Efnisorð: jól

Mamma Malaví

Ræða á aðfangadagskvöld jóla 2013 í Guðríðarkirkju

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sólin er í hádegisstað og bíllinn skröltir eftir veginum á leiðinni til Mangoche suður af Malaví vatni. Ferðalangurinn horfir stóreygur á það sem fyrir augun ber. Hann vann leik í endaðan nóvember þar sem Malavíferðin var í verðlaun og er nú kominn yfir á suðurhvel jarðar í fyrsta sinn á ævinni í boði Vífilfells og Rauða krossins.

Í Malaví eru tvær árstíðir, hin þurra og hin raka og nú er hin raka tekin við. Það er allt morandi í geitum og maísökrum og ilmandi keimur berst frá mangó og bananatrjánum. Blómskrúð sumarsins er undarleg sjón fyrir Íslending um miðjan desember, sem er vanur skammdegi og snjó. Og áfram rennur bíllinn. Bílstjórinn hans er skemmtilegur maður, sem segir þeim ýmislegt frá sögu héraðsins og landsins síns. Hann á heima þarna rétt hjá og býður heim til sín. Hann sagði í bílnum að hann ætti tvö börn, en litlu börnin sem taka á móti Íslendingnum heima hjá leiðsögumanninum er fjögur. Það er vegna þess að tvö af börnunum eru börn systur bílstjórans sem dó úr AIDS ásamt manni sínum. Þetta segir bílstjórinn Íslendingnum eins og það sé venjulegt og sjálfsagt að börn missi báða foreldra sína og endi heima hjá ættingjum. Og það rennur upp fyrir ferðalangnum unga að á þessum slóðum geyma flestar fjölskyldur slíkar sögur.

Malaví sú sem hann sér í Mangoche er fallegt og fátækt land. Hann hrífst af þessu fólki sem er svo brosmilt og glatt þrátt fyrir örbirgð sína. Meðalaldur karla og kvenna í Malaví er 55 ár, en um og yfir 80 ár hjá okkur. Hann fær að heimsækja barnaskóla með þúsundum barna. Við barnaskólana hefur Rauði krossinn á Íslandi verið að byggja vatnsbrunna. Brunnarnir sjá börnunum fyrir hreinu vatni og verða til þess að stúlkurnar sem áður þurftu að bera vatn allan liðlangan daginn geta frekar farið í skóla en að bera brúsa á veikum herðum. Rauði krossinn er líka að byggja hreinlætisaðstöðu við skólann, svo að börnin geta farið á klósett. Þessi salernisaðstaða gerir það líka að verkum að stúlkurnar haldast í skólanum, því að þá þurfa þær sem eru orðnar kynþroska ekki lengur að halda sig heima þegar þær hafa blæðingar.

Hann ekur yfir ána Shire og klífur fjallið Namizimu austur af Mangoche með Brave leiðsögumanni. Af Namizimu er gríðarlegt útsýni yfir Malavívatn í norðvestri og Malombevatn í suðvestri. Svæðið kringum Namizimu er þjóðgarður og þar nýtur náttúran sín í allri sinni dýrð, eini hluti Malaví, sem er ekki þéttbyggður, því að Malavíbúar eru fimmtán milljónir talsins og lifa flestir í sveitum við kröpp kjör.

Og svo er hann kominn aftur til höfuðborgarinnar Lilongwe, þar sem Íslendingafélagið í Malaví heldur upp á litlu jólin. Alls staðar eru Íslendingar og þar sem Íslendingar eru þarf að halda upp á jól, þó að það sé 30 stiga hiti úti, eðla hangandi í loftinu og api í garðinum. Íslendingarnir í Malaví eru flestir tengdir þróunarverkefnum og vinna fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Rauða krossinn og Hjálparstarf kirkjunnar. Sumir eru að kenna Malavímönnum nýja tækni við fiskveiðar, aðrir veita ráðgjöf um virkjun jarðhita í Malaví í samvinnu við norræna þróunarsjóði. Sumir eru að byggja brunna eða vinna að verkefnum í heilsugæslu og skólamálum . Og þennan dag koma þau saman og borða pönnukökur að íslenskum sið og spyrja frétta ofan af Íslandinu góða.

Hann afhenti gjöf upp á 250 þúsund sem að hluta til innihélt tombólufé frá krökkum og gjafafé frá Hafnafjarðardeild Rauða kross Íslands. Það eru margir krakkar sem halda tombólur fyrir Rauða krossinn og safnast þegar saman kemur. Ákveðið var að nota peningana til að ljúka við að leiða rafmagn á nýja fæðingarheimilið, sem einnig er byggt fyrir peninga frá Íslandi. Þannig verður góður hugur frá Íslandi til þess að konurnar þurfa ekki að fæða í myrkrinu og að hægt sé að koma við einhverri tækni til að auðvelda þeim stríðið. Þær eru mæður og flestar barnungar, og Malavíbúar tala líka um landið sitt sem móður. Þau syngja á chichewa  sem tungumál bantúmanna og opinbert tungumál í Malaví: Mlungu dalitsani Malaŵi

Ó Guð, blessaðu landið okkar Malaví
og láttu það vera land friðarins,
bæg burtu öllum óvinum
hungri, sjúkdómum og öfund.
Sameina hjörtu okkar
svo við verðum óttalaus.
Blessaðu alla leiðtoga okkar,
og móður Malaví. 

II.

Sameinaðu hjörtu okkar svo að við verðum óttalaus og blessaðu móður Malaví, syngja Malavíbúar. Láttu landið okkar vera land friðarins.

Tómas Guðmundsson orti eitt sinn um það hve hjörtum mannanna svipar saman
í Súdan og Grímsnesinu og eflaust mætti yfirfæra þau orð yfir á Grafarholt og Malaví. Hjörtu mannanna eru eins í margbreytileika sínum. Við þráum frið. Við viljum vera óttalaus og laus við hungur, sjúkdóma og öfund. Og á helgum jólum verður þessi tilfinning um samtengingu hjartnanna sterkari en oft áður. Við hugsum til þeirra sem horfnir eru og rifjum upp aldagamlar jólavenjur sem tengja okkur við fyrri tíma kynslóðir í þessu landi. Við hugsum til þeirra sem líða skort og ég hef fundið fyrir þessum hlýhug til nágrannanna síðustu vikur þegar við höfum verið að safna fyrir líknarsjóðinn hér í hverfinu. Og jólin eru líka sú hátíð þar sem við finnum til samkenndar með öllu fólki jarðar sem býr við hættur og neyð og skort. Jólin eru þannig hátíð sem samtengir hjörtun, fléttar saman fortíð og nútíð og vefur listilega saman hið þjóðlega og hið alþjóðlega.

