Tag: jafnrétti

Jafnréttið í forsætisráðuneytinu

Áhugaverður dómur um jafnréttismál féll í síðustu viku, dómur sem valdið hefur miklum pólitískum titringi. Hann má lesa hér. Margir telja að umræður um dóminn endurspegli átök og núning milli ólíkra hreyfinga innan Samfylkingarinnar. Ýmsir telja málið þannig vaxið að forsætisráðherra muni þurfa að segja af sér vegna þess, ekki síst vegna þess að hún krafðist afsagnar ráðherra sem varð uppvís að jafnréttislagabroti árið 2004.

Ég hef meiri áhuga á jafnréttisdómnum sjálfum og því fordæmi sem hvert slíkt mál setur, heldur en að skipa mér í fylkingu með eða á móti forsætisráðherra. Og þess vegna vil ég rýna um stund í dómsorðin. Ég tel tvennt hafi gerst með þessum nýja dómi sem hafi áhrif á jafnréttismál framtíðarinnar.

Í fyrsta lagi hafa breytingar á jafnréttislögunum 2008 haft í för með sér aukið vægi kærunefndar jafnréttismála og þetta vægi er áréttað í dómnum. Í öðru lagi tel ég að í þessu jafnréttismáli hafi í fyrsta sinn verið viðurkenndur miski í jafnréttismáli, en hingað til hefur fjárhagslegur skaði eingöngu verið lagður til grundvallar bóta til þeirra sem verða fyrir jafnréttisbrotum. Hvort tveggja þessara atriða eru mikilvæg fyrir jafnréttismálin í landinu og því gleðst ég yfir niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur. Hér kemur nánari útlistun á þessum tveimur atriðum:

BINDANDI KÆRUNEFNDARÚRSKURÐUR

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála var birtur í mars 2011 og hann má lesa hér. Þar segir í niðurstöðu:

  1. Forsætisráðuneytið hefur ekki sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið því er sá sem embættið hlaut var skipaður en ekki kærandi. Þegar menntun kæranda, starfsreynsla og hæfni í þeim sérstöku hæfnisþáttum sem sérstaklega var óskað eftir er borin saman við sambærilega kosti þess sem embættið hlaut verður vart önnur ályktun dregin en að kærandi hafi í það minnsta verið jafn hæf og sá sem embættið hlaut.
  2. Fyrir liggur að allir fjórir skrifstofustjórar forsætisráðuneytisins eru karlar og af 54 skrifstofustjórum Stjórnarráðsins, að utanríkisráðuneytinu undanskildu, voru á þeim tíma sem hér um ræðir og eftir því sem næst verður komist, 38 karlar og 16 konur.
  3. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar jafnréttismála að forsætisráðuneytið hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar því að gengið var fram hjá kæranda við skipun í embætti skrifstofustjóra hjá ráðuneytinu, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.

Sumsé þá kemst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að Anna Kristín hafi verið að minnsta kosti jafnhæf og sá sem starfið fékk. Þar með telur kærunefndin að jafnréttislögin verið brotin.

Fram til 2008 voru niðurstöður kærunefndar fyrst og fremst ráðgefandi. Nefndin hefur þannig breyst úr álitsgjafa í úrskurðarnefnd og má lesa marga af úrskurðum (áður álit) kærunefndar jafnréttismála hér. Í 5. grein jafnréttislaga segir:

Úrskurðir kærunefndar eru bindandi gagnvart málsaðilum. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Að kröfu málsaðila getur nefndin kveðið upp úrskurð um frestun réttaráhrifa úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en tíu dögum frá birtingu úrskurðar. Frestun á réttaráhrifum úrskurðar skal vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan þrjátíu daga frá birtingu úrskurðar um frestun réttaráhrifa og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Ef beiðni um flýtimeðferð er synjað skal mál höfðað eins fljótt og unnt er eftir að synjun kemur fram og eigi síðar en innan þrjátíu daga frá synjun dómara. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki borið undir dómstóla innan þrjátíu daga frá birtingu úrskurðar um frestun réttaráhrifa eða mál er ekki höfðað innan þrjátíu daga frá synjun dómara um flýtimeðferð. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála sem eru til meðferðar hjá henni þar til dómur gengur í málinu.

