Tag: fátækt

Týndur Drottinn, tapað fé?

Prédikun í Guðríðarkirkju á páskadag 31. mars 2013

Að hverjum leitar þú? Jóh. 20:15b

Kristur er upprisinn!

Einu sinni voru hjón sem áttu tvo litla og óþekka drengi, sex og átta ára. Þessir ágætu strákar voru alltaf að lenda í vandræðum og foreldrarnir gátu alltaf verið vissir um að ef eitthvað fór úrskeiðis í þorpinu þar sem þau bjuggu, væru synir þeirra með einhverjum hætti ábyrgir. Ástandið var orðið þannig að foreldrarnir voru alveg að gefast upp á öllum prakkarastrikunum. Þau fóru því og hittu prestinn sem var sagður hafa lag á börnum. Þegar presturinn hafði heyrt af öllum stráksskap þessara ungu herramanna þá samþykkti hann að koma í heimsókn og tala við þá um að Guði þætti leiðinlegt hvernig þeir höguðu sér. Hann vildi hitta þá sinn í hvoru lagi. Fyrst var sex ára strákurinn leiddur fyrir prestinn í borðstofunni. Presturinn bauð stráknum að setjast niður við borð, settist síðan á móti honum, starði af mikilli alvöru í augun á drengnum og sagði síðan: „Hvar er Drottinn?“ Það heyrðist ekki múkk frá drengnum, svo að klerkur ræskti sig og sagði með aðeins strangara tóni: „Hvar er Drottinn?“ Stráksi deplaði ekki auga og starði fram fyrir sig. Enn bætti presturinn í röddina og nú rak hann fingurinn ógnandi framan í drenginn og sagði: „HVAR ER DROTTINN?“

Við þessi læti rauk drengurinn út, hljóp upp í herbergi og læsti sig inni í skáp. Stóri bróðir hljóp inn í herbergið á eftir honum og sagði: „Hvað gerðist eiginlega þarna inni?“

Rödd litla bróður hljómaði úr skápnum: „Við erum í rosalega vondum málum núna. Drottinn er týndur og þau halda að við höfum tekið hann!“

II.
Hvar er Drottinn? Að hverjum leitar þú?

Hina fyrstu kristnu páska voru allir lærisveinarnir að leita að Drottni. Gröfin var tóm þegar að var komið í árdagsbirtu páskadagsins og steininum hafði verið velt frá. Og rétt eins og í sögunni sem ég sagði ykkur hér áðan jafnframt verið að leita að sökudólgum og samsæri, vegna þess að einhver hlaut að hafa stolið líkama hins látna. Ein af þessum vinum Jesú var María Magdalena og Jóhannesarguðspjall segir okkur frá því að hún hafi staðið úti fyrir gröfinni og grátið meðan Pétur og annar lærisveinn leituðu að líki Jesú. Þá kemur til hennar maður sem lesandi og heyrandi guðspjallsins veit að er enginn annar en Jesús upprisinn. María hins vegar veit ekki neitt og sér ekki neitt. Hún þekkir ekki Jesú hinn upprisna, heldur að hann sé garðyrkjumaður og reynir að þröngva honum til að segja sér leyndarmálið um það hver hafi tekið Drottin. „Að hverjum leitar þú?“ segir hinn meinti garðyrkjumaður við Maríu. Merkilegt má telja að fyrstu orðin sem Jesús frá Nasaret segir í guðspjalli Jóhannesar skuli enduróma í fyrstu orðum hans eftir upprisuna. „Hvers leitið þér?“ voru orðin sem hann beindi til fyrstu lærisveinanna sem á vegi hans urðu. Það er eins og þessi leit að týnda Drottni rammi inn allt guðspjallið, marki þrá þeirra sem guðspjallið fjallar um og guðspjallið lesa og heyra, þrá í leit að tilgangi lífsins. Að vera lærisveinn Jesú er að leita Jesú, leita að týndum Drottni.

