Flokkur: Dulúð

Hulan há

Hvernig orðar maður leyndardóm guðdómsins? „Guð er sú hulan há“ er sálmur sem ég þýddi árið 2012 úr sænsku. Í upphafstextanum er talað um Guð sem mysterium. Ég velti því lengi fyrir mér hvernig ég ætti að þýða það orð. Mysterium er gjarnan þýtt sem leyndardómur, launung eða ráðgáta en mér þóttu þau orð ekki ná fram blæbrigðunum sem ég var að leita eftir. Svo fann ég fallega kvenkynsorðið hula, sem hvorttveggja nær yfir það sem er dulið í mannheimum og það sem náttúran hjúpar. Mér finnst gott að tala við Guð í kvenkyni og hin háa, helga hula höfðar til mín (afsakið ofstuðlunina í lýsingunum).

Guð er sú hulan há,
hjartað eitt skilja má.
Leyndarmál, þel og þrá
þekkt verða´í hennar sjá.
Alskyggndu afli hjá,
öll hverfur misgjörð þá.
Guð er sú hulan há.

Gud er mysterium er sálmur eftir Christina Lövenstam við lag Georg Riedel frá Psalmer i 2000 talet, nr. 908. Textinn er svona:

Gud er mysterium
kännbar i inre rum.
Djupaste hemlighet
rörs där av herlighet
sluts i förlåtelse
hos den som allting vet.
Gud er mysterium.

Lagið er gott og það er auðvelt fyrir barnakór, fullorðinskór og söfnuð að syngja lagið saman, eins og hér er gert í Häganäs kirkju 2011.

Myndin er af Breiðamerkurlóni, þeirri fögru hulu og tekin af Rögnvaldi Guðmundssyni í ágúst 2011.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

 

 

Árstíðasálmur um náðargjafir

„Sólin hlær á hlýjum degi,“ er eini sálmurinn sem ég hef ort frá grunni, en ekki þýtt. Hann var frumfluttur í útvarpsmessu í Guðríðarkirkju í mars árið 2011. Sálmalaginu kynntist ég á námsárum í Bandaríkjunum. Það er upphaflega írsk vögguvísa, Ar Hyd y Nos. Þessi laglína lét mig ekki í friði og loks var ég búin að smíða fjögurra versa sálm, þar sem hvert vers er tengt einni árstíð og einni náðargjöf, biblíu, skírn, kvöldmáltíð og bæn.

Þú fagra tré

Mér finnst mikilvægt að líkingar um guðdóminn séu ekki aðeins í karlkyni. Guð er ekki karl eða kona. En ef maður notar alltaf karllægar myndir um Guð og talar alltaf um Guð sem Hann, þá verða táknmál okkar og ímyndir af hinu heilaga karllægar. Ef líkingar okkar af guðdómnum eru alltaf fjölskyldumyndir, faðir, móðir, sonur, dóttir, systir, bróðir, þá förum við á mis við mörg önnur tengsl sem við eigum við náttúru og dýr, sem geta birt hið heilaga engu síður en fjölskyldur mannveranna. Tungumálið leikur sér að okkur. Í þessum sálmi geri ég tilraunir með óhefðbundið, lífrænt táknmál í karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni. Ég tala um Guð sem „fóstrandi þöll“, „fagurt tré“, „umhyggjunnar baðm,““sannan við“ og „víðfaðmandi lífs“.

Glæstar vonir

Ræða flutt á Mannréttindahátíðinni Glæstar vonir í Þróttarhúsinu í Laugardal 28. september 2013

Dulræna eða mýstík er áhugaverð grein trúarbókmennta, ekki síst fyrir þær sakir að í henni kemur gjarnan fram andóf gegn ríkjandi trúarskoðunum. Í kristnum dul hefur til dæmis rödd kvenna hljómað á sama tíma og þær voru þaggaðar niður á öllum öðrum stöðum trúarkerfisins. Dulrænan getur þannig virkað eins undiralda, andóf og andhæris stroka. Hún beinis ekki endilega gegn ríkjandi trúarbrögðum, en truflar hina eintóna framsetningu forræðisins.

