Tag: líkami

Hneyksli legsins

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 I.

Þingvellir eru furðulegur staður. Engu er líkara en að klettarnir hafi verið rifnir sundur af risavöxnum öflum og grasið vex í klettaskorunum. Við nemum staðar á þessum forna stað árið 1618 þegar Íslendingar eru að ganga danska einveldinu á hönd. Alþingi kemur saman á þessum sögufræga stað en þetta þing á lítið sameiginlegt með löggjafarsamkomu fyrri tíðar. Þar er minna gert af því að semja lög en bænaskrár en hins vegar er fylgt þar eftir hinum hörðu dómum sautjándu aldar.

Þingið þetta ár hefur verið óhemjuleiðinlegt, enheldur er að rætast úr því að athyglisvert mál hefur komið upp. Ung stúlka hefur eignast barn í lausaleik í Skagafirði. Hún neitar að segja nafn föðurins og harðneitar að hafa átt mök við nokkurn mann.   Hún klykkir út með því að segjast hafa orðið þunguð af völdum heilags anda.   Hin unga stúlka,  Þórdís Halldórsdóttir hefur ekki krafist neins guðlegs eðlis fyrir barn sitt, hún er einungis að verja það hvernig hún geti bæði verið móðir og hrein mey. Og nú klóra þingmenn sér í höfðinu, því að þessi kona hefur gert sig seka um guðlast og annað eins mál hefur aldrei komið upp á Íslandi. En með guðlastinu þá virðast menn líka geta velt sér upp úr máli Þórdísar Halldórsdóttur.  Hún er í hæðni kölluð María Skagfirðinga og menn skríkja yfir ófyrirleitni hennar.  Og svo er hún dæmd til dauða og henni drekkt í hylnum djúpa í Öxará.

II.

Árið er núll og staðurinn er Nasaret í Galíleu.

Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta.

 Ekki vera hrædd María. Þegar við hugsum til Maríu Skagfirðinga og örlaga hennar þá gerum við okkur grein fyrir hversu hættulegt það var á fyrri tíð að tala um Guð og líkama sinn í sömu andrá.  María Lúkasarguðspjalls hafði góða ástæðu til að vera hrædd, hrædd við að vera ásökuð um guðlast, hrædd við aðhlátur og hæðni, hrædd um að missa félagslega stöðu sína sem meyja. Sú meyjarstaða var eini heiður sem ógiftri konu í Nasaret gat boðist. Það sem er hneykslunarlegt við guðspjall dagsins í dag er ekki það að María skuli segjast lifa í nánu sambandi við Guð, heldur að það samband standi í samhengi við líkama hennar. Lúkas guðspjallamaður segir okkur nefnilega frá því að María hafi tengst Guði, ekki aðeins að anda og sál, heldur í líkama sínum. Hún verður þunguð, leg hennar ber þann þunga, blóð hennar nærir fóstur sem er hluti af líkama hennar og hjarta hennar slær taktinn sem markar tilvist hins verðandi barns.

Kannski er það gróft að stilla upp þessum tveimur konum Maríu Skagfirðinga sem líflátin var í Drekkingarhyl og Maríu móður Jesú. Önnur var blásnauð kona, sem grunuð var um að hafa átt barn með bónda í sveitinni og líflátin fyrir guðlast. Hin er sú kona sem mest er í hávegum höfð í gervöllum kristindómnum.

Ekki er það ætlun mín að vera með einhverjar guðfræðilegar útskýringar á þunga Þórdísar Halldórsdóttur. Hún vissi eflaust lítið um líffræði og ef Tómas mágur hennar á Sólheimum í Sæmundarhlíð var ekki faðir barnsins, þá getur þess vegna verið að einn af þeim sem dæmdi hana til dauða hafi verið sá sem barnið átti. Það sem fyrir mér vakir með því að taka ykkur með mér til Þingvalla ársins 1618, er að sýna ykkur fram á það hvað sagan af boðun Maríu í Lúkasarguðspjalli er mikið hneyksli.   Guðspjallssagan er svo þekkt og er venjulega pakkað inn í svo frómar umbúðir að við tökum varla eftir því hversu furðuleg sú krafa er að María hafi orðið þunguð af heilögum anda.

