Efnisorð: jafnrétti

Abba

Prédikun í Guðríðarkirkju á hinsegin dögum, 8. su. e. þrenningarhátíð, 10. ágúst 2014

Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. Róm 8:15

I.

Þegar nafnið Abba er slegið inn í leitarvél á netinu koma fram upplýsingar um sænska poppgrúppu sem naut mikilla vinsælda á sjöunda og áttunda áratugnum. Fyrir þau okkar sem vorum börn, unglingar og ungar manneskjur á þessum tíma kallar nafnið Abba fram myndir af glansgöllum og diskótónlist, þar sem sungið var um ástina í angurværum ballöðum eða með rokkaðri skemmtarasveiflu. Nafnið Abba, í augum okkar af diskókynslóðinni er þannig tengt silkihúfum, útvíðum buxum, pastelaugnskuggum, háum hælum og gerviefnum ásamt grípandi söngtextum á borð við „Thank you for the music“, „Chiquitita“ og „Dancing Queen.“

Þegar við flettum upp í Nýja testamentinu rekumst við líka á orðið Abba. Orðið kemur aðeins þrisvar fyrir í allri Biblíunni, en það hefur sett sterkan svip á tilbeiðslu og guðfræði kirkjunnar í tvö þúsund ár. Í Getsemanegarðinum, þegar Jesús biður til Guðs á móðurmáli sínu arameísku, notar hann orðið Abba, sem þýðir pabbi. Á sinni erfiðustu stund talar hann við Abba. Sama orð kemur fyrir í Pálsbréfum, í ritningarlestri dagsins úr Rómverjabréfinu og síðan Galatabréfinu. Tveimur síðarnefndu textunum ber saman. Þar er okkur sagt að andi Krists sem í okkur býr ávarpi Guð sem Abba.

Við fyrstu sýn er varla hægt að hugsa sér meiri andstæður en þessar tvær merkingar abbaorðsins sem hér hafa verið kynntar, glimmerheimur skandinavíupoppsins og hið lágværa, nána samtal Guðs og barns. Og samt fjölluðu textar Abbagrúppunnar sem ég heillaðist af sem barn flestir um þá tilfinningu að vera elskaður og að tilheyra öðrum. Í kristinni trú, er þessi sterka tilfinning ástarþrárinnar tengd Guði sem skapar, frelsar og elskar. Þetta afl birtir Jesús Kristur. Og hann kallar það með nafni og líkingu sem er nærtæk og innileg. Hann kallar Guð pabba og leitar til Guðs þegar hann er hræddur, kvíðinn og einmana.

Í ritningarlestri dagsins úr áttunda kafla Rómverjabréfsins fjallar Páll postuli um mikilvægi þess að elska aðra og hugsa út fyrir sjálfan sig. „Sjálfshyggjan er dauði en hyggja andans líf og friður,“ segir í kaflanum. Í staðinn fyrir að hugsa bara um sjálfan sig bendir postulinn okkur á líf í andanum, sem er líf í tengslum við Guð, aðrar manneskjur og lífið allt. Gleðitíðindin sem textinn boðar er sá að við þurfum ekki að standa ein undir öllu sem einstaklingar.

Við þurfum ekki að vera fullkomin, óvinnanleg eða sjálfum okkur nóg um alla hluti.
Við erum ekki víggirðing.
Við erum manneskjur.
Við megum vera veikburða á einhverjum sviðum.
Við erum börn Guðs og getum talað við Guð eins og Jesús gerði
verið elskuð af Guði
þegið styrk af Guði.
Andi Guðs talar í okkur þegar við leitum samfélags við Guð og lifum lífi í tengslum
í stað þess að hnipra okkur saman í sjálfshyggjunni.
Það er hyggja andans, líf og friður.

 II.

Það er fermingardagur og í dag mun ung stúlka ganga upp að altari Drottins og gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns. Fermingarheitið fjallar í raun um það sama og ritningarlesturinn, að eiga Krist að vini, að leitast við að lifa í tengslum við Guð og í elsku til náungans. Heitið markar þannig ákveðna stefnu sem þú hefur valið, kæra fermingarbarn, stefnu út fyrir þig sjálfa og yfir til alls lífs sem þér er tengt.  Veröldin er stór og þú ert á leiðinni út í hana. Og þetta er spennandi veröld sem er full af spennandi tækifærum til þroska og uppátækja. Vonandi átt þú eftir að grípa þau sem flest. Hafðu það hugfast að þú ert barn Guðs, mundu það þegar þeir tímar koma að þú vantreystir þér og öðrum.  Megir þú hafa bænarorð Jesú Krists á vörunum, vegna þess að Abba mun sjá um þig, hjálpa þér að finna rétta vegu í lífinu og leiðbeina þér upp úr vandanum, þegar þú gerir mistök.