Þar sem niðurstaða kærunefndar er bindandi skv. 5 gr. , hefði forsætisráðuneytið þurft að bregðast við úrskurðinum fyrir dómstólum ef það var ósammála niðurstöðunni. Greinilegt er á dómsorði Héraðsdóms að forsætisráðuneytið hefur ekki hirt um að reyna að hnekkja niðurstöðu kærunefndar fyrir dómstólum innan tilskilins tíma og þar með fresta réttaráhrifunum. Ráðuneytið brást ekki við og hefur því samþykkt úrskurðinn með þögninni. Þess vegna kemst dómurinn að eftirfarandi niðurstöðu:  Forsætisráðuneytið braut jafnréttislög við ráðningu skrifstofustjóra.

Það sem er mikilvægt við þessa niðurstöðu er að nú er ekki lengur hægt að dusta niðurstöður kærunefndar jafnréttismála af sér eins og rykkorn af skyrtuermi. Stofnanirnar sem kærðar eru þurfa að taka til varna fyrir dómstólum ef þau fá á sig jafnréttisúrskurð í stað þess að einstaklingurinn þurfi aftur að sækja sinn rétt og byrja frá grunni fyrir dómstólunum. Jafnréttislögin byggja á stjórnsýslulögunum og sá lagabálkur á að standa vörð um rétt einstaklingsins frammi fyrir stóru skrifstofubákni með öllum sínum bjargráðum. Þeir hagsmunir borgaranna eru áréttaðir hér og ég tel það vera gleðilegt. Svo geta menn endalaust þrúkkað um það hvort niðurstaða kærunefndar hafi verið rétt. Það einfaldlega skiptir ekki máli fyrir niðurstöðu dómsins, því að forsætisráðuneytið hirti ekki um að leita réttar síns á réttum stað og réttum tíma. Og það sem kannski er einkennilegast af þessu öllu er að frumvarp um að úrskurðir kærunefndar skyldu vera bindandi var fyrst lagt fram á Alþingi á löggjafarþinginu 2003-4- af núverandi forsætisráðherra (sjá hér).

FYRSTI MISKINN Í JAFNRÉTTISMÁLI?

Nú ætla ég að fullyrða dálítið sem ég held að sé rétt. Viti einhver betur þigg ég fúslega leiðréttingar. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem miski er greiddur í jafnréttismáli. Munurinn á skaðabótum og miskabótum er sá að skaðinn fjallar um beint fjárhagstjón sem af brotinu hlýst, en miskinn um annað tjón en hins fjárhagslega, t.d. vegna álitshnekkis. Skaðabætur eru skattskyldar en miskabætur ekki. Mér vitanlega hafa aldrei verið greiddar miskabætur í jafnréttismáli og tel ég að það geti stafað af því að enn telji fólk það ekki vera neitt sérstaklega alvarlegt að brjóta jafnréttislögin. Ég tel það því vera merkilegt mjög að Önnu Kristínu skuli hafa verið dæmdar miskabætur vegna framkomu ráðuneytisins við hana eftir að úrskurður kærunefndarinnar lá fyrir.

AÐ FÁ EÐA FÁ EKKI SKAÐABÆTUR

Dómurinn sýknaði forsætisráðuneytið af skaðabótakröfu Önnu Kristínar. Ég hef heyrt ýmsa túlka dóminn á þann hátt að ráðuneytið hafi ekki brotið jafnréttislögin og því hafi hún ekki átt rétt á skaðabótum. Það er hins vegar ekki rétt. Eins og áður sagði áréttar dómurinn 5. grein jafnréttislaga þar sem segir að úrskurðir kærunefndar jafnréttislaga skuli vera bindandi, nema að hinn kærði reyni að hnekkja úrskurðinum fyrir dómstólum. Það var ekki gert og þar með teljast jafnréttislögin brotin. Þá átti dómurinn hins vegar eftir að svara spurningunni um hvort beri að greiða þeim sem varð fyrir jafnréttislagabrotinu skaðabætur, sumsé hvort sannað sé að hún hafi orðið fyrir fjárhagslegum skaða af því að jafnréttislögin voru brotin á henni.