Við syngjum sömu jólasálmana ár eftir ár. Sá elsti sem við syngjum er frá sextándu öld og hinir flestir ortir á nítjándu öldinni. Við rifjum upp það gamla og syngjum með orðum formæðra okkar og feðra um fátæka hreysið sem Jesúbarnið fæddist í og fátæku meyna sem að fæddi Guð. Sálmarnir voru ortir á öld sem hafði sterka skírskotun til fátæktar, þar sem Íslendingar bjuggu flestir í sveitum eins og Malavímenn nú, þegar við þekktum ekki leiðir til að virkja jarðhitann í iðrum jarðar, þegar tæknin við fiskveiðarnar var lítil sem engin, þegar holdsveikin var alvarlegt vandamál á Íslandi, þegar fólk dó úr hungri og flýði til Vesturheims undan fátæktinni heima. Þegar við íhugum aðstæður þeirra Íslendinga sem fyrst sungu jólasálmana okkar, þá vitum við að fátæktin er ekki eitthvað sem við getum stungið undir stól á jólunum. Hún er hluti af jólasögunni. Lífsbarátta fátæks fólks er hluti af sögu okkar sem þjóðar. Og kannski finnum við einmitt þessa tengingu við þjóðina okkar, það sem hún er og var og verður, þegar straumar hins þjóðlega og hins alþjóðlega falla saman í jólahaldi okkar.

Þessi samtenging hins þjóðlega og alþjóðlega á jólum kom einmitt sterkt fram í skemmtilegri frétt fjórum dögum fyrir jól. Þar var birt mynd af jólasveininum Skyrgámi á rauðum nærbuxum. Hann var að fara í jólabaðið með Jónasi Þórissyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfs Íslands. Jólasveinarnir hafa nefnilega verið að gefa mikið fé til líknarmála á undanförnum árum og á myndinni sést Skyrgámur afhenda Jónasi svarta tösku fleytifulla af peningum fyrir Hjálparstarfið. Kannski fara þessir peningar til þess að grafa brunna í Malaví og gefa litlum börnum hreint vatn og auknar lífslíkur eða til að styðja íslensk börn sem búa við bág kjör. Það er að segja ef þeir hafa ekki misst peningana ofan í heita pottinn! Stundum er maður þjóðlegastur þegar maður á hjarta fyrir allan heiminn og þetta vita jólasveinarnir.

Þegar við horfum til móður Malaví þekkjum við aftur Ísland fyrri tíðar, sem við tölum líka um sem móður, sem ber okkur á brjóstum sínum. Þessar tvær virðulegu mömmur, mamma Malaví og mamma Ísland, (stundum nefnd Fjallkonan) heilsa hvor annarri af norður og suðurhveli með börnin sín hangandi í pilsunum. Þær heilsa af virðingu, þekkja erfiða nýlendusögu hvor annarrar. Og þegar önnur berst í bökkum, þá hjálpar hin af því að hún veit hvað það er að líða skort.

III.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð.

Betlehem er borgin sem við stefnum til á jólum hverjum
staðurinn þar sem ævintýrin verða til
þar sem konan fæðir frelsarann og karlinn klippir á naflastrenginn
þar sem dýrin fagna
þar sem fátækir smalar og erfiðisfólk verður vitni að undri jólanna
þar sem könnuðir og hugsuðir gefa gull, reykelsi og myrru.
þar sem náttmyrkrið lýsist upp af skæru ljósi
og englarnir syngja í ljósinu:

Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.

Beit Lechem er hebreska og þýðir hús brauðsins.
Á jólum beinum við sjónum að húsi brauðsins
að húsi gnægtanna og leitum þangað eftir öryggi og gleði, friði á jörðu, jafnvægi, kærleika og ljósi.

Og þá er ekki úr vegi að við spyrjum hvert það fólk sé sem við kjósum að eyða með jólum, hverja við köllum til inn í fögnuð og frið og hverjum við gleymum og leiðum hjá okkur. Jólin eru bara einu sinni á ári en áhrif þeirra geta verið langvarandi, ef við leyfum þeim það. Þá tekur jólagleðin ekki enda á þrettándanum, þó svo að ljósin og trén séu tekin niður, heldur varir í janúar og febrúar og alla hina mánuðina líka.

Við varðveitum best fögnuð jólanna með gestrisni og opnum huga, með því að sameina hjörtu okkar, svo við verðum óttalaus og friðsöm. Og þess vegna skiptir þessi sameining hjartnanna á jólum svo óendanlega miklu máli. Við erum næmari fyrir neyð náungans á jólum en oft áður og fúsari til að koma henni og honum til hjálpar. Við skynjum hluti sem við erum oft lokuð fyrir eða leiðum hjá okkur, tilfinningar og sorgir annars fólks. Kannski erum við stundum betri manneskjur í desember heldur en hina dagana þrátt fyrir fýluköst í jólahreingerningum, skammdegisdrunga og ergelsi þegar við erum að setja upp allar seríurnar. Og einhvern veginn ættum við að finna leiðir til að viðhalda þessari meðlíðunarkennd. Við ættum að leita leiða til að viðhalda gestrisninni og gæskunni hina ellefu mánuði ársins líka.

Við sem manneskjur berum siðferðilega ábyrgð á öðrum manneskjum og við höfum ekki efni á örbirgð heimsins. Og þess vegna skiptir það máli, þegar við vegsömum frelsarann litla í jötunni sinni, innan um áburðardýr, flækingsforeldra og fátæka smala, að við upphefjum ekki fátæktina sem við syngjum um í sálmunum. Það er nefnilega ekkert krúttlegt við að vera fátækur. Það er í anda guðspjallsins að við berjumst á móti fátæktinni með gjafmildi, vandaðri þróunaraðstoð og samstillingu hjartnanna og horfumst í augu við þær manneskjur sem búa við sístu kjörin á jörðu. Þá fyrst skynjum við stráin í jötunni, götin á veggjunum, forina á gólfinu þar sem María fæddi barnið sitt og slitin klæði hirðanna, staðinn þar sem ljós jólanna birtist og englarnir sungu.

