Tag: ofbeldi

Konurnar í Krossinum

Gunnar Þorsteinsson áður forstöðumaður Krossins hefur stefnt konunum sem studdu konurnar sem ásökuðu hann um kynferðisbrot. Það er grundvallarréttur í lýðfrjálsu landi að þau sem telja sig hafa orðið fyrir kynferðisbrotum fái að segja sögu sína opinberlega án ógnunar. Það er líka grundvallarmál í réttarríki að hver maður fái að verja æru sína. Þversögnin liggur hins vegar í því að vilji maður sýna fram á að maður sé ekki ofbeldismaður er ekki hjálplegt ærunni að stefna fólki sem ásakar mann um ofbeldi. Ég styð rétt Krosskvennanna til að lýsa opinberlega ofbeldinu sem þær hafa orðið fyrir. Ég hef líka valið að trúa þeim og sögu þeirra. Þær eiga stuðningshóp á Facebook og slóðin er http://www.facebook.com/groups/126714100854993/.

Sáðkorn, einelti, ofbeldi

 Prédikun í Guðríðarkirkju á annan sunnudag í níuviknaföstu 3. febrúar 2013

Mrk 4.26-32: Þá sagði Jesús: „Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska lætur hann þegar bera út sigðina því að uppskeran er komin.“ Og Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjall dagsins sem er Biblíudagurinn, annar sunnudagur í níuviknaföstu eru tvær undurfallegar af guðsríkinu. Þar er annars vegar talað um sáðkorn sem sáðmaður sáir í jörð og ber ávöxt og hins vegar um mustarðskornið smáa sem verður að stóru tré. Ríki Guðs á jörðu er eins og fræ. Þar sem kærleikur og ást ríkja, þar er Guð, því að Guð er kærleikur. Og þetta fræ vinnur í leynum og hefur óendanlega möguleika til vaxtar.

Hvor sagan um sig dregur fram ólíka þætti þessarar fallegu myndar.  Fyrri myndin færir okkur hugmyndina um fræið sem starfar í leynum, vex og þroskast þegar við sofum, spírar í moldinni meðan við vinnum, vökvum og reytum arfa. Lengi vel er vinna sáðkornsins ósýnileg, það er ekki fyrr en á seinni stigum sem við sjáum afrakstur erfiðis okkar og fyrr en varir er kornið tilbúið til uppskeru. Guðspjallið undirstrikar þannig leyndardóm sáðkornsins sem vinnur óvænt og á leyndardómsfullan hátt.

Seinni myndin undirstrikar smæð og varnarleysi mustarðskornsins. Það er lítið fyrir korn að sjá en fái það til þess skilyrði getur það orðið styrkur stofn og fuglar himinsins hreiðra um sig í skugga trésins.

Báðar þessar grænu og lífrænu myndir af korni sem verður uppskera og stórt tré bera með sér bjartsýni og von, áherslu á þolinmæði, seiglu og sigurs hins jákvæða yfir öllu því sem dregur úr vexti þess og viðgangi.

Það er nokkuð skýrt að þessar myndir af ríki Guðs fjalla ekki endilega um lífið eftir dauðann, heldur ekki síður um lífið hér og nú, lífið eins og við lifum því, vöxtinn sem við eigum kost á. Ef guðsríkið eins og það kemur fyrir í líkingum guðspjallsins fjallar þannig um vöxt ástar, öryggis og hlýju í heiminum sem Guð skapaði, þá liggur næst við að spyrja:

Hvað er það sem hjálpar guðsríkinu að gróa?

Hvað getum við gert til að hjálpa guðsríkinu til að vaxa?

Og jafnframt varpa myndirnar til okkar áleitnum spurningum
um það hvað geti ógnað sáðkorninu í jörðu.
Hvað varnar því að uppskeran líti dagsins ljós í mannlífinu?
Hvað varnar því að við og fólkið í kringum okkur geti átt gott og gjöfult líf?
Hvað er það sem dregur úr vexti okkar og þroska,
Hvað tekur frá okkur bjartsýnina?
Hvað skemmir vonir okkar um kærleika, frið, sátt, öryggi?
Hvernig getum við unnið að heilbrigðum samskiptum
í umhverfi okkar, á heimili, í skóla og vinnustað, í hverfi, borg, landi og heimi?