Þessi misskilningur Maríu þegar hún ruglaðist á garðyrkjumanninum og hinum upprisna, þessi leit að þeim sem er fyrir augunum á henni er hjarta páskaboðskapar Jóhannesar til okkar í dag. María sá Drottin. En hún þekkti hann ekki. Hjarta hennar var fullt af sorg yfir atburðum föstudagsins langa. Hún gat ekki horfst í augu við þá hugmynd að Drottinn væri alls ekki týndur. Hún hljóp allt í kringum hann og leitaði að honum. Hún spurði hann jafnvel sjálfan um það hver hefði tekið Drottin. Og þannig hefur sagan á sér furðulegt og jafnvel kómískt yfirbragð, páskahlátur inn í páskaguðspjallinu sjálfu vegna þess að við vitum góðu fréttirnar sem María veit ekki. Týndi Drottinn er fundinn. Og það voru hvorki krakkarnir í sögunni, Gyðingar né Rómverjar sem tóku hann.
Það er ekki fyrr en þessi dularfulli garðyrkjumaður kallar Maríu með nafni sem hún þekkir hann fyrir hinn upprisna Drottin. Jesús hinn upprisni segir Maríu að fara út og finna „bræður sína“. „Bræðurnir“ , eða adelfoí í gríska frumtextanum vísa ekki aðeins til nokkurra karlmanna í kringum Jesú, heldur til hins gjörvalla samfélags fólksins sem hafði safnast saman í kringum Jesú. Það er eitthvað merkilegt við þessa áherslu guðspjallsins. Það kallar okkur til tómrar grafar, til þess eins að snúa okkur burtu aftur frá gröfinni, til samfélagsins sem þarf á hinum týnda Drottni að halda. Það kallar okkur til að leita að hinum týnda Drottni, til þess eins að komast að því að Guð hefur ekki týnst og ætlar okkur verk meðal annars fólks.

III.
Hvar er Drottinn? Að hverjum leitar þú? Hvar þekkjum við Drottin og hvaða verk er okkur ætlað að vinna glöðu fólki sem er snúið frá tómri gröf? Hvar er samfélagið sem okkur er ætlað að sinna og ala önn fyrir?

Í síðustu viku upphófust miklar umræður um þróunaraðstoð í íslensku samfélagi í kjölfar þess að Alþingi Íslendinga samþykkti með þingsályktunartillögu að auka smám saman þróunaraðstoð Íslands úr 0,26 hundraðshluta af vergum þjóðartekjum í 0,4 hundraðshluta á næstu þremur árum. Stefnt skuli að því að árið 2019 verði talan komin upp í 0,7, en sú tala er einmitt í samræmi við það sem þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna gerðu ráð fyrir að ætti að vera það sem að iðnvæddar þjóðir greiddu að lágmarki til hjálpar fátækum þróunarlöndum. Alþingi hefur sem sagt ákveðið að uppfylla rúmlega helminginn af þúsaldamarkmiðunum árið 2016. Umræðurnar í samfélaginu snérust um það hvort réttlætanlegt væri að borga svona mikla peninga til útlanda, þegar fólk væri þurfandi hér heima. Þróunaraðstoðin sé þess vegna tapað fé, sem betur væri ráðstafað annars staðar og nær okkur sjálfum.

Og víst er fólk þurfandi hér heima. Það sem hins vegar er skakkt við þessa umræðu er stilla fólki upp við vegg eins og það þurfi að velja á milli þess að hjálpa samlöndum sínum og öðrum þjóðum, að einmitt nákvæmlega þessum hluta þjóðarkökunnar og öðrum ekki skuli beint að svöngum munnum og að okkar sé valið um það hvort skeiðin lendi í íslenskum eða afrískum munni. Fjármununum sem að Ísland ætlar að nota í þróunaraðstoð á næstu árum verður varið til ýmiss konar verkefna. Þeir fara m.a.í menntastofnanir sem að mennta fólk í þróunarlöndum til vaxandi atvinnuþáttöku og í að bæta innviði stjórnkerfa. Þar eru framlög til friðargæslu, til umhverfis og loftslagsmála, til mannúðarmála, jafnréttis og neyðaraðstoðar, til Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Þetta eru framlög sem tengjast ábyrgð okkar sem snerta okkur sem jarðarbúa sem bera ábyrgð á öðrum jarðarbúum, mönnum, dýrum og öðrum lifandi verum. Þessi framlög nýtast á veraldarvísu og þannig öllum manneskjum, en þeim ekki síst sem minnst mega sín í veröldinni, fátækasta og allslausasta fólki jarðar. Það á ekki að vera val fyrir okkur hvort við hjálpum þeim eða ekki. Það er sjálfsögð skylda okkar sem manneskja og mannvina hverrar trúar sem við erum og hvort sem við erum trúuð eða ekki.