En Abba er engin einkaeign. Við eigum Guð, en við eigum Guð ekki ein, heldur með heiminum öllum. Guð kallar okkur til lífs í samfélagi, og okkur er ætlað að gera heiminn eins góðan og við mögulega getum.

Það er ekki alltaf auðvelt að opna hjarta sitt fyrir lífi heimsins. Heimurinn á svo mikla gleði og sorg og það virðist eitthvað svo sérstaklega órólegt í veröldinni núna. Við hugsum til fólksins í hinni stríðshrjáðu Gazaborg, til þeirra sem búa við ófriðinn milli Ísrael og Palesínu, til þeirra sem lifa við borgarastyrjöld í Sýrlandi, til þeirra sem búa í austurhluta Úkraínu, til trúsystkina okkar og jazída sem ofsótt eru í Írak um þessar mundir. Við hugsum til þeirra sem búa við óhreint drykkjarvatn og slæma heilbrigðisþjónustu, þeirra sem svelta á Sahel svæðinu, til fólks í fátækrahverfum um veröld víða, til þeirra sem seld eru mansali og eiga hvergi höfði sínu að halla í veröldinni. Um þessa helgi þegar fjölbreytileikanum er fagnað og fjórðungur Íslendinga brá sér niður í bæ til að fylgjast með gleðigöngunni í gær, er líka nærtækt að hugsa til allra þeirra sem búa við ofsóknir vegna kynhneigðar og þeirra sem passa ekki í fyrirframgefin viðmið okkar um það sem talið er venjulegt og sjálfsagt.

Abba, faðir, andvarpaði Jesús í Getsemane garðinum. Og við andvörpum líka þegar við horfumst í augu við böl heimsins. Þegar við köllum Guð hinu innilega nafni, undirstrikum við jafnframt að Guð er Guð allra og alls. Guð vill að við eigum öll húsaskjól og búum við öryggi. Guð vill að við lærum að elska aðrar manneskjur, setja þeim og sjálfum okkur mörk, að við lifum í hyggju andans þar sem er líf og friður. Og þegar við heitum því að gera Jesú Krist að vini og leiðtoga, þá er það loforð sem maður heldur áfram að glíma við ævina á enda. Þessi vinátta, leiðsla og tengsl er ekki aðeins eintal við guðdóminn í kirkju eins og í dag, heldur stefnumót við lífið í fjölbreytileika sínum, gleði, spennu og hættum. Við berum ábyrgð á heiminum, vegna þess að Guðs börn, erfingjar Guðs, samarfar Jesú Krists og systkin okkar búa þar. Þennan skilning á ástinni hefur fermingarbarnið undirstrikað með ritningarversinu sem hún valdi sér úr fyrsta Jóhannesarbréfi: Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.

Ég talaði áðan um poppið og glimmerið sem einkenndi mína uppáhaldshljómsveit sem barn.  Abba æsku minnar kallaði fram sveiflu og dans, skemmtilegan takt og grípandi laglínur um ástina og tónlistina. Abbalögin minntu mann á að það er ekki nóg að tala um gleði, maður þarf að dansa hana, syngja hana, hlæja henni til heiðurs og njóta hennar í tengslum við aðra. Hin árvissa helgi hinsegindaganna  minnir okkur á þetta. Litskrúðugir fánar blakta við hún í öllum litum regnbogans. Sumum finnst of mikið gert úr þessu hér á Íslandi og að hommarnir og lesbíurnar séu að hertaka allt mannlífið. En röndótti fáninn fjallar um fjölbreytileika, ekki einsleitni. Hann fjallar um að það er rúm og staður fyrir okkur öll í veröldinni, ef við gefum hvert öðru hjartarúm.

Við erum öll í líkama.
Við erum börn Guðs og megum kalla Guð Abba.

Boðskapinn um að það er rúm fyrir okkur öll þarf líka að yfirfæra til annarra þeirra sem standa höllum fæti í veröldinni, vegna þess að þau búa við fátækt og fötlun, eru konur í heimi sem er enn að miklu leyti stjórnað af körlum, búa annars staðar en í Evrópu og Norður Ameríku, eru komin af léttasta skeiði, tilheyra framandi menningu og trúarbrögðum eða hafa annan húðlit en þann bleika sem algengastur er á Íslandi.

Það er ótrúleg upplifun að standa niðri í bæ og fylgjast með öllu fólkinu í mannþrönginni sem kemur til að taka þátt í gleði og lifa í tengslum við fólk sem er þeim margt hvert mjög framandi. Ég hygg að það sé einstakt í heiminum að svo almenn þátttaka sé í gleðigöngu á hinsegin dögum og það segir okkur eitthvað mikilvægt um ástina, gleðina, samfélagið, taktinn, lífið og friðinn sem við þráum að búa við í veröldinni.

