Efnisorð: ferming

Abba

Prédikun í Guðríðarkirkju á hinsegin dögum, 8. su. e. þrenningarhátíð, 10. ágúst 2014

Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. Róm 8:15

I.

Þegar nafnið Abba er slegið inn í leitarvél á netinu koma fram upplýsingar um sænska poppgrúppu sem naut mikilla vinsælda á sjöunda og áttunda áratugnum. Fyrir þau okkar sem vorum börn, unglingar og ungar manneskjur á þessum tíma kallar nafnið Abba fram myndir af glansgöllum og diskótónlist, þar sem sungið var um ástina í angurværum ballöðum eða með rokkaðri skemmtarasveiflu. Nafnið Abba, í augum okkar af diskókynslóðinni er þannig tengt silkihúfum, útvíðum buxum, pastelaugnskuggum, háum hælum og gerviefnum ásamt grípandi söngtextum á borð við „Thank you for the music“, „Chiquitita“ og „Dancing Queen.“

Þegar við flettum upp í Nýja testamentinu rekumst við líka á orðið Abba. Orðið kemur aðeins þrisvar fyrir í allri Biblíunni, en það hefur sett sterkan svip á tilbeiðslu og guðfræði kirkjunnar í tvö þúsund ár. Í Getsemanegarðinum, þegar Jesús biður til Guðs á móðurmáli sínu arameísku, notar hann orðið Abba, sem þýðir pabbi. Á sinni erfiðustu stund talar hann við Abba. Sama orð kemur fyrir í Pálsbréfum, í ritningarlestri dagsins úr Rómverjabréfinu og síðan Galatabréfinu. Tveimur síðarnefndu textunum ber saman. Þar er okkur sagt að andi Krists sem í okkur býr ávarpi Guð sem Abba.

Við fyrstu sýn er varla hægt að hugsa sér meiri andstæður en þessar tvær merkingar abbaorðsins sem hér hafa verið kynntar, glimmerheimur skandinavíupoppsins og hið lágværa, nána samtal Guðs og barns. Og samt fjölluðu textar Abbagrúppunnar sem ég heillaðist af sem barn flestir um þá tilfinningu að vera elskaður og að tilheyra öðrum. Í kristinni trú, er þessi sterka tilfinning ástarþrárinnar tengd Guði sem skapar, frelsar og elskar. Þetta afl birtir Jesús Kristur. Og hann kallar það með nafni og líkingu sem er nærtæk og innileg. Hann kallar Guð pabba og leitar til Guðs þegar hann er hræddur, kvíðinn og einmana.

Í ritningarlestri dagsins úr áttunda kafla Rómverjabréfsins fjallar Páll postuli um mikilvægi þess að elska aðra og hugsa út fyrir sjálfan sig. „Sjálfshyggjan er dauði en hyggja andans líf og friður,“ segir í kaflanum. Í staðinn fyrir að hugsa bara um sjálfan sig bendir postulinn okkur á líf í andanum, sem er líf í tengslum við Guð, aðrar manneskjur og lífið allt. Gleðitíðindin sem textinn boðar er sá að við þurfum ekki að standa ein undir öllu sem einstaklingar.

Við þurfum ekki að vera fullkomin, óvinnanleg eða sjálfum okkur nóg um alla hluti.
Við erum ekki víggirðing.
Við erum manneskjur.
Við megum vera veikburða á einhverjum sviðum.
Við erum börn Guðs og getum talað við Guð eins og Jesús gerði
verið elskuð af Guði
þegið styrk af Guði.
Andi Guðs talar í okkur þegar við leitum samfélags við Guð og lifum lífi í tengslum
í stað þess að hnipra okkur saman í sjálfshyggjunni.
Það er hyggja andans, líf og friður.

 II.

