Tag: einelti

Rómversk-kaþólska kirkjan greiðir „bætur“

Í DV í dag er sagt frá viðbrögðum ungs manns við skaðabótunum sem rómversk-kaþólska kirkjan greiddi honum, eftir að hann hafði lýst ofbeldi sem hann varð fyrir sem barn í Landakotsskóla og í sumarbúðum kirkjunnar af hendi starfsmanna skólans fyrir fagráði kaþólsku kirkjunnar. Fréttina má nálgast hér og þar kemur fram að hvorki hafi verið um að ræða skaða eða miskabætur frá kirkjunni, heldur hafi fjárins verið aflað með frjálsum framlögum.

Ekkibótagreiðslur rómversk-kaþólsku kirkjunnar til þeirra sem hafa ásakað séra Ágúst George, Margrét Muller og fleiri um misnotkun og einelti meðan þau störfuðu fyrir skólann eiga sér allnokkurn aðdraganda og mig langar til að rifja þann aðdraganda upp.

Árið 2011 var skipuð sjálfstæð rannsóknarnefnd sem skyldi rannsaka framkomnar ásakanir um ofbeldi innan Landakotsskóla og skilaði hún skýrslu sinni 2. nóvember 2012.  Skyldi hlutverk nefndarinnar vera tvíþætt, þ.e. í fyrsta lagi að rannsaka „hvort um mistök, vanrækslu eða vísvitandi þöggun eða tilraun til þöggunar hafi verið að ræða af hálfu vígðra þjóna og starfsmanna kirkjunnar, eða annarra þeirra sem gegnt hafa trúnaðarstörfum í þágu kirkjunnar, eftir að ásakanir um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot voru komnar fram og hverjir kunni að bera ábyrgð á því,“ og í öðru lagi „að koma með ábendingar og tillögur um starfshætti kaþólsku kirkjunnar í þeim tilvikum þegar upp koma ásakanir um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot af hálfu vígðra þjóna eða starfsmanna hennar“ (bls. 13-14).

Hvað varðar fyrra verkefni nefndarinnar þá gerir hún „alvarlegar athugasemdir“ við að nánast engar skráningar um hagi nemenda hafi verið varðveittar frá þeim tíma sem skólinn var á ábyrgð kaþólsku kirkjunnar (bls. 96). Hún gerir þáverandi biskupa rómversk-kaþólsku kirkjunnar á Íslandi ábyrga fyrir því að gögnin voru ekki tryggð (bls. 96).  Rannsóknarnefndin telur líka rómversk-kaþólsku kirkjuna á Íslandi hafa brugðist seint við framkomnum ásökunum, og að hún hefði haft „fullt tilefni“ til þess að bregðast við með forvörnum, skráningu og góðum starfsháttum fyrr en gert var í ljósi allrar þeirrar umræðu sem fram fór um kynferðisbrot presta innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar á heimsvísu síðustu áratugi.

Rannsóknarnefndin hefur sem sagt rekið sig á vegg snemma í rannsókninni þar sem henni er ætlað að rannsaka meint mistök, vanrækslu eða vísvitandi þöggun, þann vegg að annað hvort hafa gögn verið skráð og þeim síðan eytt, eða þá að gögnin voru aldrei skráð. Aðferðafræði nefndarinnar til að komast að niðurstöðu er að rekja hvernig og hvenær ásakanir voru settar fram. Síðan segir:

Í ályktunum sínum telur rannsóknarnefndin rétt að ganga út frá því að samkvæmt viðurkenndu verklagi kirkjunnar hafi prestum, nunnum og öðrum starfsmönnum borið að tilkynna biskupi um öll tilvik þar sem grunur lék á því að ofbeldi hafi átt sér stað. Það hafi þá verið á ábyrgð biskups að tryggja að mál yrði skráð og að það fengi réttláta og sanngjarna meðferð (bls. 98).