Ef umsækjendur um stöðuna hefðu aðeins verið tveir hefði þótt fullsannað að forsætisráðuneytið ætti að greiða Önnu Kristínu skaðabætur í ljósi þess að kærunefnd jafnréttismála hafði komist að þeirri niðurstöðu að hún væri að minnsta kosti jafnhæf og sá karlmaður sem um stöðuna sótti. En nú voru þau sem komust í úrslit fimm talsins og hinir þrír umsækjendurnir allar konur. Upplýsingar um hæfi þessara þriggja umsækjenda lágu ekki fyrir, þær kærðu ekki og töldust þar með ekki aðilar málsins.

Dómurinn hafnar skaðabótakröfunni. Ekki vegna þess að brot hafi ekki átt sér stað eða að ósannað sé að Anna Kristín hafi verið jafnhæf Arnari.  Skaðabótakröfunni er hafnað  vegna hinna umsækjendanna, sem allar hefðu getað verið jafnhæfar Arnari líka og hugsanlega hæfari Önnu Kristínu.

Anna Kristín Ólafsdóttir segir í viðtali eftir að dómur féll að þessi niðurstaða sé „sigur fyrir konur“. Ég hygg að það sé hárrétt hjá henni. Það er sigur fyrir konur, jafnt sem karla þegar jafnrétti er viðurkennt og virt, þegar reglur sem settar eru um stjórnhætti í landinu ná fram að ganga. Þau lög sem sett hafa verið eiga að gilda alls staðar í þjóðfélaginu og helst og fremst hjá því ráðuneyti sem hefur með jafnréttismál að gera.

Meiri hluti starfandi biskupa konur

Mikil tíðindi hafa gerst í íslensku þjóðkirkjunni í dag. Allt í einu á sú forna kirkja tvö kvenkyns biskupsefni, því að séra Solveig Lára Guðmundsdóttir var í dag kosin Hólabiskup fyrst íslenskra kvenna.  Íslenska þjóðkirkjan var þangað til á þessu ári eina Norðurlandaþjóðin sem aldrei hefur vígt konu til biskups. Nú höfum við skriðið úr jafnréttistossasætinu og í haust verður meirihluti íslenskra biskupa sem starfa í þjóðkirkjunni konur. Ég veit ekki um nokkra kirkjudeild í heiminum þar sem sú er raunin. ‘

Í orþodoxakirkjum,  rómversk-kaþólsku kirkjunni og fjölmörgum mótmælendakirkjum mega konur ekki gegna vígðri þjónustu. Þess vegna er það svo óumræðilega gleðilegt þegar kirkja opnar þeim allar dyr, heimilar þeim að vera sameiningartákn kirkju sinnar og leggur þeim lykla og mannaforráð í hendur.

Húrra!  Lifi jafnréttið! Til hamingju Solveig Lára og kirkjan öll!

Biskupur

Nýlega kusu kjörmenn í biskupskosningu fyrstu konuna til embættis biskups Íslands.

Biskupskosningum er ekki lokið í íslensku þjóðkirkjunni og nú er kosið um hinn forna Hólastól. Umsóknarfrestur er runnin út og aðeins tveir hafa gefið kost á sér til biskups á Hólum, þau sr. Kristján Björnsson í Vestmannaeyjum og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir á Möðruvöllum í Hörgárdal. Ég hef ekki atkvæði í kosningunum á Hólum, vegna þess að ég er prestur í Skálholtsstifti. En ég myndi ég gefa Solveigu Láru atkvæði mitt ef ég mætti kjósa. Hún er frjálslyndur guðfræðingur sem hefur verið framarlega í baráttunnni fyrir einum hjúskaparlögum. Hún mun hjálpa þjóðkirkjunni í átt til framtíðarinnar bæði guðfræðilega og kirkjupólitískt.

Ég er sannfærð um að séra Solveig Lára verði kosin Hólabiskup nú í vor. Og þá verður íslenska þjóðkirkjan fyrsta kirkjudeild sögunnar til að vera að meirihluta skipuð kvenkyns biskupum.

Við lifum sannarlega merkilega tíma. Biskupur um biskupur frá biskupum til biskupa.

Mikilvæg biskupstákn innan kirkju og utan

Fyrri umferðin í biskupskosningunum er búin og ég sit og hugsa um framtíð kirkjunnar.