Þannig spurninga er hollt að spyrja þegar við íhugum fræ Guðs sem liggur djúp í mannlífssverðinum og freistar þess að verða uppskera. Þannig spurninga er gott að hugsa til þegar við veltum fyrir okkur smáu mustarðskorni lífsins, sem hefur óendanlega möguleika á lífi í kærleika, ef við gefum því tækifæri, tíma og rúm.

II.

Ein af uppáhaldsbókunum mínum sem barn og unglingur var bókin um Gúmmí-Tarsan eftir Ole Lund Kierkegaard. Söguhetjan Gúmmí-Tarsan eða Ívar Ólsen er sjö ára gamall og líður illa í skólanum. Honum gengur illa að lesa,  leikfimistímarnir hans eru martröð og hann er lélegur í fótbolta. Krakkarnir á skólalóðinni bleyta buxurnar hans á klósettinu. Þegar hann reynir fyrir sér í hrákakeppni rennur hrákinn út úr honum eins og litlar slefur. Og þegar hann kemur heim segir pabbi hans honum að hann sé alger vesalingur. Í sögunni kynnist Ívar Ólsen galdranorn sem gefur honum eina ósk. Ívar Ólsen óskar sér þess að fá allar óskir sínar uppfylltar og fær þessa risaósk uppfyllta í einn dag. Allir óskirnar hans Ívars fjalla um það að gefa honum kraft og styrk. Í þennan eina dag getur hann allt. Hann les stærstu bókina á bókasafninu og bókin sú er svo stór að það þarf að bera hana um í hjólbörum. Hann sigrar í fótboltanum, snýr á alla strákana sem stríða honum, brillerar í leikfimi, skyrpir lengra en nokkur annar og lætur pabba sinn loksins heyra það.

Það sem er hins vegar sorglegt við söguna um Gúmmí-Tarsan er að þegar sigurdagurinn mikli er liðinn fellur allt í sama farið. Galdranornin er horfin og Ívar kemur heim með blautar buxur. Og þannig heldur hringrás eineltisins áfram hjá Ívari Ólsen. Sem barn vildi ég aldrei lesa síðustu blaðsíðurnar í bókinni. Mig langaði svo til að lífið hjá Ívari breyttist og að hann gæti komist út úr sínum ömurlegu aðstæðum. Mig langaði til þess að mustarðskornið Ívar Ólsen fengi að verða tré.

III.

Í nýliðinni viku spunnust miklar umræður um einelti og ofbeldi í samfélaginu. Sum okkar hafa orðið fyrir einelti. Önnur okkar hafa beitt einelti. Og mörg okkar hafa bæði orðið fyrir og beitt einelti, því í mannlegum samskiptum geta tengsl milli fólks orðið flókin og margbreytileg. Einelti og ofbeldi eru einmitt góð dæmi um það sem stendur guðsríkinu fyrir þrifum. Einelti og ofbeldi draga úr óendanlegum möguleikum fólks til að vaxa og dafna. Þessi hegðun er eins og illgresið sem skemmir fyrir sáðkorninu. Hún er steinninn í moldinni sem heftir vöxt mustarðskornsins sem vill verða tré.

Einelti og ofbeldi er ekki það sama, því að ofbeldi er víðara hugtak en einelti. Orðið ofbeldi þýðir samkvæmt Vísindavefnum of mikill ákafi, því að beldi þýðir ákafi og er skylt lýsingarorðinu að vera baldinn. Ofbeldi er því orð sem hægt er að nota um hverja þá hegðun þar sem hegðun í garð annarra verður stjórnlaus og full af ýgi. Hún getur gert aðra hrædda og oft af fullri ástæðu. Hún verður ofbeldin.

Einelti kemur fram á mismunandi hátt og tekur á sig ýmsar myndir. Einelti getur þannig falist í að einstaklingur eða hópur sé oft og iðulega hafður að skotspæni. Það er gert lítið úr þeim, þau eru úthrópuð og niðurlægð með ljótum og niðrandi orðum. Önnur eru gerð ósýnileg, það er ekki tekið mark á þeim, allar leiðir liggja framhjá þeim og verk þeirra eru ekki metin að verðleikum. Þriðji hópur þeirra sem verður fyrir einelti upplifir beint líkamlegt ofbeldi. Og svo eru þau sem verða fyrir einelti vegna litarháttar, vegna þess að þau passa ekki inn í kynhlutverk eða hneigjast til annars kyns.

