Category: Umhverfismál og sjálfbærni

Guðfræðingar krefjast svara

Í morgun var mér boðið að fylgjast með Facebook hópi sem ber yfirskriftina „Guðfræðingar krefjast svara: Vettvangur fyrir guðfræði og stjórnmál. Mér þátti verkefnið nýstárlegt og langaði til að vita meira um þessi svör sem guðfræðingarnir eru að krefjast. Þar rakst ég á bréf sem fimm guðfræðingar, Baldur Kristjánsson, Hjalti Hugason, Pétur Pétursson, Sigrún Óskarsdóttir og Sólveig Anna Bóasdóttir hafa sent forsvarsmönnum þeirra sem bjóða fram í vor. Spurningar þeirra lúta að innflytjendamálum, olíuleit á Drekasvæðinu og loftslagsmálum.

Ég hef saknað umræðu um þessi stóru mál, sem teygja sig langt út fyrir okkar litlu flokkapólitík og tengjast samfélagslegri ábyrgð okkar sem manneskjur. Ég hef líka verið hlynnt því að guðfræðingar spyrðu siðferðilegra spurninga um trú og pólitík og beittu sér meira í þeirri umræðu. Þess vegna finnst mér þetta afar gott framtak hjá fimmmenningunum.

Bréfið sem þau sendu hljóðar svona í heild sinni:

Ágætu viðtakendur

Það er mikil ábyrgð fólgin í að vera stjórmálamaður í upphafi 21. aldar. Það er von okkar að þið reynist þeim vanda vaxin. Til að sannfærast um það beinum við til ykkur eftirfarandi þremur spurningum með virðingu og vinsemd.
Því hefur verði haldið fram að sú loftslagsvá sem nú steðjar að jarðarbúum sé brýnasta áskorun sem mannkyn hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Við erum því sammála. Þessi staða kallar á bráða úrlausn á ýmsum vandamálum sem lúta að réttlátri skiptingu jarðargæða og heimsskipan, sem og friðsamlegri sambúð þjóða heims. — Þetta eru hin raunverulegu viðfangsefni stjórnmálanna á 21. öldinni. Eruð þið undir það búin að taka þátt í lausn þeirra?
Tími hefðbundinnar flokkspólitíkur, kjördæma- og hreppapólitíkur sem íslenskt stjórnmálafólk hefur hingað til helgað krafta sína er nú liðinn. Upp er kominn tími málefnalegra stjórnmálaátaka þar sem fengist er við viðfangsefni sem varða gjörvallt mannkyn. Eruð þið tilbúin að taka þátt í þeirri umræðu?
Undirrituð bera það traust til framboðs ykkar eða flokks að þið séuð marktækir viðmælendur í því samhengi sem að ofan greinir. Því berum fram eftirfarandi spurningar í trausti þess að þið veitið greið svör. Við munum gera svörin opinber ásamt því að greina frá þögn þeirra sem hugsanlega svara ekki. — Ef þið treystið ykkur ekki til að taka þátt í umræðu af þessu tagi hljótum við og önnur sem hugsum á viðlíka brautum að líta svo á að þið eigið ekki erindi í pólítíska umræðu.

Spurningarnar eru þessar:
* Hver er stefna framboðs/flokks ykkar varðandi olíuvinnslu á Drekasvæðinu? Hvaða rannsókna- og /eða öryggisaðgerða krefjist þið áður en olíuvinnsla hefst?
* Hvað mun framboð/flokkur ykkar leggja til að gert verði í loftslagsmálum? Hvað munuð þið leggja til að gert verði til að að vinna gegn þeim veðurfarsbreytingum sem búast má við í náinni framtíð?
* Hver er stefna framboðs/flokks ykkar í innflytjendamálum? Hvað munuð þið leggja til varðandi málefni flóttafólks sem leitar hingað?
Til frekari skýringa á ofangreindum spurningum vísast til meðfylgjandi greinargerðar.
Með virðingu.
Baldur Kristjánsson (bk@baldur.is)
Hjalti Hugason (hhugason@hi.is / 899 66 23)
Pétur Pétursson (petp@hi.is)
Sigrún Óskarsdóttir (sigrun@arbaejarkirkja.is / 863 19 10)
Sólveig Anna Bóasdóttir (solanna@hi.is / 849 33 38)
guðfræðingar

Spurningar til framboða til Alþingis vorið 2013
Greinargerð

* Hver er stefna framboðs/flokks ykkar varðandi olíuvinnslu á Drekasvæðinu? Hvaða rannsókna- og /eða öryggisaðgerða krefjist þið áður en olíuvinnsla hefst?
Líklega hafa mörg okkar glaðst þegar rannsóknaleyfum var nýlega úthlutað á Drekasvæðinu. Efnahagshörmungarnar í kjölfar Hrunsins eru teknar að þreyta, uppbyggingunni hefur miðað hægar en vonast var eftir. Samt hefur ýmislegt gott verið gert. Reynt hefur verið að standa vörð um kjör þeirra lakast settu og auka jöfnuð. Hingað til hafa stjórnvöld líka leitast við að láta náttúruna njóta vafans. Varanleg úrræði virðast þó fá. Komist Ísland í hóp olíuríkja virðist raunverulegt ríkidæmi aftur á móti handan við hornið.
Á næstu árum og áratugum setur olíuleit og hugsanlega olíuvinnsla mark sitt á samfélögin hér á norðurslóðum. Með bráðnandi heimsskautajökli og margefldri tækni verður hægt að bora á æ fleiri stöðum. Norðurslóðir verða tæpast mikið lengur það ósnortna víðerni sem þær eru nú. Þess vegna er mikilvægt að skoða málin ofan í kjölinn og hrósvert væri ef við Íslendingar reyndum að koma að þessum málum af yfirvegun og þekkingu á þeim siðferðilegu rökum sem skipta mestu þegar til lengri tíma er litið í stað þess að líta aðeins til gæða og magns olíu í lögsögu okkar.