Það er vegna jólagleði sem tekur aldrei enda, sem við sinnum þróunarhjálp, vegna þess að jólin hjálpa okkur að horfast í augu við eigin mennsku og tengir okkur við mennsku annarra. Þessi þróunarhjálp byggist fyrst á fremst á forvörnum, að því að styrkja innviði og að hjálpa öðru fólki til sjálfshjálpar svo að það lendi ekki í vergangi. Hún byggir á því að leita leiða til þess að vandamálin verði viðráðanleg. En slík forvarnarverkefni njóta ekki alltaf athygli heimsbyggðarinnar og sumir telja ranglega að hún skili ekki neinu. En hún skilar miklu. Þjóðir heims hafa tekið höndum saman við að draga úr AIDS faraldrinum í Afríku og þannig sjá til þess að börn á borð við litlu systurbörn bílstjórans sem keyrði unga Íslendinginn í Malaví á dögunum, þurfi ekki að standa uppi foreldralaus og allslaus. Það hefur að miklu leyti tekist að draga úr eyðnismitun í Afríku. En fólk sem ekki fékk AIDS er ekki endilega frétt. Klósett við barnaskóla eru yfirleitt ekki frétt. Ljós í áður almyrkvaðri fæðingarstofu þykir yfirleitt ekki fréttnæmi- nema þeim sem eignast hreint vatn, salernisaðstöðu og ljós til að fæða við.

Íslendingurinn ungi kveður Malaví og flýgur yfir Mangochi á leiðinni aftur til baka. Hann vonar að Malavíbúar megi lifa óttalausir og í friði og lausir við hungur, Mlungu dalitsani Malaŵi. Og einn dag, af því að hann kom færandi hendi með gjafir úr norðri með tombólufé gjöfulla barna og gjafir frá fólki með stórt hjarta, einn dag ekki í ýkjalangri framtíð þá fæðir hún María barn í litlu og fátæklegu húsi. Það er dimmt í kringum hana og hún finnur fyrir hönd Jósefs í lófa sér sem hjálpar henni að þola sársauka hríðanna. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þau, vegna þess að vinafólk í norðri hefur reynst þeim engill Drottins. Þetta fólk sem þau þekkja ekki hafa leitt rafmagn í fæðingarstofuna svo að Betlehemsvellirnir lýsast upp. Þau hafa hitað upp kotið með jarðhita og grafið brunn fyrir utan fjárhúsið sem í vella lækir lifandi vatns.

Guð blessi mömmu Malaví og velgjörðarkonu hennar fjallkonuna og gefi þeim báðum kjark, styrk og gjafmildi til að samstilla hjörtun í baráttunni gegn fátækt. Guð gefi okkur jólagleði sem tekur aldrei enda.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.

Á myndinni stendur sonur minn Hjalti á Namizimufjalli í Malaví ásamt Brave leiðsögumanni. Myndin er tekin um miðjan desember 2013.Hjalti Namizimu

„Barið að dyrum“ Prédikun á aðfangadagskvöld jóla 2012

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I.

Í sumar sagði kona mér sögu af aðfangadagskvöldi síðasta árs og mig langar að deila henni með ykkur.

Þessi kona rekur gistiheimili á Suðurlandi og einmitt þetta árið hafði dottið í hana að hafa opið yfir hátíðirnar og elda hátíðarmat fyrir gestina sína á aðfangadagskvöld. Fólkið í þorpinu hristi hausinn yfir þessari firru, því að það gat ekki ímyndað sér að nokkur vildi vera á gistiheimili yfir jólin. En viti menn, herbergin voru bókuð eitt og eitt. Þegar konan á gistiheimilinu var spurð um það hvernig gengi að safna gestunum í herbergin svaraði hún því til að þau væru öll uppbókuð nema eitt sem hún ætlaði að taka frá fyrir smiðinn og óléttu konuna hans. Hún var búin að búa um þau í herberginu. Fólkið fór með það svar, þótt það væru ekki allir vissir um það hvaða smið væri verið að tala um og þaðan af síður hvaða ólétta kona ætti að sofa í rúminu á jólanóttina. Sumir héldu að gistihúseigandinn væri endanlega genginn af vitinu.

Svo rann aðfangadagurinn upp og snjóalögin voru meiri en hafði sést svo að áratugum skipti í þorpinu. Vegirnir voru ófærir fyrir aðra en sérstyrkta bíla, hvíta hulan lagðist yfir eins og þykkt teppi, en fólkinu á gistiheimilinu var hlýtt. Það var eldur í arninum, kerti úti um allt, jólatréð stóð alskrýtt í stofunni og lyktin af jólasteikinni var yndisleg. Erlendu ferðamennirnir sem fæstir höfðu upplifað jól á norðurslóðum voru hrifnir og þakklátir. Klukkan sló sex, messan ómaði í útvarpinu og allir settust saman að borðinu. Þá heyrðust þung högg á dyrnar og inn ultu tvær kaldar manneskjur. Fyrir utan stóð klakabrynjaður Yaris bíll frá bílasölu. Þetta var ungt par af erlendum uppruna, sem hafði komið hingað til lands yfir hátíðirnar og ákveðið að keyra eitthvað út í buskann í hvítu stórhríðinni. Þau höfðu enga hugmynd um að byggðin gæti verið svona strjál á Íslandi og ennþá minni hugmynd um að hér þyrfti að gæta að veðri áður en lagt væri upp í langferð. Einhvern veginn höfðu þau þrælast á Yarisbifreiðinni austur fyrir jökul, komið þar niður í byggð og að húsi sem á stóð „Guesthouse“ eða gistihús. Gistihúseigandinn spurði fólkið hvort þau væru smiðurinn og ólétta konan hans og fólki rak upp stór augu, enda konan ekki komin nema þrjár vikur á leið. Þau voru drifin að borðinu þar sem steikin beið og messan hljómaði og þegar leið að helgri jólanóttu bjuggu þau um sig í hlýju rúmi.

Þannig endaði sagan um smiðinn og óléttu konuna á sunnlenska gistiheimilinu og einhverjir sjá kannski líkindi með henni og guðspjalli Lúkasar af rúmlega tvö þúsund ára gömlum atburðum. Það er reyndar kominn smábíll af algengri tegund í staðinn fyrir asnann. Konan er ekki jafn langt gengin með barn sitt. Þau eru ekki á leið til skrásetningar til fæðingarstaðar mannsins, heldur á ferð í ókunnu, norrænu landi sem er hvítt af snjó.