Einelti eitrar líf þess sem fyrir því verður. Einelti tekur frá fólki sjálfstraust og öryggi, rænir það vextinum í leynum. Langvarandi einkenni eineltis eru líka þau að við getum festst í eineltisforritinu löngu eftir að sjálfu eineltinu er hætt. Þegar við upplifum mynstur sem minna okkur á gamla eineltismynstrið sem við kynntumst í barnaskóla, á gamla vinnustaðnum eða á heimilinu, þá tekur þetta forrit völdin. Okkur er fleygt aftur í tímann til tímans sem við vorum varnarlausust og smæst. Þessar gömlu minningar gera það stundum að verkum að við eigum erfitt með að takast á við gagnrýni og reiði sem fullorðnar manneskjur. Okkur gengur þannig illa að setja okkur í spor annarra og festumst í fórnarlambshlutverkinu sem við höfum þó barist við að koma okkur upp úr. Ívar Ólsen tekur yfir, Ívars tímabilið sem flest okkar sem einhvern tímann höfum upplifað einelti viljum helst af öllu gleyma í stað þess að lifa það aftur og aftur.

Einelti er þannig samfélagslegt vandamál, sem hefur langvarandi áhrif á þau sem fyrir því verða, gerir þau öryggislaus, ósjálfstæð, hrædd og gjarnan í mikilli vörn.

Einelti er líka samfélagslegt vandamál í þeim skilningi að mörg okkar hafa þróað með sér blindu fyrir einelti. Þau sjá ekki niðurlæginguna og sársaukann, eða leggja sig fram um að burtskýra hana. Einelti er líka oft túlkað sem fyndni og grín. En brandarar sem brjóta niður fólk eru ekki fyndnir. Lífssýn sem miðar að því að niðurlæging og smán séu talin eðlileg er ekki góð lífssýn. Fordómar gagnvart þjóðfélagshópum og einstaklingum eru mannskemmandi. Og á meðan hlaðast upp steinar í jarðveginum og arfi í moldinni, sem gera sáðkorninu erfitt um vik við vöxtinn sinn.

Eineltisumræðan í samfélaginu í síðustu viku spratt upp í tilefni lýsingar borgarstjórans í Reykjavík á íbúafundi þar sem hann taldi sig hafa orðið fyrir einelti og ofbeldi. Margir brugðust við, og sjálf skrifaði ég grein sem fjallaði um að valdastaða fólks skipti máli þegar rætt væri um einelti. Ég fletti upp í athugasemdum við orð borgarstjórans sem rötuðu í fréttir flestra vefmiðla. Það var sláandi að sjá orðræðuna um einelti þróast yfir daginn. Sumir sögðu að maðurinn væri „dramadrottning“, vegna þess að hann hefði leyft sér að segja að hann væri beittur einelti. Aðrir leituðust við að draga stinginn úr orðunum sem særðu á fundinum, að þau hefðu ekkert verið svo ljót og þýddu eiginlega bara eitthvað fallegt, fjölskylda og heimilisfólk og eitthvað slíkt. Og svo voru þau sem sögðu að viðkomandi maður yrði bara að herða sig upp. Öllum þessum málflutningi svipaði til þess þegar börn á skólalóð eru gripin og skömmuð fyrir stríðni. Þar bendir hver á annan og kallar þann sem líður illa aumingja og dramadrottningu. „Það var hann sem stríddi okkur,“ hrópar einhver. Og svo mætir pabbi Ívars Ólsen á staðinn og segir honum að herða sig upp.

IV.

Sumir segja að þau sem verði fyrir einelti í æsku jafni sig aldrei.

Ég trúi því að það sé ekki rétt.
Ég trúi því að sáðkornið geti vaxið í moldinni
og unnið kærleiksverk sitt í leynum.
Ég trúi því að við eigum öll möguleika á uppskeru,
þau okkar sem hafa orðið fyrir þungum sorgum í æsku.
Ég trúi því að jákvæðni, umræða og greining á einelti geti breytt miklu,
að hver hafi möguleika á að líta í eigin barm
og meta sinn þátt í ofbeldi og einelti.
Og ég trúi því að gömul eineltisbörn
geti horfst í augu við sínar sáru minningar og grætt sárin,
svo að sára reynslan fylgi ekki einatt með inn í nýjar og nýjar aðstæður.

Eineltismynstur eru forrit í hausnum sem við þurfum öll að losna við.
Við þurfum að losna við svipleiftur sem gera okkur varnarlaus og smá
þegar þurfum á því að halda að hugsa skýrt og í jafnvægi.
Glíma eineltisbarnsins getur beinst bæði að öðrum og þeim sjálfum.
Sum verða reiðir, grimmir og bitrir við aðra.
Önnur beina sársaukanum og ofbeldinu inn á við
og verða sannfærð um að þau sjálf viti ekki neitt og geti ekki neitt.
Við þurfum að losna við forritin sem gera okkur ónæm fyrir og blind á einelti.

