Tag: kynferðisbrot

Rómversk-kaþólska kirkjan greiðir „bætur“

Í DV í dag er sagt frá viðbrögðum ungs manns við skaðabótunum sem rómversk-kaþólska kirkjan greiddi honum, eftir að hann hafði lýst ofbeldi sem hann varð fyrir sem barn í Landakotsskóla og í sumarbúðum kirkjunnar af hendi starfsmanna skólans fyrir fagráði kaþólsku kirkjunnar. Fréttina má nálgast hér og þar kemur fram að hvorki hafi verið um að ræða skaða eða miskabætur frá kirkjunni, heldur hafi fjárins verið aflað með frjálsum framlögum.

Ekkibótagreiðslur rómversk-kaþólsku kirkjunnar til þeirra sem hafa ásakað séra Ágúst George, Margrét Muller og fleiri um misnotkun og einelti meðan þau störfuðu fyrir skólann eiga sér allnokkurn aðdraganda og mig langar til að rifja þann aðdraganda upp.

Árið 2011 var skipuð sjálfstæð rannsóknarnefnd sem skyldi rannsaka framkomnar ásakanir um ofbeldi innan Landakotsskóla og skilaði hún skýrslu sinni 2. nóvember 2012.  Skyldi hlutverk nefndarinnar vera tvíþætt, þ.e. í fyrsta lagi að rannsaka „hvort um mistök, vanrækslu eða vísvitandi þöggun eða tilraun til þöggunar hafi verið að ræða af hálfu vígðra þjóna og starfsmanna kirkjunnar, eða annarra þeirra sem gegnt hafa trúnaðarstörfum í þágu kirkjunnar, eftir að ásakanir um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot voru komnar fram og hverjir kunni að bera ábyrgð á því,“ og í öðru lagi „að koma með ábendingar og tillögur um starfshætti kaþólsku kirkjunnar í þeim tilvikum þegar upp koma ásakanir um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot af hálfu vígðra þjóna eða starfsmanna hennar“ (bls. 13-14).

Hvað varðar fyrra verkefni nefndarinnar þá gerir hún „alvarlegar athugasemdir“ við að nánast engar skráningar um hagi nemenda hafi verið varðveittar frá þeim tíma sem skólinn var á ábyrgð kaþólsku kirkjunnar (bls. 96). Hún gerir þáverandi biskupa rómversk-kaþólsku kirkjunnar á Íslandi ábyrga fyrir því að gögnin voru ekki tryggð (bls. 96).  Rannsóknarnefndin telur líka rómversk-kaþólsku kirkjuna á Íslandi hafa brugðist seint við framkomnum ásökunum, og að hún hefði haft „fullt tilefni“ til þess að bregðast við með forvörnum, skráningu og góðum starfsháttum fyrr en gert var í ljósi allrar þeirrar umræðu sem fram fór um kynferðisbrot presta innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar á heimsvísu síðustu áratugi.

Rannsóknarnefndin hefur sem sagt rekið sig á vegg snemma í rannsókninni þar sem henni er ætlað að rannsaka meint mistök, vanrækslu eða vísvitandi þöggun, þann vegg að annað hvort hafa gögn verið skráð og þeim síðan eytt, eða þá að gögnin voru aldrei skráð. Aðferðafræði nefndarinnar til að komast að niðurstöðu er að rekja hvernig og hvenær ásakanir voru settar fram. Síðan segir:

Í ályktunum sínum telur rannsóknarnefndin rétt að ganga út frá því að samkvæmt viðurkenndu verklagi kirkjunnar hafi prestum, nunnum og öðrum starfsmönnum borið að tilkynna biskupi um öll tilvik þar sem grunur lék á því að ofbeldi hafi átt sér stað. Það hafi þá verið á ábyrgð biskups að tryggja að mál yrði skráð og að það fengi réttláta og sanngjarna meðferð (bls. 98).