Um daginn rakst ég á viðtal við Irju Askola sem er biskup í Helsinki. Lútherska kirkjan í Finnlandi er íhaldssamasta kirkja á Norðurlöndum og sú síðasta þeirra til að heimila vígslu kvenpresta. Sænska kirkjan var fyrst til að veita konum prestsvígslu og hefur vígt konur til prestskapar síðan 1958 og það liðu þrjátíu ár þar til Finnarnir fylgdu í kjölfar hinna frjálslyndu nágranna sinna. Irja Askola var einmitt í hópi hinna fyrstu finnsku kvenna sem hlutu prestsvígslu árið 1988 og hafði beðið þrettán ár eftir því að fá vígsluna. Í ljósi þess að konur höfðu aðeins verið prestar í rúma tvo áratugi var það í raun stórmerkilegt að Irja Askola skyldi vera vígð biskupsvígslu í september 2010. Það er ekki síður mikilvægt í ljósi þess að Irja Askola er mjög frjálslyndur guðfræðingur. Hún styður hjúskap samkynhneigðra. Hún talar óhindrað um jafnréttismál og mikilvægi kvennabaráttunnar. Hún leggur mikið upp úr samtali við samtímann. Hún orðar misrétti og berst gegn því.

Viðtalið sem ég nefndi er tekið stuttu eftir að Irja Askola hefur verið kjörin biskup. Viðtalið má sjá hér. Þar er hún spurð að því hvaða gildi það hefur að vígja konur sem biskupa. Irja segir tvennt sem mér finnst eiga erindi við þann tíma sem við lifum nú, tímann þar sem í fyrsta sinn er eygt raunverulegt tækifæri á að kona verði biskup Íslands. Hún segir að vígsla kvenbiskups hafi mikla þýðingu innan kirkjunnar og einnig utan hennar. Og svo segir hún að vígsla konu til biskups sé „viktigt symbol“ , mikilvægt tákn.

Ég les athugasemd Irju Askolu um að vígsla kvenbiskups hafi mikil áhrif innan kirkjunnar sem og utan á þann hátt að þar með sé sýnt með áþreifanlegum hætti að lútherska þjóðkirkjan í Finnlandi hafi raunverulegan áhuga á að rétta hlut kvenna í kirkjunni. Jafnrétti karla og kvenna er mikilvægur þáttur í mannréttindaumræðu nútímans og mannréttindi eru mál málanna á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld.

Jöfn réttindi kvenna og karla eru ríkur þáttur mannréttinda og mannréttindi eru mál málanna á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld, málefni sem fólk hefur sterkar skoðanir á og berst saman fyrir þvert á trúarviðhorf. Þess vegna er vígsla kvenna til biskups í finnsku þjóðkirkjunni ekki aðeins innanbúðarmál í stjórnkerfinu heldur tækifæri til að breyta kirkjusögunni og samfélagsmynstrinu í átt til nútíma. Hið sama hef ég upplifað í þessum sögulegu kosningum í íslensku þjóðkirkjunni. Þær hafa vakið mikla athygli þeirra sem unna mannréttindum og sú athygli er ekki endilega eingöngu bundin við þjóðkirkjufólk. Mannréttindi eru efni sem ólíkt fólk hefur sterkar skoðanir á og ekki síst ungt fólk. Og það er tilbúið til að berjast fyrir slíkum hugsjónum þvert á trúar, stéttar og kynjamörk.

Margir hafa áhuga á kosningum til biskups Íslands og ekki síst vegna jafnréttissjónarmiða. Þjóðkirkjan hefur sett sér glæsilega og metnaðarfulla jafnréttisstefnu og er það vel. Hana má nálgast hér. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að þó að þjóðkirkjan samþykki hinar ítarlegustu jafnréttisáætlanir og haft uppi stór orð um jafnrétti og mannréttindi, þá talar það hærra ef yfirstjórn kirkjunnar er að mestu skipuð karlmönnum, f jafnréttisáætluninni er ekki fylgt og ef andlit kirkjunnar og sameiningartákn hennar er alltaf karlkyns. Orð eru raunar til alls fyrst, en orð eru ekki nóg. Ég hef þegar rætt um glerþakið í íslensku þjóðkirkjunni í þessari grein hér. Einnig var mikið skrifað fyrir biskupskosningarnar í Skálholti um mikilvægi þess að jafna hlut kynjanna í biskupskjöri. Grein Arnfríðar Guðmundsdóttur má lesa hér, grein Kristínar Þórunnar Tómasdóttur má lesa hér og grein Guðrúnar Karlsdóttur hér.  Ég tek undir það sem allar þessar góðu konur hafa að segja um jafnréttismál og táknræn gildi þess að vígja konu biskupsvígslu.