Við þurfum að sýna sjálfum okkur samúð og umhyggju
svo að sáðkorn okkar geti andað í moldinni.
Við þurfum á því að halda að geta rætt um birtingarmyndir eineltis og ofbeldis,
rætt um ólíkar myndir þessarar árásargjörnu hegðunarmynstra,
horfast í augu við okkar eigin þátt í því
hvers vegna þessi hegðun þrífst í samfélaginu.
Við þurfum að sýna upplifun og sársauka þeirra sem upplifa einelti virðingu, jafnvel þegar við erum ekki sammála þeim um það sem gerst hefur
eða viljum benda á aðrar hliðar.

Á þann hátt getum við tekið höndum saman við að stinga upp mannlífssvörðinn og gera hann að stað þar sem fleiri mega dafna og þroskast í friði og gleði.

Á þeim stað þrífst Ívar Ólsen
og þau öll okkar sem finnum til samhljóms með honum og aðstæðum hans.

V.

Ég ímynda mér lítið mustarðskorn.

Mustarðskornið getur svo auðveldlega staðið fyrir sál okkar hvers og eins sem þarf á góðum vaxtarskilyrðum að halda. Og saman mynda þessi mustarðskorn staðinn þar sem ríki Guðs nær fótfestu, því að kærleikur Guðs er eins og fræ. Í ríki Guðs ræður meðvirknin ekki ríkjum eða gömul ofbeldis- og eineltisforrit sem okkur voru innrætt forðum tíð. Í ríki Guðs er ofbeldið og eineltið er gert upp. Í ríki Guðs vex kærleikurinn og öryggið skýtur rótum. Í ríki Guðs koma fuglar himinsins saman og hvíla sig í skugga trésins.

Góði Guð, hjálpaðu íslensku samfélagi og okkur öllum að verða slík tré.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.

Myndin er úr bókinni Gúmmí-Tarsan eftir Ole Lund Kirkegaard þennan frábæra dag þegar Ívar Ólsen hefur fengið allar sínar óskir uppfylltar.

Gúmmítarsan

„Barið að dyrum“ Prédikun á aðfangadagskvöld jóla 2012

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I.

Í sumar sagði kona mér sögu af aðfangadagskvöldi síðasta árs og mig langar að deila henni með ykkur.

Þessi kona rekur gistiheimili á Suðurlandi og einmitt þetta árið hafði dottið í hana að hafa opið yfir hátíðirnar og elda hátíðarmat fyrir gestina sína á aðfangadagskvöld. Fólkið í þorpinu hristi hausinn yfir þessari firru, því að það gat ekki ímyndað sér að nokkur vildi vera á gistiheimili yfir jólin. En viti menn, herbergin voru bókuð eitt og eitt. Þegar konan á gistiheimilinu var spurð um það hvernig gengi að safna gestunum í herbergin svaraði hún því til að þau væru öll uppbókuð nema eitt sem hún ætlaði að taka frá fyrir smiðinn og óléttu konuna hans. Hún var búin að búa um þau í herberginu. Fólkið fór með það svar, þótt það væru ekki allir vissir um það hvaða smið væri verið að tala um og þaðan af síður hvaða ólétta kona ætti að sofa í rúminu á jólanóttina. Sumir héldu að gistihúseigandinn væri endanlega genginn af vitinu.

Svo rann aðfangadagurinn upp og snjóalögin voru meiri en hafði sést svo að áratugum skipti í þorpinu. Vegirnir voru ófærir fyrir aðra en sérstyrkta bíla, hvíta hulan lagðist yfir eins og þykkt teppi, en fólkinu á gistiheimilinu var hlýtt. Það var eldur í arninum, kerti úti um allt, jólatréð stóð alskrýtt í stofunni og lyktin af jólasteikinni var yndisleg. Erlendu ferðamennirnir sem fæstir höfðu upplifað jól á norðurslóðum voru hrifnir og þakklátir. Klukkan sló sex, messan ómaði í útvarpinu og allir settust saman að borðinu. Þá heyrðust þung högg á dyrnar og inn ultu tvær kaldar manneskjur. Fyrir utan stóð klakabrynjaður Yaris bíll frá bílasölu. Þetta var ungt par af erlendum uppruna, sem hafði komið hingað til lands yfir hátíðirnar og ákveðið að keyra eitthvað út í buskann í hvítu stórhríðinni. Þau höfðu enga hugmynd um að byggðin gæti verið svona strjál á Íslandi og ennþá minni hugmynd um að hér þyrfti að gæta að veðri áður en lagt væri upp í langferð. Einhvern veginn höfðu þau þrælast á Yarisbifreiðinni austur fyrir jökul, komið þar niður í byggð og að húsi sem á stóð „Guesthouse“ eða gistihús. Gistihúseigandinn spurði fólkið hvort þau væru smiðurinn og ólétta konan hans og fólki rak upp stór augu, enda konan ekki komin nema þrjár vikur á leið. Þau voru drifin að borðinu þar sem steikin beið og messan hljómaði og þegar leið að helgri jólanóttu bjuggu þau um sig í hlýju rúmi.