Mig langar að vitna til ljóðs eftir Sor Juana de la Cruz, eða systur Jóhönnu af Krossi, en eftir þá stórmerku konu liggja bæði leikrit, ljóð og guðfræðitextar. Af ástarbréfum hennar til valdamikilla kvenna í Mexíkó má milli lína lesa um samkynhneigð hennar sem hvorki kirkja né samfélag gátu samþykkt eða skilið á þeim tíma og geta varla enn. Viðhorf Jóhönnu til veruleikans einkennist af andófi gegn hinum fornu, skörpu andstæðum himins og jarðar, líkama og anda, hjarta og hugar. Í staðinn dregur hún upp myndir af guðlegum krafti, dansi, ást og blossa, sem er ekki óbreytanleg og frosin heldur tengd öllum okkar atburðum, öllum okkar sérstæða veruleika. Jóhanna yrkir um Jesúbarnið og frumefnin fjögur sem næra barnið, en að hennar tíma náttúrufræðiskilningi mynduðu frumefnin fjögur allt líf.

Þegar hríðin og hragglandinn geisa
og hrekja burt kærleikann,
hver kemur barni til bjargar?
Vatn!
Jörð!
Loft!
Nei, það mun Eldurinn gera.

Þegar barnið er veikt og vansvefta
og vart dregur andann lengur
hver kemur barni til bjargar?
Eldur!
Jörð!
Vatn!
Nei, það mun Loftið gera.

Þegar sækist að barninu sóttin
og safnast að glóð fyrir vitum
hver kemur barni til bjargar?
Loft!
Eldur!
Jörð!
Nei, það mun Vatnið gera.

Í dag þegar höfði á jörðu að halla á hvergi
himnanna barn án næturstaðar
hver kemur barni til bjargar?
Vatn!
Eldur!
Loft!
Nei, það mun Jörðin gera.

Í stað þess að tala um barnið og trúna, með orðræðu hins sterka og utanaðkomandi, sem reddar öllu ef allir fara að settum reglum, þá talar Jóhanna um kærleikann sem það sem þarf hjálp, hlýju, drykk og næturstað til þess að vaxa og dafna. Og til þess að slíkur mannkærleikur fái að lifa í samskiptum mannanna, þá sækir Jóhanna hjálp í frumefnin, í vatnið sem myndar þrjá fjórðu af líkamsmassa okkar, í eldinn sem brennur innra með okkur og milli okkar, í loftið sem við eigum sameiginleg og öndum saman að okkur, í jörðinni undir fótum okkar.

Jóhanna er fædd fyrir tíma nútíma mannréttindaorðræðu en samt má finna sterkan samhljóm milli þess sem hún segir og þess sem lesa má út úr mikilvægustu mannréttindabálkum nútímans. Það eru ekki girðingarnar sem gera okkur að manneskjum, ekki trúin sem við játum, liturinn á höndum okkar og andlitum, kyn okkar eða kyn þeirra sem við elskum af hjarta og sálu. Það er ekki aldur okkar sem ræður úrslitum um það hvort við séum manneskjur og elskuverð, ekki hæfi okkar eða fötlunarstig, ríkidæmi, þjóðerni eða stétt. Við erum einfaldlega öll manneskjur og óendanlega dýrmæt sem slík. Við höfum stjórnarskrárvarin réttindi til trúar og trúleysis á okkar eigin hátt, við eigum rétt á að njóta mannréttinda ferða-, félaga og tjáningafrelsis, að eiga kynverundarréttindi, að lifa án ótta við hatur og fordóma sem beint er gegn minnihlutahópum. Slík réttindi eru grundvallarréttindi, en þeim er víða gleymt í veröldinni og reisn allra manneskja er svo oft fótum troðin. Og þess vegna eru tiltekin mannréttindi ekki einhver einkamál þeirra sem mannréttindi eru brotin á og búa við undirskipun og kúgun. Þau eru líka málefni þeirra sem búa við forréttindi. Og kannski eru stærstu forréttindi lífsins þau að hafa enga hugmynd eða meðvitund um það að maður búi við forréttindi. Slíkt andóf gegn forréttindablindu og með mannréttindum þarf að eiga sér stað á öllum sviðum mannlífsins þar með talið Þjóðkirkjunni sem ég tilheyri. Þess vegna er ég glöð yfir framtaki Laugarneskirkju sem boðar til Regnbogamessu annað kvöld 29. september klukkan átta í nafni mannréttinda.