En í báðum sögum hefur fólkið ríka þörf fyrir húsaskjól og aðhlynningu.
Það hefur þörf fyrir það að fararskjótinn rati til mannabyggða í náttmyrkrinu.
Það hefur þörf fyrir öryggi og frið í stað ótta og óvissu.
Það hefur þörf fyrir það að einhver opni þeim dyr sínar,
einhver, já, bara einhver sem kann að gefa og undirbúa komu
einhver sem gleðst yfir ferðalöngunum í myrkrinu,
og tekur á móti hinum óþekkta smið og óléttu konunni hans.

II.
Í morgun um hálffimmleytið á aðfangadagsmorgun 2012 bar til að barið var að dyrum á öðrum bæ á Suðurlandi. Þar var kominn strokufangi sem leitað hefur verið að í tæpa viku, hættulegur maður og vel vopnaður riffli með hljóðdeyfi, öxi og hnífum. Hann kvaðst vildu gefast upp á flóttanum og bað heimilisfólk að hringja á lögregluna. Fólkið talaði við hann góða stund í gegnum eldhúsgluggann og gaf honum mat út um gluggann. Þegar þau sáu að fanginn var rólegur buðu þau honum inn. Hann skildi vopnin eftir úti og fékk hangikjöt og súpu í sólstofunni þeirra.

Það er ekki á okkar færi að rýna inn í hug strokufangans,
spyrja hvað honum gekk til með flóttanum,
eða með því að mæta alvopnaður heim til fólks á aðfangadagsmorgun.
En við getum dáðst að fólkinu,
sem horfði upp á þennan ógnandi mann,
sá í honum mennskuna og umkomuleysið,
talaði við hann, gaf honum mat og sýndi honum kærleika.
Og svo gerist þessi undarlegi og óútskýranlegi hlutur,
að maðurinn með byssuna er allt í einu orðinn byssulaus.
Hann situr í stofu meðal góðs fólks
á aðfangadag
og nýtur gestrisni þeirra
þangað til lögreglan kemur og fer með hann í fangelsið.

III.

Jólin eru af mörgum talin hátíð barnanna,
Hátíð gnægtanna,
hátíð ljóssins,
hátíð matar og hefða.
Jólin eru hátíð Jesúbarnsins og allra barna.
Jólin eru hátíð foreldranna sem börðust við að koma barni sínu til Betlehem
og í öruggt skjól.
Jólin eru hátíð barnanna,
Von um gleði og öryggi barna
pökkum og gríni og uppljómuðum herbergjum,

En með vissum rétti má líka segja að jólin sé hátíðin í myrkrinu,
hátíðin sem tekst á við myrkrið í hjörtum okkar,
óöryggið, ofbeldið, áhyggjurnar, streituna, fátæktina, angistina og sorgina
sem ber að dyrum á óvæntum tíma,
og flytur með sér undarleg og nýstárleg Jesúbörn
sem biðja okkur að líta í augun á sér og gefa sér mat.

Friður eða sjalom að biblíulegum skilningi
fjallar ekki um lognmollu og fullkomna veröld,
heldur jafnvægi, hreyfiafl, frumkvæði
og eitthvað sem kemur manni alltaf á óvart.
Friður er ekki bara hreint og stöðugt ljós,
heldur líka húmið,
sem verður til af andstæðum ljóss og myrkurs
í sífelldu flökti kertaljóssins.

Jólin er þannig líka hátíð hinna fullorðnu
sem glíma við allt það sem dregur okkur niður í myrkrinu,
og heftir fararskjótann okkar,
hátíð barnsins í okkur sjálfum sem við nærum eins og ófrísk kona í kvið sínum
gleðinni, eftirvæntingunni, voninni og sakleysinu
sem við vonum svo heitt að okkur takist að koma á áfangastað
og háttum með í hlýju, hreinu rúmi.

Jólin tekst á við myrkur gestgjafans
sem sagði nei,
sem hleypti engum inn,
sem gafst upp á jólunum áður en þeim var formlega hrundið af stað,
og lokaði dyrunum á nefið á smiðnum og óléttu konunni hans.
Hátíðin sem tekst á við myrkrið og ógnina ristir þannig djúpt.
Hún horfir til Sandy Hook í Connecticut,
til barna í kvennaathvörfum og á munaðarleysingjahælum,
til barna í flóttamannabúðum um víða veröld
til fullorðins fólks sem býr við erfið kjör,
sum vegna óréttlætis og mismununar
önnur vegna sjálfskaparvíta.
Þegar við horfum á slóðir Jesúbarnsins í Betlehem
Og nágrannabyggðirnar í Gaza og í Sýrlandi
birtist okkur veröld sem er sorglega laus við gleði og frið.

Skuggarnir eru líka margir hér heima um þessi jól.
Sjaldan hafa fleiri leitað til hjálparstofnanna
og það er þungi, þreyta, vonleysi, reiði og pirringur í mörgum.
Hátíð ljósanna bendir út í þetta myrkur.
Hún væntir þeirra sem eru að berjast á klakabrynjuðum smábíl yfir fjallið
í þeirri von að ná í óþekkt skjól á helgri hátíð
Að finna fyrir gleði, öryggi og frið á þessari kærkomnu tíð.
Hún horfir til barna og fullorðinna sem eru enn þarna úti á Yarisnum
í ófæru brekkunni,
hver sem hann er
og hvar sem hann er.
Hún gefur okkur kjark til að opna eldhúsglugga hjarta okkar
Og senda þangað mat og orð,
greina mennsku í stað ógnar.
Hin hæsta hátíð ber þannig í sér andstæður ljóss og myrkurs
og húmið þar á milli
friðinn sem við þráum
allt það sem við erum svo undurnæm fyrir á þessum árstíma.

Og nú þegar heilög hátíð er gengin í garð,
messan ómar,
steikin ilmar,
jólaölið freyðir
og sósan sýður,
þá megum við ekki gleyma þessum ljósaskiptum jólanna.
Börnin gleðjast og hlakka til næstu jóla,
en ábyrgð okkar fullorðna fólksins,
jól og verkefni hinnar þroskuðu og trúuðu manneskju
er að bera Jesúbarnið áfram til Betlehemar framtíðarinnar og nýja ársins 2013,
að opna hús okkar og hjörtu fyrir þessu barni,
að búa um rúmin og gefa foreldrum þess eitthvað að borða,
að næra gleði og von þar sem við komum og getum,
að leggja okkar að mörkum dag hvern,
hlusta eftir því að einhver drepi á dyr okkar og glugga
líka sá sem við viljum helst ekki vita af,
að greiða götu náungans í nafni Jesúbarnsins,
að berjast fyrir því að enginn þurfi að svelta,
líða skort og vera fátækur á Íslandinu góða
að horfa til hans sem er Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi
og eflir ríki sitt með réttvísi og réttlæti.