Dauðans alvara
Olíuvinnsla er eftir sem áður dauðans alvara. Henni fylgir óhjákvæmilega nokkur mengun. Hún skapar hættu á umhverfisslysum sem erfitt mun að bæta á jafn fjarlægum slóðum og Drekasvæðið er. Þá er hið alvarlegasta ótalið: Með olíuvinnslu værum við fyrst og fremst að standa vörð um óbreytt ástand. Draumurinn um olíu í íslenskri lögsögu er fyrst og fremst draumur um að geta haldið áfram þeim orkufreku og mengandi lífsháttum sem við höfum tamið okkur — og auðgast á þeim að auki.
Hér er vissulega um skammgóðan vermi í bókstaflegri merkingu að ræða. Með þessu móti stuðlum við að áframhaldandi hlýnun jarðar, knýjum áfram þá umhverfisvá sem kölluð hefur verið stærsta áskorun sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir.
Þetta var atvinnuvegaráðherra fullljóst þegar hann lagði áherslu á að með rannsóknaleyfum væri ákvörðun ekki tekin um olíuvinnslu. En er málið svona einfalt? Hver mun hafa siðferðilegt þrek til að setja lokið á þegar olíulindir hafa fundist í hafinu norður af landinu? Mun þjóðin samþykkja að ekki verið skrúfað frá krananum?
Það er einmitt núna sem umræðan um siðfræði olíuvinnslunnar verður að eiga sér stað. Það verður of seint að hefja hana þegar hið svarta gull er fundið og æðið rennur á fyrir alvöru.

Skyldur okkar sem heimsborgara
Við erum öll borgarar í einum og sama heiminum og höfum skyldum að gegna við hann en ekki aðeins okkar eigið samfélag eða þjóðríki.
Grunnskyldur okkar felast í að standa vörð um þau gildi á heimsvísu sem styðja við lífið í öllum margbreytileika þess. Hér í heimi er allt samtengt: náttúran, hafdjúpin, jörðin og lofthjúpurinn umhverfis hana. Gerðir okkar hér hafa áhrif á fjarlægum slóðum á ókomnum tímum.
Skipan heimsins í þjóðríki og skyldur okkar við þau koma númer tvö í þessu samhengi. Einstakar ákvarðanir þjóðríkja, t.d. um olíuvinnslu, þær reglur sem þau fylgja og aðgerðir einstakra stofnana innan þjóðríkja verður að gaumgæfa með tilliti til þeirra áhrifa sem þessi atriði hafa á heimsvísu.

Heimspekilegar og trúarlegar rætur
Hugmyndin um að mannlegt eðli sé eitt — að einhver kjarni sé sameiginlegur öllum mannverum — er mikilvæg forsenda þegar skyldur okkar við umheiminn eru til umræðu.
Í fornöld litu Stóumenn á sig sem borgara í hinum skipulega alheimi fremur en í borgríkinu. Þeir skilgreindu sig því sem heimsborgara. Hið sameiginlega siðferðilega samfélag alls mannkyns var þess vegna meginmálið.
Mismunandi útfærslur á þessum skilningi má finna í flestum nútímalegum framsetningum á siðfræði, sem og í mannréttindayfirlýsingum tuttugustu aldarinnar. Manngildið og mannhelgin eru undirstöður allra mannréttinda.
Trúarlegar rætur mannréttinda þarf vart að útlista. Að kristnum skilningi er hugmyndin um manneskjuna sem er sköpuð í mynd Guðs fyrirferðamikið stef. Í anda þeirrar hugsunar eigum við öll sömu mannhelgi óháð búsetu, tungu, húðlit eða trú. Enda eru mannréttindi hafin yfir einstök þjóðríki. Þau eru sameiginleg öllum íbúum jarðarinnar. Þau gilda jafnt um alla og ná meðal annars yfir réttinn til lífs óháð búsetu.
Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við mörkum okkur stefnu um olíunýtingu í þeim tilgangi að knýja áfram orkufreka og mengandi lífshætti okkar því þeir stofna lífsskilyrðum fjölda fólks og annarra lífvera í bráða hættu víða um heim.
Okkur ber skylda til að sýna samstöðu, stilla orkunýtingu okkar í hóf og leita nýrra vistvænni orkugjafa. Þannig sýnum við umhyggju fyrir jörðinni og þeim sem deila henni með okkur. Þetta er sjálfsögð og nauðsynleg sammanleg skylda eins og skyldan að sýna hógværð og auðmýkt gagnvart umhverfi okkar. (Byggt á grein í Fréttablaðinu 14. 2. 2013).

* Hvað mun framboð/flokkur ykkar leggja til að gripið verði til í loftslagsmálum? Hvað munuð þið leggja til að gert verði til að að vinna gegn þeim veðurfarsbreytingum sem búast má við í náinni framtíð?
Hér að framan vöruðum við sem þetta ritum við áformum um olíuvinnslu á Drekasvæðinu meðan ekki hefðu fundist raunhæfar mótvægisaðgerðir við þeirri loftslagsvá sem að jarðarbúum steðjar. Hér er um að ræða málefni sem varðar náungakærleika og umhyggju fyrir sköpun Guðs.

Við erum meðvituð um að þessi stefna getur haft þær afleiðingar fyrir þjóðarbúið að við verðum fremur að stefna að samdrætti en vexti. Af þeim sökum hljótum við að rökstyðja mál okkar nánar.