Rannsóknarnefndin tók viðtöl við fjölda fólks sem taldi sig hafa orðið fyrir kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi í Landakotsskóla og sumarbúðum kirkjunnar í Riftúni. Hún greinir frá því að fram komi í vitnisburðunum að komið hafi verið á framfæri kvörtunum og ásökunum og ofbeldi séra George, Margrétar og fleiri aðila allar götur frá 1964. Foreldrar og börn hafi rætt við nunnur, presta, biskupa, kennara og starfsfólk eða gert tilraunir til þess (bls. 99-107).  Vegna þess að skráningar vantar og þeir starfsmenn sem um ræðir séu meira og minna látnir ályktar rannsóknarnefndin almennt um þetta tímabil að „skort hafi á að starfsfólk kirkjunnar hafi sýnt dómgreind í verki“,  en telur að öðru leyti erfitt að álykta um umrætt tímabil og einbeitir sér að viðbrögðum eftir 1988 þegar heimildir og heimildarmenn eru frekar fyrir hendi.

Í ályktun nefndarinnar kemur fram að systir Immaculata og séra Patrick hafi vanrækt að tilkynna yfirmönnum sínum um ásakanir (bls. 108). Nefndin telur líka að biskup Jolson hafi sýnt alvarlega vanrækslu með því að bregðast ekki við tilkynningum sem honum var kunnugt um, auk þess sem hann hafi sýnt vanrækslu í að sjá til þess að upplýsingar um þessar ásakanir væru skráðar og varðveittar (bls. 109).  Biskup Gijsen hafi einnig gert mistök í að eyðileggja umslag sem talið er kann hafa innihaldið upplýsingar um óviðeigandi háttsemi séra George. Rannsóknarskýrslan telur biskup Gijsen sekan um alvarlega vanrækslu. Hún telur sitjandi biskup, biskup Burcher hafa vanrækt skyldur sínar (bls. 111). Nefndin telur séra George hafa vanrækt að bregðast við ásökunum um einelti Margrétar Muller (bls. 114). Hún telur að séra Hjalti hafi sem skólastjóri Landakotsskóla vikið sér undan því að taka á málum Margrétar (bls. 116).  Nefndin telur að biskuparnir Jolson, Gijsen og Frehen og skólastjórinn séra Hjalti hafi bælt niður ásakanir um andlegt ofbeldi Margrétar og þar með gert sig seka um þöggun (bls. 116).

Hvað varðar seinna hlutverk nefndarinnar þá gagnrýnir nefndin starfshætti rómversk kaþólsku kirkjunnar í meðferðum upplýsinga og ásakana um ofbeldisbrot og tekur hana ranga (bls. 119). Einnig er gagnrýnt að prestar og starfsfólk kirkjunnar fái enga fræðslu um íslensk lög og reglur og þá ekki síst vanþekking presta á barnaverndarlögum. Nefndinni finnst sérstakt áhyggjuefni hvernig rómversk-kaþólskum prestum sem hún ræddi við finnst nauðsynlegt að vega og meta vitnisburði barna áður en þeir ákveðið hvernig viðbragða verði gripið til (bls. 123) og kemur síðan með leiðbeiningar um fyrirmyndarvinnubrögð.

Fagráð rómversk kaþólsku kirkjunnar á Íslandi er síðan skipað 5. nóvember 2012, sem hefur eitt að meginviðfangsefnum sínum að meta bótarétt þolenda kynferðisofbeldis og annars ofbeldis. Í kjölfarið lýsti fagráðið eftir því að heyra í þolendum fyrir 1. júní 2013.  17 kröfugerðir bárust og birti fagráðið niðurstöðu sína 15. nóvember s.l. Niðurstaða hennar er sú að ein krafa sé bótaskyld. Kaþólska kirkjan send út fréttatilkynningu, sagðist hafa sent öllum þolendum bréf og almenna fyrirgefningarbeiðni , en öll málin væru fyrnd og kirkjan ekki bótaskyld. Þvínæst hrósar kirkjan sér í hástert fyrir að hafa varið tíma, orku og peningum í að upplýsa málið og lýsir sig reiðubúna til að annast sálusorgun, „enda sé það hlutverk hennar“.+

Ég gerði í upphafi viðtal við ungan mann í DV í dag að umtalsefni. Hann fékk 82.070 krónur af frjálsum framlögum af því að kirkjan taldi sig ekki bótaskylda gagnvart honum.

