfnuð sinn sem þó vilji „hinum afbrigðilegu“ allt hið besta.

Niðurstaða Sólveigar Önnu er þessi:

Endurskoðuð kristin kynlífssiðfræði leggur áherslu á gæði hins líkamlega, sem er ekki andstæða hins andlega. Kynverund (e. sexuality) er eitthvað sem sérhver manneskja hefur hlotið að gjöf frá Guði og verður þar með að skilja sem eitthvað stórt og mikilvægt fyrir manneskjuna. Hugmyndin, sem oft hefur verið færð fram af guðfræðingum, að fólk megi vera kynverur en ekki lifa sem slíkar er guðfræðilega óásættanleg og órökrétt. (bls. 89).

Undir þau orð Sólveigar Önnu vil ég taka, því kynverund er ríkur og mikilvægur þáttur í því að vera manneskja. Þær manneskjur eru ekki allar eins og elska ekki allar á sama hátt. Gloppan í röksemdafærslu Friðriks felst í því að telja að hægt sé að greina með skörpum hætti á milli kynhneigðar og kynlífs, en hvort tveggja hneigðin og kynlífið eru ríkur þáttur kynverundar. Þessar niðurhólfanir kynverundarinnar bera með sér viðhorf um að kynlíf sé almennt varasamt og megi aðeins nálgast undir stífri og þóknanlegri stjórn. Slík viðhorf til kynlífs, kyns, kyngervis og kynhegðunar hafa að sönnu sett mark sitt á kristna hjónabandssiðfræði síðustu 2000 árin, eins og Friðrik bendir á, en það er villandi að setja fram kristna siðfræði sem einhvers konar óbreytilegan staðal óháðan stað og stund. Kristin siðfræði hefur á öllum öldum verið í samræðu við líðandi stund, til dæmis um stríð og frið, túlkanir á boðorðunum, samskipti kynja og viðhorf til barna. Það er kominn tími til að hið gamla vígi kynlífshræðslunnar og gagnkynhneigðarhrokans falli líka innan kristninnar.

Að lokum vil ég víkja að þeirri fullyrðingu Friðriks að gagnkynhneigt fólk sem hefur andúð á kynlífi samkynhneigðra búi nú við fordóma sem séu sambærilegir við fordóma þá sem samkynhneigðir verða fyrir. Þessi fullyrðing er að mínu viti gersamlega út í hött.

Það er raunar athyglisvert að Friðrik getur ekki einu sinni viðurkennt að samkynhneigt fólk verði fyrir fordómum, heldur segir hann í áðurnefndri Fréttablaðsgrein: „Samtök samkynhneigðra töldu fyrir nokkrum áratugum að þeir úr þeirra hópi sem vildu lifa eftir hneigð sinni væru beittir misrétti af gagnkynhneigðum.“ Ofbeldi á hommum og lesbíum og fordómar í þeirra garð sem viðgangast um víða veröld og einnig hér á litla og frjálslynda Íslandi virðast þannig í munni Friðriks vera eitthvað huglægt mat sem Samtökin 78 hafa tekið í sig og sem tíðkaðist fyrir langa löngu. Þessi fullyrðing er í ósamræmi við fyrri skrif hans eins og í „Nú er ráð að gæta að sér“ þar sem hann hefur pistil sinn á samúðarorðum til samkynhneigðs fólks vegna þeirrar fyrirlitningar og fjandskapar sem það hefur orðið fyrir.

Andúð í garð samkynhneigðra einstaklinga og andúð í garð þeirra sem hafa andúð á kynlífi fólks af sama kyni er eru ekki sambærilegir for-dómar. Í fyrra tilfellinu er um að ræða andúð á minnihlutahópi og kynlífi þess. Það eru fordómar, en ágætis skilgreiningu á fordómum má finna á vef Háskóla Íslands, http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2386. Í seinna tilfellinu er um að ræða andúð á fólki vegna andúðar þeirra á minnihlutahópi. Slík andúð verður til vegna gagnrýnnar skoðunar á hleypidómum annarra og sú gagnrýni er grundvölluð á þeirri mannréttindahugsjón sem vestræn nútímamenning byggir á.

Sá sem elskar innflytjandann en þiggur ekki verkin hans og vill halda honum fjarri sér er haldinn fordómum. Sá sem elskar konuna en hleður á hana staðalímyndum og ann henni ekki fullrar mennsku er haldinn fordómum. Sá sem elskar hommann en mótmælir því að homminn lifi í samræmi við kynverund sína er haldinn fordómum.

Andúð á fordómum er ekki fordómur.

Mig langar að lokum til að vitna í orð Friðriks Schram í pistlinum „Nú er ráð að gæta að sér“ og taka undir orð hans um kærleikann:

Kærleikur er ekki eingöngu sæt tilfinning í hjartanu. Kærleikur er miklu fremur það að gera rétt, mæta þörfum annarra og gera þeim gott. Tilfinningar koma og fara, en sá sem er knúinn af kærleika spyr ekki hvað honum sjálfum þykir best, heldur hvernig hann geti mætt þörfum þess sem hann er skuldbundinn, ber ábyrgð á og elskar.

Þetta eru orð að sönnu. Og það er vegna meðsystra okkar og bræðra sem við erum skuldbundin, berum ábyrgð á og elskum, sem okkur ber að hafa mannréttindi í heiðri.