Mesta prófraun mannkyns
Alþjóðaloftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna spáir að verði ekkert að gert nú þegar muni hitastig árið 2100 hafa hækkað verulega frá því sem nú er. Því er spáð eð eftir þessi tæplega níutíu ár hafi hitastigið hækkað um 1,8°- 4°C. Enn svartari spár benda til þess að hlýnunin geti farið yfir 6°C.
Hlýnunin mun leiða til þess að hitabylgjur verða tíðari. Útbreiðsla skordýra mun aukast og þurrkasvæði jarðar stækka. Skert aðgengi að vatni mun valda landeyðingu og dauða búpenings. Úrhelli og steypiregn verða jafnframt algengari með tilheyrandi rofi og jarðvegsruðningi. Fellibyljum mun fjölga og þeir ásamt hlýnuninni valda flóðbylgjum og hækkun sjávar með aukinni seltu. Þá er því spáð að innan tíu ára geti landbúnaðaruppskera í Afríku hafa dregist saman um helming með tilheyrandi hungursneyð. Innan fimmtíu ára gætu fiskveiðar líka verið hrundar ef núverandi sókn heldur áfram.
Alþjóðanefnd um framtíð matvæla og landbúnaðar undir forystu baráttukonunnar Vandana Shiva hefur enda látið svo um mælt að loftslagsvandinn sé stærsta prófraun sem mannkyn hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir, enda munu örlög milljóna manna ráðast af hvort samfélög heimsins grípa nú þegar til sameiginlegra aðgerða eða ekki.

Viljum við ranglæti?
Sívaxandi orkuþörf samfélaga á borð við það íslenska er hvorki náttúrulögmál né hagfræðilögmál. Hér einvörðungu um pólitíska ákvörðun að ræða. Afleiðingar sífellt meiri orkunotkunar móta lífskjör fólks á fjarlægum slóðum sem í engu mun njóta góðs af ávinningnum. Áður en ákvarðanir um orkuöflun og orkunýtingu eru teknar ber því að grafast fyrir um áhrif þeirra — ekki einvörðungu á íslenskt þjóðarbú til skamms tíma heldur á lífsskilyrði mannkyns alls til lengri tíma litið.
Með olíuleit og –vinnslu á nýjum svæðum erum við ekki að leita varanlegra lausna á sameiginlegri orkuþörf mannkyns. Með því er fyrst og fremst verið að standa vörð um óbreytt lífskjör okkar og þeirra þjóða annarra sem best eru settar. Sama máli gegnir um stórfellda ræktun jurta sem nýta má til framleiðslu lífefnaeldsneytis í stað þess að rækta korn, maís eða hrísgrjón til matar og fóðurs. Framleiðsla lífefnaeldsneytis viðheldur ranglætinu í heiminum frekar en að draga úr því. Á þetta bendir Alþjóðanefnd um framtíð matvæla og landbúnaðar er hún segir í skýrslu sinni: „Meira en 850 milljónir manna í heiminum búa við hungursneyð og enn fleiri líða næringarskort. Því meir sem lönd eru nýtt til ræktunar fyrir lífefnaeldsneyti í stað matar… þeim mun minna verður matvælaöryggið og hungrið eykst. Öflun nægilegrar fæðu er réttlætismál og eins konar prófsteinn á manngæsku okkar; að matur sé látinn víkja fyrir eldsneyti svo unnt sé að viðhalda iðnvæddum og neyslufrekum lífsstíl hinna fáu er einfaldlega siðlaust“ (Ákall til mannkyns, 2011. Reykjavík, Salka, bls. 95).
Aukin framleiðsla eldsneytis eftir hvorri leiðinni sem farin er tryggir fyrst og fremst betur settum íbúum heims möguleika á óbreyttu lífsformi á kostnað þeirra sem skortir lífsnauðsynjar. — Við hljótum að spyrja hvort við Íslendingar viljum viðhalda því ranglæti. Vissulega eru þetta dökkar spár sem erfitt er að horfast í augu við. Því miður er um að ræða ískaldan raunveruleika og sífellt fleiri farin að átta sig á að um raunverulega sviðsmynd er að ræða.

Fólk á flótta
Þar sem loftslagsváin er einkum sprottin af ranglátri skiptingu jarðargæða verðum við að vera við því búin að hún leiði til efnahagslegs, félagslegs og pólitísks óstöðugleika þegar þeir hlutar mannkyns sem verst verða út taka að krefjast — ef ekki réttlætis — þá a.m.k. réttar síns til að lifa af. En það gefur augaleið að við sem betur erum sett munum standa vörð um núverandi lífsform okkar sem byggist á ranglátri skiptingu jarðargæða.
Afleiðingar þess ranglætis sem hér hefur verið rætt eru þegar farnar að koma í ljós. Síaukinn fjöldi flóttamanna m.a. hingað til lands ber glöggt vitni um það. Þar er ekki alltaf um að ræða fólk á flótta undan óréttlátum yfirvöldum eða hernaðarátökum. Sífellt fleiri eygja ekki von um líf í heimahögum sínum vegna breytinga á veðurfari eða sökum þess að hefðbundin ræktarlönd þeirra hafa verið tekin til annarra nota.
Hér á eftir munum við fjalla um ábyrgð okkar gagnvart þeim sem knýja á dyr okkar Íslendinga og annarra vesturlandabúa í leit að betri lífsskilyrðum. (Byggt á grein í Fréttablaðinu 4. 4. 2013).

• Hver er stefna framboðs/flokks ykkar í innflytjendamálum? Hvað munuð þið leggja til varðandi málefni flóttafólks?
Viðbrögð við takmörkuðum fjölda flóttafólks til landsins benda til þess að töluverður fjöldi landsmanna sé andsnúinn komu þess hingað. Það er umhugsunarvert og ástæða til að auka þekkingu og færni okkar að mæta þeim sem á aðstoð þurfa að halda. Ljóst er að verði ekki staldrað við mun hópur flóttafólks sem hingað leitar margfaldast.