Rannsóknarnefndin tók viðtöl við fjölda fólks sem taldi sig hafa orðið fyrir kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi í Landakotsskóla og sumarbúðum kirkjunnar í Riftúni. Hún greinir frá því að fram komi í vitnisburðunum að komið hafi verið á framfæri kvörtunum og ásökunum og ofbeldi séra George, Margrétar og fleiri aðila allar götur frá 1964. Foreldrar og börn hafi rætt við nunnur, presta, biskupa, kennara og starfsfólk eða gert tilraunir til þess (bls. 99-107).  Vegna þess að skráningar vantar og þeir starfsmenn sem um ræðir séu meira og minna látnir ályktar rannsóknarnefndin almennt um þetta tímabil að „skort hafi á að starfsfólk kirkjunnar hafi sýnt dómgreind í verki“,  en telur að öðru leyti erfitt að álykta um umrætt tímabil og einbeitir sér að viðbrögðum eftir 1988 þegar heimildir og heimildarmenn eru frekar fyrir hendi.

Í ályktun nefndarinnar kemur fram að systir Immaculata og séra Patrick hafi vanrækt að tilkynna yfirmönnum sínum um ásakanir (bls. 108). Nefndin telur líka að biskup Jolson hafi sýnt alvarlega vanrækslu með því að bregðast ekki við tilkynningum sem honum var kunnugt um, auk þess sem hann hafi sýnt vanrækslu í að sjá til þess að upplýsingar um þessar ásakanir væru skráðar og varðveittar (bls. 109).  Biskup Gijsen hafi einnig gert mistök í að eyðileggja umslag sem talið er kann hafa innihaldið upplýsingar um óviðeigandi háttsemi séra George. Rannsóknarskýrslan telur biskup Gijsen sekan um alvarlega vanrækslu. Hún telur sitjandi biskup, biskup Burcher hafa vanrækt skyldur sínar (bls. 111). Nefndin telur séra George hafa vanrækt að bregðast við ásökunum um einelti Margrétar Muller (bls. 114). Hún telur að séra Hjalti hafi sem skólastjóri Landakotsskóla vikið sér undan því að taka á málum Margrétar (bls. 116).  Nefndin telur að biskuparnir Jolson, Gijsen og Frehen og skólastjórinn séra Hjalti hafi bælt niður ásakanir um andlegt ofbeldi Margrétar og þar með gert sig seka um þöggun (bls. 116).

Hvað varðar seinna hlutverk nefndarinnar þá gagnrýnir nefndin starfshætti rómversk kaþólsku kirkjunnar í meðferðum upplýsinga og ásakana um ofbeldisbrot og tekur hana ranga (bls. 119). Einnig er gagnrýnt að prestar og starfsfólk kirkjunnar fái enga fræðslu um íslensk lög og reglur og þá ekki síst vanþekking presta á barnaverndarlögum. Nefndinni finnst sérstakt áhyggjuefni hvernig rómversk-kaþólskum prestum sem hún ræddi við finnst nauðsynlegt að vega og meta vitnisburði barna áður en þeir ákveðið hvernig viðbragða verði gripið til (bls. 123) og kemur síðan með leiðbeiningar um fyrirmyndarvinnubrögð.

Fagráð rómversk kaþólsku kirkjunnar á Íslandi er síðan skipað 5. nóvember 2012, sem hefur eitt að meginviðfangsefnum sínum að meta bótarétt þolenda kynferðisofbeldis og annars ofbeldis. Í kjölfarið lýsti fagráðið eftir því að heyra í þolendum fyrir 1. júní 2013.  17 kröfugerðir bárust og birti fagráðið niðurstöðu sína 15. nóvember s.l. Niðurstaða hennar er sú að ein krafa sé bótaskyld. Kaþólska kirkjan send út fréttatilkynningu, sagðist hafa sent öllum þolendum bréf og almenna fyrirgefningarbeiðni , en öll málin væru fyrnd og kirkjan ekki bótaskyld. Þvínæst hrósar kirkjan sér í hástert fyrir að hafa varið tíma, orku og peningum í að upplýsa málið og lýsir sig reiðubúna til að annast sálusorgun, „enda sé það hlutverk hennar“.+

Ég gerði í upphafi viðtal við ungan mann í DV í dag að umtalsefni. Hann fékk 82.070 krónur af frjálsum framlögum af því að kirkjan taldi sig ekki bótaskylda gagnvart honum.