Sjá, ókunnur bíll á hlaðinu og jólahátíðin byrjuð.
Það er barið að dyrum okkar.
Og inn um þær velta tvær manneskjur alþaktar snjó
smiðurinn og ólétta konan hans.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

„Orðið, Öndin, Spekin, Tjaldið“ Prédikun á jóladag 2011 í Guðríðarkirkju

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss,
fullur náðar og sannleika,og vér sáum dýrð hans,
dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Þannig hljóða upphafsvers jólaguðspjalls Jóhannesar um Orðið sem varð hold.

Hvernig túlkar maður Orð sem varð hold með mynd?
Spurningin er undarleg,
því ef það er eitthvað sem okkur skortir ekki um jólin,
þá eru það jólamyndir,
myndir af fjárhúsi og jötu
og öllu því fólki sem heimsótti það samkvæmt guðspjöllunum,
myndir af bjöllum, jólatrjám, klukkum og kertum.
En Orð sem varð hold, hvaða myndir á það?
Ég sat lengi við undirbúning jóladagsmessunnar
og velti fyrir mér mynd til að setja á messuskrána.

Orðið varð hold.
Það er einhver dýpt yfir orðum Jóhannesar,
eitthvað sem dregur mann til sín í kyrrð sinni og kunnugleika.
Og samt er jólaguðspjall Jóhannesar svo ólíkt þeim textum öðrum
sem við lesum á jólum.
Jólaguðspjall Lúkasar af litla barninu í jötunni
er lesið um jólin til jafns við frásögu Jóhannesar
og jólaguðspjall Mattheusar um vitringana sem gáfu Jesúbarninu gjafir
setur mark sitt á sunnudag milli jóla og nýjárs og þrettándann.
En hjá Jóhannesi er ekki að sjá neitt barn eða móður þess,
engin jata, engar gjafir,
engir vitringar, ekkert fjárhús
og engir hirðar úti í haga,
ekkert af því sem setur mark sitt á helgileiki okkar og hefðbundin jólatákn.
Mér er til efs að nokkur hafi saumað út jóladúk með orðinu sem varð hold.
Þess í stað er okkur gefinn texti
sem stingur í stúf við einfaldleika og frásagnargleði Betlehemsagna af jólabarninu.
Í upphafi var orðið og orðið varð hold og orðið bjó með okkur.

Jólaguðspjallið sem okkur er fært í dag
opnar öðruvísi aðgang að jólunum,
guðspjall sem segir ekki sögu,
Guðspjall sem talar um orð
Og þetta orð er ekki hægt að tákna eða teikna á jólakort,
orð sem streitist á móti hefðbundnum hugmyndum okkar um það
hvernig jólaguðspjall er
orð sem myndar mótvægi við hefðbundin orð um jólabarnið Jesú
orð sem leitar samtals.

Þetta jólaguðspjall byrjar ekki í sögulegum tíma,
ekki við jötuna
ekki fyrir botni Miðjarðarhafs
í upphafi tímatals okkar.
Það fjallar engu síður um tilvist hins þríeina Guðs
en tilvist Jesú frá Nasaret.
Jólaguðspjall Jóhannesar
ásamt nokkrum öðrum mikilvægum ritningartextum
liggur til grundvallar játningu kristinna manna
um leyndardóm þrenningarinnar.
Þegar Jóhannesarguðspjall talar um að orðið hafi verið í upphafi
vísar það þannig ekki til sköpunarinnar eða fæðingu Jesú
heldur til guðdómsins.
Það undirstrikar
að hversu miklar og háleitar hugmyndir sem við gerum okkur
um líf og dauða Jesú
þá byrjar og endar hið heilaga ekki þar.

II.
Hvaðan kemur þessi undarlega hugmynd um Orðið sem var til frá upphafi,
orðið sem varð hold?
Ég sagði áðan að í jólaguðspjalli Jóhannesar
væri engin móðir og ekkert barn.
En guðspjallið er að mörgu leyti
eins og myndin sem varð fyrir valinu á messuskránni.

Fyrst sá ég ekki neitt út úr þessari mynd.
Svo fannst mér ég sjá blaðsíður í bók.
Næst fannst mér ég sjá sitjandi konu
og við hlið hennar álúta veru sem leggur hönd sína í kjöltu hennar.
Stundum finnst mér ég sjá leg út úr þessari mynd.
Stundum sé ég barn sem er líka ljós í fangi konunnar.
Myndin er djúp og undarleg eins og jólaguðspjallið sjálft
og hún heitir “Orðið varð hold”.

Og nú ætla ég að segja ykkur sögu af orðinu
sem er svo erfitt að tjá með myndum,
Orði þar sem bæði móðir og barn leynast undir yfirborði textans.
Gríska orðið logos þýðir orð á íslensku
og það er einmitt orðið sem notað er í upphafi Jóhannesarguðspjalls
til að tákna frelsarann sem fæddist í heiminn.
Þetta er í eina skiptir í gjörvallri Biblíunni sem orðið er notað með þessum hætti.

Lógós er gamalt og virðulegt orð með langa sögu.
Þegar við notum orðið og hugsum um það,
er eins og við opnum hlemm á brunni
og horfum ofan í mikla og ævaforna dýpt.

Margir telja að þessi áhersla á orðið logos bendi til þess
að verið sé að vitna í gríska heimspeki í guðspjallinu.
Í hinni grísku stóuspeki var talað um lógósið
sem hið lífgefandi guðlega afl sem flæðir um alla veröldina.
Grísku heimspekingarnir höfðu að fornu
talað um logos sem gáfu og afl skynseminnar.
Þegar sagt er í upphafi Jóhannesarguðspjalls
Í upphafi er orðið,
er orðið, lógósinn
þannig sískapandi sköpunarmáttur guðdómsins
sem hefur verið til frá upphafi.
Og þegar sagt er að orðið hafi orðið hold,
þá er verið að segja að þessi sköpunarmáttur
hafi orðið manneskja í Jesú Kristi.