Það er fermingardagur og í dag mun ung stúlka ganga upp að altari Drottins og gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns. Fermingarheitið fjallar í raun um það sama og ritningarlesturinn, að eiga Krist að vini, að leitast við að lifa í tengslum við Guð og í elsku til náungans. Heitið markar þannig ákveðna stefnu sem þú hefur valið, kæra fermingarbarn, stefnu út fyrir þig sjálfa og yfir til alls lífs sem þér er tengt.  Veröldin er stór og þú ert á leiðinni út í hana. Og þetta er spennandi veröld sem er full af spennandi tækifærum til þroska og uppátækja. Vonandi átt þú eftir að grípa þau sem flest. Hafðu það hugfast að þú ert barn Guðs, mundu það þegar þeir tímar koma að þú vantreystir þér og öðrum.  Megir þú hafa bænarorð Jesú Krists á vörunum, vegna þess að Abba mun sjá um þig, hjálpa þér að finna rétta vegu í lífinu og leiðbeina þér upp úr vandanum, þegar þú gerir mistök.

En Abba er engin einkaeign. Við eigum Guð, en við eigum Guð ekki ein, heldur með heiminum öllum. Guð kallar okkur til lífs í samfélagi, og okkur er ætlað að gera heiminn eins góðan og við mögulega getum.

Það er ekki alltaf auðvelt að opna hjarta sitt fyrir lífi heimsins. Heimurinn á svo mikla gleði og sorg og það virðist eitthvað svo sérstaklega órólegt í veröldinni núna. Við hugsum til fólksins í hinni stríðshrjáðu Gazaborg, til þeirra sem búa við ófriðinn milli Ísrael og Palesínu, til þeirra sem lifa við borgarastyrjöld í Sýrlandi, til þeirra sem búa í austurhluta Úkraínu, til trúsystkina okkar og jazída sem ofsótt eru í Írak um þessar mundir. Við hugsum til þeirra sem búa við óhreint drykkjarvatn og slæma heilbrigðisþjónustu, þeirra sem svelta á Sahel svæðinu, til fólks í fátækrahverfum um veröld víða, til þeirra sem seld eru mansali og eiga hvergi höfði sínu að halla í veröldinni. Um þessa helgi þegar fjölbreytileikanum er fagnað og fjórðungur Íslendinga brá sér niður í bæ til að fylgjast með gleðigöngunni í gær, er líka nærtækt að hugsa til allra þeirra sem búa við ofsóknir vegna kynhneigðar og þeirra sem passa ekki í fyrirframgefin viðmið okkar um það sem talið er venjulegt og sjálfsagt.

Abba, faðir, andvarpaði Jesús í Getsemane garðinum. Og við andvörpum líka þegar við horfumst í augu við böl heimsins. Þegar við köllum Guð hinu innilega nafni, undirstrikum við jafnframt að Guð er Guð allra og alls. Guð vill að við eigum öll húsaskjól og búum við öryggi. Guð vill að við lærum að elska aðrar manneskjur, setja þeim og sjálfum okkur mörk, að við lifum í hyggju andans þar sem er líf og friður. Og þegar við heitum því að gera Jesú Krist að vini og leiðtoga, þá er það loforð sem maður heldur áfram að glíma við ævina á enda. Þessi vinátta, leiðsla og tengsl er ekki aðeins eintal við guðdóminn í kirkju eins og í dag, heldur stefnumót við lífið í fjölbreytileika sínum, gleði, spennu og hættum. Við berum ábyrgð á heiminum, vegna þess að Guðs börn, erfingjar Guðs, samarfar Jesú Krists og systkin okkar búa þar. Þennan skilning á ástinni hefur fermingarbarnið undirstrikað með ritningarversinu sem hún valdi sér úr fyrsta Jóhannesarbréfi: Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.

Ég talaði áðan um poppið og glimmerið sem einkenndi mína uppáhaldshljómsveit sem barn.  Abba æsku minnar kallaði fram sveiflu og dans, skemmtilegan takt og grípandi laglínur um ástina og tónlistina. Abbalögin minntu mann á að það er ekki nóg að tala um gleði, maður þarf að dansa hana, syngja hana, hlæja henni til heiðurs og njóta hennar í tengslum við aðra. Hin árvissa helgi hinsegindaganna  minnir okkur á þetta. Litskrúðugir fánar blakta við hún í öllum litum regnbogans. Sumum finnst of mikið gert úr þessu hér á Íslandi og að hommarnir og lesbíurnar séu að hertaka allt mannlífið. En röndótti fáninn fjallar um fjölbreytileika, ekki einsleitni. Hann fjallar um að það er rúm og staður fyrir okkur öll í veröldinni, ef við gefum hvert öðru hjartarúm.