Abba.

Með þessu orði kenndi Jesús okkur að biðja til Guðs. Páll postuli segir okkur í ritningarlestri dagsins að við getum verið vonglöð og hugdjörf, því að við erum erfingjar Guðs og samarfar Krists. Að við megum kalla á Guð og kalla Guð pabba og mömmu. Abba er orð sem mann langar til syngja við og dansa og helst með sænskum hreim.

Og það er ekki síst þess vegna sem við getum horfst í augu við erfiðu hliðar mannlífsins, við styrjaldarógn, ofsóknir og hörmungar heimsins. Það er ekki síst þess vegna sem við getum tekist á við það sem bjátar á í eigin lífi. Nándin við Guð getur hjálpað okkur til að lifa í tengslum, í hyggju andans frekar en sjálfshyggjunni, í lífi og friði, frekar en deyfð og óróa. Abba  gefi okkur öllum gæfu til þess.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Abba Number One

Ólöf Nordal

Mér finnst Ólöf Nordal hafa komið vel fram með því að tilkynna um að hún muni ekki gefa kost á sér áfram. Hver og ein/n getur hætt í pólitík þegar henni sýnist og sagt af sér ábyrgðarstörfum. En það lýsir ábyrgðartilfinningu og umhyggju fyrir landi og eigin stjórnmálaflokki að hætta með góðum fyrirvara og taka þá ákvörðun átta mánuðum fyrir alþingiskosningar svo að nægur tími vinnist til að þétta raðirnar. Ég vona að umræðan um að mikilvægt sé að Sjálfstæðisflokkurinn endurspegli þverskurð samfélagsins haldi áfram. Þverskurður getur ekki verið af aðeins öðru kyninu og ómögulegt að allar silkihúfur flokksins séu karlkyns.

Nú er ég að vona að Jóhanna Sigurðardóttir tilkynni bráðum að hún gefi ekki kost á sér aftur sem formaður Samfylkingar. Ég ber virðingu fyrir Jóhönnu og tel að hún hafi tekið við erfiðu búi á ögurstundu. En ef hún metur flokkinn sinn ofar eigin egói, þá stígur hún til hliðar núna.

Myndin af Ólöfu Nordal er tekin af vef Alþingis.

Þrýstnar konur og volæði kynsystranna

Þátturinn „Lark Rise to Candleford“ hefur verið sýndur að undanförnu í RÚV. Segir þar frá lífi ensks fólks í þorpum tveim í lok nítjándu aldar. Í síðasta þætti sem sýndur var í gær greinir frá Susan Braby, ungri fjölskyldukonu sem mætir dag einn með stórt glóðarauga í þorpið. Hún leitar uppi dómarann og ákærir eiginmanninn Sam fyrir að hafa lagt á sig hendur eftir að hafa drukkið sig fullan á kránni. Þorpsbúar skiptast í tvö horn með eða á móti Susan og jafnvel þau sem sem vilja styðja hana eru efins um að hún eigi að blanda yfirvöldunum í málið. Þau telja að réttast sé að leysa vandamál einkalífsins heima fyrir, ekki í hinu opinbera rými. Sam snýr heim úr fangelsinu nýr og betri maður eftir að hafa unnið eið um ævilangt bindindi og allt fellur í ljúfa löð á Lævirkjahæð.

Bresku þættirnir eiga að gerast fyrir rúmri öld, en viðhorfið til heimilisofbeldis sem fram kemur í þessum þætti hefur reynst furðanlega lífseigt. Ekki er langt síðan að menn veltu því enn fyrir sér hvort heimilisofbeldi væri til á Íslandi. Aðrir viðurkenndu að ofbeldi væri til en töldu það eiga sér eðlilegar orsakir. Ég minnist samtals sem ég varð vitni sem unglingur milli eldri hjóna sem ég bar mikla virðingu fyrir. Konan var að segja manninum frá atviki sem hafði gerst fyrr í vikunni þar sem maður hafði gengið í skrokk á konu sinni. Maðurinn svaraði á móti:  „Hún hefur eflaust verið búin að leggja inn fyrir því.“ Ég hef aldrei getað gleymt þessu tilsvari og því viðhorfi til heimilisofbeldis og stöðu kvenna sem það endurspeglaði. Susan Braby hefur örugglega „lagt inn“ fyrir glóðarauganu líka.

Á þessu ári eru þrír áratugir liðnir síðan að samtök um kvennaathvarf voru stofnuð í Reykjavík. Ekki leist öllum á blikuna og þannig skrifar Herbert Guðmundsson umsjónarmaður Sandkorns um fyrirhugað kvennaathvarf í DV 20. júlí 1982 undir fyrirsögninni: „Hvers eiga karlarnir nú að gjalda?“ (bls. 31, sjá hér).