Þannig endaði sagan um smiðinn og óléttu konuna á sunnlenska gistiheimilinu og einhverjir sjá kannski líkindi með henni og guðspjalli Lúkasar af rúmlega tvö þúsund ára gömlum atburðum. Það er reyndar kominn smábíll af algengri tegund í staðinn fyrir asnann. Konan er ekki jafn langt gengin með barn sitt. Þau eru ekki á leið til skrásetningar til fæðingarstaðar mannsins, heldur á ferð í ókunnu, norrænu landi sem er hvítt af snjó.

En í báðum sögum hefur fólkið ríka þörf fyrir húsaskjól og aðhlynningu.
Það hefur þörf fyrir það að fararskjótinn rati til mannabyggða í náttmyrkrinu.
Það hefur þörf fyrir öryggi og frið í stað ótta og óvissu.
Það hefur þörf fyrir það að einhver opni þeim dyr sínar,
einhver, já, bara einhver sem kann að gefa og undirbúa komu
einhver sem gleðst yfir ferðalöngunum í myrkrinu,
og tekur á móti hinum óþekkta smið og óléttu konunni hans.

II.
Í morgun um hálffimmleytið á aðfangadagsmorgun 2012 bar til að barið var að dyrum á öðrum bæ á Suðurlandi. Þar var kominn strokufangi sem leitað hefur verið að í tæpa viku, hættulegur maður og vel vopnaður riffli með hljóðdeyfi, öxi og hnífum. Hann kvaðst vildu gefast upp á flóttanum og bað heimilisfólk að hringja á lögregluna. Fólkið talaði við hann góða stund í gegnum eldhúsgluggann og gaf honum mat út um gluggann. Þegar þau sáu að fanginn var rólegur buðu þau honum inn. Hann skildi vopnin eftir úti og fékk hangikjöt og súpu í sólstofunni þeirra.

Það er ekki á okkar færi að rýna inn í hug strokufangans,
spyrja hvað honum gekk til með flóttanum,
eða með því að mæta alvopnaður heim til fólks á aðfangadagsmorgun.
En við getum dáðst að fólkinu,
sem horfði upp á þennan ógnandi mann,
sá í honum mennskuna og umkomuleysið,
talaði við hann, gaf honum mat og sýndi honum kærleika.
Og svo gerist þessi undarlegi og óútskýranlegi hlutur,
að maðurinn með byssuna er allt í einu orðinn byssulaus.
Hann situr í stofu meðal góðs fólks
á aðfangadag
og nýtur gestrisni þeirra
þangað til lögreglan kemur og fer með hann í fangelsið.

III.

Jólin eru af mörgum talin hátíð barnanna,
Hátíð gnægtanna,
hátíð ljóssins,
hátíð matar og hefða.
Jólin eru hátíð Jesúbarnsins og allra barna.
Jólin eru hátíð foreldranna sem börðust við að koma barni sínu til Betlehem
og í öruggt skjól.
Jólin eru hátíð barnanna,
Von um gleði og öryggi barna
pökkum og gríni og uppljómuðum herbergjum,

En með vissum rétti má líka segja að jólin sé hátíðin í myrkrinu,
hátíðin sem tekst á við myrkrið í hjörtum okkar,
óöryggið, ofbeldið, áhyggjurnar, streituna, fátæktina, angistina og sorgina
sem ber að dyrum á óvæntum tíma,
og flytur með sér undarleg og nýstárleg Jesúbörn
sem biðja okkur að líta í augun á sér og gefa sér mat.