Þetta kviðartal, líkamstal, holdstal er eitthvað sem guðfræðin á mjög erfitt með að eiga við. Við gætum jafnvel kallað það móðursjúkt, hýsterískt, vegna þess að hysteria eða móðursýki er orð dregið af hysterion, legi. Móðursýki var fyrrum talinn sjúkdómur sem aðeins hrjáði konur vegna ójafnvægis í æxlunarfærunum.  Og guðfræðin, eins og flestar orðræður vestrænnar menningar hefur yfirleitt forðast allt slíkt tal um æxlunarfæri kvenna Í ljósi þessarar feimni og hræðslu við hið móðursjúka, kvenlega og holdlega, þá er það í merkileg staðreynd að kviður Maríu sé eitt af grundvallartáknum kristinnar hefðar og sé ein helsta fyrirmynd okkar í því hvernig við þekkjum Guð, upplifum Guð, tökum við Guði.

III.

Og samt.

Ég les texta boðunardagsins og hjarta mitt fyllist af undrun og andstöðu á sama tíma. Ég elska Maríu og eitthvað í mér berst á móti Maríu. Ég elska þetta undarlega og ótrúlega rúm sem að boðunardagurinn vekur með mér, söguna af kjarki Maríu og ást, að biðja um ekkert og að taka við öllu.

Ef María er helsta fyrirmynd kristinna kvenna á öllum öldum, þá gefa þessar túlkanir konum til kynna að þær eigi að vera mjög hlýðnar og fórna sjálfum sér og auðvitað eiga þær að vera mæður. Það er bæði gott og mikilvægt að geta gefið af sér og móðurhlutverkið er dýrmætt. En það er líka hægt að misnota þessar myndir af hinu hlýja og sjálfsfórnandi.

Margir og margar lifa við þær aðstæður að boðskapur um eigin myndugleika, réttlæti og að þær eða þeir geti ráðið sínu eigin lífi, styrkti sjálfið meir heldur en boðskapurinn um hlýðnina og sjálfsfórnina.   Þeim eða þeirri sem lifir í meðvirku sambandi vegna alkóhólisma eða ofbeldis gæti sú hlýðni og sjálfsfórn sem við tengjum við Maríu orðið að fjörtjóni. Eftir því sem við gerum meira úr óvirkni og viðtöku Maríu, þá verður hún eins og tóm kanna fyrir almættið að hella náð sinni í. Og sú Maríumynd hjálpar engum til þess frelsis sem Kristur frelsaði okkur til.

Önd mín miklar Drottinn
og andi minn hefur glaðst í Guði skapara mínum,

 segir guðspjallið. Og Lúther bætir um betur í skýringum sínum við Lúkasarguðspjall. Hann klykkir út með löngum kafla um það hvað María er opin fyrir Guði. Hann talar um undrun Maríu, um gjöfina sem henni er gefin, gjöf sem hún hafði ekki beðið um. Samkvæmt Lúther velti María ekki fyrir sér hvort hún væri verðug eða óverðug náðar Guðs. Það er öllu heldur sú tilfinning að veraframmi fyrir Guði sem fyllir Maríu gleði. Þetta eru stórkostlegar myndir hjá Lúther, sannkallaðir gleðibjarmar.

En þegar hann heldur áfram renna á mig tvær grímur. Hann segir:  “Hún gefur ekkert, Guð gefur allt.” 

Er það svo að María hafi ekkert gefið?

Gaf hún ekki eitthvað með því að taka við Guði?

Að gefa Guði rúm í líkama sínum?