Undanfarið hefur hópur þrýstinna kvenna haft uppi í fjölmiðlum kenningar um volæði kynsystra sinna sem þær segja misþyrmt af eiginmönnum og sambýlismönnum. Er hópurinn mjög áfram um að komið verði á fót svokölluðu kvennaathvarfi, eins konar flóttakvennabúðum.

Ástæðulaust er að gera lítið úr þessu vandamáli,sem efalaust er til þótt skýrslur frá Skandinavíu segi okkur nákvæmlega ekkert um aðstæður hér á landi. Hitt er þó jafnvafalaust að vandamálið snýr fjarri því alfarið að volæði kvenna. Ýmsar fregnir, fyrr og síðar, benda til þess að heimiliserjur bitni ekkert síður á körlum en konum, bæði andlega og líkamlega.

Þess vegna er rökstuðningurinn fyrir stofnun kvennaathvarfs meiri háttar blekking um afleiðingar persónulegra árekstra á íslenzkum heimilum. Þar er öll sökin felld á karlana og neyðin dæmd konunum sem er staðlaus sleggjudómur. Þetta vandamál er ekki svona einfalt, því miður. Ef samfélagið á að fást við það, þarf að sneiða hjá þröngsýni af þvi tagi sem kvennahópurinn hellir nú yfir karlpeninginn í landinu eins og  hann leggur sig.

Grein Herberts hefur að geyma ýmis klassísk stef í umræðunni um kvennaathvarf og heimilisofbeldi. Hann byrjar á að vísa til „þrýstinna“ kvenna og erfitt er að átta sig á hvort konurnar sem um er rætt hafa verið svona þéttholda eða svona frekar í umræðunni. Konurnar hafa uppi meintar kenningar, og þær rannsóknir sem þær vísa til á Norðurlöndunum telur greinarhöfundurinn ekki marktækar. Og þó að eitthvað væri til í þessu með ofbeldið hjá þrýstnu konunum, þá dregur Herbert fram annað spil úr erminni sem hann telur sterkara málflutningi kvennanna. Heimilisofbeldi kemur nefnilega alveg eins niður á körlum og konum að hans mati. Hann ræðir hvergi um ofbeldi, heldur „heimiliserjur“ og „persónulega árekstra“. Loks sker greinarhöfundur upp herör gegn „sleggjudómum“ , „blekkingum“ og „þröngsýni“ hinna þrýstnu kvenna sem höfðu leyft sér að benda á kynbundna vídd heimilisofbeldis.

Svo dregið sé saman, þá er heimilisofbeldi að herbertskum sið:

  • hugsanlega til
  • ekki stutt rannsóknum (af því að aðstæður hér á landi séu eflaust allt öðru vísi en á hinum Norðurlöndunum)
  • ekki kynbundið, heldur komi jafnt niður á körlum og konum, ekki sérstakt „volæði“ kvenna
  •  „persónulegir árekstrar“ sem þar með komi hinu opinbera rými lítið við
  • jafnt sök kvenna og karla (skyldu þær hafa lagt inn fyrir því?)
  • og engin þörf fyrir kvennaathvarf, því að slíkar „flóttakvennabúðir“ muni einungis ýta undir „sleggjudóma“ gegn karlmönnum.

Afneitun á kynferðisofbeldi, lítið gert úr fræðilegum upplýsingum, afneitun á því að ofbeldi geti verið kynbundið, krafa um að heimilisofbeldi tilheyri hinu persónulega rými, sök sett á þau sem verða fyrir ofbeldinu, þörfin á úrræðunum töluð niður. Kannast einhver við slíka orðræðu um kynferðislegt ofbeldi?

Samtök um kvennaathvarf gerðu athugasemdir við skrif Herberts í sama blaði 6. ágúst s.á., þar sem bent var á tölur Borgarspítalans um heimilisofbeldi gegn konum. Svargreinina má nálgast hér.

Þrjátíu ár eru liðin og fáir andæfa nú veruleika heimilisofbeldis opinberlega. Það gengur hins vegar hægt að uppræta það og þörfin á kvennaathvarfi er rík nú sem fyrr. Ég hef á undanförnum árum flutt tvær prédikanir í Guðríðarkirkju um heimilisofbeldi. Þær má nálgast hér og hér. Ég hvet þig til að lesa þær.

Við þurfum að halda vöku okkar.

Enginn „leggur inn“ fyrir ofbeldi.

Viðurkenning á kynbundnu ofbeldi er ekki áfellisdómur yfir öllum karlmönnum.

Susan Braby átti ekki glóðaraugað skilið. Volæðið sem Herbert nefnir er nefnilega ekki volæði kynsystranna, heldur þeirra sem beita ofbeldi. Við þurfum öll á „þrýstnum“ konum og körlum að halda til að binda enda á volæði kynbundins ofbeldis.