Friður eða sjalom að biblíulegum skilningi
fjallar ekki um lognmollu og fullkomna veröld,
heldur jafnvægi, hreyfiafl, frumkvæði
og eitthvað sem kemur manni alltaf á óvart.
Friður er ekki bara hreint og stöðugt ljós,
heldur líka húmið,
sem verður til af andstæðum ljóss og myrkurs
í sífelldu flökti kertaljóssins.

Jólin er þannig líka hátíð hinna fullorðnu
sem glíma við allt það sem dregur okkur niður í myrkrinu,
og heftir fararskjótann okkar,
hátíð barnsins í okkur sjálfum sem við nærum eins og ófrísk kona í kvið sínum
gleðinni, eftirvæntingunni, voninni og sakleysinu
sem við vonum svo heitt að okkur takist að koma á áfangastað
og háttum með í hlýju, hreinu rúmi.

Jólin tekst á við myrkur gestgjafans
sem sagði nei,
sem hleypti engum inn,
sem gafst upp á jólunum áður en þeim var formlega hrundið af stað,
og lokaði dyrunum á nefið á smiðnum og óléttu konunni hans.
Hátíðin sem tekst á við myrkrið og ógnina ristir þannig djúpt.
Hún horfir til Sandy Hook í Connecticut,
til barna í kvennaathvörfum og á munaðarleysingjahælum,
til barna í flóttamannabúðum um víða veröld
til fullorðins fólks sem býr við erfið kjör,
sum vegna óréttlætis og mismununar
önnur vegna sjálfskaparvíta.
Þegar við horfum á slóðir Jesúbarnsins í Betlehem
Og nágrannabyggðirnar í Gaza og í Sýrlandi
birtist okkur veröld sem er sorglega laus við gleði og frið.

Skuggarnir eru líka margir hér heima um þessi jól.
Sjaldan hafa fleiri leitað til hjálparstofnanna
og það er þungi, þreyta, vonleysi, reiði og pirringur í mörgum.
Hátíð ljósanna bendir út í þetta myrkur.
Hún væntir þeirra sem eru að berjast á klakabrynjuðum smábíl yfir fjallið
í þeirri von að ná í óþekkt skjól á helgri hátíð
Að finna fyrir gleði, öryggi og frið á þessari kærkomnu tíð.
Hún horfir til barna og fullorðinna sem eru enn þarna úti á Yarisnum
í ófæru brekkunni,
hver sem hann er
og hvar sem hann er.
Hún gefur okkur kjark til að opna eldhúsglugga hjarta okkar
Og senda þangað mat og orð,
greina mennsku í stað ógnar.
Hin hæsta hátíð ber þannig í sér andstæður ljóss og myrkurs
og húmið þar á milli
friðinn sem við þráum
allt það sem við erum svo undurnæm fyrir á þessum árstíma.

Og nú þegar heilög hátíð er gengin í garð,
messan ómar,
steikin ilmar,
jólaölið freyðir
og sósan sýður,
þá megum við ekki gleyma þessum ljósaskiptum jólanna.
Börnin gleðjast og hlakka til næstu jóla,
en ábyrgð okkar fullorðna fólksins,
jól og verkefni hinnar þroskuðu og trúuðu manneskju
er að bera Jesúbarnið áfram til Betlehemar framtíðarinnar og nýja ársins 2013,
að opna hús okkar og hjörtu fyrir þessu barni,
að búa um rúmin og gefa foreldrum þess eitthvað að borða,
að næra gleði og von þar sem við komum og getum,
að leggja okkar að mörkum dag hvern,
hlusta eftir því að einhver drepi á dyr okkar og glugga
líka sá sem við viljum helst ekki vita af,
að greiða götu náungans í nafni Jesúbarnsins,
að berjast fyrir því að enginn þurfi að svelta,
líða skort og vera fátækur á Íslandinu góða
að horfa til hans sem er Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi
og eflir ríki sitt með réttvísi og réttlæti.

