Tag: samkynhneigð

Kirkjuþing unga fólksins og mismunun vegna kynhneigðar

Kirkjuþing unga fólksins kom saman á laugardaginn fyrir viku og ræddi meðal annars um samviskufrelsi presta undir liðnum 6. mál. Ályktun þeirra hljóðar svo:

Kirkjuþing unga fólksins leggur til að reglur þær sem nú eru í gildi um samviskufrelsi presta sem heimila prestum að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar verði afnumdar, enda stríði þær gegn kenningu kirkjunnar um jafnrétti og gegn lögum landsins sem segja að ekki megi mismuna fólki á grundvelli kyns, kynþáttar, trúar, stéttar né kynhneigðar.

Ég er ánægð með að Kirkjuþing unga fólksins skuli láta réttindamál samkynhneigðs fólks í kirkjunni sig varða og berjast gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar og fleiri þátta sem tilgreindir eru í mannréttindasáttmálum. Það er eitthvað gott í gangi í samfélagi þar sem unga fólkið velgir þeim eldri undir uggum og hristir það af svefni. Þau hreyfðu við mér og fyrir það er ég þakklát.

Kirkjuþing unga fólksins bað um að reglur væru afnumndar  „um samviskufrelsi presta sem heimila prestum að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar. En hverjar eru þessar reglur sem hér er um rætt?  Hverju þarf að breyta? Þarf að breyta einhverju? Þessi bloggfærsla er yfirlitsgrein yfir lögin og aðdraganda lagasetningar um ein hjúskaparlög með sérstakri áherslu á umræður, umsagnir, ályktanir og athugasemdir um frelsi presta til að neita samkynhneigðu fólki um vígslu. Hún er skelfing löng, en þeim sem þreytast á lestrinum er bent á niðurstöðurnar í lokin.

Hjúskaparlögin sem nú eru í gildi eru nr 31/1993 (með breytingunum 2010, sem gjarnan eru kennd við ein hjúskaparlög) og leystu af lögin nr. 60/1972 um stofnun og slit hjúskapar, en þau lög byggðu á lögum nr. 39/1921 um sama efni. Í lögunum frá 1921 og 1972 var talað um heimildir til kirkjulegrar hjónavígslu og að ráðuneytið gæti sett reglur um það hvenær prestum væri skylt að framkvæma hjónavígslur. Ég veit ekki til þess að þessar reglur hafi nokkurn tímann verið settar, en þessar heimildarskilgreiningar úr gömlu lögunum 1921 og 1972 fóru áfram inn í lögin 1993. Í athugasemdum með frumvarpinu 1972 er fjallað um heimildir einstakra vígslumanna á þennan hátt:

Um 16. gr. Í þessari grein er lagt til, að kirkjumálaráðuneyti setji reglur um, hvaða prestar þjóðkirkjunnar hafi heimild til hjónavígslu og hvenær þeim sé skylt að framkvæma hjónavígslu. Að jafnaði hafa allir prestar þjóðkirkjunnar þessa heimild, en eftir því sem flokkum presta fjölgar er ekki sagt, að svo verði þessu farið um þá alla. Þykir rétt, að ráðuneytið skeri úr þessu, svo og setji reglur um skyldu presta til að framkvæma hjónavígslu, að sjálfsögðu að fenginni umsögn biskups og prestastefnu.

Það sem er sérstaklega áhugavert við þessa klausu er sá skilningur frumvarpsins að ekki sé endilega sjálfsagt að allir prestar hafi vígsluvald.

Heimildir trúfélaga til vígslu þýða að ríkisvaldið getur framselt heimildir til trúfélags um að annast lögformlega hjónavígslu, en trúfélagið þarf ekki að taka við heimildunum, eða ákveðið að skilgreina þrengra þau skilyrði sem trúfélagið setur fyrir trúarlegri athöfn en ríkisvaldið gerir. Í kaþólsku kirkjunni er til að mynda lögð áhersla á órjúfanleika hjónabandsins, sem að skilningi trúfélagsins er sakramenti og ævilangur sáttmáli. Fráskildu fólki sem óskar hjónabands er því þrengri stakkur skorinn hvað varðar athafnir í kaþólsku kirkjunni en þeim sem ganga ógiftir til hjónabands.