Skerí, skerí, úrskurðarnefnd

Ef söfnuður kallar eftir því að guðfræðimenntaður starfsmaður safnaðarins sé vígður til prestsembættis, þarf þá að auglýsa stöðuna? Er þetta sama staðan, eða verður sjálfkrafa til nýtt prestsembætti þegar t.d. æskulýðsfulltrúa er breytt í prest? Er slík tilhögun í samræmi við jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar? Má takmarka starfssvið prests með ráðningarsamningi? Má takmarka vígsluvald biskups með starfsreglum og lögum? Þetta eru allt spurningar sem stjórnsýslan í kirkjunni hefur tekist á við á undanförnum árum. Þessar spurningar fjalla líka um guðfræðilegan skilning á embætti prests og biskups.

Río+20

Río +20

Umhverfismál eru mál allra og tengjast ýmsum öðrum málaflokkum eins og efnahagsmálum, þróunarmálum og jafnréttismálum. Kirkjustarf tengist umhverfismálum í vaxandi mæli víða um lönd og sú þróun á eftir að halda áfram. Trúað fólk er í vaxandi mæli farið að tengja náungakærleik, heildræna hugsun og umhverfisvernd sem vettvang, þjónustu og samhengi trúarinnar á hið skapandi, frelsandi og helgandi afl sem við köllum Guð.

Ef kristnir menn taka trúarlærdómana um forsjón Guðs og ráðsmennskuhlutverk manneskjunnar alvarlega hlýtur það að vera trúarlegt viðfangsefni að fylgjast með skrefunum sem stigið er í átt til sjálfbærrar þróunar vegna vistkreppunnar í heiminum og tengsla þeirrar kreppu við fátækt og misrétti barna jarðar. Sem betur fer eru þau skref mörg og áhugaverð enda vandinn stór sem við er að etja. Sameinuðu þjóðirnar hafa um fjörutíu ára skeið tekið forystu í að því að kalla þjóðir heims til samræðu og skuldbindinga vegna vistkreppunnar í heiminum. Fyrsta ráðstefna SÞ var haldin í Stokkhólmi árið 1972 um „Umhverfi mannsins“ og er vel frá ráðstefnunni sagt í bók Hjörleifs Guttormssonar „Vistkreppa eða náttúruvernd“ frá árinu 1974, bls. 61-75. Hugmyndin um sjálfbæra þróun þar sem fléttaðir væru saman efnahagslegir, félagslegir og umhverfislegir þættir ruddi sér til rúms með hinni svokölluðu Brundlandtskýrslu 1987. Tuttugu árum eftir Stokkhólmsráðstefnuna var ákveðið að halda aðra ráðstefnu þar sem áhersla yrði lögð á sjálfbæra þróun.

Það er hins vegar með heimsráðstefnunni um sjálfbæra þróun í Río de Janeiro 1992 sem þessar hugmyndir verða að alþjóðlegum skuldbindingum þjóða á milli. Þessar alþjóðlegu skuldbindingar eru einatt kenndar við Río og liggja til grundvallar alþjóðlegu samstarfi á sviði sjálfbærrar þróunar. Vönduð skýrsla var unnin um þessa merku ráðstefnu á vegum sendinefndar Umhverfisráðuneytisins og má nálgast hana hér. Meðal þess sem ávannst á Ríoráðstefnunni voru tveir alþjóðlegir samningar á sviði líffræðilegrar fjölbreytni og loftslagsmála, framkvæmdaáætlunin Staðardagskrá 21 og hin svokallaða Ríoyfirlýsing í 27 liðum. Fundurinn var einnig nefndur Leiðtogafundur (Earth Summit) og áhersla lögð á að þar kæmu saman þjóðarleiðtogar til að ráðgast saman um framtíð jarðar, auk fulltrúa fyrirtækja og félagasamtaka.

Þegar tuttugu ár voru liðin frá Río og fjörutíu ár frá Stokkhólmsráðstefnunni kölluðu Sameinuðu þjóðirnar enn á ný til leiðtogafundar. Ráðstefna Sameinuðu Þjóðanna um sameiginlega þróun var haldin í Río de Janeiró 20.-22. júní 2012 og er ráðstefnan í daglegu tali kölluð Río +20 til að undirstrika þessa merku sjálfbærniarfleifð. Í ljósi sögunnar, samninganna og hinna stóru verkefna sem við blasa voru miklar væntingar bundnar við Río+20.