Við erum öll í líkama.
Við erum börn Guðs og megum kalla Guð Abba.

Boðskapinn um að það er rúm fyrir okkur öll þarf líka að yfirfæra til annarra þeirra sem standa höllum fæti í veröldinni, vegna þess að þau búa við fátækt og fötlun, eru konur í heimi sem er enn að miklu leyti stjórnað af körlum, búa annars staðar en í Evrópu og Norður Ameríku, eru komin af léttasta skeiði, tilheyra framandi menningu og trúarbrögðum eða hafa annan húðlit en þann bleika sem algengastur er á Íslandi.

Það er ótrúleg upplifun að standa niðri í bæ og fylgjast með öllu fólkinu í mannþrönginni sem kemur til að taka þátt í gleði og lifa í tengslum við fólk sem er þeim margt hvert mjög framandi. Ég hygg að það sé einstakt í heiminum að svo almenn þátttaka sé í gleðigöngu á hinsegin dögum og það segir okkur eitthvað mikilvægt um ástina, gleðina, samfélagið, taktinn, lífið og friðinn sem við þráum að búa við í veröldinni.

Abba.

Með þessu orði kenndi Jesús okkur að biðja til Guðs. Páll postuli segir okkur í ritningarlestri dagsins að við getum verið vonglöð og hugdjörf, því að við erum erfingjar Guðs og samarfar Krists. Að við megum kalla á Guð og kalla Guð pabba og mömmu. Abba er orð sem mann langar til syngja við og dansa og helst með sænskum hreim.

Og það er ekki síst þess vegna sem við getum horfst í augu við erfiðu hliðar mannlífsins, við styrjaldarógn, ofsóknir og hörmungar heimsins. Það er ekki síst þess vegna sem við getum tekist á við það sem bjátar á í eigin lífi. Nándin við Guð getur hjálpað okkur til að lifa í tengslum, í hyggju andans frekar en sjálfshyggjunni, í lífi og friði, frekar en deyfð og óróa. Abba  gefi okkur öllum gæfu til þess.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Abba Number One

María Magdalena- lærisveinninn sem Jesús elskaði?

Ég er dálítið heilluð af þeirri hugsun að lærisveinninn sem Jesús elskaði sé óræður og að í versinu felist orðaleikur. Í þeim orðaleik læðist María Magdalena inn og út úr hlutverkinu í öllum sínum gervum. Guðspjallið um lærisveininn sem Jesús elskaði færir okkur boðskap sem er alger andstæða þessarar áherslu á einangrun lands, þjóðar, menningar og trúar sem fram kom í gjörðum og atburðum í Útey. Ef Jesús elskar alla og allir geta verið lærisveinninn sem Jesús elskaði þá elskar Jesús án tillits til litar, kynþáttar, þjóðernis, trúarbragða, kynhneigðar og kynferðis.

Silfurhúðin

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

I.

Einu sinni var ákaflega ríkur og nískur maður sem ákvað að fara og heimsækja prestinn sinn út af einhverju vandamáli. Þegar presturinn hafði hlustað á hann rekja raunir sínar litla stund, stendur hann skyndilega upp og dregur níska manninn með sér út í glugga. “Hvað sérðu?” segir presturinn við níska manninn. “Ég sé fólkið úti á götu” segir sá síðarnefndi. Þvínæst dregur presturinn manninn með sér að spegli og spyr aftur:  “Hvað sérðu?”. “Ég sé sjálfan mig” sagði maðurinn alveg steinhissa. Hann hélt að presturinn væri orðinn brjálaður.