Orka og hlýnun
Hún er ekki fögur myndin sem blasað gæti við af olíuríkinu Íslandi sem byggði tilveru sína enn frekar en þegar er orðið á þessum orkugjafa og stuðlaði þannig að hlýnun, þurrki, svelti og eymd barna sem fullorðinna annars staðar í heiminum. Við erum ekki bara að tala um nokkur hundruð þeirra heldur tugþúsundir, jafnvel hundruðir þúsunda. Ísland gæti hæglega rúmað margfaldan þann mannfjölda sem hér býr nú en spurningin er sú hvort það sé æskileg þróun að hingað streymi fólk á flótta vegna breytinga á lífsskilyrðum sem við bærum ábyrgð á.
Fólk á flótta
Á öllum tímum hefur fólk flutt á milli landa og heimshluta. Við Íslendingar þekkjum það vel. Forfeður og formæður okkar flúðu það sem þau töldu ofríki og mynduðu þetta þjóðríki hér. Tíunda hver manneskja flúði svo héðan til Ameríku um næst síðustu aldamót. Um tíunda hver manneskja á Íslandi nú er aðflutt og Íslendingar nútímans eru duglegir við að setjast að hér og þar um heiminn. Við segjum stundum með stolti að sama hvar í heiminum sé borið niður, alls staðar sé Íslendinga að finna.

Undanfarna áratugi hafa gífurlegir fólksflutningar átt sér stað frá löndum Afríku, Asíu og Suður-Ameríku til Vesturlanda, með öðrum orðum: frá fátækari heimshlutum til hinna ríkari. Dæmið hefur snúist við frá nýlendutímanum þegar vesturlandabúar fluttu í leit að landi, góðmálmum og ódýru vinnuafli. Munurinn á veraldlegum lífsgæðum milli þessara svæða er gífurlegur. Hann byggist ekki síst á þeirri orkunotkun sem nú ógnar lífríki jarðar. Fólk hefur flutt sig til í leit að vinnu og sest að í nýju landi einkum sem ódýrt vinnuafl. Svo eru þau sem flýja heimaslóð, koma sem flóttafólk og sækja um hæli, biðja um landvist. Ekki er að efa að þessir aðfluttu vestrænu borgarar hafa styrkt og eflt efnagskerfi vesturlanda.

Réttindi flóttafólks
Gangi spár eftir verða gríðarlega mikil landssvæði þar sem tugmiljónir manna búa nú illbyggileg og jafnvel óbyggileg í framtíðinni. Hreyfing fólks til betur settra svæða í heiminum mun því aukast til muna. Það er nokkuð fyrirsjáanlegt að ef við breytum ekki lífsháttum okkar stöndum við Íslendingar eins og aðrir vesturlandabúar frammi fyrir alvarlegum siðferðilegum spurningum. Með hvaða rökum ætlum við að meina eða torvelda því fólki að flytja til okkar þegar við höfum með lífsháttum okkar kynt svo hressileg undir að þeirra heimaslóðir verða ófýsilegur kostur að búa á, ef ekki óbyggilegar með öllu?

Grundvallarspurningin er þessi: Er mannkynið, já lífið allt á jörðinni, undir sama hatti? Verðum við ekki að meta lífshætti okkar út frá hagsmunum allra í veröldinni? Hvaða rétt höfum við til þess að haga okkur eins og annað fólk skipti ekki máli? Hvaða rétt höfum við til þess að mæta ekki af sanngirni því fólki sem til okkar leitar eftir betra lífi, samferðafólki okkar í dag og fólki framtíðarinnar? Sannast sagna höfum við Íslendingar ekki uppfyllt skyldur okkar í samfélagi þjóðanna þegar kemur að móttöku flóttafólks.
Við þurfum að gera betur, miklu betur. Menning okkar, saga, trú og reynsla kennir okkur að við eigum að koma vel fram við aðkomumanninn. Við eigum að sjá systur og bræður, ekki eingöngu í fólki af okkar þjóðerni eða sömu trúar, heldur einnig í fólki af ólíkum uppruna. Við deilum mennskunni með öllum manneskjum og mennskan býður okkur að elska jöfnuð og réttlæti. Okkar gyðing-kristna hefð kennir að Guð skapaði okkur öll í sinni mynd og jörðina fyrir okkur öll. Sem siðferðilegar verur getum við sett okkur í annarra spor. Það gæti allt eins verið við sem værum á flótta. Við köllum eftir siðfræðilegri umræðu um fólk á flótta og mannúð og aðgerðum þar sem réttlæti og jöfnuður eru sett í öndvegi.

Ég bíð spennt eftir svörum stjórnmálaflokkanna og er að sjálfsögðu komin í grúppuna. Hana er að finna hér:  http://www.facebook.com/krefjastsvara

Trú, siðfræði, innflytjendamál, loftslagsmál og olíuleit. Meira svona!

Loftslagsbreytingar

Að hugsa um trú og umhverfismál saman

Undanfarið hef ég verið að velta fyrir mér ýmsum hliðum á umhverfisvernd og trúarbrögðum. Mér finnst áhugavert að lesa texta kristinnar trúar frá sjónarhóli umhverfisvárinnar í heiminum. Auka þessir textar og túlkunin á þeim á það ófremdarástand sem við búum við?  Er trúarbrögðunum á einhvern hátt um að kenna hvernig komið er fyrir okkur? Eða má finna í þeim kraft, bjartsýni og virðingu fyrir lífi sem er mikilvægt til umhverfisverndar?  Eða allt þetta?

Heimasíðan Gróska og Guð var stofnuð fyrir rúmum mánuði. Þar er safnað inn hugleiðingum um trú, náttúru og umhverfisvernd. Flestar þessar hugvekjur ganga út frá kristnum textum, en það væri fengur að því að fá inn hugleiðingar út frá öðrum trúarbrögðum, textum og hefðum.

Það væri gaman ef þið vilduð kíkja á gróskusíðuna og leggja til hennar með athugasemdum og/eða hugleiðingum. Endilega lækið síðuna okkar á FB, http://www.facebook.com/groups/398967746813498/, þá birtast nýjar hugvekjur jafnóðum í stöðuuppfærslum.