Eftir að hafa þrílesið fréttatilkynninguna óg farið í gegnum rannsóknarskýrsluna finnst mér mál þetta allt með ólíkindum. Gerendurnir í kynferðis-, ofbeldis og eineltismálunum eru látnir. Það sem hins vegar stendur eftir og rannsakað var var stjórnsýslan, viðbrögðin, starfshættirnir. Dómurinn sem eftir stendur er ótvíræður. Hann fjallar um að þau hafi höggvið sem hlífa skyldu, að valdamikið fólk í rómversk-kaþólsku kirkjunni hafi séð í gegnum fingur sér, gert mistök, sýnt vanrækslu, sýnt alvarlega vanrækslu, bælt niður og þaggað ásakanir um ofbeldi. Það er skömm að því, skömm sem rómversk-kaþólska kirkjan á Íslandi ber vegna þess að hún gætti ekki nógu vel að börnunum sem henni var treyst fyrir og hafði hag þeirra ekki í fyrirrúmi. Kirkjan hefði að horfast í augu við þessa skömm með því að greiða þolendunum myndarlegar miskabætur. Ekki vegna þess að þær bætur yrðu endilega sóttar með lögum, þar sem fyrningar og lagakrókar eru í fyrirrúmi, heldur vegna þess að kirkja sem vill njóta trúnaðar fólks skammast sín þegar hún hefur gert rangt. Hún skuldar fólki þann trúnaðarmiska.

Að lokum vil ég taka undir orð fréttatilkynningar. Sálusorgun er hlutverk kirkjunnar. Það var hlutverk hennar að hlusta á föðurinn sem kom 1964. Og börnin sem sögðu nunnunni frá árið 1985. Og prestinum árið 1989. Og biskupnum árið 1990. Og öllum hinum.

Myndin er tekin af vef Reykjavíkurborgar

landakotskoli (Large)

Sáðkorn, einelti, ofbeldi

 Prédikun í Guðríðarkirkju á annan sunnudag í níuviknaföstu 3. febrúar 2013

Mrk 4.26-32: Þá sagði Jesús: „Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska lætur hann þegar bera út sigðina því að uppskeran er komin.“ Og Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjall dagsins sem er Biblíudagurinn, annar sunnudagur í níuviknaföstu eru tvær undurfallegar af guðsríkinu. Þar er annars vegar talað um sáðkorn sem sáðmaður sáir í jörð og ber ávöxt og hins vegar um mustarðskornið smáa sem verður að stóru tré. Ríki Guðs á jörðu er eins og fræ. Þar sem kærleikur og ást ríkja, þar er Guð, því að Guð er kærleikur. Og þetta fræ vinnur í leynum og hefur óendanlega möguleika til vaxtar.

Hvor sagan um sig dregur fram ólíka þætti þessarar fallegu myndar.  Fyrri myndin færir okkur hugmyndina um fræið sem starfar í leynum, vex og þroskast þegar við sofum, spírar í moldinni meðan við vinnum, vökvum og reytum arfa. Lengi vel er vinna sáðkornsins ósýnileg, það er ekki fyrr en á seinni stigum sem við sjáum afrakstur erfiðis okkar og fyrr en varir er kornið tilbúið til uppskeru. Guðspjallið undirstrikar þannig leyndardóm sáðkornsins sem vinnur óvænt og á leyndardómsfullan hátt.