“Nú skal ég segja þér hvers vegna ég var að spyrja þig þessara spurninga,” sagði presturinn. Glugginn er búinn til úr gleri. Spegillinn er búinn til úr gleri. Eini munurinn á milli þessara tveggja glerja er að á speglinum er þunn silfurhúð. Þegar þú horfir í gegnum hreint gler sérðu fólkið í kringum þig. En þegar þú húðar glerið með silfri, þá hættir þú að sjá aðra og horfir bara á sjálfan þig.”

II.

Það er fyrsti sunnudagur eftir þrenningarhátíð og hverjum degi kirkjuársins hafa verið úthlutaðir tilteknir textar sem einkenna efni hans. Tímabilið frá páskum til hvítasunnu er oft nefnt gleðitímabilið og tengist upprisu og uppstigningu Jesú Krists sérstaklega. Sunnudagarnar eftir þrenningarhátíð eru hins vegar tengdir hinum trúarlega vexti og þroska. Þess vegna er grænn litur á altarinu. Hver sunnudagur eftir þrenningarhátíð tengist einu stefi sem getur hjálpað okkur að horfa inn á við og gerast betri manneskjur með hjálp Guðs. Og efni dagsins í dag er það sem guðspjallið sagði okkur frá, guðspjallið um ríka bóndann. Þetta guðspjall biður okkur að einbeita okkur ekki að því að eiga endalaust af peningum, heldur að vera rík í augum Guðs.

Svona hljóðar dæmisaga Jesú: Bóndi einn á gjöfult land. Landið gefur svo vel af sér að hann getur hvergi komið afurðunum fyrir. Meðan bóndinn veltir fyrir sér þessu lúxusvandamáli, kemst hann að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að rífa allar hlöðurnar sínar og byggja aðrar stærri og meiri. Inn í þessar stóru hlöður ætlar hann síðan að hrúga öllum sínum verðmætum. Þegar maðurinn er búin að ákveða þessar framkvæmdir verður honum mjög létt og hann segir við sjálfan sig:  “Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.” En þessa sömu nótt dó maðurinn og hafði því ekkert að gera við allt það sem hann hafði safnað af sér.

Helstu mistök mannsins  voru að hann gat ekki horft á neitt nema sjálfan sig og hvernig hann gæti passað upp á eigin auð. Hann hélt að sála sín yrði þá fyrst glöð, þegar búið væri að koma öllum peningunum inn í hlöðuna.

Í sögunni sem ég sagði ykkur í upphafi var eini munurinn á glerinu og speglinum silfurhúðin. Þessi húð gerði það að verkum að níski maðurinn í sögunni notaði ekki fé sitt vel. Hann sá bara sjálfan sig, aðrir voru honum huldir.

Eins er með ríka bóndann í sögu Jesú. Það fer engum sögum af því að hann hafi fundið leiðir til að nýta fé sitt. Hann notaði það ekki til að gleðja sig og aðra. Hann horfði ekki í kringum sig. Hann gladdi ekki ástvini sína. Hann leitaði ekki uppi þau sem þurftu á hjálp hans að halda. Hann varði öllum sínum tíma í að hugsa út snjallari fjárhagsáætlanir, stærri hús til að geyma auðinn. Hann sat boginn yfir bókunum og skipulagði nýjar leiðir til að geyma féð. Og þess vegna segir Jesús um manninn að hann hafi safnað sér fé, en hafi ekki verið ríkur í augum Guðs.

III.

Við komum saman á fermingardegi. Skírn, ferming, útskrift, hjónavígsla allt eru þetta merkisdagar á mannsævinni. Þeir gefa okkur til kynna að nýjum áfanga sé náð. Við getum glaðst fyrir því að ungmenni er að verða fullorðið. Við getum undrast yfir því hvað það er stutt síðan hún var lítið barn. Við getum velt því fyrir okkur hvað það er stutt síðan við vorum krakkar.Það er eitthvað við þessa merkisdaga sem hjálpar okkur að nema staðar í núinu og njóta andartaksins. Við höfum þetta litla andartak tækifæri til að hugsa um fortíðina og framtíðina og hvíla í því . Við getum hugsað um það hvað það er gott að vera til,  eiga líf og ástvini, eiga hugsun, tengsl, land, sól og vatn og allt annað sem okkur er gefið. Þegar við hvílum í núinu erum við þakklát. Himininn heldur utan um okkur.