Fyrir rúmlega þúsund árum töldu menn að þeir þyrftu að velja á milli heiðni og kristni til að halda friði í landinu. Þúsöld síðar er þessi þörf til að vera eins og trúa eins ekki til staðar. Fjölbreytnin og fjölhyggjan leggur okkur flóknar og erfiðar skyldur á herðar, skyldur sem byggja á mannréttindum, manngæsku og mannvirðingu, Við viljum geta lifað saman í sátt. Við viljum geta glímt hvert við annað með því að takast á í rökræðu, gagnrýnt hvert annað, samið, eða ákveðið að vera ósammála um tiltekin atriði, í stað þess að beita valdi, útilokun, hatursorðræðu og fordómum. Þessar skyldur gera það að verkum að við verðum sem þjóð að þjálfa okkur í því að hlusta, greina og eiga saman glæstar vonir.

Mannréttindahátíðin Glæstar vonir er gott nafn. Það sem er best við nafnið er að von okkar er ekki ein, vegna þess að við erum vatn og eldur og loft og jörð og það barn sem við björgum undan hríð, sótt og þorsta kemur til okkar úr ólíkum áttum að sækja sér næturstað. Við eigum okkur ólíkar vonir og ólík viðhorf til lífsins og hjálp okkar fæðist með okkur sjálfum og í tengslunum okkar á milli. Sumir kjósa að líta á þau tengsl sem guðleg, önnur ekki. Og það er allt í lagi.

Hver kemur barni til bjargar? Megi vatnið í æðum okkar sem Jóhanna af Krossi yrkir um, eldurinn í brjóstum okkar, loftið sem við öndum að okkur og jörðin sem við stöndum á sem byggir með okkur glæstar vonir gegn lítillækkun, hatri og kúgun í sérhverri mynd.
cropped-regnbogi.jpg

Hneyksli legsins

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 I.

Þingvellir eru furðulegur staður. Engu er líkara en að klettarnir hafi verið rifnir sundur af risavöxnum öflum og grasið vex í klettaskorunum. Við nemum staðar á þessum forna stað árið 1618 þegar Íslendingar eru að ganga danska einveldinu á hönd. Alþingi kemur saman á þessum sögufræga stað en þetta þing á lítið sameiginlegt með löggjafarsamkomu fyrri tíðar. Þar er minna gert af því að semja lög en bænaskrár en hins vegar er fylgt þar eftir hinum hörðu dómum sautjándu aldar.

Þingið þetta ár hefur verið óhemjuleiðinlegt, enheldur er að rætast úr því að athyglisvert mál hefur komið upp. Ung stúlka hefur eignast barn í lausaleik í Skagafirði. Hún neitar að segja nafn föðurins og harðneitar að hafa átt mök við nokkurn mann.   Hún klykkir út með því að segjast hafa orðið þunguð af völdum heilags anda.   Hin unga stúlka,  Þórdís Halldórsdóttir hefur ekki krafist neins guðlegs eðlis fyrir barn sitt, hún er einungis að verja það hvernig hún geti bæði verið móðir og hrein mey. Og nú klóra þingmenn sér í höfðinu, því að þessi kona hefur gert sig seka um guðlast og annað eins mál hefur aldrei komið upp á Íslandi. En með guðlastinu þá virðast menn líka geta velt sér upp úr máli Þórdísar Halldórsdóttur.  Hún er í hæðni kölluð María Skagfirðinga og menn skríkja yfir ófyrirleitni hennar.  Og svo er hún dæmd til dauða og henni drekkt í hylnum djúpa í Öxará.

II.

Árið er núll og staðurinn er Nasaret í Galíleu.

Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta.