Seinni myndin undirstrikar smæð og varnarleysi mustarðskornsins. Það er lítið fyrir korn að sjá en fái það til þess skilyrði getur það orðið styrkur stofn og fuglar himinsins hreiðra um sig í skugga trésins.

Báðar þessar grænu og lífrænu myndir af korni sem verður uppskera og stórt tré bera með sér bjartsýni og von, áherslu á þolinmæði, seiglu og sigurs hins jákvæða yfir öllu því sem dregur úr vexti þess og viðgangi.

Það er nokkuð skýrt að þessar myndir af ríki Guðs fjalla ekki endilega um lífið eftir dauðann, heldur ekki síður um lífið hér og nú, lífið eins og við lifum því, vöxtinn sem við eigum kost á. Ef guðsríkið eins og það kemur fyrir í líkingum guðspjallsins fjallar þannig um vöxt ástar, öryggis og hlýju í heiminum sem Guð skapaði, þá liggur næst við að spyrja:

Hvað er það sem hjálpar guðsríkinu að gróa?

Hvað getum við gert til að hjálpa guðsríkinu til að vaxa?

Og jafnframt varpa myndirnar til okkar áleitnum spurningum
um það hvað geti ógnað sáðkorninu í jörðu.
Hvað varnar því að uppskeran líti dagsins ljós í mannlífinu?
Hvað varnar því að við og fólkið í kringum okkur geti átt gott og gjöfult líf?
Hvað er það sem dregur úr vexti okkar og þroska,
Hvað tekur frá okkur bjartsýnina?
Hvað skemmir vonir okkar um kærleika, frið, sátt, öryggi?
Hvernig getum við unnið að heilbrigðum samskiptum
í umhverfi okkar, á heimili, í skóla og vinnustað, í hverfi, borg, landi og heimi?

Þannig spurninga er hollt að spyrja þegar við íhugum fræ Guðs sem liggur djúp í mannlífssverðinum og freistar þess að verða uppskera. Þannig spurninga er gott að hugsa til þegar við veltum fyrir okkur smáu mustarðskorni lífsins, sem hefur óendanlega möguleika á lífi í kærleika, ef við gefum því tækifæri, tíma og rúm.

II.

Ein af uppáhaldsbókunum mínum sem barn og unglingur var bókin um Gúmmí-Tarsan eftir Ole Lund Kierkegaard. Söguhetjan Gúmmí-Tarsan eða Ívar Ólsen er sjö ára gamall og líður illa í skólanum. Honum gengur illa að lesa,  leikfimistímarnir hans eru martröð og hann er lélegur í fótbolta. Krakkarnir á skólalóðinni bleyta buxurnar hans á klósettinu. Þegar hann reynir fyrir sér í hrákakeppni rennur hrákinn út úr honum eins og litlar slefur. Og þegar hann kemur heim segir pabbi hans honum að hann sé alger vesalingur. Í sögunni kynnist Ívar Ólsen galdranorn sem gefur honum eina ósk. Ívar Ólsen óskar sér þess að fá allar óskir sínar uppfylltar og fær þessa risaósk uppfyllta í einn dag. Allir óskirnar hans Ívars fjalla um það að gefa honum kraft og styrk. Í þennan eina dag getur hann allt. Hann les stærstu bókina á bókasafninu og bókin sú er svo stór að það þarf að bera hana um í hjólbörum. Hann sigrar í fótboltanum, snýr á alla strákana sem stríða honum, brillerar í leikfimi, skyrpir lengra en nokkur annar og lætur pabba sinn loksins heyra það.

Það sem er hins vegar sorglegt við söguna um Gúmmí-Tarsan er að þegar sigurdagurinn mikli er liðinn fellur allt í sama farið. Galdranornin er horfin og Ívar kemur heim með blautar buxur. Og þannig heldur hringrás eineltisins áfram hjá Ívari Ólsen. Sem barn vildi ég aldrei lesa síðustu blaðsíðurnar í bókinni. Mig langaði svo til að lífið hjá Ívari breyttist og að hann gæti komist út úr sínum ömurlegu aðstæðum. Mig langaði til þess að mustarðskornið Ívar Ólsen fengi að verða tré.