Við sem játum kristinn sið hljótum að túlka kröfuna um þróunaraðstoðina á okkar eigin hátt og í ljósi okkar eigin kristnu tákna. Hinn kristni boðskapur leggur okkur skyldur á herðar. Upprisan, eilíft líf , sigur lífs yfir dauða, gleði yfir sorg, fjallar líka um dauða fátæktar og vonleysis. Baráttan við slíkan dauða getur aldrei verið tapað fé. Þessar manneskjur, þetta loftslag, þessar lífverur eru verkefni okkar þegar okkur er snúið frá kaldri gröf fátæktar og örbirgðar og aftur til „bræðranna.“

Kristur er upprisinn! Lífið lifir og það er heilög skylda okkar að greiða því veg á hvern þann hátt sem við getum. Nýlega kom út stór skýrsla á vegum Lútherska heimssambandsins, sambandi allra lútherskra kirkna í heiminum, um kirkjulegt hjálparstarf og kærleiksþjónustu. Þessi merka skýrsla hefur komið út á íslensku og hana má nálgast á heimasíðu Þjóðkirkjunnar. Þar er okkur sagt að kærleiksþjónustan sé ekki aðeins eitt af verkunum sem kirkjan framkvæmir á stórum gátlista. Öllu heldur er kærleiksþjónustan eitt af því mikilvægasta sem skilgreinir okkur sem kristnar manneskjur. Biblían svarar okkur þegar við spyrjum um hinn týnda Drottin og segir að við finnum hann hvar sem við hjálpum hinum þurfandi og reisum þau til þeirrar mennsku og reisnar sem hver sköpun Guðs á skilið.

Konungurinn mun þá svara þeim: „Sannlega segi ég yður, það allt sem þér gjörðuð einum mínum minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér. Matt. 25:40

Hinn týndi Drottinn sem birtist okkur í þurfandi systrum og bræðrum fer ekki í manngreinarálit. Hann sést ekki bara á hvítum, norrænum andlitum. Hann talar ekki bara íslensku. Hann sést á hælisleitendum frá hrjáðum löndum, á ásjónu hungraðs fólks af fjölbreyttum kynþáttum, trúarbrögðum og litarhætti. Fjarri fer því að skýrslan sem ég nefni láti sér nægja að mæla með því að iðnvæddar þjóðir greiði þá þróunaraðstoð sem sæmileg er. Ábyrgð okkar á okkar minnstu bræðrum og systrum hérlendis og erlendis er ekki lokið þegar við höfum greitt skattinn okkar, eins virðingarvert og það nú annars er og sem útheimtir miklar fórnir af hálfu okkur margra. Ábyrgð okkar sem kristnar manneskjur sem fögnum hinum upprisna, týnda Drottni birtir okkur boðskapinn um að kirkjan í heiminum verði að sinna kærleiksþjónustunni á grundvallandi hátt, hætta að líta á hana sem valkvæð góð verk og viðurkenna hana sem órofa þátt í því að vera kristin manneskja. Kærleiksþjónustan, þjónustan við hinn þurfandi mann á einstaklingsvísu, innan hins staðbundna samfélags, á landsvísu og á heimsvísu er þannig ófrávíkjanlegur þáttur í því að leita að hinum týnda Drottni og finna hann, vegna þess að hann er alls ekki týndur.