 Ekki vera hrædd María. Þegar við hugsum til Maríu Skagfirðinga og örlaga hennar þá gerum við okkur grein fyrir hversu hættulegt það var á fyrri tíð að tala um Guð og líkama sinn í sömu andrá.  María Lúkasarguðspjalls hafði góða ástæðu til að vera hrædd, hrædd við að vera ásökuð um guðlast, hrædd við aðhlátur og hæðni, hrædd um að missa félagslega stöðu sína sem meyja. Sú meyjarstaða var eini heiður sem ógiftri konu í Nasaret gat boðist. Það sem er hneykslunarlegt við guðspjall dagsins í dag er ekki það að María skuli segjast lifa í nánu sambandi við Guð, heldur að það samband standi í samhengi við líkama hennar. Lúkas guðspjallamaður segir okkur nefnilega frá því að María hafi tengst Guði, ekki aðeins að anda og sál, heldur í líkama sínum. Hún verður þunguð, leg hennar ber þann þunga, blóð hennar nærir fóstur sem er hluti af líkama hennar og hjarta hennar slær taktinn sem markar tilvist hins verðandi barns.

Kannski er það gróft að stilla upp þessum tveimur konum Maríu Skagfirðinga sem líflátin var í Drekkingarhyl og Maríu móður Jesú. Önnur var blásnauð kona, sem grunuð var um að hafa átt barn með bónda í sveitinni og líflátin fyrir guðlast. Hin er sú kona sem mest er í hávegum höfð í gervöllum kristindómnum.

Ekki er það ætlun mín að vera með einhverjar guðfræðilegar útskýringar á þunga Þórdísar Halldórsdóttur. Hún vissi eflaust lítið um líffræði og ef Tómas mágur hennar á Sólheimum í Sæmundarhlíð var ekki faðir barnsins, þá getur þess vegna verið að einn af þeim sem dæmdi hana til dauða hafi verið sá sem barnið átti. Það sem fyrir mér vakir með því að taka ykkur með mér til Þingvalla ársins 1618, er að sýna ykkur fram á það hvað sagan af boðun Maríu í Lúkasarguðspjalli er mikið hneyksli.   Guðspjallssagan er svo þekkt og er venjulega pakkað inn í svo frómar umbúðir að við tökum varla eftir því hversu furðuleg sú krafa er að María hafi orðið þunguð af heilögum anda.

Þetta kviðartal, líkamstal, holdstal er eitthvað sem guðfræðin á mjög erfitt með að eiga við. Við gætum jafnvel kallað það móðursjúkt, hýsterískt, vegna þess að hysteria eða móðursýki er orð dregið af hysterion, legi. Móðursýki var fyrrum talinn sjúkdómur sem aðeins hrjáði konur vegna ójafnvægis í æxlunarfærunum.  Og guðfræðin, eins og flestar orðræður vestrænnar menningar hefur yfirleitt forðast allt slíkt tal um æxlunarfæri kvenna Í ljósi þessarar feimni og hræðslu við hið móðursjúka, kvenlega og holdlega, þá er það í merkileg staðreynd að kviður Maríu sé eitt af grundvallartáknum kristinnar hefðar og sé ein helsta fyrirmynd okkar í því hvernig við þekkjum Guð, upplifum Guð, tökum við Guði.

III.

Og samt.

Ég les texta boðunardagsins og hjarta mitt fyllist af undrun og andstöðu á sama tíma. Ég elska Maríu og eitthvað í mér berst á móti Maríu. Ég elska þetta undarlega og ótrúlega rúm sem að boðunardagurinn vekur með mér, söguna af kjarki Maríu og ást, að biðja um ekkert og að taka við öllu.

Ef María er helsta fyrirmynd kristinna kvenna á öllum öldum, þá gefa þessar túlkanir konum til kynna að þær eigi að vera mjög hlýðnar og fórna sjálfum sér og auðvitað eiga þær að vera mæður. Það er bæði gott og mikilvægt að geta gefið af sér og móðurhlutverkið er dýrmætt. En það er líka hægt að misnota þessar myndir af hinu hlýja og sjálfsfórnandi.