Upplifði hún ekki kraftaverkið þegar sú sem gefur og sá sem tekur við eru hvorki andstæður né þau hin sömu

Þar sem Guð kemur til okkar

Þar sem við komum til Guðs

Þar sem við lofum Guð með veru okkar, sál, anda og líkama

Í styrkleika okkar og veikleika?

En er María bara um hlýðni og sjálfsfórn og tamningu móðurhlutverksins? Eða hefur táknið um Maríu meyju eitthvað að gefga okkur? Er táknið djúpt og sprungið eins og klettarnir á Þingvöllum þar sem grasið grær á ólíklegustu stöðum?

IV.

Árið er 2012 og staðurinn Grafarholt. Þegar við tölum um boðun Maríu hugsum við um holdtekju, þessa undarlegu þversögn að Guð hafi gerst maður. Og við veltum fyrir okkur hinu sístæða kraftaverki DNA og umlykjandi legs, veltum fyrir okkur næringu, hita, kærleika og takti þess að hvíla í móðurkviði.  Sagan af boðun Maríu er þannig saga af nánd, þar sem guðdómur og manndómur anda saman, saga af Guði sem er ofinn með mennskum þráðum, blóði, holdi. Postulinn Páll talaði einu sinni um hneyksli krossins. Kannski er enn stærra hneyksli falið á síðum helgrar bókar, hneyksli legsins.

Belgíski heimspekingurinn Luce Irigaray fjallar um boðun Maríu og segir:

Hver hlustar á það hvað María boðar?  Um það sem hún man og reyndi? Um guðdóm sem talar í gegnum hana? Um aðgang að hinu heilaga sem fer í gegnum hana? Hvernig gæti sá sem við köllum Jesú frá Nasaret hafa fæðst ef ekki fyrir þessa skynjun meyjarinnar- þessan hæfileika til að skilja og vera næm fyrir hinum hárfínasta titringi?

 V.

Og við hverfum aftur til dómsins yfir hinni íslensku stúlku. Þeir hafa fært hana að hylnum við öxará þar sem vatnið er hreint, kalt og tært. Hún hefur verið færð í poka með steinum í svo pokinn komi ekki upp á yfirborðið aftur. Einn poki fullur af holdi, minning af líkama sem ekki hlýddi reglum og dómum, sem hugsaði ófyrirgefanlegar hugsanir, fæddi barn og bjó til hneyksli.

Hvar passar poki holdsins sem er líkami okkar inn í hversdaginn okkar?

Og hvað hefur þessi líkami með Guð að gera?

Erum við eins og könnur, tóm ílát sem Guð hellir náð sinni í?

Eða gefum við með því að umlykja, styrkja og vera styrkt, með því að koma á óvart og undrast?

Og engillinn sagði: Guði er enginn hlutur um megn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:  Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.

Áramótahugvekja: Þjóðkirkjan á breytingaskeiðinu

Margar fagrar líkingar eru til um kirkjuna. Eitt frægasta tákn kirkjunnar er skipið. Kirkjan er musteri byggt úr lifandi steinum. Fyrstu kristnu söfnuðirnir notuðu gjarnan fisktákn um sjálfa sig. Móðurmyndin er kristnu fólki hugstæð þegar það túlkar kirkjuna með myndum, sbr. sálminn „Kirkjan er oss kristnum móðir“. Og síðan er það myndin af kirkjunni sem líkama Krists sem Páll postuli (og þeir seinni tíma höfundar sem rit hans eru eignuð) draga upp fyrir okkur í bréfum Nýja testamentisins. Hver mynd á sér sína styrkleika og vankanta og þess vegna er gott að eiga þær nokkrar í handraðanum.