Eftir að hafa þrílesið fréttatilkynninguna óg farið í gegnum rannsóknarskýrsluna finnst mér mál þetta allt með ólíkindum. Gerendurnir í kynferðis-, ofbeldis og eineltismálunum eru látnir. Það sem hins vegar stendur eftir og rannsakað var var stjórnsýslan, viðbrögðin, starfshættirnir. Dómurinn sem eftir stendur er ótvíræður. Hann fjallar um að þau hafi höggvið sem hlífa skyldu, að valdamikið fólk í rómversk-kaþólsku kirkjunni hafi séð í gegnum fingur sér, gert mistök, sýnt vanrækslu, sýnt alvarlega vanrækslu, bælt niður og þaggað ásakanir um ofbeldi. Það er skömm að því, skömm sem rómversk-kaþólska kirkjan á Íslandi ber vegna þess að hún gætti ekki nógu vel að börnunum sem henni var treyst fyrir og hafði hag þeirra ekki í fyrirrúmi. Kirkjan hefði að horfast í augu við þessa skömm með því að greiða þolendunum myndarlegar miskabætur. Ekki vegna þess að þær bætur yrðu endilega sóttar með lögum, þar sem fyrningar og lagakrókar eru í fyrirrúmi, heldur vegna þess að kirkja sem vill njóta trúnaðar fólks skammast sín þegar hún hefur gert rangt. Hún skuldar fólki þann trúnaðarmiska.

Að lokum vil ég taka undir orð fréttatilkynningar. Sálusorgun er hlutverk kirkjunnar. Það var hlutverk hennar að hlusta á föðurinn sem kom 1964. Og börnin sem sögðu nunnunni frá árið 1985. Og prestinum árið 1989. Og biskupnum árið 1990. Og öllum hinum.

Myndin er tekin af vef Reykjavíkurborgar

landakotskoli (Large)

Umdeildir leiðtogar

Biskupskosningar eru í fullum gangi og fólk í óðaönn að virða fyrir sér kandídatana, kosti þeirra og galla. Biskup íslensku þjóðkirkjunnar er leiðtogi hennar og einingartákn. Þess vegna segja sumir að fýsileg biskupsefni megi alls ekki vera umdeild í samtímanum. Leita verði að leiðtoga sem enginn styrr stendur um til þess að friður ríki í kirkjunni eftir langvarandi erfiðleika.

Ég hef tekið umdeildar ákvarðanir og er umdeild persóna.  Þeirri spurningu hefur verið varpað til mín hvort það myndi ekki sprengja kirkjuna í loft upp ef ég yrði biskup.  Og þess vegna má spyrja:  Getur Þjóðkirkjan borið umdeildan leiðtoga og getur sá leiðtogi einhvern tímann orðið það einingartákn sem biskupsembættinu er ætlað að vera?

Ég hef tekið ákvarðanir sem ég veit ekki hvort eru réttar. Ég til dæmis velti því oft fyrir mér hvort það hafi verið rétt af mér að bjóða mig fram til prestsþjónustu eftir Súðavíkurslysið 1995. Ég var tæplega þrítug þriggja barna móðir og tók yngri tvö börnin með mér vestur á firði, lagði litla barnið í hendur tengdamóður minnar í Bolungarvík, fékk inni fyrir hitt á leikskóla og keyrði Óshlíðina inn á Ísafjörð alla daga í verstu veðrum til að hjálpa til eftir snjóflóðið. Stundum lagði ég mig í lífshættu, einu sinni sá ég snjóflóð falla fyrir framan mig og keyrði næstum inn í nýfallið flóð öðru sinni. Það þurfti hugrekki og kraft til að gera það sem ég gerði og umhyggju fyrir þeirri kirkju sem ég þjóna. En ég hef aldrei vitað fyrir víst hvort ég tók rétta ákvörðun með tilliti til fjölskyldu minnar. Fjölskyldan hefur oft þurft að leggja mikið á sig vegna þess að ég er prestur af lífs og sálar kröftum. Og ég veit ekki hvort það hefur alltaf verið sanngjarnt sem ég lagði á hana. Þessa ákvörðun ég deili um við sjálfa mig í djúpi sálar minnar, en fæstir myndu gagnrýna mig fyrir hana í fjölmiðlum.