Margir og margar lifa við þær aðstæður að boðskapur um eigin myndugleika, réttlæti og að þær eða þeir geti ráðið sínu eigin lífi, styrkti sjálfið meir heldur en boðskapurinn um hlýðnina og sjálfsfórnina.   Þeim eða þeirri sem lifir í meðvirku sambandi vegna alkóhólisma eða ofbeldis gæti sú hlýðni og sjálfsfórn sem við tengjum við Maríu orðið að fjörtjóni. Eftir því sem við gerum meira úr óvirkni og viðtöku Maríu, þá verður hún eins og tóm kanna fyrir almættið að hella náð sinni í. Og sú Maríumynd hjálpar engum til þess frelsis sem Kristur frelsaði okkur til.

Önd mín miklar Drottinn
og andi minn hefur glaðst í Guði skapara mínum,

 segir guðspjallið. Og Lúther bætir um betur í skýringum sínum við Lúkasarguðspjall. Hann klykkir út með löngum kafla um það hvað María er opin fyrir Guði. Hann talar um undrun Maríu, um gjöfina sem henni er gefin, gjöf sem hún hafði ekki beðið um. Samkvæmt Lúther velti María ekki fyrir sér hvort hún væri verðug eða óverðug náðar Guðs. Það er öllu heldur sú tilfinning að veraframmi fyrir Guði sem fyllir Maríu gleði. Þetta eru stórkostlegar myndir hjá Lúther, sannkallaðir gleðibjarmar.

En þegar hann heldur áfram renna á mig tvær grímur. Hann segir:  “Hún gefur ekkert, Guð gefur allt.” 

Er það svo að María hafi ekkert gefið?

Gaf hún ekki eitthvað með því að taka við Guði?

Að gefa Guði rúm í líkama sínum?

Upplifði hún ekki kraftaverkið þegar sú sem gefur og sá sem tekur við eru hvorki andstæður né þau hin sömu

Þar sem Guð kemur til okkar

Þar sem við komum til Guðs

Þar sem við lofum Guð með veru okkar, sál, anda og líkama

Í styrkleika okkar og veikleika?

En er María bara um hlýðni og sjálfsfórn og tamningu móðurhlutverksins? Eða hefur táknið um Maríu meyju eitthvað að gefga okkur? Er táknið djúpt og sprungið eins og klettarnir á Þingvöllum þar sem grasið grær á ólíklegustu stöðum?

IV.

Árið er 2012 og staðurinn Grafarholt. Þegar við tölum um boðun Maríu hugsum við um holdtekju, þessa undarlegu þversögn að Guð hafi gerst maður. Og við veltum fyrir okkur hinu sístæða kraftaverki DNA og umlykjandi legs, veltum fyrir okkur næringu, hita, kærleika og takti þess að hvíla í móðurkviði.  Sagan af boðun Maríu er þannig saga af nánd, þar sem guðdómur og manndómur anda saman, saga af Guði sem er ofinn með mennskum þráðum, blóði, holdi. Postulinn Páll talaði einu sinni um hneyksli krossins. Kannski er enn stærra hneyksli falið á síðum helgrar bókar, hneyksli legsins.

Belgíski heimspekingurinn Luce Irigaray fjallar um boðun Maríu og segir:

Hver hlustar á það hvað María boðar?  Um það sem hún man og reyndi? Um guðdóm sem talar í gegnum hana? Um aðgang að hinu heilaga sem fer í gegnum hana? Hvernig gæti sá sem við köllum Jesú frá Nasaret hafa fæðst ef ekki fyrir þessa skynjun meyjarinnar- þessan hæfileika til að skilja og vera næm fyrir hinum hárfínasta titringi?

 V.

Og við hverfum aftur til dómsins yfir hinni íslensku stúlku. Þeir hafa fært hana að hylnum við öxará þar sem vatnið er hreint, kalt og tært. Hún hefur verið færð í poka með steinum í svo pokinn komi ekki upp á yfirborðið aftur. Einn poki fullur af holdi, minning af líkama sem ekki hlýddi reglum og dómum, sem hugsaði ófyrirgefanlegar hugsanir, fæddi barn og bjó til hneyksli.