Í sögunni af ríka bóndanum kemur aldrei slíkt andartak. Hann tók aldrei eftir himininum vegna þess að áhyggjurnar stjórnuðu lífi hans, Ríki bóndinn í sögunni er alltaf með hugann við framtíðina. Hann er alltaf að skipuleggja, hann er ávallt hræddur um peningana sína og þarf ævinlega að ala önn fyrir þeim. Þess vegna hvetur Jesús  þau sem á hann hlusta að varast ágirnd, varast nísku og öfundsýki og keppa að því að vera rík í augum Guðs.

Þessar hlöður sem við rembumst við að byggja
eru svo ólíkar.
Hjá sumum er það óánægjan yfir hvernig við lítum út.
Hjá öðrum er það óánægjan með það hvernig við búum og hvað við gerum,
samanburðurinn við það sem aðrir hafa og gera.
En þegar við byggjum upp óónægju og áhyggjur,
þá týnum við niður þakklætinu
og ánægjunni með það sem við höfum og erum.

IV.

Þessi auður sem Biblían talar um
er ekki í veskjunum okkar,
ekki í áætlununum okkar,
ekki í áhyggjum okkar fyrir næsta degi.

Við höfum eflaust öll einhverjar áhyggjur.
Mörg okkar hafa fyllstu ástæðu til að ala önn fyrir morgundeginum
og margar hverjar eru virkilega knýjandi og sárar.
Guðspjall dagsins gerir ekki lítið úr lífsbaráttunni.
Það hins vegar geldur vara við því að láta gerviáhyggjur fyrir gerviþörfum
stjórna lífi okkar.
Það mælir gegn ágirnd og græðgi.
Ríki bóndinn hefði alveg getað lifað góðu lífi með sínar gömlu hlöður.

Það er eitthvað við þessa knýjandi þörf fyrir að byggja sér framtíðarhlöður í huganum
sem að rænir okkur núinu,
Rænir okkur því að geta hlegið og glaðst yfir því sem andartakið gefur okkur.
Þakkað fyrir allt það sem Guð hefur látið okkur í té
Og vera næm fyrir tikkinu í tímanum.

Við eigum aðeins eitt líf
og samband okkar við þau sem við elskum
er brothætt og fallegt.
Það er auður að vita það og skynja auðlegð andartaksins.

V.

Á þessum fallega sumardegi, þegar sagan um ríka bóndann er okkur lesin, þá hljóma hin vísu lífsráð Biblíunnar sem tilheyra þessum messudegi,ráð um að einbeita sér að hinum sanna auði.

Húðum ekki glerin okkar með silfri,
horfum út um glerið á allt það sem Guð hefur skapað.
Gleymum aldrei að horfa í kringum okkur.
Njótum andartaksins.
Verum glöð yfir því sem þú við erum og eigum.
Fylgjum fordæmi Jesú Krists.

Það kemur tími fyrir hlöður, en það er líka tími til að njóta og vera í núinu.
Guð gefi okkur öllum hæfileika, æðruleysi, þroska og gleði til að vera rík í augum Guðs,
Rík að vináttu og tíma,
Rík að þolinmæði
Rík að þakklæti
Rík að trú, von og kærleika.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun, Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.

Myndin er eftir Rembrandt

Fermingartollar og fleiri tollar

Ég hef verið beðin um að segja mína skoðun á fermingartollum. Það fyrirkomulag að greiða prestum sérstaklega fyrir unnin prestverk varð til með lögum árið 1907, sem enn eru í gildi og nálgast má hér. Þar segir í þriðju grein:

3. gr. Auk launa þeirra, sem ákveðin eru í undanförnum greinum, ber hverjum presti borgun fyrir aukaverk eftir gildandi lögum,  þó svo, að borgun fyrir aukaverk í þarfir þurfamanna greiðist úr sveitarsjóði. Presturinn innheimtir sjálfur borgun fyrir aukaverk.