Aðrar ákvarðanir hef ég tekið að vandlega athuguðu máli jafnvel þótt ég vissi að ég yrði harðlega gagnrýnd fyrir þær. Það er ekki það sama fyrir hvað maður er umdeildur. Ég er umdeild fyrir skýra rödd í ýmsum réttlætismálum sem þjóðkirkjan hefur staðið fyrir á undanförnum árum.

Ég hef sótt stjórnsýslumál og jafnréttismál á hendur þjóðkirkjunni og verið stefnt fyrir Hæstarétt af sömu stofnun. Dóminn má lesa hér. Ákvörðunina um að fara í mál var ég lengi að taka. Ég taldi mig ekki eiga annars úrkosti ef að ætti að takast að bæta jafnréttið og stjórnsýsluna í þjóðkirkjunni. Þeirrar ákvörðunar hef ég ekki iðrast, þótt hún hafi kostað mig mikið. Og ég veit að hún hefur haft fordæmisáhrif sem nýst hefur til jafnréttis í kirkjunni og lagt þeim til rökstuðning sem vilja vegna reynslu sinnar og menntunar njóta sannmælis við stöðuveitingar.

Ég hef verið framarlega í flokki með þeim sem vildu að samkynhneigt fólk fengi réttindi til hjúskapar í þjóðkirkjunni. Við sem þar gegndum leiðtogahlutverki höfum stundum verið ásökuð um að vilja kljúfa kirkjuna. Því er ég ekki sammála. Að viðurkenna samkynhneigt fólk til jafns við gagnkynhneigt fólk er ekki klofningsákvörðun. Slíkt viðhorf gengur öllu heldur út á það að opna augun fyrir því að kirkjan er stærri og fjölbreyttari en við oft höldum.

Ég gekk líka fram fyrir skjöldu þegar málefni kvennanna sem ásökuðu Ólaf Skúlason um kynferðisbrot komu fram aftur árið 2010. Ég skrifaði grein þar sem ég lagði til að rannsóknarnefnd yrði skipuð um málið og barðist fyrir því að henni yrði komið á. Ég baðst líka afsökunar í sömu grein á að hafa ekki tekið eindregnari afstöðu árið 1996. Greinina má lesa hér. Og þegar rannsóknarnefndin hafði skilað skýrslu sinni talaði ég skýrt.

Já, ég er umdeildur leiðtogi og hef tekið ákvarðanir sem margir eru ósáttir við. Ég lít á þjóðkirkjuna sem annars vegar sem samband safnaða sem nærir prestdóm allra trúaðra sem vilja tilheyra henni og hins vegar sem stofnun sem þjónar þessum prestdómi trúaðra. Ég hef lagt líf mitt í hættu fyrir kirkju Krists, þjónað henni í meira en tvo áratugi, stefnt þjóðkirkjunni, verið stefnt af þjóðkirkjunni, ásökuð um klofning í þjóðkirkjunni, hef hvatt til rannsóknar á viðbrögðum þjóðkirkjunnar og sagt þá skoðun mína opinberlega að biskup eigi að taka ábyrgð.  Ég elska þjóðkirkjuna en það hefur oft verið mitt hlutskipti að vera fleinn í holdi stofnunarinnar.

Fleinar eru mikilvægir samviskuþornar sem reknir eru í síðu valds. Rosa Parks var fleinn. Anna Politkovskaya og Oscar Romero voru fleinar. Nelson Mandela er fleinn og Desmond Tutu. Kristinn siður geymir og heiðrar minningu marga fleina,  Martein Lúther sem stóð af því að hann gat ekki annað, Dietrich Bonhoeffer, Felicitas og Perpetúu. Ég er ekki að líkja mér við þetta afreksfólk réttlætis og trúar, en bendi á nauðsyn fleina fyrir samfélag trúar, vonar, kærleika og sannleika.

Samfélög þurfa á heiðarleika, hreinskilni og réttlætiskennd að halda til að öðlast heilbrigði. Og nú um stundir er mikil þörf á heilbrigði og umönnun í samfélagi og kirkju. Við þurfum að tala um fjölhyggju, umburðarlyndi, kærleika og trú, jafnrétti kynjanna og réttlætið, fátækt og misrétti,  landið okkar og umhverfisvernd, vonina og leitina að hinu nýja Íslandi. Við þurfum að tala skýrt og af einurð. Ég held að þegar við tökum afstöðu til umdeildra leiðtoga væri gott að líta til hins hebreska hugtaks um friðinn. Friður (sjalom) að hebreskum sið merkir ekki ládeyðu heldur hreyfiafl jafnvægisins. Slíkum friði nær aðeins sá leiðtogi sem getur haldið fleininum og einingunni í jafnvægi, réttlætinu og trúfestinni, fagnaðarerindinu og hinni opnu kirkju.