Kristur er upprisinn! Drottinn lifir og ástin, gjafmildin, auðmýktin, hjartagæðin sem tengd eru nafni hans lifa og ríkja.
Við sjáum hins vegar ekki nógu skýrt. Og við skynjum ekki veruleika upprisunnar, gleðinnar og ólgu bjartsýninnar fyrr en við þekkjum Krist í þeim sem á vegi okkar verða og þurfa á okkur að halda.

IV.
„Hvar er Drottinn?“ spurði presturinn strákinn forðum og hann hljóp og faldi sig inni í skáp. „Hvar er Drottinn?“ spurði María Magdalena hinn upprisna. Hún sá hann ekki og leitaði þó út um allt. Hún fór til vina Jesú og tilkynnti þeim: „Ég hef séð Drottin.“

Förum nú og sjáum hann líka.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

jesus-appears-to-mary-magdalene-fontana-lavinia

„Barið að dyrum“ Prédikun á aðfangadagskvöld jóla 2012

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I.

Í sumar sagði kona mér sögu af aðfangadagskvöldi síðasta árs og mig langar að deila henni með ykkur.

Þessi kona rekur gistiheimili á Suðurlandi og einmitt þetta árið hafði dottið í hana að hafa opið yfir hátíðirnar og elda hátíðarmat fyrir gestina sína á aðfangadagskvöld. Fólkið í þorpinu hristi hausinn yfir þessari firru, því að það gat ekki ímyndað sér að nokkur vildi vera á gistiheimili yfir jólin. En viti menn, herbergin voru bókuð eitt og eitt. Þegar konan á gistiheimilinu var spurð um það hvernig gengi að safna gestunum í herbergin svaraði hún því til að þau væru öll uppbókuð nema eitt sem hún ætlaði að taka frá fyrir smiðinn og óléttu konuna hans. Hún var búin að búa um þau í herberginu. Fólkið fór með það svar, þótt það væru ekki allir vissir um það hvaða smið væri verið að tala um og þaðan af síður hvaða ólétta kona ætti að sofa í rúminu á jólanóttina. Sumir héldu að gistihúseigandinn væri endanlega genginn af vitinu.

Svo rann aðfangadagurinn upp og snjóalögin voru meiri en hafði sést svo að áratugum skipti í þorpinu. Vegirnir voru ófærir fyrir aðra en sérstyrkta bíla, hvíta hulan lagðist yfir eins og þykkt teppi, en fólkinu á gistiheimilinu var hlýtt. Það var eldur í arninum, kerti úti um allt, jólatréð stóð alskrýtt í stofunni og lyktin af jólasteikinni var yndisleg. Erlendu ferðamennirnir sem fæstir höfðu upplifað jól á norðurslóðum voru hrifnir og þakklátir. Klukkan sló sex, messan ómaði í útvarpinu og allir settust saman að borðinu. Þá heyrðust þung högg á dyrnar og inn ultu tvær kaldar manneskjur. Fyrir utan stóð klakabrynjaður Yaris bíll frá bílasölu. Þetta var ungt par af erlendum uppruna, sem hafði komið hingað til lands yfir hátíðirnar og ákveðið að keyra eitthvað út í buskann í hvítu stórhríðinni. Þau höfðu enga hugmynd um að byggðin gæti verið svona strjál á Íslandi og ennþá minni hugmynd um að hér þyrfti að gæta að veðri áður en lagt væri upp í langferð. Einhvern veginn höfðu þau þrælast á Yarisbifreiðinni austur fyrir jökul, komið þar niður í byggð og að húsi sem á stóð „Guesthouse“ eða gistihús. Gistihúseigandinn spurði fólkið hvort þau væru smiðurinn og ólétta konan hans og fólki rak upp stór augu, enda konan ekki komin nema þrjár vikur á leið. Þau voru drifin að borðinu þar sem steikin beið og messan hljómaði og þegar leið að helgri jólanóttu bjuggu þau um sig í hlýju rúmi.