Sum trúfélög setja reglur um trúfélagsaðild og mörg þeirra vígja ekki samkynhneigt fólk í hjónaband. Það sem gerir stöðu íslensku þjóðkirkjunnar hins vegar sérstaka meðal trúfélaganna er að þar er valdið til að velja lagt á herðar hvers einstaks prests. Og við það færist fókusinn frá trúfrelsi trúfélaga yfir á sannfæringar- eða samviskufrelsi einstakra presta. Og þess vegna er það ekki trúfélagið sem situr uppi með mögulegan mismununarvanda og þar með mögulegt brot á stjórnarskrárbundnum réttindum fólks, heldur presturinn sjálfur.

En hvar koma þessar „reglur“ fyrir sem Kirkjuþing unga fólksins hvetur til að séu afnumndar, reglur sem „heimila prestum að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar“?

Árið 2007 sendi Kirkjuþing frá sér ályktun sem að mörgu leyti má telja mótsagnakennda. Tillagan ber þess merki að vera sett fram sem málamiðlun í miklu ölduróti þar sem glímt var um réttindi samkynhneigðs fólks. Hún hljóðar svo:

Kirkjuþing lýsir stuðningi við meginatriði ályktunar kenningarnefndar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist og stendur við hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu.

Ef lögum um staðfesta samvist verður breytt þannig að trúfélög fái heimild til að staðfesta samvist þá styður Kirkjuþing það að prestum Þjóðkirkjunnar, sem eru vígslumenn að lögum, verði það heimilt. Kirkjuþing leggur áherslu á að frelsi presta í þessum efnum verði virt.

Ályktunin er þannig þríþætt. Hún fjallar a) um hjónavígsluskilning íslensku þjóðkirkjunnar, b) um heimildir til presta sem hafa annan hjónavígsluskilning til að staðfesta samvist og c) áréttar frelsi einstakra presta til að taka að sér eða neita að taka að sér vígslu. Árið 2008 samþykkti Alþingi síðan ný lög sem heimiluðu trúfélögum að annast staðfesta samvist. Í athugasemdunum með frumvarpinu með lögunum var vitnað í ályktunina frá Kirkjuþingi 2007, enda hafði Kirkjuráð sent þinginu ályktunina sem umsagnaraðili um lögin.  Prestafélag Íslands sendi einnig inn umsögn og lýsti sig samþykka málamiðluninni.

Frumvarpið sjálft nefnir aldrei val einstakra vígslumanna til að annast vígslu, en í athugasemdunum er valkvæði þátturinn orðaður svona:

Gert er ráð fyrir í b-lið 1. gr. frumvarpsins að vígslumönnum sem hafa á grundvelli 17. gr. hjúskaparlaga heimild til hjónavígslu verði einnig veitt heimild til að staðfesta samvist tveggja einstaklinga af sama kyni. Þarna er einkum um að ræða presta þjóðkirkjunnar og presta og forstöðumenn skráðra trúfélaga. Ekki verði á hinn bóginn um skyldu að ræða þegar þessir vígslumenn eiga í hlut. Virða beri frelsi presta og forstöðumanna skráðra trúfélaga til að ákveða hvort þeir staðfesti samvist þegar lagaskilyrði eru fyrir hendi en vissulega er á því byggt að þeir muni ekki synja af öðrum ástæðum en vegna trúarsannfæringar sinnar. Ef ástæða þykir til má ætla að þjóðkirkjan og skráð trúfélög muni gefa út leiðbeiningar til vígslumanna sinna um framkvæmd þessarar heimildar.

Samtök Foreldra og aðstandenda samkynhneigðra sendu þinginu einnig umsögn og gagnrýndu þá hugmynd að lögin yrðu valkvæð fyrir presta:

Hér er sem sé gert ráð fyrir að þeir prestar þjóðkirkjunnar sem ekki vilja veita samkynhneigðum þessa þjónustu geti neitað því. Slík neitun hlýtur að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjómarskrárinnar.

Í sama streng tók Félagsráðgjafafélag Íslands sem einnig sendi inn umsögn:

Að mati Félagsráðgjafafélags íslands skýtur það skökku við að prestum þjóðkirkjunnar sé heimilað að neita að þjónusta tiltekinn samfélagshóp. Það er spuming hvort slíkt samræmist jafnréttisreglu stjórnarskrárinnar.