Það sem mér finnst áhugaverðast við líkamsmynd Páls um kirkjuna er að megineinkenni líkama er að taka breytingum. Að þessu leyti eru líkingarnar af skipi og líkama gjörólíkar. Það er ekki hluti af eðlilegu ferli skipa að breytast. Þau verða fyrir hnjaski og stórsköðum og svo geta eigendurnir sent þau í slipp til meiri háttar breytinga og andlitsupplyftingar. En líkamar breytast af sjálfu sér í takt við tíma og ytri aðstæður. Þeir þroskast og stækka, fitna og grennast, styrkjast og bila. Sumir líkamar fæða af sér aðra líkama. Sum líffæri verða ekki virk fyrr en ákveðnum þroska er náð, eiga sín skeið og hætta síðan störfum. Önnur visna og deyja og líkaminn þarf að aðlagast nýju ferli. Að lokum deyr líkaminn og aðrir líkamar taka við.

Ég held að fátt kæmi Þjóðkirkjunni betur í upphafi nýs árs 2012 en að hugsa lífrænt og líkamsmiðað um þær breytingar sem fram undan eru í kirkjunni. Þess vegna fjallar þessi áramótahugvekja um breytingaskeið líkamans.

Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá

segir áramótasálmurinn góði. Er það ekki bara allt í lagi?

Það er þversögn fólgin í því að tíðahvörf kvenna skuli á íslensku vera kallaðar „breytingaskeið“. Í orðanna hljóðan liggur að einu breytingarnar sem verði á líkömum séu líkamar miðaldra kvenna, sem jafnframt falli í verði við breytingarnar. En líkamar eru almennt á sífelldu breytingaskeiði. Á einum sprettur hár, hárið gránar og þynnist á öðrum, brýst út í ógurlegum augabrúnum og hökuhárum á þeim þriðja, sá fjórði fellir allt hár. Líkaminn spilar á raddbönd með nýjum hætti, tekur stakkaskiptum að vexti, frjósemi og heilsu, uppgötvar nýjar tegundir vellíðunar og nýjar þjáningar með. Og líkaminn endurnýjar sig stöðugt. Líkaminn er breytingaskeið og stöðnun er helsta hætta sem hann stendur frammi fyrir.


Hér er mynd af síðu Wellcome Images og er eftir Spike Walker. Wellcome Images er ljósmyndasafn sem sérhæfir sig í myndum í þágu vísinda og félagssögu. Myndin er af úrgangi sem nýrun hreinsa yfirleitt. Ef hann nær að safna utan á sig verður hann að nýrnasteinum sem gerir engum gagn. Það sem áður var hluti af eðlilegu flæði getur staðnað, stíflað og skemmt líkamsstarfsemina.

Einhvern tímann las ég að allar frumur líkamans endurnýji sig á sjö ára fresti. Það þýðir að líkami Sigríðar Guðmarsdóttur sem kom heim frá námi í Bandaríkjunum fyrir rúmum sjö árum að taka við nýstofnuðu Grafarholtsprestakalli er allur dáinn og endurnýjaður. Ég er í vissum skilningi þátttakandi í sístæðri upprisu. Og það erum við öll.

Hvert og eitt okkar á sér líkama sem er þátttakandi í stöðugu breytingaskeiði. Kirkjan er það líka og við ættum að taka hverju breytingaskeiði kirkjunnar opnum huga. Hún er lifandi. Hún er líkami. Okkar helsta verkefni ætti að vera að finna út hvernig við ræktum þennan líkama best, hvað haldi honum starfhæfum og samhæfðum, hvað fylli hann orku, gleði og heilbrigði, hvernig hann geti ræktað sérleik sinn og skyldleika við aðra líkama jarðar.