1931 voru síðan sett lög um ákveðna gjaldskrá, sjá hér,  sem ákvörðuð skyldu á 10 ára fresti fyrir alla presta. Síðasta gjaldskrá var sett fyrir níu árum og hana má finna hér. Skírn kostar 3500 krónur, hjónavígsla 6500, fermingargjaldið er 9300 krónur, og útför kostar 13,900 en síðasttalda gjaldið greiðist úr kirkjugarðasjóði. Auk þess geta prestar farið fram á bensínkostnað ef þeir þurfa að keyra langar leiðir til að vinna prestverk. Reglurnar um það má finna hér.

Þessi lög eru enn í gildi og því innheimta prestar greiðslur fyrir unnin prestsverk.

Árið 2004 sendi foreldri fermingarbarns inn kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna fermingargjaldsins. Niðurstöðu umboðsmanns frá 2005 má finna hér. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að prestum sé heimilt að innheimta tollinn, en telur þó að dóms- og kirkjumálaráðuneytið ætti að taka til endurskoðunar gjaldskrárákvæðin frá 1931 vegna þess að ríkið er skuldbundið samkvæmt kirkjueignasamkomulaginu að standa undir launum presta. Auk þess telur umboðsmaður að skilgreina þurfi nánar í lögum hvað eigi að teljast aukaverk presta þjóðkirkjunnar. Þessari endurskoðun sem umboðsmaður fór fram á er ekki lokið.  Tillaga var samþykkt á kirkjuþingi 2007 um að lagt verði til við dóms og kirkjumálaráðherra að gjaldtaka fyrir skírn og fermingarfræðslu verði felld niður, sjá hér, en niðurstaða í málið hefur ekki verið fengin ennþá.

Þess má geta að ákveðið var fyrir nokkrum árum að prestar tækju ekki gjald vegna skírnar í messu. Litið er svo á að verið sé að borga sérstaklega fyrir útkallið, en ekki skírnina sjálfa. Foreldrum skírnarbarna gefst því kostur á að þurfa ekki að greiða fyrir skírnina, ef hún fer fram í messu. Ef þau kjósa að kalla prestinn sérstaklega út, þá borga þau honum líka sérstaklega fyrir.

Fermingargjaldið sker sig nokkuð úr öðrum tollum sem innheimtir eru vegna prestverka. Fermingargjaldið er vegna fermingarfræðslu sem sett er með skipulögðum hætti yfir allan veturinn. Þar er ekki um útkall að ræða heldur verk sem er unnið jafnt og þétt yfir veturinn.

Fjórar leiðir eru færar við tilhögun vegna fermingarfræðslunnar.

Sú fyrsta er að halda áfram á þeirri leið sem við erum á, að foreldrar greiði fermingartollinn. Kosturinn við það að fermingarfræðslan greiðist af foreldrum er sá að presturinn getur fengið aðra fræðara með sér og deilt út fermingartollinum. Fleira velmenntað fólk kemur að fræðslunni, með því áhugaverða hreyfiafli sem fylgir því þegar margir góðir leggja saman í púkk. Hver greiðir skatt af sínum hluta. Og prestur með gríðarmörg fermingarbörn getur létt af sér álagi með þessu móti. Gallinn er hins vegar augljós, því að margt fólk munar mjög um þessar upphæðir og telur það óréttlátt að þurfa að greiða sérstaklega fyrir fermingarfræðslu í söfnuðinum sínum, ekki síst vegna þess að hér er ekki um útkall að ræða.

Önnur leiðin er sú sem lagt var til með samþykktinni á Kirkjuþingi 2007. Þar var mælst til þess að gjald vegna fermingar og skírnar verði afnumið, en þess gætt að kjör presta rýrni ekki. Ef laun presta yrðu hækkuð í samræmi við þá kjaraskerðingu sem þeir verða fyrir væri tilmælum umboðsmanns til dóms og kirkjumálaráðuneytis mætt. Á móti kæmi að ríkið þyrfti að greiða meira til presta en áður og í núverandi árferði er ekki mikill áhugi á því. Annar galli sem kemur fram á þessu viðhorfi er sá að ekki er lengur hægt að deila út tollinum með jafnauðveldum hætti og áður.