Umhverfisvernd er málefni allra.

Río+20

Río +20

Umhverfismál eru mál allra og tengjast ýmsum öðrum málaflokkum eins og efnahagsmálum, þróunarmálum og jafnréttismálum. Kirkjustarf tengist umhverfismálum í vaxandi mæli víða um lönd og sú þróun á eftir að halda áfram. Trúað fólk er í vaxandi mæli farið að tengja náungakærleik, heildræna hugsun og umhverfisvernd sem vettvang, þjónustu og samhengi trúarinnar á hið skapandi, frelsandi og helgandi afl sem við köllum Guð.

Ef kristnir menn taka trúarlærdómana um forsjón Guðs og ráðsmennskuhlutverk manneskjunnar alvarlega hlýtur það að vera trúarlegt viðfangsefni að fylgjast með skrefunum sem stigið er í átt til sjálfbærrar þróunar vegna vistkreppunnar í heiminum og tengsla þeirrar kreppu við fátækt og misrétti barna jarðar. Sem betur fer eru þau skref mörg og áhugaverð enda vandinn stór sem við er að etja. Sameinuðu þjóðirnar hafa um fjörutíu ára skeið tekið forystu í að því að kalla þjóðir heims til samræðu og skuldbindinga vegna vistkreppunnar í heiminum. Fyrsta ráðstefna SÞ var haldin í Stokkhólmi árið 1972 um „Umhverfi mannsins“ og er vel frá ráðstefnunni sagt í bók Hjörleifs Guttormssonar „Vistkreppa eða náttúruvernd“ frá árinu 1974, bls. 61-75. Hugmyndin um sjálfbæra þróun þar sem fléttaðir væru saman efnahagslegir, félagslegir og umhverfislegir þættir ruddi sér til rúms með hinni svokölluðu Brundlandtskýrslu 1987. Tuttugu árum eftir Stokkhólmsráðstefnuna var ákveðið að halda aðra ráðstefnu þar sem áhersla yrði lögð á sjálfbæra þróun.

Það er hins vegar með heimsráðstefnunni um sjálfbæra þróun í Río de Janeiro 1992 sem þessar hugmyndir verða að alþjóðlegum skuldbindingum þjóða á milli. Þessar alþjóðlegu skuldbindingar eru einatt kenndar við Río og liggja til grundvallar alþjóðlegu samstarfi á sviði sjálfbærrar þróunar. Vönduð skýrsla var unnin um þessa merku ráðstefnu á vegum sendinefndar Umhverfisráðuneytisins og má nálgast hana hér. Meðal þess sem ávannst á Ríoráðstefnunni voru tveir alþjóðlegir samningar á sviði líffræðilegrar fjölbreytni og loftslagsmála, framkvæmdaáætlunin Staðardagskrá 21 og hin svokallaða Ríoyfirlýsing í 27 liðum. Fundurinn var einnig nefndur Leiðtogafundur (Earth Summit) og áhersla lögð á að þar kæmu saman þjóðarleiðtogar til að ráðgast saman um framtíð jarðar, auk fulltrúa fyrirtækja og félagasamtaka.

Þegar tuttugu ár voru liðin frá Río og fjörutíu ár frá Stokkhólmsráðstefnunni kölluðu Sameinuðu þjóðirnar enn á ný til leiðtogafundar. Ráðstefna Sameinuðu Þjóðanna um sameiginlega þróun var haldin í Río de Janeiró 20.-22. júní 2012 og er ráðstefnan í daglegu tali kölluð Río +20 til að undirstrika þessa merku sjálfbærniarfleifð. Í ljósi sögunnar, samninganna og hinna stóru verkefna sem við blasa voru miklar væntingar bundnar við Río+20.

Nú þegar ráðstefnunni er lokið eru ekki allir á eitt sáttir um það hvort afraksturinn af Ríoráðstefnunni hafi verið mikill eða lítill. „Framtíðin sem við viljum“ er 53 blaðsíðna skýrsla sem samþykkt var á ráðstefnunni. Hana má nálgast hér á ensku.  Í framtíðarskýrslunni er fjallað um grænt hagkerfi og sjálfbærnimarkmið sett sem eiga að koma í stað hinna svokölluðu þúsaldarmarkmiða frá og með árinu 2015 . Það er vissulega mikilvægt að þjóðir heimsins setji sér sameiginleg, mælanleg og tímasett markmið um fæðuöryggi, orkumál og aðgang að vatni. Sagt er frá ráðstefnunni á vef Umhverfisráðuneytisins (sjá hér) og því lýst að Ísland hafi sett á oddinn málefni hafsins, sjálfbær landnýtingu, endurnýjanlega orku og jafnréttismál. Ráðuneytið telur að mikilvægir áfangar hafi náðst við verndun hafsins en að hægt gangi að sannfæra þjóðir heims um mikilvægi þess að samþætta jafnréttismál og umhverfismál, t.d. með því að fjalla um tengslin á milli offjölgunar, fátæktar og valdaleysi kvenna yfir eigin líkömum og getnaðarvörnum.

Stjórnarfundur Lútherska heimssambandsins (LWF) haldinn í Bógota í Brasilíu í síðustu viku sendi frá sér harðorða yfirlýsingu vegna skýrslunnar „Framtíðin sem við viljum“ (sjá hér). LWF eru samtök 145 lútherskra kirkna í heiminum sem 70,5 milljónir manna tilheyra. LWF er mjög virkt á sviði ýmissar réttindamála, t.d. varðandi jafnrétti, umhverfi og fátækt í heiminum. Í yfirlýsingunni koma fram áhyggjur stjórnarmanna af því að skýrslan hafi ekki hagsmuni almennings í fyrirrúmi, heldur hagsmuni alþjóðlegra fyrirtækja og efnahagskerfa. Telur LWF að mikið vanti á að skýrslan sé nothæf til þess að draga hratt og örugglega úr fátækt og efla heilsu þeirra sem minnst eiga á jarðarkringlunni.