Sjá, ókunnur bíll á hlaðinu og jólahátíðin byrjuð.
Það er barið að dyrum okkar.
Og inn um þær velta tvær manneskjur alþaktar snjó
smiðurinn og ólétta konan hans.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Þrýstnar konur og volæði kynsystranna

Þátturinn „Lark Rise to Candleford“ hefur verið sýndur að undanförnu í RÚV. Segir þar frá lífi ensks fólks í þorpum tveim í lok nítjándu aldar. Í síðasta þætti sem sýndur var í gær greinir frá Susan Braby, ungri fjölskyldukonu sem mætir dag einn með stórt glóðarauga í þorpið. Hún leitar uppi dómarann og ákærir eiginmanninn Sam fyrir að hafa lagt á sig hendur eftir að hafa drukkið sig fullan á kránni. Þorpsbúar skiptast í tvö horn með eða á móti Susan og jafnvel þau sem sem vilja styðja hana eru efins um að hún eigi að blanda yfirvöldunum í málið. Þau telja að réttast sé að leysa vandamál einkalífsins heima fyrir, ekki í hinu opinbera rými. Sam snýr heim úr fangelsinu nýr og betri maður eftir að hafa unnið eið um ævilangt bindindi og allt fellur í ljúfa löð á Lævirkjahæð.

Bresku þættirnir eiga að gerast fyrir rúmri öld, en viðhorfið til heimilisofbeldis sem fram kemur í þessum þætti hefur reynst furðanlega lífseigt. Ekki er langt síðan að menn veltu því enn fyrir sér hvort heimilisofbeldi væri til á Íslandi. Aðrir viðurkenndu að ofbeldi væri til en töldu það eiga sér eðlilegar orsakir. Ég minnist samtals sem ég varð vitni sem unglingur milli eldri hjóna sem ég bar mikla virðingu fyrir. Konan var að segja manninum frá atviki sem hafði gerst fyrr í vikunni þar sem maður hafði gengið í skrokk á konu sinni. Maðurinn svaraði á móti:  „Hún hefur eflaust verið búin að leggja inn fyrir því.“ Ég hef aldrei getað gleymt þessu tilsvari og því viðhorfi til heimilisofbeldis og stöðu kvenna sem það endurspeglaði. Susan Braby hefur örugglega „lagt inn“ fyrir glóðarauganu líka.

Á þessu ári eru þrír áratugir liðnir síðan að samtök um kvennaathvarf voru stofnuð í Reykjavík. Ekki leist öllum á blikuna og þannig skrifar Herbert Guðmundsson umsjónarmaður Sandkorns um fyrirhugað kvennaathvarf í DV 20. júlí 1982 undir fyrirsögninni: „Hvers eiga karlarnir nú að gjalda?“ (bls. 31, sjá hér).

Undanfarið hefur hópur þrýstinna kvenna haft uppi í fjölmiðlum kenningar um volæði kynsystra sinna sem þær segja misþyrmt af eiginmönnum og sambýlismönnum. Er hópurinn mjög áfram um að komið verði á fót svokölluðu kvennaathvarfi, eins konar flóttakvennabúðum.

Ástæðulaust er að gera lítið úr þessu vandamáli,sem efalaust er til þótt skýrslur frá Skandinavíu segi okkur nákvæmlega ekkert um aðstæður hér á landi. Hitt er þó jafnvafalaust að vandamálið snýr fjarri því alfarið að volæði kvenna. Ýmsar fregnir, fyrr og síðar, benda til þess að heimiliserjur bitni ekkert síður á körlum en konum, bæði andlega og líkamlega.

Þess vegna er rökstuðningurinn fyrir stofnun kvennaathvarfs meiri háttar blekking um afleiðingar persónulegra árekstra á íslenzkum heimilum. Þar er öll sökin felld á karlana og neyðin dæmd konunum sem er staðlaus sleggjudómur. Þetta vandamál er ekki svona einfalt, því miður. Ef samfélagið á að fást við það, þarf að sneiða hjá þröngsýni af þvi tagi sem kvennahópurinn hellir nú yfir karlpeninginn í landinu eins og  hann leggur sig.

Grein Herberts hefur að geyma ýmis klassísk stef í umræðunni um kvennaathvarf og heimilisofbeldi. Hann byrjar á að vísa til „þrýstinna“ kvenna og erfitt er að átta sig á hvort konurnar sem um er rætt hafa verið svona þéttholda eða svona frekar í umræðunni. Konurnar hafa uppi meintar kenningar, og þær rannsóknir sem þær vísa til á Norðurlöndunum telur greinarhöfundurinn ekki marktækar. Og þó að eitthvað væri til í þessu með ofbeldið hjá þrýstnu konunum, þá dregur Herbert fram annað spil úr erminni sem hann telur sterkara málflutningi kvennanna. Heimilisofbeldi kemur nefnilega alveg eins niður á körlum og konum að hans mati. Hann ræðir hvergi um ofbeldi, heldur „heimiliserjur“ og „persónulega árekstra“. Loks sker greinarhöfundur upp herör gegn „sleggjudómum“ , „blekkingum“ og „þröngsýni“ hinna þrýstnu kvenna sem höfðu leyft sér að benda á kynbundna vídd heimilisofbeldis.