Hvar passar poki holdsins sem er líkami okkar inn í hversdaginn okkar?

Og hvað hefur þessi líkami með Guð að gera?

Erum við eins og könnur, tóm ílát sem Guð hellir náð sinni í?

Eða gefum við með því að umlykja, styrkja og vera styrkt, með því að koma á óvart og undrast?

Og engillinn sagði: Guði er enginn hlutur um megn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:  Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.

Tilkomi þitt ríki

Um daginn var ég beðin um að útskýra Faðirvorið, sjá hér. Spurningin er góð, vegna þess að hún tengist ekki aðeins þekkingu eða hæfni til útskýringa. Faðirvorið er eins og góður íkon, maður horfir inn í dýpt og sú dýpt tekur á sig ýmsar myndir eftir því hver útskýrir og túlkar.

Faðirvorið er bænin sem Jesús kenndi lærisveinunum samkvæmt guðspjöllunum, þegar þeir báðu hann um að kenna sér að biðja. Það má skipta Faðirvorinu upp í sex bænir, auk ávarpsins í upphafi og lofgjörðarinnar í lokin.

  1. Helgist þitt nafn.
  2. Tilkomi þitt ríki.
  3. Verði þinn vilji svo á jörðu, sem á himni.
  4. Gef oss í dag vort daglegt brauð.
  5. Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
  6. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.

Þegar ég horfi á þessar sex bænir þá finnst mér bænir númer eitt og tvö vera lyklarnir að öllum hinum.  Helgist þitt nafn. Tilkomi þitt ríki, segja þær og í Faðirvorinu birtist eins konar manifestó guðsríkisins. Jesús er óþreytandi í guðspjöllunum að draga upp frumlegar myndir af ríki Guðs. Himnaríki er perla, net, fjársjóður, sáðkorn, mustarðskorn segja guðspjöllin. Ríki Guðs er ekki aðeins heimkomustaður eftir dauðann eða staðurinn ofar festingunni samkvæmt fornri heimsmynd, heldur mitt á meðal okkar þótt við sjáum það ekki alltaf. Við sjáum það þar sem kærleikurinn ríkir og sá kærleikur er dýrmætari og fegurri en nokkuð annað. Og hann hefur burði til að vaxa.

Helgist þitt nafn, tilkomi þitt ríki. Hvernig sér maður ríki Guðs á meðal manna?  Hvar sér maður nafn Guðs helgast?  Í hinum bænunum fjórum sem á eftir koma erum við leidd inn í þennan veruleika guðsríkisins. Til þess sem eflir guðsríkið. Til þess sem ógnar guðsríkinu og varnar því þroska á meðal manna.

Guðsríkið fær að dafna þegar vilji Guðs ríkir.

Guðsríkið fær að dafna þegar allir fá brauð að borða.

Guðsríkið dafnar þegar við þiggjum fyrirgefningu Guðs og getum sjálf fyrirgefið öðrum.

Og Guðsríkið dafnar þegar við treystum Guði fyrir öllu okkar lífi.

Við endum bænina á lofgjörðinni sem kemur til okkar úr vídd vonarinnar. Þannig er hið kristna líf alltaf á mörkum tveggja vídda. Þess sem við lifum og víddar vonarinnar þegar Guðsríkið eitt ríkir, viljinn, brauðið, fyrirgefningin og frelsandi traustið. Stundum sjáum við bara í einni vídd. Stundum er mustarðskornið svo lítið, fjársjóðurinn týndur, perlan mött og netið slitið.

Þess vegna endum við á lofgjörð um ríkið, máttinn og dýrðina. Að eilífu.

Amen.