Þannig endaði sagan um smiðinn og óléttu konuna á sunnlenska gistiheimilinu og einhverjir sjá kannski líkindi með henni og guðspjalli Lúkasar af rúmlega tvö þúsund ára gömlum atburðum. Það er reyndar kominn smábíll af algengri tegund í staðinn fyrir asnann. Konan er ekki jafn langt gengin með barn sitt. Þau eru ekki á leið til skrásetningar til fæðingarstaðar mannsins, heldur á ferð í ókunnu, norrænu landi sem er hvítt af snjó.

En í báðum sögum hefur fólkið ríka þörf fyrir húsaskjól og aðhlynningu.
Það hefur þörf fyrir það að fararskjótinn rati til mannabyggða í náttmyrkrinu.
Það hefur þörf fyrir öryggi og frið í stað ótta og óvissu.
Það hefur þörf fyrir það að einhver opni þeim dyr sínar,
einhver, já, bara einhver sem kann að gefa og undirbúa komu
einhver sem gleðst yfir ferðalöngunum í myrkrinu,
og tekur á móti hinum óþekkta smið og óléttu konunni hans.

II.
Í morgun um hálffimmleytið á aðfangadagsmorgun 2012 bar til að barið var að dyrum á öðrum bæ á Suðurlandi. Þar var kominn strokufangi sem leitað hefur verið að í tæpa viku, hættulegur maður og vel vopnaður riffli með hljóðdeyfi, öxi og hnífum. Hann kvaðst vildu gefast upp á flóttanum og bað heimilisfólk að hringja á lögregluna. Fólkið talaði við hann góða stund í gegnum eldhúsgluggann og gaf honum mat út um gluggann. Þegar þau sáu að fanginn var rólegur buðu þau honum inn. Hann skildi vopnin eftir úti og fékk hangikjöt og súpu í sólstofunni þeirra.

Það er ekki á okkar færi að rýna inn í hug strokufangans,
spyrja hvað honum gekk til með flóttanum,
eða með því að mæta alvopnaður heim til fólks á aðfangadagsmorgun.
En við getum dáðst að fólkinu,
sem horfði upp á þennan ógnandi mann,
sá í honum mennskuna og umkomuleysið,
talaði við hann, gaf honum mat og sýndi honum kærleika.
Og svo gerist þessi undarlegi og óútskýranlegi hlutur,
að maðurinn með byssuna er allt í einu orðinn byssulaus.
Hann situr í stofu meðal góðs fólks
á aðfangadag
og nýtur gestrisni þeirra
þangað til lögreglan kemur og fer með hann í fangelsið.

III.

Jólin eru af mörgum talin hátíð barnanna,
Hátíð gnægtanna,
hátíð ljóssins,
hátíð matar og hefða.
Jólin eru hátíð Jesúbarnsins og allra barna.
Jólin eru hátíð foreldranna sem börðust við að koma barni sínu til Betlehem
og í öruggt skjól.
Jólin eru hátíð barnanna,
Von um gleði og öryggi barna
pökkum og gríni og uppljómuðum herbergjum,

En með vissum rétti má líka segja að jólin sé hátíðin í myrkrinu,
hátíðin sem tekst á við myrkrið í hjörtum okkar,
óöryggið, ofbeldið, áhyggjurnar, streituna, fátæktina, angistina og sorgina
sem ber að dyrum á óvæntum tíma,
og flytur með sér undarleg og nýstárleg Jesúbörn
sem biðja okkur að líta í augun á sér og gefa sér mat.

Friður eða sjalom að biblíulegum skilningi
fjallar ekki um lognmollu og fullkomna veröld,
heldur jafnvægi, hreyfiafl, frumkvæði
og eitthvað sem kemur manni alltaf á óvart.
Friður er ekki bara hreint og stöðugt ljós,
heldur líka húmið,
sem verður til af andstæðum ljóss og myrkurs
í sífelldu flökti kertaljóssins.