Ég er sannfærð um að ef Páll (eða öllu heldur hinir pálínsku höfundar sem skrifuðu undir merki hans) væri að skrifa um líkama Krists í dag myndu þeir ekki tala um Krist sem höfuð líkamans, heldur DNA líkamans. Það er að segja ef hann/þeir hefðu raunverulegan áhuga á því hvernig líkamar starfa. Forskriftin er ekki lengur fólgin í höfðinu eins og áður var haldið, heldur í hinum margvíslegu og sístarfandi frumum líkamans. Efesusbréf 21. aldarinnar myndi gera að yrkisefni sínu þessa merkilegu hæfni líkama til að stefna í ákveðna átt og móta frumur sínar eftir forskrift sem mótar bæði skyldleika þessa líkama við aðra félagslega líkama og sérleik hans. Og það myndi gera upp allt úrelta líkingamálið um að konur ættu að vera undirgefnar karlmönnum eins og kirkjan er undirgefin Kristi, en þessa samspyrðingu feðraveldisins og kirkjufræðinnar er að finna í þessum sömu textum.

Breyting er merkileg. Breytingar eru ekki allar til hins betra eða verra. Breytingar eru einfaldlega hluti af því að vera lifandi líkami. Og hví skyldu breytingar á líkama Krists vera eitthvað skelfilegri eða óeðlilegri en aðrar breytingar?

Það berst víða að ákallið um að Þjóðkirkjan, þessi líkami Krists á Íslandi taki breytingum. Kröfur um breytingar má heyra víða í samfélaginu. Nýverið birti Ríkisendurskoðun greinargóða skýrslu um stjórnsýslu kirkjunnar þar sem kemur fram að skipurit séu „flókin og nánast villandi“, að mikil þörf sé á að auka gagnsæi, umbreyta stjórnsýslueiningum, fækka sóknum, sameina sjóði og breyta verkaskiptingu milli biskups Íslands og annarra stjórnvalda kirkjunnar. Í skýrslunni eru einnig birtar niðurstöður af spurningalistum til presta þar sem þessir lykilstarfsmenn kirkjunnar kvarta yfir handahófskenndri stjórnsýslu og skorti á handleiðslu.

Verið er að vinna að nýju frumvarpi að Þjóðkirkjulögum á Kirkjuþingi sem m.a. miðar að því að auka vægi, vald og sjálfstæði þingsins og stuðla að skýrari verkaskiptingu milli Kirkjuþings og biskupsembættisins. Í umræðum um hið nýja frumvarp mátti heyra á máli margra þingmanna óþreyju eftir margháttuðum breytingum.

Víða má heyra óskir um að kirkjan verði nútímalegri, lýðræðislegri, sinni betur þörfum barna sinna, að hún sé veitulli í garð þeirra sem ekki fylgja henni, að hún berjist með virkari hætti fyrir mannréttindum og gegn fátækt og að um hana blási ferskari guðfræðivindar.

Á næstu vikum ætla ég að skrifa nokkra pistla um þessi tilteknu efni. Ég ætla að ræða lagafrumvarpið sem fram er komið, fjalla um Biskupsstofu í fortíð, nútíð og framtíð, m.a. út frá skýrslu Ríkisendurskoðunar, og setja fram guðfræðilega framtíðarþanka mína um þennan Krists líkam sem ég í þjóna. Takið endilega þátt í umræðunum það er svo örvandi fyrir blóðrás líkamans! Velkomin á breytingaskeiðið!

1. Kor. 12:27-28a: Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig. Guð hefur gefið öllum hlutverk í kirkjunni.
Ef 4:16: Við eigum að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans sem er höfuðið, Kristur. Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.
Kól 1:18a: Kristur er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið.

„Orðið, Öndin, Spekin, Tjaldið“ Prédikun á jóladag 2011 í Guðríðarkirkju

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss,
fullur náðar og sannleika,og vér sáum dýrð hans,
dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Þannig hljóða upphafsvers jólaguðspjalls Jóhannesar um Orðið sem varð hold.

Hvernig túlkar maður Orð sem varð hold með mynd?
Spurningin er undarleg,
því ef það er eitthvað sem okkur skortir ekki um jólin,
þá eru það jólamyndir,
myndir af fjárhúsi og jötu
og öllu því fólki sem heimsótti það samkvæmt guðspjöllunum,
myndir af bjöllum, jólatrjám, klukkum og kertum.
En Orð sem varð hold, hvaða myndir á það?
Ég sat lengi við undirbúning jóladagsmessunnar
og velti fyrir mér mynd til að setja á messuskrána.