Nú þegar ráðstefnunni er lokið eru ekki allir á eitt sáttir um það hvort afraksturinn af Ríoráðstefnunni hafi verið mikill eða lítill. „Framtíðin sem við viljum“ er 53 blaðsíðna skýrsla sem samþykkt var á ráðstefnunni. Hana má nálgast hér á ensku.  Í framtíðarskýrslunni er fjallað um grænt hagkerfi og sjálfbærnimarkmið sett sem eiga að koma í stað hinna svokölluðu þúsaldarmarkmiða frá og með árinu 2015 . Það er vissulega mikilvægt að þjóðir heimsins setji sér sameiginleg, mælanleg og tímasett markmið um fæðuöryggi, orkumál og aðgang að vatni. Sagt er frá ráðstefnunni á vef Umhverfisráðuneytisins (sjá hér) og því lýst að Ísland hafi sett á oddinn málefni hafsins, sjálfbær landnýtingu, endurnýjanlega orku og jafnréttismál. Ráðuneytið telur að mikilvægir áfangar hafi náðst við verndun hafsins en að hægt gangi að sannfæra þjóðir heims um mikilvægi þess að samþætta jafnréttismál og umhverfismál, t.d. með því að fjalla um tengslin á milli offjölgunar, fátæktar og valdaleysi kvenna yfir eigin líkömum og getnaðarvörnum.

Stjórnarfundur Lútherska heimssambandsins (LWF) haldinn í Bógota í Brasilíu í síðustu viku sendi frá sér harðorða yfirlýsingu vegna skýrslunnar „Framtíðin sem við viljum“ (sjá hér). LWF eru samtök 145 lútherskra kirkna í heiminum sem 70,5 milljónir manna tilheyra. LWF er mjög virkt á sviði ýmissar réttindamála, t.d. varðandi jafnrétti, umhverfi og fátækt í heiminum. Í yfirlýsingunni koma fram áhyggjur stjórnarmanna af því að skýrslan hafi ekki hagsmuni almennings í fyrirrúmi, heldur hagsmuni alþjóðlegra fyrirtækja og efnahagskerfa. Telur LWF að mikið vanti á að skýrslan sé nothæf til þess að draga hratt og örugglega úr fátækt og efla heilsu þeirra sem minnst eiga á jarðarkringlunni.

Ég vil hvetja þess að fólk á vettvangi kirkjunnar komi saman og kynni sér Framtíðarskýrsluna. Alþjóðlegar skýrslur eru sannkallað torf að lesa, en það hjálpar mikið að taka fyrir einstaka hluta og ræða þá. Þessar skýrslur hafa að gera með framtíð og hag milljóna manna og milljarða lífvera. Margir telja að stríð 21. aldarinnar eigi að mestu eftir að snúast um auðlindir eins og vatn, gas og olíu. Alþjóðlegir samningar um nýtingu hafs og lands, fátækt, landrof, auðlindir, loftslag og jafnrétti eru því ekki aðeins stafkrókar á blaði, heldur þættir í þeim siðferðilegu skorðum sem þjóðir heimsins setja sér á nýrri öld.

Meistarinn frá Nasaret hvatti menn forðum daga til að líta til lilja vallarins og fugla himinsins. Boðskapur hans er arfur hinnar spámannlegu hefðar sem áréttaði miskunnsemi og réttlæti, arfur Jobsbókar sem bað fólk að láta skepnur og dýr merkurinnar kenna sér og læra af fiskum hafsins.

Þess vegna ættu ályktanir Río plús og framgangur sjálfbærrar þróunar að vera kristnu fólki hjartans mál og bænarefni.

Jafnréttið í forsætisráðuneytinu

Áhugaverður dómur um jafnréttismál féll í síðustu viku, dómur sem valdið hefur miklum pólitískum titringi. Hann má lesa hér. Margir telja að umræður um dóminn endurspegli átök og núning milli ólíkra hreyfinga innan Samfylkingarinnar. Ýmsir telja málið þannig vaxið að forsætisráðherra muni þurfa að segja af sér vegna þess, ekki síst vegna þess að hún krafðist afsagnar ráðherra sem varð uppvís að jafnréttislagabroti árið 2004.

Ég hef meiri áhuga á jafnréttisdómnum sjálfum og því fordæmi sem hvert slíkt mál setur, heldur en að skipa mér í fylkingu með eða á móti forsætisráðherra. Og þess vegna vil ég rýna um stund í dómsorðin. Ég tel tvennt hafi gerst með þessum nýja dómi sem hafi áhrif á jafnréttismál framtíðarinnar.