III.

Í nýliðinni viku spunnust miklar umræður um einelti og ofbeldi í samfélaginu. Sum okkar hafa orðið fyrir einelti. Önnur okkar hafa beitt einelti. Og mörg okkar hafa bæði orðið fyrir og beitt einelti, því í mannlegum samskiptum geta tengsl milli fólks orðið flókin og margbreytileg. Einelti og ofbeldi eru einmitt góð dæmi um það sem stendur guðsríkinu fyrir þrifum. Einelti og ofbeldi draga úr óendanlegum möguleikum fólks til að vaxa og dafna. Þessi hegðun er eins og illgresið sem skemmir fyrir sáðkorninu. Hún er steinninn í moldinni sem heftir vöxt mustarðskornsins sem vill verða tré.

Einelti og ofbeldi er ekki það sama, því að ofbeldi er víðara hugtak en einelti. Orðið ofbeldi þýðir samkvæmt Vísindavefnum of mikill ákafi, því að beldi þýðir ákafi og er skylt lýsingarorðinu að vera baldinn. Ofbeldi er því orð sem hægt er að nota um hverja þá hegðun þar sem hegðun í garð annarra verður stjórnlaus og full af ýgi. Hún getur gert aðra hrædda og oft af fullri ástæðu. Hún verður ofbeldin.

Einelti kemur fram á mismunandi hátt og tekur á sig ýmsar myndir. Einelti getur þannig falist í að einstaklingur eða hópur sé oft og iðulega hafður að skotspæni. Það er gert lítið úr þeim, þau eru úthrópuð og niðurlægð með ljótum og niðrandi orðum. Önnur eru gerð ósýnileg, það er ekki tekið mark á þeim, allar leiðir liggja framhjá þeim og verk þeirra eru ekki metin að verðleikum. Þriðji hópur þeirra sem verður fyrir einelti upplifir beint líkamlegt ofbeldi. Og svo eru þau sem verða fyrir einelti vegna litarháttar, vegna þess að þau passa ekki inn í kynhlutverk eða hneigjast til annars kyns.

Einelti eitrar líf þess sem fyrir því verður. Einelti tekur frá fólki sjálfstraust og öryggi, rænir það vextinum í leynum. Langvarandi einkenni eineltis eru líka þau að við getum festst í eineltisforritinu löngu eftir að sjálfu eineltinu er hætt. Þegar við upplifum mynstur sem minna okkur á gamla eineltismynstrið sem við kynntumst í barnaskóla, á gamla vinnustaðnum eða á heimilinu, þá tekur þetta forrit völdin. Okkur er fleygt aftur í tímann til tímans sem við vorum varnarlausust og smæst. Þessar gömlu minningar gera það stundum að verkum að við eigum erfitt með að takast á við gagnrýni og reiði sem fullorðnar manneskjur. Okkur gengur þannig illa að setja okkur í spor annarra og festumst í fórnarlambshlutverkinu sem við höfum þó barist við að koma okkur upp úr. Ívar Ólsen tekur yfir, Ívars tímabilið sem flest okkar sem einhvern tímann höfum upplifað einelti viljum helst af öllu gleyma í stað þess að lifa það aftur og aftur.

Einelti er þannig samfélagslegt vandamál, sem hefur langvarandi áhrif á þau sem fyrir því verða, gerir þau öryggislaus, ósjálfstæð, hrædd og gjarnan í mikilli vörn.