Ég vil hvetja þess að fólk á vettvangi kirkjunnar komi saman og kynni sér Framtíðarskýrsluna. Alþjóðlegar skýrslur eru sannkallað torf að lesa, en það hjálpar mikið að taka fyrir einstaka hluta og ræða þá. Þessar skýrslur hafa að gera með framtíð og hag milljóna manna og milljarða lífvera. Margir telja að stríð 21. aldarinnar eigi að mestu eftir að snúast um auðlindir eins og vatn, gas og olíu. Alþjóðlegir samningar um nýtingu hafs og lands, fátækt, landrof, auðlindir, loftslag og jafnrétti eru því ekki aðeins stafkrókar á blaði, heldur þættir í þeim siðferðilegu skorðum sem þjóðir heimsins setja sér á nýrri öld.

Meistarinn frá Nasaret hvatti menn forðum daga til að líta til lilja vallarins og fugla himinsins. Boðskapur hans er arfur hinnar spámannlegu hefðar sem áréttaði miskunnsemi og réttlæti, arfur Jobsbókar sem bað fólk að láta skepnur og dýr merkurinnar kenna sér og læra af fiskum hafsins.

Þess vegna ættu ályktanir Río plús og framgangur sjálfbærrar þróunar að vera kristnu fólki hjartans mál og bænarefni.

Paradís

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag, fyrsta sunnudag í föstu, er brugðið upp fyrir okkur mynd af Paradís, upphaflegu ástandi manneskjunnar. Paradís er draumstaður frumþarfanna, staðurinn þar sem nóg er til af fæðu og vatni og hreinu lofti, staður öryggis og hvíldar, unaðar líkamans og náinna tengsla.

Flest eigum við einhverjar hugmyndir til um slíka Paradís, ekki síst á tímaskeiðum þegar líf okkar er fullt af streitu og óöryggi, vanheilsu og baráttunni fyrir brauðinu. Flest okkar eigum okkur óræðan draum um hið fullkomna líf, þar sem enginn er svangur, þreyttur eða vansæll. Slíkar væntingar eru oft kallaðar útópíur. U topos þýðir enginn staður. Enginn staður uppfyllir allar þessar væntingar. En öll eigum við þær og þess vegna tilheyra þær líka öllum stöðum og öllum draumum.

„Adam var ekki lengi í Paradís“, segir máltækið. Og í dag erum við erum leidd inn í sögu sem hefur haft ríkari áhrif á vestræna kristnir og heimsmynd en flestar aðrar. Við horfum yfir græna dali setta friðsælum lendum, og frjósamar ár fullar af fiski. Í miðjum garðinum stendur tré lífsins og tré þekkingarinnar þar skammt frá. Drottinn Guð hefur nýlega skapað manneskjurnar og þær mega valsa um garðinn eftir hjartans lyst. Það eina sem þær mega alls ekki gera er að ná sér í ávöxt af tré þekkingarinnar. Og auðvitað er það niðurstaðan sem sagan leiðir okkur til, hún segir okkur frá freistingu og falli. Manneskjan má ekki lengur búa í Eden,heldur var henni komið fyrir austan Edenar þar sem hún þarf að strita allar götur sínar í sveita síns andlitis. Og Guð setti engil með logandi sverð til að gæta þess að Adam og Eva kæmust aldrei aftur inn í Eden.

Sagan af Adam og Evu fjallar um ástæður þess að þau óhlýðnuðust þessu einfalda boði og hvaða afleiðingar óhlýðnin hafði. Sagan af Adam og Evu verður ekki aðeins saga af tveimur manneskjum í garði, heldur grundvallandi saga fyrir okkar eigið líf, orsakir og tilgang. Þannig beinir sagan af fyrsta fallinu okkur leið inn í föstuna, inn í heim iðrunar og íhugunar sem undirbýr okkur fyrir gleði páskana.

II.

Þegar við veltum fyrir okkur boðskap sögunnar og hvað við getum tekið með okkur inn í næstu viku, skulum við staldra við textann sjálfan. Hvað getur þessi saga sagt okkur? Hvernig kemur hún okkur við? Hvað getum við tekið með okkur úr þessum texta sem mun nýtast okkur í hversdagslífinu?

Við getum kannski byrjað á því sem er ekki í sögunni. Ef þið berið saman söguna eins og hún kemur fyrir í þriðja kafla fyrstu Mósebókar saman við það sem þið munið af því að hafa heyrt hana þúsund sinnum í uppvexti ykkar, þá leiðir samanburðurinn fljótlega í ljós að einn grunsamlegan ávöxt vantar, þ.e. eplið. Það er ekki minnst á epli í sögunni um Adam og Evu! Hins vegar sá Eva ávöxt á trénu og át hann, en enginn veit hvers konar ávöxtur það var.

Annað sem vantar í þessa alþekktu sögu, og við höldum að sé þar er djöfullinn. Það er ekkert talað um djöfulinn í fyrstu Mósebók. Í sögunni er rætt um höggorm sem er slægur, en hann er ekki manngerður eða gerður að tælandi djöfli. Ef Adam og Eva standa fyrir manneskjuna í sköpuninni, er höggormurinn tákn þess sem stendur utan hins mannlega. Hann talar og beinir Evu að trénu og hún tekur eplið af trénu. En sjálfur er hann dýr sem skríður um í aldingarðinum. Höggormurinn er sköpun guðs og ein af skepnum guðdómsins og hvorki með horn né þrífork.