Orðið varð hold.
Það er einhver dýpt yfir orðum Jóhannesar,
eitthvað sem dregur mann til sín í kyrrð sinni og kunnugleika.
Og samt er jólaguðspjall Jóhannesar svo ólíkt þeim textum öðrum
sem við lesum á jólum.
Jólaguðspjall Lúkasar af litla barninu í jötunni
er lesið um jólin til jafns við frásögu Jóhannesar
og jólaguðspjall Mattheusar um vitringana sem gáfu Jesúbarninu gjafir
setur mark sitt á sunnudag milli jóla og nýjárs og þrettándann.
En hjá Jóhannesi er ekki að sjá neitt barn eða móður þess,
engin jata, engar gjafir,
engir vitringar, ekkert fjárhús
og engir hirðar úti í haga,
ekkert af því sem setur mark sitt á helgileiki okkar og hefðbundin jólatákn.
Mér er til efs að nokkur hafi saumað út jóladúk með orðinu sem varð hold.
Þess í stað er okkur gefinn texti
sem stingur í stúf við einfaldleika og frásagnargleði Betlehemsagna af jólabarninu.
Í upphafi var orðið og orðið varð hold og orðið bjó með okkur.

Jólaguðspjallið sem okkur er fært í dag
opnar öðruvísi aðgang að jólunum,
guðspjall sem segir ekki sögu,
Guðspjall sem talar um orð
Og þetta orð er ekki hægt að tákna eða teikna á jólakort,
orð sem streitist á móti hefðbundnum hugmyndum okkar um það
hvernig jólaguðspjall er
orð sem myndar mótvægi við hefðbundin orð um jólabarnið Jesú
orð sem leitar samtals.

Þetta jólaguðspjall byrjar ekki í sögulegum tíma,
ekki við jötuna
ekki fyrir botni Miðjarðarhafs
í upphafi tímatals okkar.
Það fjallar engu síður um tilvist hins þríeina Guðs
en tilvist Jesú frá Nasaret.
Jólaguðspjall Jóhannesar
ásamt nokkrum öðrum mikilvægum ritningartextum
liggur til grundvallar játningu kristinna manna
um leyndardóm þrenningarinnar.
Þegar Jóhannesarguðspjall talar um að orðið hafi verið í upphafi
vísar það þannig ekki til sköpunarinnar eða fæðingu Jesú
heldur til guðdómsins.
Það undirstrikar
að hversu miklar og háleitar hugmyndir sem við gerum okkur
um líf og dauða Jesú
þá byrjar og endar hið heilaga ekki þar.

II.
Hvaðan kemur þessi undarlega hugmynd um Orðið sem var til frá upphafi,
orðið sem varð hold?
Ég sagði áðan að í jólaguðspjalli Jóhannesar
væri engin móðir og ekkert barn.
En guðspjallið er að mörgu leyti
eins og myndin sem varð fyrir valinu á messuskránni.

Fyrst sá ég ekki neitt út úr þessari mynd.
Svo fannst mér ég sjá blaðsíður í bók.
Næst fannst mér ég sjá sitjandi konu
og við hlið hennar álúta veru sem leggur hönd sína í kjöltu hennar.
Stundum finnst mér ég sjá leg út úr þessari mynd.
Stundum sé ég barn sem er líka ljós í fangi konunnar.
Myndin er djúp og undarleg eins og jólaguðspjallið sjálft
og hún heitir “Orðið varð hold”.

Og nú ætla ég að segja ykkur sögu af orðinu
sem er svo erfitt að tjá með myndum,
Orði þar sem bæði móðir og barn leynast undir yfirborði textans.
Gríska orðið logos þýðir orð á íslensku
og það er einmitt orðið sem notað er í upphafi Jóhannesarguðspjalls
til að tákna frelsarann sem fæddist í heiminn.
Þetta er í eina skiptir í gjörvallri Biblíunni sem orðið er notað með þessum hætti.