Jólin er þannig líka hátíð hinna fullorðnu
sem glíma við allt það sem dregur okkur niður í myrkrinu,
og heftir fararskjótann okkar,
hátíð barnsins í okkur sjálfum sem við nærum eins og ófrísk kona í kvið sínum
gleðinni, eftirvæntingunni, voninni og sakleysinu
sem við vonum svo heitt að okkur takist að koma á áfangastað
og háttum með í hlýju, hreinu rúmi.

Jólin tekst á við myrkur gestgjafans
sem sagði nei,
sem hleypti engum inn,
sem gafst upp á jólunum áður en þeim var formlega hrundið af stað,
og lokaði dyrunum á nefið á smiðnum og óléttu konunni hans.
Hátíðin sem tekst á við myrkrið og ógnina ristir þannig djúpt.
Hún horfir til Sandy Hook í Connecticut,
til barna í kvennaathvörfum og á munaðarleysingjahælum,
til barna í flóttamannabúðum um víða veröld
til fullorðins fólks sem býr við erfið kjör,
sum vegna óréttlætis og mismununar
önnur vegna sjálfskaparvíta.
Þegar við horfum á slóðir Jesúbarnsins í Betlehem
Og nágrannabyggðirnar í Gaza og í Sýrlandi
birtist okkur veröld sem er sorglega laus við gleði og frið.

Skuggarnir eru líka margir hér heima um þessi jól.
Sjaldan hafa fleiri leitað til hjálparstofnanna
og það er þungi, þreyta, vonleysi, reiði og pirringur í mörgum.
Hátíð ljósanna bendir út í þetta myrkur.
Hún væntir þeirra sem eru að berjast á klakabrynjuðum smábíl yfir fjallið
í þeirri von að ná í óþekkt skjól á helgri hátíð
Að finna fyrir gleði, öryggi og frið á þessari kærkomnu tíð.
Hún horfir til barna og fullorðinna sem eru enn þarna úti á Yarisnum
í ófæru brekkunni,
hver sem hann er
og hvar sem hann er.
Hún gefur okkur kjark til að opna eldhúsglugga hjarta okkar
Og senda þangað mat og orð,
greina mennsku í stað ógnar.
Hin hæsta hátíð ber þannig í sér andstæður ljóss og myrkurs
og húmið þar á milli
friðinn sem við þráum
allt það sem við erum svo undurnæm fyrir á þessum árstíma.

Og nú þegar heilög hátíð er gengin í garð,
messan ómar,
steikin ilmar,
jólaölið freyðir
og sósan sýður,
þá megum við ekki gleyma þessum ljósaskiptum jólanna.
Börnin gleðjast og hlakka til næstu jóla,
en ábyrgð okkar fullorðna fólksins,
jól og verkefni hinnar þroskuðu og trúuðu manneskju
er að bera Jesúbarnið áfram til Betlehemar framtíðarinnar og nýja ársins 2013,
að opna hús okkar og hjörtu fyrir þessu barni,
að búa um rúmin og gefa foreldrum þess eitthvað að borða,
að næra gleði og von þar sem við komum og getum,
að leggja okkar að mörkum dag hvern,
hlusta eftir því að einhver drepi á dyr okkar og glugga
líka sá sem við viljum helst ekki vita af,
að greiða götu náungans í nafni Jesúbarnsins,
að berjast fyrir því að enginn þurfi að svelta,
líða skort og vera fátækur á Íslandinu góða
að horfa til hans sem er Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi
og eflir ríki sitt með réttvísi og réttlæti.

Sjá, ókunnur bíll á hlaðinu og jólahátíðin byrjuð.
Það er barið að dyrum okkar.
Og inn um þær velta tvær manneskjur alþaktar snjó
smiðurinn og ólétta konan hans.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Silfurhúðin

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

I.