Þriðja leiðin er sú að gjaldskráin verði aflögð og prestar taki á sig kjaraskerðinguna. Slíkar aðgerðir eru vitaskuld lítt vinsælar af prestum. Í þeim tilfellum þar sem prestar hafa deilt tollinum með öðrum og fengið þannig fleiri með sér í starfið er ekki fyrst og fremst um kjaraskerðingu að ræða, heldur missi af samstarfsmönnunum. Í mínu prestakalli erum við fjögur í fermingarfræðslunni. Þetta fyrirkomulag hefur létt af mér miklu álagi sem eina prestinum í tæplega 6000 manna sókn og veitt mér gleði af því að vinna með öðrum. Fræðslan hefur orðið betri vegna þess að ég er ekki ein með 71 barn. Þau verða um 100 á næsta ári. Fyrir mig er kjaraskerðingin ekki aðalmálið, heldur missir frábærra samstarfsmanna og að gæði kennslunnar fari niður.

Fjórða leiðin og sú byltingarkenndasta er sú að breytt verði því fyrirkomulagi að fermingarfræðslan sé eingöngu á ábyrgð prestanna. Kirkjustarfið er rekið mestmegnis fyrir tilstilli tveggja tekjustofna.  Ríkið stendur skil á launum til presta og ýmiss konar stjórnsýslu kirkjunnar. Í öðru lagi innheimtir ríkið trúfélagsgjöld fyrir öll trúfélög á landinu, líka trúfélagsgjöldin til þjóðkirkjunnar sem kölluð eru sóknargjöld. Þau eru nú um 700 krónur á mánuði fyrir hvern trúfélagsmeðlim 16 ára og eldri, eða sem nemur um 7400 krónum á ári. Þessir fjármunir eru notaðir til að standa straum af kirkju og safnaðarheimili, þar sem því er að skipta, hita og rafmagni, kertum og blómum og öllu starfinu í kirkjunni, helgihaldinu, barnastarfinu, æskulýðsstarfinu, starfi með eldri borgurum, foreldramorgnum, sorgarhópum og svo framvegis.

Einhver hefði haldið að fermingarfræðslan ætti heima sem þáttur í kostnaðarliður í safnaðarstarfinu en svo er ekki vegna þessara samninga um aukaverkin sem áður er getið. Sóknin hefur að vísu greitt hluta af fermingarferðalagi fermingarbarna með foreldrum og stöndugar sóknir hafa margar hverjar getað borgað allt fermingarferðalagið. Best af öllu væri að mínu viti ef fermingarfræðslan væri kostnaðarlegur hluti safnaðarstarfsins og að í fjölmennum söfnuðum væri til þess ráðið vel menntað fólk  til að búa til skemmtileg fræðsluteymi ásamt presti eða prestunum utan um fermingarfræðsluna. Það er til fjöldinn allur af góðu fólki með sérmenntun í guðfræði og kennslufræði sem tæki nýjum atvinnutækifærum fagnandi. Það væri líka í takt við það sem hefur verið að gerast á hinum Norðurlöndunum. En í augnablikinu virðist lítið svigrúm fyrir slíkar breytingar. Sóknirnar eru velflestar mjög illa staddar fjárhagslega vegna þeirrar ákvörðunar ríkisvaldsins að skerða sóknargjöldin um fjórðung eftir hrun.

Og á meðan stöndum við frammi fyrir leiðunum fjórum:  Hver á að borga, fjölskyldurnar, ríkið, prestarnir eða sóknin?  Þar liggur efinn. Og ef ríkið greiddi sóknunum þá peninga sem þeim ber samkvæmt lögum, væri ég ekki í vafa hvert svarið ætti að vera.