Lógós er gamalt og virðulegt orð með langa sögu.
Þegar við notum orðið og hugsum um það,
er eins og við opnum hlemm á brunni
og horfum ofan í mikla og ævaforna dýpt.

Margir telja að þessi áhersla á orðið logos bendi til þess
að verið sé að vitna í gríska heimspeki í guðspjallinu.
Í hinni grísku stóuspeki var talað um lógósið
sem hið lífgefandi guðlega afl sem flæðir um alla veröldina.
Grísku heimspekingarnir höfðu að fornu
talað um logos sem gáfu og afl skynseminnar.
Þegar sagt er í upphafi Jóhannesarguðspjalls
Í upphafi er orðið,
er orðið, lógósinn
þannig sískapandi sköpunarmáttur guðdómsins
sem hefur verið til frá upphafi.
Og þegar sagt er að orðið hafi orðið hold,
þá er verið að segja að þessi sköpunarmáttur
hafi orðið manneskja í Jesú Kristi.

Lógósarhugsunin bendir þannig til að Orðið sé miklu eldra en Jesúbarnið
Orðið hefur verið til frá upphafi,
En það fæddist sem barn og lifði þrjátíu ár í heiminum að kristnum skilningi,
Á tíma þar sem sköpunarmáttur Guðs náði sérstökum hæðum.
Inn í ljóð Jóhannesar um orðið er skeytt myndum af Jóhannesi skírara.
Þessi undarlegi sambræðingur hinnar heimspekilegu hugsunar
og vitnisburðar Jóhannesar
segir okkur að guðspjallamanninum var ekki nóg
að útskýra Orðið sem var í upphafi.
Hann vill segja okkur að sá sem Jóhannes skírari vitnaði um
varð hold af Orðinu frá upphafi.
Og þannig tengjast hin altæka saga heims og guðdóms
Við ákveðna sögu á ákveðnum stað
sögu Jesú sem við nefnum Krist og frelsara.

Ég sagði áðan frá hinum gríska lógósi,
en Orðið sem okkur er fært á jólum er ekki aðeins grískt orð og grísk hugsun.
Við eigum fleiri djúpar lindir í þessum fáu orðum jólaguðpjallsins,
sem við skulum taka hlemminn ofan af og horfa niður í.
Þau eru gefin okkur í dag sem jólagjafir.
Og ef við rýnum nógu vel má finna þar myndir móður og barns.

Þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs á öldunum fyrir fæðingu Jesú
mynduðu sameiginlegan hellenískan menningarheim
þar sem grísk, rómversk, egypsk, mesópótamísk og gyðingleg áhrif
runnu saman eða mynduðu merkingarbær tengsl.
Út þessum frjóa jarðvegi varð til hugmyndin um Orðið frá upphafi.

Hin hebreska hefð geymir boðskap sem tengist lógósinu,
hugmyndir um speki og anda, hochmah og ruach á hebresku.
Bæði voru þessi orð í kvenkyni,
Andi Guðs sem sveif yfir vötnunum í sköpunarsögu Biblíunnar
var á hebresku önd Guðs.
Hinar hebresku orðshugmyndir fjallaði um sköpunar- og viskumátt
sem hafði verið með Guði frá því að sköpunin varð til,
eins konar guðleg og kvenkyns fylgitungl Jahves.

Þegar hebreska Biblían var þýdd yfir á grísku
breyttist öndin í hvorugkynsanda, pneuma,
en spekin varð sophia og hélt áfram að vera kvenkyns.
Bæði viskan og öndin
nutu mikillar virðingar í gnostískum hreyfingum,
sem höfðu mikil áhrif á þróun kristindómsins á fyrstu öld.
Þannig urðu líkast til fyrstu þrenningarhugmyndir kristinna manna til,
hugmyndir um hina heilögu fjölskyldu þrenningarinnar,
Guð föður, hina kvenlegu Speki eða önd og svo soninn sem varð hold.