Svo dregið sé saman, þá er heimilisofbeldi að herbertskum sið:

  • hugsanlega til
  • ekki stutt rannsóknum (af því að aðstæður hér á landi séu eflaust allt öðru vísi en á hinum Norðurlöndunum)
  • ekki kynbundið, heldur komi jafnt niður á körlum og konum, ekki sérstakt „volæði“ kvenna
  •  „persónulegir árekstrar“ sem þar með komi hinu opinbera rými lítið við
  • jafnt sök kvenna og karla (skyldu þær hafa lagt inn fyrir því?)
  • og engin þörf fyrir kvennaathvarf, því að slíkar „flóttakvennabúðir“ muni einungis ýta undir „sleggjudóma“ gegn karlmönnum.

Afneitun á kynferðisofbeldi, lítið gert úr fræðilegum upplýsingum, afneitun á því að ofbeldi geti verið kynbundið, krafa um að heimilisofbeldi tilheyri hinu persónulega rými, sök sett á þau sem verða fyrir ofbeldinu, þörfin á úrræðunum töluð niður. Kannast einhver við slíka orðræðu um kynferðislegt ofbeldi?

Samtök um kvennaathvarf gerðu athugasemdir við skrif Herberts í sama blaði 6. ágúst s.á., þar sem bent var á tölur Borgarspítalans um heimilisofbeldi gegn konum. Svargreinina má nálgast hér.

Þrjátíu ár eru liðin og fáir andæfa nú veruleika heimilisofbeldis opinberlega. Það gengur hins vegar hægt að uppræta það og þörfin á kvennaathvarfi er rík nú sem fyrr. Ég hef á undanförnum árum flutt tvær prédikanir í Guðríðarkirkju um heimilisofbeldi. Þær má nálgast hér og hér. Ég hvet þig til að lesa þær.

Við þurfum að halda vöku okkar.

Enginn „leggur inn“ fyrir ofbeldi.

Viðurkenning á kynbundnu ofbeldi er ekki áfellisdómur yfir öllum karlmönnum.

Susan Braby átti ekki glóðaraugað skilið. Volæðið sem Herbert nefnir er nefnilega ekki volæði kynsystranna, heldur þeirra sem beita ofbeldi. Við þurfum öll á „þrýstnum“ konum og körlum að halda til að binda enda á volæði kynbundins ofbeldis.

Af nauðgunarkærum

Þjóðkunnur maður og kærasta hans hafa í dag verið yfirheyrð vegna ákæru um nauðgun og fréttirnar hafa skekið netheima og fjölmiðla nú síðdegis.

Nauðgunarkærur ganga sína leið í réttarkerfinu eins og allar aðrar ákærur er varða við hegningarlög. Það er að segja þær kærur sem fara alla leið og er haldið til streitu allt til enda. Aðeins hluti nauðgana er hins vegar tilkynntur til lögreglu og margar þeirra kvenna sem kæra nauðgun (brotaþolar eru flestir kvenkyns) draga kærur sínar til baka. Álagið er einfaldlega of mikið, fordómarnir gagnvart þeim sem verða fyrir kynferðisofbeldi ærnir, og oft drjúgir hagsmunir í húfi.

Það þarf kjark til að kæra þau sem hafa beitt mann ofbeldi og ekki síst þegar mikill munur er á stöðu, aldri og bjargráðum viðkomandi. Um þetta valdamisræmi ræðir Drífa Snædal í beittri grein á Smugublogginu.

Sú eða sá sem hefur orðið fyrir órétti á heimtingu á að hlutur hennar/hans sé réttur við fyrir dómstólum. Ég á mér þá ósk að öll þau sem verða fyrir nauðgun geti haldið út allt til enda. Að þau láti ekki kærur niður falla eða áhrif og völd hafa áhrif á sig, heldur gangi þessa götu alla leið fyrir dómstólum.

Við höfum ekki endilega vald á því sem kemur fyrir okkur sem manneskjur í flóknum heimi. En við höfum val um það hvernig við bregðumst við andstreymi og hvað við látum yfir okkur ganga. Dómskerfið dæmir að sönnu ekki alltaf brotaþolum í hag. En dómar, fordæmisgildi þeirra og sá texti og umræðugrundvöllur sem þeir skapa skipta miklu máli.

Og smátt og smátt breytum við heiminum.