Þjóðkirkjan þarf að eiga sér fleina. En eiga þessir fleinar að verða biskupar? Og því er það ekki að ósekju sem menn spyrja:  “Ertu meira en fleinn? Ertu leiðtogi sem getur byggt upp?”

Ég get ekki svarað þeirri spurningu á annan hátt en að vísa í verkin mín síðustu tvo áratugi. Ég hef ræktað akur Drottins á Suðureyri og í Ólafsfirði og nú síðast í Grafarholti. Ég hef verið fleinn í opinberri umræðu, en ég hef ekki verið umdeildur prestur í þeim söfnuðum sem ég hef þjónað.  Ég hef verið lánsöm í mínum prestskap, hef notið góðs samverkafólks úr röðum sóknarnefnda á öllum þessum stöðum, hef fundið kraftinn sem leynist í byggingarnefndum, meðhjálpurum, kirkjuvörðum og öðru starfsfólki og sjálfboðaliðum. Nú síðast hef ég átt þátt í að byggja upp kraftmikið kirkjustarf í fagurri kirkju upp úr engu í Grafarholti.

Hér ríkir eining og eindrægni, hér hefur ekkert verið sprengt í loft upp og leiðtoginn situr á friðarstóli meðal annarra öldunga og unglinga safnaðarins. Þess vegna held ég að ég geti verið meira en fleinn. Þess vegna býð ég mig fram til biskupssþjónustu.

Geta fleinar orðið biskupar? Geta umdeildir leiðtogar skapað einingu? Getur friður skapast um slíkt fólk?  Í Davíðssálmi 85 segir að með Guðs hjálp geti aðstæður myndast þar sem “elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.” Þessi fleinn og umdeildi leiðtogi er tilbúinn til að leggja sig fram um að vinna í þeim anda á biskupsstóli.

Af nauðgunarkærum

Þjóðkunnur maður og kærasta hans hafa í dag verið yfirheyrð vegna ákæru um nauðgun og fréttirnar hafa skekið netheima og fjölmiðla nú síðdegis.

Nauðgunarkærur ganga sína leið í réttarkerfinu eins og allar aðrar ákærur er varða við hegningarlög. Það er að segja þær kærur sem fara alla leið og er haldið til streitu allt til enda. Aðeins hluti nauðgana er hins vegar tilkynntur til lögreglu og margar þeirra kvenna sem kæra nauðgun (brotaþolar eru flestir kvenkyns) draga kærur sínar til baka. Álagið er einfaldlega of mikið, fordómarnir gagnvart þeim sem verða fyrir kynferðisofbeldi ærnir, og oft drjúgir hagsmunir í húfi.

Það þarf kjark til að kæra þau sem hafa beitt mann ofbeldi og ekki síst þegar mikill munur er á stöðu, aldri og bjargráðum viðkomandi. Um þetta valdamisræmi ræðir Drífa Snædal í beittri grein á Smugublogginu.

Sú eða sá sem hefur orðið fyrir órétti á heimtingu á að hlutur hennar/hans sé réttur við fyrir dómstólum. Ég á mér þá ósk að öll þau sem verða fyrir nauðgun geti haldið út allt til enda. Að þau láti ekki kærur niður falla eða áhrif og völd hafa áhrif á sig, heldur gangi þessa götu alla leið fyrir dómstólum.

Við höfum ekki endilega vald á því sem kemur fyrir okkur sem manneskjur í flóknum heimi. En við höfum val um það hvernig við bregðumst við andstreymi og hvað við látum yfir okkur ganga. Dómskerfið dæmir að sönnu ekki alltaf brotaþolum í hag. En dómar, fordæmisgildi þeirra og sá texti og umræðugrundvöllur sem þeir skapa skipta miklu máli.

Og smátt og smátt breytum við heiminum.