Trúarlíf mitt og fyrirmyndir

Ég hef fengið spurningu um mitt persónulega trúar- og bænalíf, hverjar séu fyrirmyndir mínar og áhrifavaldar og hver séu uppáhaldsvers mín í Biblíunni. Spurningarnar í heild má sjá hér:

Ég hef verið kristin frá því að ég man eftir mér. Mamma hengdi biblíumyndir í gylltum römmum fyrir ofan rúmin hjá okkur börnunum og það fyrsta sem ég sá þegar ég opnaði augun á morgnana og það síðasta þegar ég lokaði þeim á kvöldin var myndin af Maríu með litla Jesúbarnið í fanginu. Ég hef alltaf verið trúuð en á ólíkan hátt eftir aldri og þroska. Ég hef glímt við efa trúarinnar en hef aldrei komist að niðurstöðu um það hvers vegna ég er kristin. Ég einfaldlega er það og von trúarinnar hefur brotist sterkust fram þegar fátt annað virkar í mínu lífi.

Ég held að uppáhalds fyrirmynd í trú sé Sigurþór móðurbróðir minn. Siggi frændi minn er einstaklega góður maður, blíður og hjartahlýr og trúin er eitthvað sem batt okkur snemma saman. Ég sé Jesú Krist í því hvernig hann umgengst menn og málleysingja.

Ég hef orðið fyrir áhrifum af ólíku fólki á ævinni. Foreldrar mínir eru mér endalaus uppspretta ástar og virðingar. Ég var 15 ára þegar Vigdís Finnbogadóttir varð forseti Íslands, fyrst kvenna í heiminum til að vinna lýðræðislegar forsetakosningar. Ég var og er óendanlega stolt af Vigdísi og hún hefur alltaf verið mér fyrirmynd eins og móðurleg fjallkona sem vakti yfir þjóð sinni af greind og hlýju. Ég hef orðið fyrir sterkum áhrifum af persónu og prédikun Sigurbjörns Einarssonar biskups, sem setti svip sinn á jólakvöld bernsku minnar þegar hann hélt yfir okkur alvörugefnar jólaræður úr sjónvarpinu. Ég skrifaði doktorsritgerðina mína um guðfræði Paul Tillich og lá í verkum hans svo árum skipti.  Ég hef bæði glímt við texta Tillich og búið í þeim. Þeir hafa mótað guðfræði mína og trúarsýn. Og að síðustu vil ég nefna doktorsmóður mína Catherine Keller, sem er mér fyrirmynd í trú og guðfræðiiðkun þar sem trú og gagnrýnin skynsemi fallast í faðma.

Ég lifi reglulega bænalífi. Ég er þátttakandi í tveimur bænahópum. Annar stundar fyrirbænir en hinn íhugandi bæn. Þann síðarnefnda er ég nýbúin að uppgötva og báðir gera þeim mér og starfi mínu gott, þótt með ólíku móti sé. Í guðsþjónustu sunnudagsins rennur mitt persónulega bænalíf inn í bænir safnaðarins. Ég bið líka með fermingarbörnunum og á miðvikudögum syngjum við nóntíð í Guðríðarkirkju. Allt þetta hjálpar við að varða vikuna bænalífi og innri ró.

Ég á mér marga uppáhaldsritningartexta. Uppáhaldstextinn minn úr Davíðssálmum tengist doktorsverkefninu mínu um afgrunn guðdómsins (Abyss of God), vers úr 42. sálmi 8, abyssus abyssum invocat:

Eitt djúpið kallar á annað
þegar fossar þínir duna,
allir boðar þínir og bylgjur
ganga yfir mig.

Líkingin um Guð sem djúp eða flóð snertir við mér á djúpstæðan hátt. Ég á mér líka annan uppáhaldstexta úr Jesaja 43:1-2 sem ég myndi vilja gera að einkunnarorðum mínum í embætti. Það er ekkert að óttast þegar Guð er með í för:

En nú segir Drottinn svo,
sá sem skóp þig, Jakob,
og myndaði þig, Ísrael:
Óttast þú ekki því að ég frelsa þig,
ég kalla á þig með nafni,
þú ert minn.

Gangir þú gegnum vötnin
er ég með þér,
gegnum vatnsföllin,
þá flæða þau ekki yfir þig.
Gangir þú gegnum eld
skalt þú ekki brenna þig
og loginn mun ekki granda þér.