Í fyrsta lagi hafa breytingar á jafnréttislögunum 2008 haft í för með sér aukið vægi kærunefndar jafnréttismála og þetta vægi er áréttað í dómnum. Í öðru lagi tel ég að í þessu jafnréttismáli hafi í fyrsta sinn verið viðurkenndur miski í jafnréttismáli, en hingað til hefur fjárhagslegur skaði eingöngu verið lagður til grundvallar bóta til þeirra sem verða fyrir jafnréttisbrotum. Hvort tveggja þessara atriða eru mikilvæg fyrir jafnréttismálin í landinu og því gleðst ég yfir niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur. Hér kemur nánari útlistun á þessum tveimur atriðum:

BINDANDI KÆRUNEFNDARÚRSKURÐUR

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála var birtur í mars 2011 og hann má lesa hér. Þar segir í niðurstöðu:

  1. Forsætisráðuneytið hefur ekki sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið því er sá sem embættið hlaut var skipaður en ekki kærandi. Þegar menntun kæranda, starfsreynsla og hæfni í þeim sérstöku hæfnisþáttum sem sérstaklega var óskað eftir er borin saman við sambærilega kosti þess sem embættið hlaut verður vart önnur ályktun dregin en að kærandi hafi í það minnsta verið jafn hæf og sá sem embættið hlaut.
  2. Fyrir liggur að allir fjórir skrifstofustjórar forsætisráðuneytisins eru karlar og af 54 skrifstofustjórum Stjórnarráðsins, að utanríkisráðuneytinu undanskildu, voru á þeim tíma sem hér um ræðir og eftir því sem næst verður komist, 38 karlar og 16 konur.
  3. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar jafnréttismála að forsætisráðuneytið hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar því að gengið var fram hjá kæranda við skipun í embætti skrifstofustjóra hjá ráðuneytinu, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.

Sumsé þá kemst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að Anna Kristín hafi verið að minnsta kosti jafnhæf og sá sem starfið fékk. Þar með telur kærunefndin að jafnréttislögin verið brotin.

Fram til 2008 voru niðurstöður kærunefndar fyrst og fremst ráðgefandi. Nefndin hefur þannig breyst úr álitsgjafa í úrskurðarnefnd og má lesa marga af úrskurðum (áður álit) kærunefndar jafnréttismála hér. Í 5. grein jafnréttislaga segir:

Úrskurðir kærunefndar eru bindandi gagnvart málsaðilum. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Að kröfu málsaðila getur nefndin kveðið upp úrskurð um frestun réttaráhrifa úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en tíu dögum frá birtingu úrskurðar. Frestun á réttaráhrifum úrskurðar skal vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan þrjátíu daga frá birtingu úrskurðar um frestun réttaráhrifa og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Ef beiðni um flýtimeðferð er synjað skal mál höfðað eins fljótt og unnt er eftir að synjun kemur fram og eigi síðar en innan þrjátíu daga frá synjun dómara. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki borið undir dómstóla innan þrjátíu daga frá birtingu úrskurðar um frestun réttaráhrifa eða mál er ekki höfðað innan þrjátíu daga frá synjun dómara um flýtimeðferð. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála sem eru til meðferðar hjá henni þar til dómur gengur í málinu.

Þar sem niðurstaða kærunefndar er bindandi skv. 5 gr. , hefði forsætisráðuneytið þurft að bregðast við úrskurðinum fyrir dómstólum ef það var ósammála niðurstöðunni. Greinilegt er á dómsorði Héraðsdóms að forsætisráðuneytið hefur ekki hirt um að reyna að hnekkja niðurstöðu kærunefndar fyrir dómstólum innan tilskilins tíma og þar með fresta réttaráhrifunum. Ráðuneytið brást ekki við og hefur því samþykkt úrskurðinn með þögninni. Þess vegna kemst dómurinn að eftirfarandi niðurstöðu:  Forsætisráðuneytið braut jafnréttislög við ráðningu skrifstofustjóra.

Það sem er mikilvægt við þessa niðurstöðu er að nú er ekki lengur hægt að dusta niðurstöður kærunefndar jafnréttismála af sér eins og rykkorn af skyrtuermi. Stofnanirnar sem kærðar eru þurfa að taka til varna fyrir dómstólum ef þau fá á sig jafnréttisúrskurð í stað þess að einstaklingurinn þurfi aftur að sækja sinn rétt og byrja frá grunni fyrir dómstólunum. Jafnréttislögin byggja á stjórnsýslulögunum og sá lagabálkur á að standa vörð um rétt einstaklingsins frammi fyrir stóru skrifstofubákni með öllum sínum bjargráðum. Þeir hagsmunir borgaranna eru áréttaðir hér og ég tel það vera gleðilegt. Svo geta menn endalaust þrúkkað um það hvort niðurstaða kærunefndar hafi verið rétt. Það einfaldlega skiptir ekki máli fyrir niðurstöðu dómsins, því að forsætisráðuneytið hirti ekki um að leita réttar síns á réttum stað og réttum tíma. Og það sem kannski er einkennilegast af þessu öllu er að frumvarp um að úrskurðir kærunefndar skyldu vera bindandi var fyrst lagt fram á Alþingi á löggjafarþinginu 2003-4- af núverandi forsætisráðherra (sjá hér).

FYRSTI MISKINN Í JAFNRÉTTISMÁLI?