Og þar með erum við komin að seinni athugasemd Irju Askolu við upphaf biskupsferilsins. Hún sagði að biskupsvígsla konu væri mikilvægt tákn. Kaþólska nunnan og femíníski guðfræðingurinn Elizabeth Johnson sagði eitt sinn:  „The symbol functions“ og ég held að það sé alveg rétt. Trúarleg tákn eru sterk og þau hafa áhrif á undirmeðvitund okkar, gildi og samfélagsskoðanir á ýmsan hátt sem við erum ekki endilega meðvituð um. Þegar spurt er um til hvers biskupsembættið er þá svara margir því til að biskupinn sé sameiningartákn kirkjunnar. Þetta er ekki sérskoðun íslensku þjóðkirkjunnar, heldur sameiginleg niðurstaða samkirkjulegra samþykkta svo sem Porvoo samkomulagsins milli anglikönsku safnaðanna á Bretlandseyjum og hinna norrænu lúthersku kirkna, svo og Limaskýrslu Alkirkjuráðsins um skírn, máltíð og þjónustu.

Ef biskupsembættið er að stofni til táknrænt embætti um einingu,  og ef táknin hafa áhrif , þá hefur karleinokun biskupsembættisins í þúsund ár áhrif á það hvernig við hugsum um kirkjuna sem stofnun og hreyfingu. Ákvarðanir okkar núna eru ekki síst mikilvægar fyrir það að vera táknrænar ákvarðanir, ákvarðanir sem geta sýnt raunverulegar breytingar á stöðu kvenna í íslensku þjóðkirkjuna.

Tákn eru „viktig“

Biskupstákn og þau skilaboð sem þau senda út í samfélagið og innan raða kirkjunnar manna eru mikilvæg.

Gleymum því ekki þegar við göngum til seinni umferðar.

Dagur kvenna í kirkjunni

Nú liggur fyrir niðurstaða í kosningum til biskups Íslands. Agnes M. Sigurðardóttir fékk 131 atkvæði, Sigurður Árni Þórðarson 120 atkvæði, ég sjálf 76 atkvæði, Örn Bárður Jónsson 49 atkvæði, Kristján Valur Ingólfsson 37 atkvæði, Gunnar Sigurjónsson 33 atkvæði, Þórhallur Heimisson 27 atkvæði, Þórir Jökull Þorsteinsson 2 atkvæði og Arnfríður Guðmundsdóttir 1 atkvæði.

Það fyrsta sem að ég rek augun í er hversu hár og mikill hlutur kvenna er í þessari kosningu. Konurnar þrjár sem fá atkvæði fá samtals 208 atkvæði, en karlmennirnir sex skipta með sér 241 atkvæði. Kona trónir í efsta sætinu og kona er líka í þriðja sæti. Þetta er ánægjuleg niðurstaða fyrir þau sem unna jafnrétti í kirkjunni og sýnir að það er kominn tími á að bæði kyn gegni biskupsþjónustu.

Þau tvö sem keppa um stólinn í seinni umferðinni eru góðar manneskjur, tryggar kirkju sinni og einlægar í trú sinni á Jesú Krist. Agnesi þekki ég vel sem prest, því að hún er sóknarprestur tengdaforeldra minna og ég hef af henni góða og hlýja reynslu. Sigurður Árni hefur verið samherji minn í mörgum erfiðum deilumálum í kirkjunni. Ég tel þau bæði til vina minna og treysti þeim báðum fyrir embættinu. Þau verða góðir fulltrúar kirkjunnar í þessum mikilvægu kosningum.

Ég er sjálf svo stolt yfir mínum 76 atkvæðum. 16 prósent fylgi í biskupskosningum fyrir yngsta og um margt róttækasta frambjóðandann er dýrmætt og sýnir að þjóðkirkjan er á leið til breytinga.  Ég þakka stuðningsmönnum mínum um land allt fyrir meðbyrinn og ekki síst þeim sem að ákváðu að krossa við nafnið mitt á þessum seðli og treysta mér fyrir þessu mikla og erfiða starfi. Ég er snortin yfir því.

Góður dagur fyrir konurnar í kirkjunni og fyrir framtíðina.