Einelti er líka samfélagslegt vandamál í þeim skilningi að mörg okkar hafa þróað með sér blindu fyrir einelti. Þau sjá ekki niðurlæginguna og sársaukann, eða leggja sig fram um að burtskýra hana. Einelti er líka oft túlkað sem fyndni og grín. En brandarar sem brjóta niður fólk eru ekki fyndnir. Lífssýn sem miðar að því að niðurlæging og smán séu talin eðlileg er ekki góð lífssýn. Fordómar gagnvart þjóðfélagshópum og einstaklingum eru mannskemmandi. Og á meðan hlaðast upp steinar í jarðveginum og arfi í moldinni, sem gera sáðkorninu erfitt um vik við vöxtinn sinn.

Eineltisumræðan í samfélaginu í síðustu viku spratt upp í tilefni lýsingar borgarstjórans í Reykjavík á íbúafundi þar sem hann taldi sig hafa orðið fyrir einelti og ofbeldi. Margir brugðust við, og sjálf skrifaði ég grein sem fjallaði um að valdastaða fólks skipti máli þegar rætt væri um einelti. Ég fletti upp í athugasemdum við orð borgarstjórans sem rötuðu í fréttir flestra vefmiðla. Það var sláandi að sjá orðræðuna um einelti þróast yfir daginn. Sumir sögðu að maðurinn væri „dramadrottning“, vegna þess að hann hefði leyft sér að segja að hann væri beittur einelti. Aðrir leituðust við að draga stinginn úr orðunum sem særðu á fundinum, að þau hefðu ekkert verið svo ljót og þýddu eiginlega bara eitthvað fallegt, fjölskylda og heimilisfólk og eitthvað slíkt. Og svo voru þau sem sögðu að viðkomandi maður yrði bara að herða sig upp. Öllum þessum málflutningi svipaði til þess þegar börn á skólalóð eru gripin og skömmuð fyrir stríðni. Þar bendir hver á annan og kallar þann sem líður illa aumingja og dramadrottningu. „Það var hann sem stríddi okkur,“ hrópar einhver. Og svo mætir pabbi Ívars Ólsen á staðinn og segir honum að herða sig upp.

IV.

Sumir segja að þau sem verði fyrir einelti í æsku jafni sig aldrei.

Ég trúi því að það sé ekki rétt.
Ég trúi því að sáðkornið geti vaxið í moldinni
og unnið kærleiksverk sitt í leynum.
Ég trúi því að við eigum öll möguleika á uppskeru,
þau okkar sem hafa orðið fyrir þungum sorgum í æsku.
Ég trúi því að jákvæðni, umræða og greining á einelti geti breytt miklu,
að hver hafi möguleika á að líta í eigin barm
og meta sinn þátt í ofbeldi og einelti.
Og ég trúi því að gömul eineltisbörn
geti horfst í augu við sínar sáru minningar og grætt sárin,
svo að sára reynslan fylgi ekki einatt með inn í nýjar og nýjar aðstæður.

Eineltismynstur eru forrit í hausnum sem við þurfum öll að losna við.
Við þurfum að losna við svipleiftur sem gera okkur varnarlaus og smá
þegar þurfum á því að halda að hugsa skýrt og í jafnvægi.
Glíma eineltisbarnsins getur beinst bæði að öðrum og þeim sjálfum.
Sum verða reiðir, grimmir og bitrir við aðra.
Önnur beina sársaukanum og ofbeldinu inn á við
og verða sannfærð um að þau sjálf viti ekki neitt og geti ekki neitt.
Við þurfum að losna við forritin sem gera okkur ónæm fyrir og blind á einelti.

Við þurfum að sýna sjálfum okkur samúð og umhyggju
svo að sáðkorn okkar geti andað í moldinni.
Við þurfum á því að halda að geta rætt um birtingarmyndir eineltis og ofbeldis,
rætt um ólíkar myndir þessarar árásargjörnu hegðunarmynstra,
horfast í augu við okkar eigin þátt í því
hvers vegna þessi hegðun þrífst í samfélaginu.
Við þurfum að sýna upplifun og sársauka þeirra sem upplifa einelti virðingu, jafnvel þegar við erum ekki sammála þeim um það sem gerst hefur
eða viljum benda á aðrar hliðar.