Einu sinni var ákaflega ríkur og nískur maður sem ákvað að fara og heimsækja prestinn sinn út af einhverju vandamáli. Þegar presturinn hafði hlustað á hann rekja raunir sínar litla stund, stendur hann skyndilega upp og dregur níska manninn með sér út í glugga. “Hvað sérðu?” segir presturinn við níska manninn. “Ég sé fólkið úti á götu” segir sá síðarnefndi. Þvínæst dregur presturinn manninn með sér að spegli og spyr aftur:  “Hvað sérðu?”. “Ég sé sjálfan mig” sagði maðurinn alveg steinhissa. Hann hélt að presturinn væri orðinn brjálaður.

“Nú skal ég segja þér hvers vegna ég var að spyrja þig þessara spurninga,” sagði presturinn. Glugginn er búinn til úr gleri. Spegillinn er búinn til úr gleri. Eini munurinn á milli þessara tveggja glerja er að á speglinum er þunn silfurhúð. Þegar þú horfir í gegnum hreint gler sérðu fólkið í kringum þig. En þegar þú húðar glerið með silfri, þá hættir þú að sjá aðra og horfir bara á sjálfan þig.”

II.

Það er fyrsti sunnudagur eftir þrenningarhátíð og hverjum degi kirkjuársins hafa verið úthlutaðir tilteknir textar sem einkenna efni hans. Tímabilið frá páskum til hvítasunnu er oft nefnt gleðitímabilið og tengist upprisu og uppstigningu Jesú Krists sérstaklega. Sunnudagarnar eftir þrenningarhátíð eru hins vegar tengdir hinum trúarlega vexti og þroska. Þess vegna er grænn litur á altarinu. Hver sunnudagur eftir þrenningarhátíð tengist einu stefi sem getur hjálpað okkur að horfa inn á við og gerast betri manneskjur með hjálp Guðs. Og efni dagsins í dag er það sem guðspjallið sagði okkur frá, guðspjallið um ríka bóndann. Þetta guðspjall biður okkur að einbeita okkur ekki að því að eiga endalaust af peningum, heldur að vera rík í augum Guðs.

Svona hljóðar dæmisaga Jesú: Bóndi einn á gjöfult land. Landið gefur svo vel af sér að hann getur hvergi komið afurðunum fyrir. Meðan bóndinn veltir fyrir sér þessu lúxusvandamáli, kemst hann að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að rífa allar hlöðurnar sínar og byggja aðrar stærri og meiri. Inn í þessar stóru hlöður ætlar hann síðan að hrúga öllum sínum verðmætum. Þegar maðurinn er búin að ákveða þessar framkvæmdir verður honum mjög létt og hann segir við sjálfan sig:  “Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.” En þessa sömu nótt dó maðurinn og hafði því ekkert að gera við allt það sem hann hafði safnað af sér.

Helstu mistök mannsins  voru að hann gat ekki horft á neitt nema sjálfan sig og hvernig hann gæti passað upp á eigin auð. Hann hélt að sála sín yrði þá fyrst glöð, þegar búið væri að koma öllum peningunum inn í hlöðuna.

Í sögunni sem ég sagði ykkur í upphafi var eini munurinn á glerinu og speglinum silfurhúðin. Þessi húð gerði það að verkum að níski maðurinn í sögunni notaði ekki fé sitt vel. Hann sá bara sjálfan sig, aðrir voru honum huldir.

Eins er með ríka bóndann í sögu Jesú. Það fer engum sögum af því að hann hafi fundið leiðir til að nýta fé sitt. Hann notaði það ekki til að gleðja sig og aðra. Hann horfði ekki í kringum sig. Hann gladdi ekki ástvini sína. Hann leitaði ekki uppi þau sem þurftu á hjálp hans að halda. Hann varði öllum sínum tíma í að hugsa út snjallari fjárhagsáætlanir, stærri hús til að geyma auðinn. Hann sat boginn yfir bókunum og skipulagði nýjar leiðir til að geyma féð. Og þess vegna segir Jesús um manninn að hann hafi safnað sér fé, en hafi ekki verið ríkur í augum Guðs.

III.