Lógósarhugsunin bendir þannig til að Orðið sé miklu eldra en Jesúbarnið
Orðið hefur verið til frá upphafi,
En það fæddist sem barn og lifði þrjátíu ár í heiminum að kristnum skilningi,
Á tíma þar sem sköpunarmáttur Guðs náði sérstökum hæðum.
Inn í ljóð Jóhannesar um orðið er skeytt myndum af Jóhannesi skírara.
Þessi undarlegi sambræðingur hinnar heimspekilegu hugsunar
og vitnisburðar Jóhannesar
segir okkur að guðspjallamanninum var ekki nóg
að útskýra Orðið sem var í upphafi.
Hann vill segja okkur að sá sem Jóhannes skírari vitnaði um
varð hold af Orðinu frá upphafi.
Og þannig tengjast hin altæka saga heims og guðdóms
Við ákveðna sögu á ákveðnum stað
sögu Jesú sem við nefnum Krist og frelsara.

Ég sagði áðan frá hinum gríska lógósi,
en Orðið sem okkur er fært á jólum er ekki aðeins grískt orð og grísk hugsun.
Við eigum fleiri djúpar lindir í þessum fáu orðum jólaguðpjallsins,
sem við skulum taka hlemminn ofan af og horfa niður í.
Þau eru gefin okkur í dag sem jólagjafir.
Og ef við rýnum nógu vel má finna þar myndir móður og barns.

Þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs á öldunum fyrir fæðingu Jesú
mynduðu sameiginlegan hellenískan menningarheim
þar sem grísk, rómversk, egypsk, mesópótamísk og gyðingleg áhrif
runnu saman eða mynduðu merkingarbær tengsl.
Út þessum frjóa jarðvegi varð til hugmyndin um Orðið frá upphafi.

Hin hebreska hefð geymir boðskap sem tengist lógósinu,
hugmyndir um speki og anda, hochmah og ruach á hebresku.
Bæði voru þessi orð í kvenkyni,
Andi Guðs sem sveif yfir vötnunum í sköpunarsögu Biblíunnar
var á hebresku önd Guðs.
Hinar hebresku orðshugmyndir fjallaði um sköpunar- og viskumátt
sem hafði verið með Guði frá því að sköpunin varð til,
eins konar guðleg og kvenkyns fylgitungl Jahves.

Þegar hebreska Biblían var þýdd yfir á grísku
breyttist öndin í hvorugkynsanda, pneuma,
en spekin varð sophia og hélt áfram að vera kvenkyns.
Bæði viskan og öndin
nutu mikillar virðingar í gnostískum hreyfingum,
sem höfðu mikil áhrif á þróun kristindómsins á fyrstu öld.
Þannig urðu líkast til fyrstu þrenningarhugmyndir kristinna manna til,
hugmyndir um hina heilögu fjölskyldu þrenningarinnar,
Guð föður, hina kvenlegu Speki eða önd og svo soninn sem varð hold.

Seinna hvarf kvenkynið endanlega úr tilbeiðslu kristinna manna.
Okkar norræna hefð á fáar minningar um þær systur ruach og hocmah,
sem eru faldar undir Orðinu sem var í upphafi hjá Guði.
En þær eru þarna undir yfirborðinu
kvenmyndir hins hebreska guðdóms
sköpunarmáttur hinnar grísku heimspeki
tákn guðlegrar elsku og visku.

Þegar við horfum ofan í djúpa lind Jóhannesarguðspjalls
segir guðspjallið að Orðið hafi orðið hold
Og að hinn holdtekni hafi búið með okkur sem Jesús Kristur.
Það getur þýtt að Orðið sé sama sem Sonur
og sú skýring hefur orðið ofan á í kristinni hefð.
Það getur líka þýtt að hin guðlega Speki hafi fætt Son í heiminum
þegar hið eilífa nam staðar í tímanum.
Eða hvað túlkar betur það sem er eitt og þó tvö,
eitt sem er að verða tvö,
tvö sem var einu sinni eitt,
en einmitt kona og barn hennar fætt og ófætt?
Hvar verður hið mannlega hold til ef ekki einmitt þar?

III.
Og Orðið varð hold og bjó með oss fullur náðar og sannleika.
Ég hef gengið með ykkur að brunnum orðs, speki og andar í dag.
Að síðustu langar mig til að opna einn brunn fornaldar enn
fyrir okkur á helgum jólum.
Það er dýptin sem leynist undir sögninni að búa
í versinu um Orðið sem bjó með oss.

Sögnin skenoó á grísku
sem er þýdd með sögninni að búa á íslensku
á sér nefnilega engu minni sögu í hebreskunni en lógósið í grískunni.
Skenoó þýðir eiginlega að tjalda,
að gera sér bústað
og er komið af sömu rót og tjaldið
sem Ísraelsmenn báru með sér í eyðimörkinni
þar sem örkin var geymd
og sem reist var á hverjum stað
til vitnisburðar um návist Guðs.
Þessi návist shekinah, á hebresku er enn eitt fylgitunglið
í líki konu
sem við finnumst
þegar við íhugum jólaguðspjall Jóhannesar
hebreskar guðamyndir í kvenkyni
sem við rekumst á hér og þar við lestur Biblíunnar,
sem færa okkur heim öryggi, sköpun og lífgefandi anda
þegar við þurfum mest á þeim að halda.

Kæri kirkjugestur
Sem hefur lesið með mér óræðar myndir í dag,
gengið að hebreskum og grískum brunnum frumkristninnar
hugleitt hversu erfitt það er að ímynda sér orð sem varð hold
og uppgötvað kvenmyndirnar sem standa undir hugmyndinni um Orðið

Ég óska þér þess
Að tjaldbúð Guðs nemi staðar í garðinum þínum
Og shekinah fylli þig af návist þinni
Í hverjum þeim aðstæðum, erfiðleikum og gleði sem þú finnur þig í.

Ég óska þér þess
að önd Guðs blási yfir vötnum þínum
og ruach fylli þig móði og sköpun þegar þreytan og vonleysið nær á þér tökum.

Ég óska þér þess
Að speki Guðs fæði barn í huga þínum og hjarta
hocmah gefi þér visku og frið til að lifa lífi þínu í sátt við Guð og menn.

Ég óska þér þess að þú finnir að Guð býr með þér í Jesú Kristi
að lindir jólanna ljúkist upp fyrir þér
á þann hátt sem þú þarfnast mest
að Guð, orð, önd og speki tjaldi hjá þér allt næsta ár og öll þau ár sem þú lifir

og að þú fáir séð dýrð barnsins sem þér er fætt í dag
í dag og alla daga.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

„Gæsir og englar“ Prédikun á aðfangadagskvöld í Guðríðarkirkju

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Og gleðileg jól öll sömul!