Það er alltaf áhugavert þegar við skoðum gamalkunna sögu í nýju ljósi að velta fyrir sér hvað það er sem við erum að lesa inn í söguna, það sem við höldum að sé þar en er ekki. Hitt er engu síður mikilvægt að líta eftir því sem á einhvern hátt hneykslar okkur við söguna. Kannski erum við búin að heyra hana og lesa svo oft að hún hættir að hneyksla okkur og ergja okkur. Kannski erum við orðin dofin fyrir þessari sögu. Og til þess að uppgötva eitthvað nýtt um okkur sjálf og þá ritningartexta sem okkur eru lesnir hvern sunnudag í kirkjunni, þurfum við að geta nálgast textana út frá nýju og fersku sjónarhorni.

Og það er alveg hægt að fá áfall við að lesa söguna um Adam og Evu. Þar er okkur greint frá eftirtöldum atriðum:

Að konur finni til við barnsfæðingar vegna þess að Eva lét glepjast af höggorminum.

Að snákar bíti manneskjur vegna syndafallsins.

Að karlmaðurinn eigi að drottna yfir konunni sem refsingu fyrir það að hún hlýddi höggorminum.

Að akurlendið sé bölvað vegna syndafallsins.

Að dauðann megi rekja til þess að Adam og Eva óhlýðnuðust.

Allt út af einu epli, sem er ekki einu sinni að finna í sögunni.

III.

Það eru þrjár ástæður fyrir því að þau atriði sem ég nefndi hér áðan gera mér erfitt fyrir að prédika út frá sögunum. Sú fyrsta fjallar um jafnrétti, önnur um stéttskiptingu og sú þriðja um umhverfismál.

Fyrsta ástæðan er sú að ég trúi því ekki að Guð vilji að annað kynið sé undirokað hinu. Ég trúi því ekki að stelpur eigi að vera undirskipaðar strákum á nokkurn hátt og ég trúi því ekki að Guði finnist það heldur. Í Nýja testamentinu er sagt að fyrir Guði séu allir jafnir, Gyðingar og Grikkir, þrælar og frjálsir menn, karlar og konur. Fyrir hvern þann sem trúir á það að allar manneskjur séu jafnar fyrir Guði er erfitt að lesa texta eins og þennan, sem finnur rökstuðning fyrir því að konur eigi að hlýða körlum í því að Eva hafi bitið í ávöxt og sagt manni sínum að gera slíkt hið sama.

Önnur ástæðan er sú að ég trúi því ekki að þrældómur austan Edenar sé endilega Guði þóknanlegur. Ég held að Guð geti alveg unnt öllum mönnum að hvílast og eiga frí. Þess vegna er hvíldardagurinn svo mikilvægur og að unna sér hvíldar einstöku sinnum. Það er auðveldlega hægt að nota þennan texta til að réttlæta þrældóm á fátæku fólki, með því að líta svo á að þrældómurinn sé okkar daglega hlutskipti allt frá syndafallinu.

Þriðja ástæðan fyrir því að mér finnst erfitt að lesa þennan texta fyrir ykkur í dag, er það viðhorf sem hann birtir gegn daglegu lífi á plánetunni jörð. Okkur er sagt að þjáningar kvenna við barnsburð séu refsing vegna óhlýðni Evu. Okkur er sagt að dauðinn sé afleiðing syndarinnar og þetta stef er endurtekið hjá Páli postula í Nýja testamentinu. Okkur er sagt að akurlendið sé bölvað vegna misgjörðar Adams. Ég hef sjálf fætt af mér þrjú börn og hef aldrei skilið neitt í þeirri hugsun að almættið geti refsað konum sérstaklega með hríðum og leggangaútvíkkunum. Og ég er hrædd um að hugmyndir um að akurlendið sé bölvað vegna syndar sé ekki til þess fallið að auka mönnum þá ást og umhyggju fyrir jörðinni sem við þurfum svo sárlega á að halda í nútímanum.

Hvað á að gera við jafn umdeildan og tvíbentan texta og þann sem hér er um að ræða? Eigum við að reyna að skauta hratt yfir verstu atriðin í sögunni um Adam og Evu, láta eins og þau séu ekki til? Eigum við ef til vill að líta svo á að sagan eigi ekkert erindi við almenning og taka hana út af borðinu? Eða eigum við að reyna þriðju leiðina, láta hana hneyksla okkur, glíma við hana og athuga hvort hún getur fært okkur eitthvað nýtt eftir allt saman?

IV.

Hugur minn ber mig út úr aldingarðinum og yfir í andstæðu hans, skraufþurra auðn þar sem hvergi er hægt að sjá stingandi strá. Þetta er staðurinn sem Jesús leitaði til þegar hann vildi vera einn með sjálfum sér. Í það skipti sem guðspjallið okkar segir okkur frá átti hann í erfiðri baráttu. Okkur er sagt að hann hafi mætt djöflinum. Og okkur er í sjálfsvald sett hvort við viljum setja þann djöful með horn og klaufir andspænis Jesú í frumspekilegu drama, eða hvort við sjáum það fyrir okkur að Jesús hafi barist inni í sjálfum sér.

Auðnin og staðurinn austan Edenar eru ólíkir staðir. Og þó eru þeir báðir staðir frelsunar, frelsunar sem kallar Adam og Evu til að vera frjáls og full þekkingar, frelsunar sem hjálpar Jesú að einbeita sér að ætlunarverki sínu sem er að boða guðsríkið og frelsa alla menn. Í þeim báðum er til dauði, hætta og sársauki sem hluti af lífinu. Og hvort tveggja eru staðir þar sem Guð mætir þér og mér, fyllir okkur kjarki, frelsi og friði og gerir okkur kleift að lifa lífinu á þann veg að það særi ekki aðra og byggi sjálf okkur upp.