Við komum saman á fermingardegi. Skírn, ferming, útskrift, hjónavígsla allt eru þetta merkisdagar á mannsævinni. Þeir gefa okkur til kynna að nýjum áfanga sé náð. Við getum glaðst fyrir því að ungmenni er að verða fullorðið. Við getum undrast yfir því hvað það er stutt síðan hún var lítið barn. Við getum velt því fyrir okkur hvað það er stutt síðan við vorum krakkar.Það er eitthvað við þessa merkisdaga sem hjálpar okkur að nema staðar í núinu og njóta andartaksins. Við höfum þetta litla andartak tækifæri til að hugsa um fortíðina og framtíðina og hvíla í því . Við getum hugsað um það hvað það er gott að vera til,  eiga líf og ástvini, eiga hugsun, tengsl, land, sól og vatn og allt annað sem okkur er gefið. Þegar við hvílum í núinu erum við þakklát. Himininn heldur utan um okkur.

Í sögunni af ríka bóndanum kemur aldrei slíkt andartak. Hann tók aldrei eftir himininum vegna þess að áhyggjurnar stjórnuðu lífi hans, Ríki bóndinn í sögunni er alltaf með hugann við framtíðina. Hann er alltaf að skipuleggja, hann er ávallt hræddur um peningana sína og þarf ævinlega að ala önn fyrir þeim. Þess vegna hvetur Jesús  þau sem á hann hlusta að varast ágirnd, varast nísku og öfundsýki og keppa að því að vera rík í augum Guðs.

Þessar hlöður sem við rembumst við að byggja
eru svo ólíkar.
Hjá sumum er það óánægjan yfir hvernig við lítum út.
Hjá öðrum er það óánægjan með það hvernig við búum og hvað við gerum,
samanburðurinn við það sem aðrir hafa og gera.
En þegar við byggjum upp óónægju og áhyggjur,
þá týnum við niður þakklætinu
og ánægjunni með það sem við höfum og erum.

IV.

Þessi auður sem Biblían talar um
er ekki í veskjunum okkar,
ekki í áætlununum okkar,
ekki í áhyggjum okkar fyrir næsta degi.

Við höfum eflaust öll einhverjar áhyggjur.
Mörg okkar hafa fyllstu ástæðu til að ala önn fyrir morgundeginum
og margar hverjar eru virkilega knýjandi og sárar.
Guðspjall dagsins gerir ekki lítið úr lífsbaráttunni.
Það hins vegar geldur vara við því að láta gerviáhyggjur fyrir gerviþörfum
stjórna lífi okkar.
Það mælir gegn ágirnd og græðgi.
Ríki bóndinn hefði alveg getað lifað góðu lífi með sínar gömlu hlöður.

Það er eitthvað við þessa knýjandi þörf fyrir að byggja sér framtíðarhlöður í huganum
sem að rænir okkur núinu,
Rænir okkur því að geta hlegið og glaðst yfir því sem andartakið gefur okkur.
Þakkað fyrir allt það sem Guð hefur látið okkur í té
Og vera næm fyrir tikkinu í tímanum.

Við eigum aðeins eitt líf
og samband okkar við þau sem við elskum
er brothætt og fallegt.
Það er auður að vita það og skynja auðlegð andartaksins.

V.

Á þessum fallega sumardegi, þegar sagan um ríka bóndann er okkur lesin, þá hljóma hin vísu lífsráð Biblíunnar sem tilheyra þessum messudegi,ráð um að einbeita sér að hinum sanna auði.

Húðum ekki glerin okkar með silfri,
horfum út um glerið á allt það sem Guð hefur skapað.
Gleymum aldrei að horfa í kringum okkur.
Njótum andartaksins.
Verum glöð yfir því sem þú við erum og eigum.
Fylgjum fordæmi Jesú Krists.

Það kemur tími fyrir hlöður, en það er líka tími til að njóta og vera í núinu.
Guð gefi okkur öllum hæfileika, æðruleysi, þroska og gleði til að vera rík í augum Guðs,
Rík að vináttu og tíma,
Rík að þolinmæði
Rík að þakklæti
Rík að trú, von og kærleika.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun, Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.

Myndin er eftir Rembrandt