Um daginn var kona á leið frá Ráðhúsi Reykjavíkur yfir á Lækjargötu. Hún gekk hratt, því nóg var að gera og snaraðist fyrir hornið á milli Iðnó og safnaðarheimilis Dómkirkjunnar. Þar mætti konan grágæs, sem var á vappi í snjónum og virti fyrir sér umferðina. Andartak virtu gæsin og konan hvor aðra fyrir sér, svo leit gæsin undan því gæsum er ekki vel við að horfa djúpt í augun á mannfólkinu. Konan og gæsin tvístigu nokkra stund eins og tvær kurteisar konur í Kringlunni, önnur í svörtum skóm og kápu, hin í fiðurpels, með hvítt brjóst og í grábleikum stígvélum. Svo rak gæsin upp hvellt garg, konan vék til hliðar og horfði á gæsina taka flugið út á Tjörnina.

Það er hægt að horfa á gæsir á margan hátt.
Gæsir hafa lengi verið taldar á Íslandi
og því er hægt að fylgjast með ferðum þeirra.
Grágæsir eins og sú sem mætti konunni við Tjörnina
verpa og halda sig nálægt sjó.
Flestar fljúga til Bretlandseyja yfir veturinn
en allnokkur hópur heldur sig
í nánd við Reykjavíkurtjörn allt árið.
Við getum horft á gæs og velt fyrir okkur hvaðan hún kemur,
hvort hún sé merkt,
hvort hún sé stygg,
hvort hún sé góð í matinn og hvar hún verpi.
Við getum velt því fyrir okkur
hvort hún muni drita á höfuðið á okkur
eða bíta okkur í nefið með gogginum sínum.
Allt eru þetta skynsamlegar ályktanir
af því sem fyrir augu okkar ber þegar við mætum gæs.
En lífið er meira en talningar,
matur í maga og iðbrögð við hugsanlegri árás.
Lífið er líka ljóð,
og í kvöld þegar við kyrrum hugann
og látum hann berast að lítilli jötu í Betlehem,
er tími til að láta ímyndunaraflið fljúga litla stund.
Eins og gæs, sem flýgur framhjá konu
og tekur strikið út á Tjörnina.

II.

Í þessari jólaprédikun langar mig til að tala um
fljúgandi engla,
eins og við hæfi er á helgri jólanótt.
Mig langar líka til að tala um
fljúgandi gæsir.
Mig langar til að tala við ykkur um englana
sem eru út um allt,
Að allir skapaðir hlutir
geti orðið okkur að engli,
ef við höfum augu á höfðinu
Og erum á höttunum eftir táknum um návist Guðs.

Þess vegna langar mig til að lesa fyrir ykkur
ljóð skáldkonunnar Mary Oliver um Villigæsirnar
í þýðingu Gyrðis Elíassonar:

Þú þarft ekki að vera góður,
þú þarft ekki að skríða á hnjánum
hundrað mílur yfir eyðimörkina, iðrandi.
Þú þarft aðeins að leyfa blíðu dýrinu
í þér að elska það sem það elskar.
Segðu mér frá örvæntingu þinni
og ég skal segja þér frá minni.
Á meðan heldur veröldin áfram.
Á meðan halda sólargeislar og tærar
glerperlur regnsins áfram að líða
yfir landslagið,
yfir slétturnar og djúpa skóga,
fjöllin og árnar.
Á meðan eru villigæsirnar,
hátt á bláum og tærum himni,
á heimleið á ný.
Hver sem þú ert, sama hve einmana
þú kannt að vera, þá býður heimurinn
sig fram fyrir þig og hugarflug þitt,
kallar til þín eins og gæsirnar,
hvellt og upplífgandi-
tilkynnir þér aftur og aftur
þinn stað í fjölskyldu alls
lífs.

Það eru komin jól og jólin þau kalla okkur til sín með ýmsu móti. Sum okkar lesa jólin úr augum barnanna, aðrir heyra klukkurnar kalla og finna hjartað svella í brjósti sér. Sum tengja komu jólanna við gamalkunna lykt eða skraut eða hefð. Sum hafa aldrei fundið fyrir jólum, kenna einungis tóms og pirrings yfir öllu jólaveseninu. Svo eru þau til sem jólin koma að óvörum, eins og gæs sem maður mætir við Tjörnina á annasömum degi.

Gæs er frábrugðin manneskju.
Og það er einmitt annarleiki dýrsins
sem tengir það og manneskjuna saman
í öllu því fjölbreytta hugarflugi sem heimurinn gefur
og í frið og gleði yfir því einu að vera til
ef þér tekst

að leyfa blíðu dýrinu í þér
að elska það sem það elskar

ef þér tekst að vera óhrædd og óhræddur
hefja þig upp yfir litla heiminn þinn sem þrengir að þér
og taka þátt í hinum stóra heimi

í fjölskyldu alls
lífs.

II.

Jólin koma með sinni gamalkunnu frásögn af barninu í jötunni í Betlehem. Lúkasarguðspjall segir frá hirðum úti í haga sem gættu hjarðar sinnar og vissu ekki til þess að neitt markvert hefði gerst í nágrenninu. Öllum að óvörum birtist þeim engill sem sagði að þeir skyldu ekki vera hræddir lengur, því að að frelsarinn væri fæddur í borg Davíðs. Og loftin öll fylltust af englum sem sungu Guði dýrð og fluttu fagnaðarboðskapinn um frið á jörðu.

Englar eru á listaverkum málaðir
eins og menn með geislabaug
Og stundum eins og lítil, þybbin börn.
Ég hef aldrei séð svoleiðis engil,
en ég hef fundið fyrir þeim og
þeir hafa komið mér að óvörum.
Englar gera menn stundum hrædda
en koma þeirra er gjarnan gagngert
tengd því að segja fólki
að það þurfi ekki lengur að vera hrætt.
Ég hef túlkað andartök og atvik
sem heimsóknir engla
og fundið ummerki um þá
þegar ég hef þurft á þeim að halda
jafnvel án þess að vita af þörf minni.
Á þessari aðventu hef ég hitt allnokkra engla,
sem leitast við að hjálpa þeim sem minna mega sín
og bera gleði-, uppörvunar- og friðarorð
þangað sem þörf er á.
Og ég hef líka hitt engil í fuglslíki.
Angelos á grísku merkir sendiboði
Sá sem kemur með merkilegar og óvæntar fréttir
Fréttir sem bæði vekja hræðslu
af því að þær eru óvæntar
Og hjálpa til við að lægja hræðslu
yfir öllu því sem steðjar að í einu lífi.
Merkur guðfræðingur hefur talað um
að englar séu fyrst og fremst táknmyndir
um návist, frið og forsjón Guðs.
Engill Drottins er birtingarmynd Guðs
á hverju því formi sem manneskjurnar
geta skilið og tengst.
Þess vegna eiga englarnir sér ekki
ævisögur og tilvist eins og mennirnir,
þótt sumir eigi nafn.
Þeirra hlutverk er að miðla ljósi,
skilboðum um birtu og gleði inn í heim
sem of oft gleymir sínu eigin hugarflugi,
sinni eigin birtu,
gleymir því að leyfa blíðu dýrinu í sér
að elska það sem það elskar
og finnur engan til að deila einmanaleika sínum,
erfiðleikum og örvæntingu með.