Nýjar greinar sem ég hef skrifað á knúzinu um kirkjuofbeldi og vændi

Ég hef síðustu vikuna birt tvær greinar á jafnréttisvefnum http://www.knuz.is. Það eru sindrandi skemmtilegar greinar á knúzinu og mér er heiður að því að fá að drepa þar niður penna.

„Sean Penn kaupir ekki stúlkur“, www.knuz.is, 31. október 2011

„Garður er granna sættir“, www.knuz.is, 24. október 2011.

Fyrri greinin „Garður er granna sættir“ birtist 24. október fjallar um málþingið og námskeiðið um kirkju og kynferðisofbeldi með Marie Fortune og þær hugrenningar sem þessir góðu viðburði vöktu hjá mér um nýlegt barnaverndarmál þar sem sóknarprestur kom við sögu.

Síðari greinin fjallar um vændi og nýlega herferð í Bandaríkjunum gegn mansali sem kallar fram áleitnar spurningar um tengsl karlmennsku, mansals og vændis. Það væri gaman ef þið kíktuð á þær. Knúz!

Um falskar minningar

Um falskar minningar: Svar ellefu Þjóðkirkjupresta við grein sr. Kristins Jens Sigurþórssonar (Í Fréttablaðinu 29. október 2011)

Síðastliðinn fimmtudag birtist grein í Fréttablaðinu eftir sr. Kristin Jens Sigurþórsson þar sem hann fjallar um reynslusögu Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur. Í greininni segir:

„Það hlýtur að vekja spurningar með öllum þeim sem lesa um minningar Guðrúnar Ebbu hvernig hægt sé að gleyma áratugslangri kynferðismisnotkun og ofbeldi jafn rækilega og hún segist hafa gert.“

Sr. Kristinn Jens ræðir um fákunnáttu fagmanna sem leiði skjólstæðinga sína á villigötur og telur að eftir lestur um falskar minningar sé

„erfitt að verjast þeirri hugsun að Guðrún Ebba sé eitt fórnarlambið í viðbót.“

Okkur sem þetta ritum þykir miður hvernig greinin er sett fram og nefnum þrenns konar ástæður. Þau sem gera upp minningar af kynferðisafbrotum og sifjaspellum upplifa mikla höfnun og sársauka þegar orð þeirra eru sögð marklaus og þau dregin í efa. Við teljum að veigamiklar ástæður þurfa að liggja til grundvallar því að véfengja slíkan vitnisburð.

Í öðru lagi teljum við að þær „hugsanir“ sem sr. Kristinn Jens fær vart varist um að sálfræðingurinn Ása Guðmundsdóttir hafi gert fórnarlamb úr skjólstæðingi sínum nálgist atvinnuróg.  Að okkar mati þarf gild rök til að kasta rýrð á greiningar sálfræðings með þeim hætti sem hér er gert. Við álítum að umræða um sálfræðigreiningar þurfi að fara fram á faglegum nótum af til þess bærum sérfræðingum.

Í þriðja lagi er saga Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur sögð í skugga mistaka ýmissa kirkjunnar þjóna í kynferðisafbrotamálum tengdum nafni Ólafs Skúlasonar og sem eru tilgreind í skýrslu Rannsóknarnefndar Kirkjuþings. Þjóðkirkjan sem stofnun hefur misst traust sem hún áður naut. Því teljum við særandi að starfandi prestur í Þjóðkirkju Íslands skuli draga reynslu Guðrúnar Ebbu í efa í blaðagrein. Þjóðkirkjan þarf að endurvinna traust með faglegum vinnubrögðum og af nærgætni við það hugrakka fólk sem opinberar reynslu sína af kynferðisafbrotum. Við teljum grein starfsbróður okkar ekki gott veganesti á þeirri vegferð.

Auður Inga Einarsdóttir, Bjarni Karlsson, Guðmundur Örn Jónsson, Guðrún Karlsdóttir, Hólmgrímur E Bragason, Íris Kristjánsdóttir, Jóna Lovísa Jónsdóttir, Kristín Þórunn Tómasdóttir, Sigfinnur Þorleifsson, Sigríður Guðmarsdóttir, Svanhildur Blöndal.

Höfundar eru prestar í Þjóðkirkju Íslands