Ég sé frelsarann fyrir mér, þar sem hann situr á jörðinni með krosslagða fætur og talar við fuglana, dýrin og jurtirnar um það sem framundan er. Í trú hans og baráttu sé ég Paradís. Ekki þá Paradís þar sem ekkert gerist, heldur Paradísina þar sem ungur maður verður fullorðinn og finnur þann mátt sem hann þarf til að vinna sitt góða verk. Hann berst við hindranir og þröskulda, hann langar mest af öllu inn í gömlu Eden, inn í draumsýnina þar sem hann þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu og ekki að hugsa um neitt. Djöfullinn sem talar við hann lofar honum völdum, öryggi og nægri fæðu. Og Jesús svarar: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns. Svo hverfur hið vonda honum sýnum, freistingin er farin og hann tekur til við að frelsa alla menn austan við Eden.

V.

Ég held að það væri gott að hugsa um söguna um Adam og Evu sem táknsögu, sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á kristnina en var ekki endilega rituð í því augnmiði. Sagan þarf ekki endilega að segja okkur allt. Hún er tilraun til að tala um og útskýra lífið á jörðinni, því að Eva merkir líf og Adam merkir jörð á hebresku.

Og ég hugsa um það hvað það væri gott að upplifa sögu þar sem sköpunin er ekki aðeins leiksvið fallsins, heldur staðurinn þar sem Drottinn frelsar.

Frelsun í slíkri sögu er ekki aðeins frelsun frá tilteknum stöðum og aðstæðum, heldur frelsun í tilteknum aðstæðum og á tilteknum stöðum. Ekki frá sköpun, heldur í sköpun. Í slíkri sögu eru þjáningar barnsburðarins eðlilegur hluti af því að koma nýju lífi í heiminn að gefa rými, opna göng og rembast fyrir þetta nýja líf. Þar er dauðinn sjálfsagður hluti af lífinu, ekki afleiðing syndarinnar eða andstæða lífsins. Og þar er vinnan hluti af því að vera til, ekki afleiðing óhlýðni eða refsing. Erfiði, sársauki og dauði eru ekki neikvæðir hlutir í sjálfu sér, heldur mikilvægir þættir í því að vera til í samfélagi annarra manneskja.

Íreneus kirkjufaðir á annarri öld eftir Krist talaði um Adam og Evu í aldingarðinum sem börn. Það var ákvörðunin um að eta ávöxtinn sem gerði þau fullorðin og gerði það að verkum að þau þurftu að finna sér klæði og felast fyrir Guði. Ef við fylgjum túlkun Íreneusar, þá lítum við ekki lengur á það sem Eva og Adam gerðu sem brotið sem ýtti okkur út úr aldingarðinum. Engin frjáls manneskja getur verið í aldingarðinum frekar en fóstur getur lengi þrifist í kviði móður sinnar. Einn dag tökum við til óspilltra málanna sem frjálsar, fullvalda manneskjur og við flytjum út. Þeirri ákvörðun fylgir sársauki, kvíði, dauði og erfiði. Það er líka hluti af því að vera manneskja. Og í því ástandi, austur af Eden mætir Drottinn okkur, ekki til að leiða okkur aftur inn í lundinn, heldur til að hjálpa okkur til að iðka frelsi okkar í kærleik til Guðs og til annars fólks og frelsa okkur til frelsis.

Og því er Paradís útópía, enginn staður og allur staður. Hún er allur staður vegna þess að frumþarfirnar eru okkur mikilvægar. Vatnið, andardrátturinn, fæðan, líkaminn eru undirstaða þess að við getum lifað heilbrigðu lífi. Og við gerðum vel í því á þessari föstu að velta því fyrir okkur hversu fá okkar hafa aðgang að slíkum gæðum. Það eru svo margir sem hafa helsta tengingu við náttúruna í óhreina pollinum á götunni, svo margir sem ekki eiga vatn og mat eða búa við sæmilegt öryggi. Í samanburði við þorra mannkyns búum við á Íslandi í Paradís, eða að minnsta kosti eins nálægt hliðinu sem engillinn gætir eins og kostur er. Paradís er hinn altæki staður vegna þess að öll látum við freistast eins og konan sem heitir Líf og maðurinn sem heitir Jörð.

Samt er Paradís líka staðurinn sem hvergi er til, staðurinn sem við þurfum að yfirgefa til þess að verða við sjálf, gera okkar mistök og þroskast til fullorðinsára. Án gelgjuskeiðsins yrðum við aldrei sjálfstæðar manneskjur, sem tökum sjálfstæðar ákvarðanir. Án göngunnar út úr Paradís væri ekki til neitt frelsi og enginn þroski.

Þannig verður sagan um Adam og Evu okkur uppspretta að hugleiðingu um okkur sjálf, freistingar okkar og þroska, Paradísir okkar og þann stað austan Edenar sem við þurfum að byggja sem myndugar manneskjur. Við þurfum ekki Guð til að bjarga okkur frá þeim stað og senda okkur aftur inn í Paradís. Við þurfum Guð til að frelsa okkur í þeim aðstæðum sem við lifum hvert og eitt með eplin okkar í hendinni, hjálpa okkur til að gera staðinn austan Edenar byggilegri og hlýlegri fyrir okkur sjálf og allar manneskjur. Í stað óendanlegrar fæðu, auðlinda og vatns, þurfum við að læra að skipta með okkur takmörkuðum gæðum. Dauðinn er ekki framar óvinur okkar heldur erum við mold og moldin er hluti af því sem við erum adamah, jörð.

Guð gefi okkur kærleika og réttlæti til að lifa sem jörð á jörðu,

í jafnrétti, án stéttskiptingar og í sátt við umhverfið.

Guð gefi okkur kjark og elju til að vinna að því

að þrár annarra um vatn, mat, öryggi og húsaskjól megi verða að veruleika

og að greina milli þess freistinga sem hamla okkur þroska

og hinna sem gera okkur að myndugum manneskjum.

Guð gefi okkur innihaldsríka og íhugandi föstu austan við Eden.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.