Engillinn er er þannig eins og ljóskristall
sem safnar í sig ljósinu
Og sendir það frá sér aftur
í nýjum, sterkum og ótrúlega fjölbreyttum myndum,
Engill sýnir okkur margbreytileika ljóssins
lætur okkur taka eftir ljósinu.

Engillinn er það sem hjálpar okkur
til að endurskoða aðstæður okkar
út frá nýju sjónarhorni
greina möguleika í erfiðri stöðu
finna æðruleysi, kjark og vit
til að halda áfram inn í nýtt ár.
Englarnir eru alls staðar og hvergi
Þeir mæta okkur í óteljandi atvikum
og við tökum oft ekkert eftir þeim.

Hirðarnir í sögunni tóku eftir englinum.
Þeir upplifðu englasönginn,
trúðu því að Messías hefði loksins fæðst
að Guð hefði vitjað Ísraelsþjóðarinnar
með barninu sem spáð hafði verið fyrir um.
Og uppgötvun þeirra leiddi þá að hrörlega fjárhúsinu
með nýfæddum frelsaranum í jötunni.
Ég velti því fyrir mér
hvort englarnir hafi farið víðar um Betlehem
þessa nótt.
Kannski voru fleiri þungbúnir einstaklingar
á kreiki í borg Davíðs
sem ekki tóku eftir englinum
lásu ekkert nýtt út úr skilaboðunum
voru hvorki hrædd
Né heyrðu að nú þyrftu þau aldrei að hræðast meir.
Kannski sáu þau aðeins gæsahóp
fljúga yfir hæðirnar í kringum Betlehem.
Kannski kom engillinn líka í heimsókn
til gistihúseigandans
og fjárbóndans
og konunnar sem bakaði brauðin
kannski voru það hirðarnir einir
sem voru nógu barnslegir í sér
til að sjá engil þar sem aðrir sáu ekki neitt
veittu enga athygli
og kærðu sig ekkert um.
Kannski fór fæðing frelsarans
gersamlega framhjá þeim.
Það voru hirðarnir sem uppskáru gleðina og friðinn
sem fylgir því að eiga Jesúbarn að annast um.
Það voru hirðarnir sem upplifðu helga nótt,
Sindrandi fegurð og dásamlegan englasöng,
Þar sem aðrir kunna að hafa séð
Einungis enn eina ískalda desembernótt í myrkrinu.

III.

Á meðan heldur veröldin áfram.
Á meðan halda sólargeislar og tærar
glerperlur regnsins áfram að líða
yfir landslagið,
yfir slétturnar og djúpa skóga,
fjöllin og árnar.
Á meðan eru villigæsirnar,
hátt á bláum og tærum himni,
á heimleið á ný.

Ég er á þeirri skoðun
að gæsin sem ég mætti við Tjörnina um daginn
hafi verið engill.
Ég veit ekki skilaboðin sem engillinn kom með
Kann engin skil á hvellu garginu sem lét mig hrökkva í kút.
Ég veit það eitt að eitthvað henti mig
við Tjörnina um daginn
og það sem gerðist var gott og öruggt
og hjálpaði mér að fela jólin Guði
hlæja að gæsinni í staðinn fyrir
að stressa mig yfir jólunum
eða erfiðleikum og önnum á nýju ári.
Ert þú að leita að hinu óvænta
í hinu gamalkunna í kvöld, kæri kirkjugestur?
Hefur þú húmor fyrir gæsum
Og finnst gott að horfa í augun á englum?

Ég er ekki að meina að gæsir
séu englar í dulargervi.
Ég er ekki að meina að allar gæsir
séu í rauninni englar.
Ekkert af þessu eitt og sér eru englar.
Allt, að þessu meðtöldu hefur möguleika
á að vera öðrum engill.
Tákn um návist Guðs
Og hugarflug heimsins sem gefur sig þér.

Stundum verða óvænt atvik svo dýrmæt og sterk
í einfaldleik sínum.
Eins og sú gjöf að horfa litla stund
í augu skepnu
Sem er allsendis ólík mér,
Sem aðeins gefst mér litla stund,
Áður en hún tekur flugið út á Tjörnina
og er mér tákn um heim
sem er stærri og meiri
en vangaveltur mínar um allt
sem ég þurfti að gera fyrir jólin.

Ég las í augum þessarar furðuveru í fiðurkápunni,
með brjóstið hvíta og í bleiku stígvélunum
eitthvað styrkjandi,
heilnæmt og gott um fjölskyldu alls lífs,
sem ég tilheyri
og sem þú tilheyrir
en hvorugt okkar stjórnar,
og um góða aflið
sem tengir saman þessa fjölskyldu.
Ég fann
hvernig jólin strukust við mig litla stund
Áður en þau flugu yfir Tjörnina.

Við eigum jól,
ekki af því að við séum svo góð og höfum afrekað svo mikið,
Heldur vegna þess að heimurinn og Guð gefa sig okkur
hugarflugi okkar
og hæfileikum til mennsku,
gefur okkur tækifæri til að hugsa málin upp á nýtt,
að ganga nýjan veg
upplifa og gefa nýja gæsku og ný tækifæri
sjá engla þar sem aðrir sjá bara skugga og svartnætti
eiga nýtt upphaf
og ný jól
taka á móti hinu óvænta
eiga frið
eiga barn
upplifa Guð í upphæðum og velþóknun yfir mönnunum
eins og forðum í bænum Betlehem.

„Verið óhrædd, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs.“

Og þessi boðskapur frá Betlehem
kallar til þín eins og gæsirnar,

hvellt og upplífgandi-
tilkynnir þér aftur og aftur
þinn stað í fjölskyldu alls
lífs.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Myndin er af grágæsum er tekin af Wikipedia og er eftir Michael Maggs, Wikimedia Commons