Seinna hvarf kvenkynið endanlega úr tilbeiðslu kristinna manna.
Okkar norræna hefð á fáar minningar um þær systur ruach og hocmah,
sem eru faldar undir Orðinu sem var í upphafi hjá Guði.
En þær eru þarna undir yfirborðinu
kvenmyndir hins hebreska guðdóms
sköpunarmáttur hinnar grísku heimspeki
tákn guðlegrar elsku og visku.

Þegar við horfum ofan í djúpa lind Jóhannesarguðspjalls
segir guðspjallið að Orðið hafi orðið hold
Og að hinn holdtekni hafi búið með okkur sem Jesús Kristur.
Það getur þýtt að Orðið sé sama sem Sonur
og sú skýring hefur orðið ofan á í kristinni hefð.
Það getur líka þýtt að hin guðlega Speki hafi fætt Son í heiminum
þegar hið eilífa nam staðar í tímanum.
Eða hvað túlkar betur það sem er eitt og þó tvö,
eitt sem er að verða tvö,
tvö sem var einu sinni eitt,
en einmitt kona og barn hennar fætt og ófætt?
Hvar verður hið mannlega hold til ef ekki einmitt þar?

III.
Og Orðið varð hold og bjó með oss fullur náðar og sannleika.
Ég hef gengið með ykkur að brunnum orðs, speki og andar í dag.
Að síðustu langar mig til að opna einn brunn fornaldar enn
fyrir okkur á helgum jólum.
Það er dýptin sem leynist undir sögninni að búa
í versinu um Orðið sem bjó með oss.

Sögnin skenoó á grísku
sem er þýdd með sögninni að búa á íslensku
á sér nefnilega engu minni sögu í hebreskunni en lógósið í grískunni.
Skenoó þýðir eiginlega að tjalda,
að gera sér bústað
og er komið af sömu rót og tjaldið
sem Ísraelsmenn báru með sér í eyðimörkinni
þar sem örkin var geymd
og sem reist var á hverjum stað
til vitnisburðar um návist Guðs.
Þessi návist shekinah, á hebresku er enn eitt fylgitunglið
í líki konu
sem við finnumst
þegar við íhugum jólaguðspjall Jóhannesar
hebreskar guðamyndir í kvenkyni
sem við rekumst á hér og þar við lestur Biblíunnar,
sem færa okkur heim öryggi, sköpun og lífgefandi anda
þegar við þurfum mest á þeim að halda.

Kæri kirkjugestur
Sem hefur lesið með mér óræðar myndir í dag,
gengið að hebreskum og grískum brunnum frumkristninnar
hugleitt hversu erfitt það er að ímynda sér orð sem varð hold
og uppgötvað kvenmyndirnar sem standa undir hugmyndinni um Orðið

Ég óska þér þess
Að tjaldbúð Guðs nemi staðar í garðinum þínum
Og shekinah fylli þig af návist þinni
Í hverjum þeim aðstæðum, erfiðleikum og gleði sem þú finnur þig í.

Ég óska þér þess
að önd Guðs blási yfir vötnum þínum
og ruach fylli þig móði og sköpun þegar þreytan og vonleysið nær á þér tökum.

Ég óska þér þess
Að speki Guðs fæði barn í huga þínum og hjarta
hocmah gefi þér visku og frið til að lifa lífi þínu í sátt við Guð og menn.

Ég óska þér þess að þú finnir að Guð býr með þér í Jesú Kristi
að lindir jólanna ljúkist upp fyrir þér
á þann hátt sem þú þarfnast mest
að Guð, orð, önd og speki tjaldi hjá þér allt næsta ár og öll þau ár sem þú lifir

og að þú fáir séð dýrð barnsins sem þér er fætt í dag
í dag og alla daga.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.