Samtökin ´78 tjáðu sig einnig um sömu ákvæði:

Frumvarpið gerir beinlínis ráð fyrir því að prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga geti neitað samkynhneigðum pörum sem til þeirra leita um þjónustu. Vegna sérstakrar stöðu Þjóðkirkjunnar og presta hennar sem opinberra starfsmanna þá er slík heimild – til þess beinlínis að synja tilteknum samfélagshópi um þjónustu – bæði alvarleg og hugsanlega einnig brot á jafnræðisreglu stjómarskrárinnar. Samtökin ’78 leggja því til þá breytingu á frumvarpinu að tekinn verði af allur vafi um rétt samkynhneigðra til þess að njóta þjónustu presta og forstöðumanna skráðra trúfélaga til jafns við gagnkynhneigða.

Lögin nr. 55/2008 um staðfesta samvist (heimild presta til að staðfesta staðfesta samvist) voru síðan samþykkt mótatkvæðalaust.

Tveimur árum síðar var þingið orðið reiðubúið að stíga skrefið til fulls, taka út lagabálkinn um staðfesta samvist og samþykkja ein hjúskaparlög án tillits til kynhneigðar hjónaefna. Við frumvarpið bárust 34 athugasemdir frá einstaklingum, félagasamtökum, stofnunum og trúfélögum. .  Í umsögnunum frá trúfélögunum kemur fram ólíkur skilningur þeirra á hjónabandinu. Í umsögnum frá biskupi Íslands og tillögu 90 presta og guðfræðinga sem lögð var fyrir Prestastefnu það ár og vísað til biskups Íslands og síðan send Allsherjarnefnd til umsagnar má lesa út mjög ólíkan skilning á hjónabandinu. Prestafélagið sendi líka inn umsögn og vék sérstaklega að valfrelsi presta við kirkjulegar athafnir:

Því teljum við mikilvægt að í lagatextanum sjálfum en ekki í athugasemdum sé kveðið á um valkvæði kirkjulegra vígslumanna á grundvelli trúarsannfæringar.

Fríkirkjan í Reykjavík hvatti eindregið til þessara lagasetningar í umsögn sinni, baháar sögðust ekki skipta sér af því sem borgaraleg yfirvöld ákveddu eða önnur trúfélög, en báðu ríkisvaldið um að virða frelsi trúfélagsins til að vígja ekki samkynhneigt fólk í hjónaband og Hvítasunnukirkjan, Kaþólska kirkjan á Íslandi, Kirkja sjöunda dags aðventista, safnaðarhirðar hvítasunnukirkjunnar og Íslenska Kristskirkjan lögðust gegn lagasetningunni. Það var því ljóst strax af umsagnarferlinu að ekki myndu öll trúfélög nýta sér þær heimildir til hjónavígslu sem ríkisvaldið bauð fram í frumvarpi að einum hjúskaparlögum.

Í athugasemdum með frumvarpinu var sérstaklega talað um valfrelsi presta til að vígja samkynhneigt fólk í hjónaband í lið 6.1:

 Við túlkun ákvæðisins um vígsluheimild eða vígsluskyldu hefur m.a. verið nefnt að setja megi það skilyrði að annað hjónaefna eða bæði tilheyri því trúfélagi sem á í hlut. Þá hefur einnig verið nefnt að til álita komi að prestur megi neita að vígja hjónaefni ef hann telur slíkt andstætt samvisku sinni og sannfæringu. Ákvæði af því tagi eru í dönskum rétti, sbr. reglur um vígslu innan og utan þjóðkirkjunnar frá 1974. Í 13. gr. norsku hjúskaparlaganna er ákvæði um að kirkjulegur vígslumaður megi neita að vígja hjónaefni ef annað tilheyri ekki viðkomandi trúfélagi eða sé fráskilið og fyrrverandi maki sé enn á lífi. Við þá breytingu sem tók gildi 1. janúar 2009 var bætt við ákvæði 13. gr. að kirkjulegur vígslumaður mætti neita ef hjónaefni væru af sama kyni. Samkvæmt sænsku hjúskaparlögunum er kirkjulegum vígslumönnum almennt ekki skylt að framkvæma hjónavígslu en ekki er til tekið hvaða ástæður geti réttlætt neitun þeirra.
Eins og áður sagði þá byggist heimild kirkjulegra vígslumanna til að staðfesta samvist, samkvæmt breytingalögum nr. 55/2008, á því að prestar muni ekki synja af öðrum ástæðum en vegna trúarsannfæringar sinnar. Telja verður að þessi túlkun fari saman við túlkun á 16. og 17., sbr. 22. gr., hjúskaparlaga og heimild presta til að vígja fólk af sama kyni í hjúskap verði því með sama sniði og heimild þeirra til að staðfesta samvist. Ekki þykir ástæða til að leggja til lagabreytingar um þessi atriði en hvetja má til þess að ráðuneytið skoði að höfðu samráði við biskup og jafnvel fleiri hvort ástæða sé til að setja nánari reglur á grundvelli 22. gr. hjúskaparlaga.
Árétta ber að spurningar um vígsluheimild og vígsluskyldu snerta fyrst og fremst einstaka vígslumenn. Með hliðsjón af stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi þykir mega stefna að því að allir muni geta notið kirkjulegrar vígslu innan þjóðkirkjunnar ef annað eða bæði hjónaefna tilheyra þjóðkirkjunni þó að hver og einn eigi ekki rétt á vígslu af hálfu tiltekins vígslumanns.

Athyglisvert er að lögin eða athugasemdirnar fjalla ekki um önnur trúfélög en íslensku Þjóðkirkjuna og þeirra rétt til að þiggja eða hafna vígsluvaldi. Í athugasemdunum með frumvarpinu 2010 kemur þannig fram að tilteknir prestar muni geta synjað hjónavígslu samkynhneigðs fólks á grundvelli trúarsannfæringar í samræmi við fyrri lög frá 2008 og sérstaklega litið til „stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi“ sem skuli tryggja það að „allir geti notið vígslu“, þótt „hver og einn eigi ekki rétt á vígslu af hálfu tiltekins vígslumanns“.

Lögin nr. 65/2010 voru síðan samþykkt á Alþingi mótatkvæðalaust, en þau eru eiginlega lagabreyting við hjúskaparlögin frá 1993 og fleiri lög.

Eftir að hafa farið yfir „reglurnar“ langar mig að draga þetta langa mál saman í nokkur kjarnaatriði:

  1. Í lagatextunum um hjúskap 1972 og 1993 er talað um vígsluheimildir til trúfélaga en ekki vígsluskyldu.
  2. Hvergi í lagatextunum er talað um einstaka presta, en í athugasemdum um frumvarpið frá 2008 sem heimilaði prestum að annast staðfesta samvist og frumvarpið frá 2010 um ein hjúskaparlög er vísað ályktun kirkjuþings um að prestar geti neitað „vegna trúarsannfæringar“.
  3. Orðið „samviskufrelsi“ kemur hvergi fyrir í textunum.
  4. Engin ályktun um stöðu samkynhneigðs fólks hefur komið frá Kirkjuþingi síðan 2007 þegar þingið áréttaði hefðbundinn hjónabandsskilning en sagði að ef ríkisvaldið leyfði, þá mætti prestum sem hefðu annan skilning annast staðfesta samvist, svo fremi sem frelsi annarra til að gera það ekki væri tryggt.
  5. Strax í umsögnum með frumvarpinu 2008 er því haldið fram að það að lögin séu túlkuð á þann hátt að prestar geti vikist undan hjónavígslum samkynhneigðs fólks geti leitt til stjórnarskrárbrota vegna mismununar.
  6. Vísað er til fordæma í hjúskaparlögum í Danmörku og Noregi frá áttunda áratugnum þar sem vígslumaður getur vikist undan því að vígja fráskilið fólk í hjónaband. Engin lagahefð er hins vegar fyrir því að vígslumaður megi neita fráskildu fólki um hjónaband í íslenskum lögum frá sama tíma.
  7. Athugasemdirnar gera ráð fyrir því að vegna stöðu íslensku þjóðkirkjunnar verði unnt að tryggja öllum þeim hjónavígslu sem eftir leita.
  8. Hvor tveggja lögin frá 2008 og 2010 opna fyrir möguleikann á að ráðuneytið setji nánari reglur um val presta til vígslu „að höfðu samráði við biskup“ og í athugasemdunum með frumvarpinu frá 1972 er lagt til að ráðuneytið setji nánari reglur um það hvaða prestar eigi að hafa vígsluheimildir að lögum.
  9. Ljóst er af umsögnunum frá trúfélögunum um ein hjúskaparlög að mörg þeirra myndu ekki nýta sér heimildir um að vígja samkynhneigt fólk í hjónaband.
  10. Í athugasemdunum með lögin 2010 er að finna umfjöllun um vígslumenn þjóðkirkjunnar en ekki vikið að öðrum trúfélögum.