Á þann hátt getum við tekið höndum saman við að stinga upp mannlífssvörðinn og gera hann að stað þar sem fleiri mega dafna og þroskast í friði og gleði.

Á þeim stað þrífst Ívar Ólsen
og þau öll okkar sem finnum til samhljóms með honum og aðstæðum hans.

V.

Ég ímynda mér lítið mustarðskorn.

Mustarðskornið getur svo auðveldlega staðið fyrir sál okkar hvers og eins sem þarf á góðum vaxtarskilyrðum að halda. Og saman mynda þessi mustarðskorn staðinn þar sem ríki Guðs nær fótfestu, því að kærleikur Guðs er eins og fræ. Í ríki Guðs ræður meðvirknin ekki ríkjum eða gömul ofbeldis- og eineltisforrit sem okkur voru innrætt forðum tíð. Í ríki Guðs er ofbeldið og eineltið er gert upp. Í ríki Guðs vex kærleikurinn og öryggið skýtur rótum. Í ríki Guðs koma fuglar himinsins saman og hvíla sig í skugga trésins.

Góði Guð, hjálpaðu íslensku samfélagi og okkur öllum að verða slík tré.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.

Myndin er úr bókinni Gúmmí-Tarsan eftir Ole Lund Kirkegaard þennan frábæra dag þegar Ívar Ólsen hefur fengið allar sínar óskir uppfylltar.

Gúmmítarsan

Jón Gnarr og eineltið

Jón GnarrJón Gnarr birti á Facebooksíðu sinni í gær hugleiðingar um íbúafund í Grafarvogi. Þar var honum að sögn sýnt bæði ofbeldi og einelti.  Jón Gnarr ritar:

Mér fannst ég knúinn að segja frá þessu, ekki bara mín vegna heldur allra þeirra sem þurfa að lifa við niðurlægingu, háð, lítilsvirðingu, ógnanir og ofbeldi, í skólanum, á heimilinu, í vinnunni, internetinu eða á götum úti. Afhverju þegjum við svo gjarnan yfir svona? Ég varð fyrir einelti og ofbeldi í æsku. Það tók mig 30 ár að safna í mig kjarki til að segja frá því. Ég þarf ekki þann tíma lengur. Baráttan gegn ofbeldi og einelti er ekki eftir 30 ár. Hún er núna.

Ég get tekið undir hvert orð sem Jón Gnarr ritar um veruleika eineltis í samfélaginu. Það einkennist af niðurlægingu, háði, lítilsvirðingu, ógnunum og ofbeldi og á sér jafnt stað meðal fullorðinna og barna. Og það er gott að það sé talað um það.

En ég er líka hugsi við þennan lestur.

Ég var ekki á fundinum í Grafarvogi og get því ekki lagt mat á það sem þar fór fram. Ég hef hlustað á viðtöl við fólk sem var þar, sjá hér. Þar má m.a. heyra það viðhorf að fólki hafi orðið heitt í hamsi yfir því að borgarstjóri hafi vikist undir að svara þangað til í lok fundar. Annar þátttakandi á fundinum sagði í athugasemdum við færslu borgarstjóra að á fundinn hafi mætt „harðskeytt götugengi miðaldra karla sem ætlaði greinilega að taka yfir fundinn, en fékk ekki stuðning annara fundarmanna.“  Það er því auðheyrt að upplifun fólks af þessum fundi hefur verið mjög mismunandi.