Nú ætla ég að fullyrða dálítið sem ég held að sé rétt. Viti einhver betur þigg ég fúslega leiðréttingar. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem miski er greiddur í jafnréttismáli. Munurinn á skaðabótum og miskabótum er sá að skaðinn fjallar um beint fjárhagstjón sem af brotinu hlýst, en miskinn um annað tjón en hins fjárhagslega, t.d. vegna álitshnekkis. Skaðabætur eru skattskyldar en miskabætur ekki. Mér vitanlega hafa aldrei verið greiddar miskabætur í jafnréttismáli og tel ég að það geti stafað af því að enn telji fólk það ekki vera neitt sérstaklega alvarlegt að brjóta jafnréttislögin. Ég tel það því vera merkilegt mjög að Önnu Kristínu skuli hafa verið dæmdar miskabætur vegna framkomu ráðuneytisins við hana eftir að úrskurður kærunefndarinnar lá fyrir.

AÐ FÁ EÐA FÁ EKKI SKAÐABÆTUR

Dómurinn sýknaði forsætisráðuneytið af skaðabótakröfu Önnu Kristínar. Ég hef heyrt ýmsa túlka dóminn á þann hátt að ráðuneytið hafi ekki brotið jafnréttislögin og því hafi hún ekki átt rétt á skaðabótum. Það er hins vegar ekki rétt. Eins og áður sagði áréttar dómurinn 5. grein jafnréttislaga þar sem segir að úrskurðir kærunefndar jafnréttislaga skuli vera bindandi, nema að hinn kærði reyni að hnekkja úrskurðinum fyrir dómstólum. Það var ekki gert og þar með teljast jafnréttislögin brotin. Þá átti dómurinn hins vegar eftir að svara spurningunni um hvort beri að greiða þeim sem varð fyrir jafnréttislagabrotinu skaðabætur, sumsé hvort sannað sé að hún hafi orðið fyrir fjárhagslegum skaða af því að jafnréttislögin voru brotin á henni.

Ef umsækjendur um stöðuna hefðu aðeins verið tveir hefði þótt fullsannað að forsætisráðuneytið ætti að greiða Önnu Kristínu skaðabætur í ljósi þess að kærunefnd jafnréttismála hafði komist að þeirri niðurstöðu að hún væri að minnsta kosti jafnhæf og sá karlmaður sem um stöðuna sótti. En nú voru þau sem komust í úrslit fimm talsins og hinir þrír umsækjendurnir allar konur. Upplýsingar um hæfi þessara þriggja umsækjenda lágu ekki fyrir, þær kærðu ekki og töldust þar með ekki aðilar málsins.

Dómurinn hafnar skaðabótakröfunni. Ekki vegna þess að brot hafi ekki átt sér stað eða að ósannað sé að Anna Kristín hafi verið jafnhæf Arnari.  Skaðabótakröfunni er hafnað  vegna hinna umsækjendanna, sem allar hefðu getað verið jafnhæfar Arnari líka og hugsanlega hæfari Önnu Kristínu.

Anna Kristín Ólafsdóttir segir í viðtali eftir að dómur féll að þessi niðurstaða sé „sigur fyrir konur“. Ég hygg að það sé hárrétt hjá henni. Það er sigur fyrir konur, jafnt sem karla þegar jafnrétti er viðurkennt og virt, þegar reglur sem settar eru um stjórnhætti í landinu ná fram að ganga. Þau lög sem sett hafa verið eiga að gilda alls staðar í þjóðfélaginu og helst og fremst hjá því ráðuneyti sem hefur með jafnréttismál að gera.

Meiri hluti starfandi biskupa konur

Mikil tíðindi hafa gerst í íslensku þjóðkirkjunni í dag. Allt í einu á sú forna kirkja tvö kvenkyns biskupsefni, því að séra Solveig Lára Guðmundsdóttir var í dag kosin Hólabiskup fyrst íslenskra kvenna.  Íslenska þjóðkirkjan var þangað til á þessu ári eina Norðurlandaþjóðin sem aldrei hefur vígt konu til biskups. Nú höfum við skriðið úr jafnréttistossasætinu og í haust verður meirihluti íslenskra biskupa sem starfa í þjóðkirkjunni konur. Ég veit ekki um nokkra kirkjudeild í heiminum þar sem sú er raunin. ‘

Í orþodoxakirkjum,  rómversk-kaþólsku kirkjunni og fjölmörgum mótmælendakirkjum mega konur ekki gegna vígðri þjónustu. Þess vegna er það svo óumræðilega gleðilegt þegar kirkja opnar þeim allar dyr, heimilar þeim að vera sameiningartákn kirkju sinnar og leggur þeim lykla og mannaforráð í hendur.

Húrra!  Lifi jafnréttið! Til hamingju Solveig Lára og kirkjan öll!