Það sem vefst fyrir mér er að ég er ekki viss um að það sé góð hugmynd að tala um slík átök sem einelti. Á síðu Regnbogabarna er að finna góðar skilgreiningar á einelti, sjá hér. Þar er vitnað í ýmsa fræðimenn sem hafa rannsakað einelti sérstaklega. Þar segir:

Einelti er skilgreint sem  endurtekin eða viðstöðulaust áreiti/ valdbeiting, munnleg,  sálfræðileg eða líkamleg, framkvæmdar af einstaklingi eða hóp einstaklinga sem beita sér gegn annarri manneskju eða hóp einstaklinga gegn þeirra vilja.

Dan Olweus skilgreinir einelti þannig að  það sé einstaklingur sem lendir reglulega og yfir ákveðið tímabil í neikvæðu áreiti af hendi eins eða fleiri. Roland telur einelti vera langa og kerfisbundna notkun ofbeldis, andlegs eða líkamlegs, gagnvart einstaklingi sem ekki getur varið sig í aðstæðunum. Bjorkquist og fleiri segja einelti vera ákveðna tegund ýgi eða árásargirni sem sé í raun félagsleg.

Pikas heldur því fram að nauðsynlegt viðmið til að meta einelti sé að það sé neikvæð hegðun frá tveimur eða fleiri einstaklingum gagnvart einum einstaklingi eða hópi.

Besag segir að í Bretlandi sé það talið einelti þegar einn einstaklingur ræðst á einhvern hátt gegn einum einstaklingi, hópi eða hópur ræðst gegn hópi eða hópur gegn einstaklingi.

Eitt helsta einkenni eineltis er að þar er ráðist gegn einstaklingi eða hópi og hann gerður valdlaus og ósýnilegur. En nú er Jón Gnarr hvorki valdlaus né ósýnilegur. Hann er valdamesti maður í Reykjavík og heldur gríðarmikilvægum þráðum í hendi sér, þráðum sem varða líf, heill og velferð fjölskyldna og einstaklinga í Reykjavík. Honum var treyst fyrir þessum stjórnartaumum af fjölmörgum Reykjavíkum og af skoðanakönnunum að dæma er hann vinsæll stjórnmálamaður. Hann er áberandi maður og hefur góðan aðgang að öllum fjölmiðlum fyrir boðskap sinn. Hann hefur skrifað minningar sínar og síðasta bók, sem fjallar einmitt um einelti á hendur honum var ein af metsölubókunum fyrir síðustu jól.

Jón Gnarr er maður sem hefur upplifað einelti og ofbeldi sem barn, unglingur og eflaust fullorðinn maður líka. Hann hefur upplifað það hlutskipti að ekki sé tekið mark á neinu sem viðkomandi segir, hann sé niðurlægður og gerður hlægilegur án þess að viðkomandi geti rönd við reist.  En núna er hann hvorki valdlaus né mállaus. Hann kemur sem kjörinn handhafi valds inn á íbúafundi að tala við umbjóðendur sína og þar sem fólk lýsir skoðunum sínum. Margar þessara skoðana eru mjög ólíkar þeim áherslum sem borgarstjóri vill standa fyrir og sumar settar fram í mikilli reiði. Vald þessa fólks er málfrelsi á slíkum fundi og kosningaseðill á fjögurra ára fresti og mörg af þeim telja sitt eina útspil vera það að berja með hvössum málflutningi á sitjandi valdhöfum þegar þau komast í tæri við þau.

Þess vegna er ég mjög sammála Jóni Gnarr þegar hann talar um mikilvægi þess að tala um einelti sem börn og fullorðnir verða fyrir. En er það einelti þegar almenningur skammar borgarstjórann sinn? Eflaust hafa hvöss og ljót orð verið látin falla. Vafalaust er hægt að bæta mikið umræðuhefð Íslendinga, t.d. á íbúafundum og það er sístætt verkefni að ganga fram af festu og virðingu í pólitík og umræðum um hana.  En ég held að þegar valdmiklir menn tala um einelti á hendur sér séu þeir að taka yfir orðræðu hinna valdlausu.

Og það er ekki gott.

Myndin er tekin af Facebooksíðu borgarstjóra.