Einhvern tímann á næstunni þegar ég er búin að hugsa aðeins meira ætla ég að skrifa grein um það sem mér finnst að þjóðkirkjan eigi að gera í stöðunni. En nú höfum við að minnsta kosti yfirlit yfir regluverk, lög og lögskýringargögn um val presta til að vígja.

Ein hjúskaparlögMyndin er tekin af síðunni Ein hjúskaparlög þar sem ýmsir prestar þjóðkirkjunnar birtu stuttar greinar, vídeó og blogg einum hjúskaparlögum til stuðnings vorið 2010.

Glæstar vonir

Ræða flutt á Mannréttindahátíðinni Glæstar vonir í Þróttarhúsinu í Laugardal 28. september 2013

Dulræna eða mýstík er áhugaverð grein trúarbókmennta, ekki síst fyrir þær sakir að í henni kemur gjarnan fram andóf gegn ríkjandi trúarskoðunum. Í kristnum dul hefur til dæmis rödd kvenna hljómað á sama tíma og þær voru þaggaðar niður á öllum öðrum stöðum trúarkerfisins. Dulrænan getur þannig virkað eins undiralda, andóf og andhæris stroka. Hún beinis ekki endilega gegn ríkjandi trúarbrögðum, en truflar hina eintóna framsetningu forræðisins.

Mig langar að vitna til ljóðs eftir Sor Juana de la Cruz, eða systur Jóhönnu af Krossi, en eftir þá stórmerku konu liggja bæði leikrit, ljóð og guðfræðitextar. Af ástarbréfum hennar til valdamikilla kvenna í Mexíkó má milli lína lesa um samkynhneigð hennar sem hvorki kirkja né samfélag gátu samþykkt eða skilið á þeim tíma og geta varla enn. Viðhorf Jóhönnu til veruleikans einkennist af andófi gegn hinum fornu, skörpu andstæðum himins og jarðar, líkama og anda, hjarta og hugar. Í staðinn dregur hún upp myndir af guðlegum krafti, dansi, ást og blossa, sem er ekki óbreytanleg og frosin heldur tengd öllum okkar atburðum, öllum okkar sérstæða veruleika. Jóhanna yrkir um Jesúbarnið og frumefnin fjögur sem næra barnið, en að hennar tíma náttúrufræðiskilningi mynduðu frumefnin fjögur allt líf.

Þegar hríðin og hragglandinn geisa
og hrekja burt kærleikann,
hver kemur barni til bjargar?
Vatn!
Jörð!
Loft!
Nei, það mun Eldurinn gera.

Þegar barnið er veikt og vansvefta
og vart dregur andann lengur
hver kemur barni til bjargar?
Eldur!
Jörð!
Vatn!
Nei, það mun Loftið gera.

Þegar sækist að barninu sóttin
og safnast að glóð fyrir vitum
hver kemur barni til bjargar?
Loft!
Eldur!
Jörð!
Nei, það mun Vatnið gera.

Í dag þegar höfði á jörðu að halla á hvergi
himnanna barn án næturstaðar
hver kemur barni til bjargar?
Vatn!
Eldur!
Loft!
Nei, það mun Jörðin gera.

Í stað þess að tala um barnið og trúna, með orðræðu hins sterka og utanaðkomandi, sem reddar öllu ef allir fara að settum reglum, þá talar Jóhanna um kærleikann sem það sem þarf hjálp, hlýju, drykk og næturstað til þess að vaxa og dafna. Og til þess að slíkur mannkærleikur fái að lifa í samskiptum mannanna, þá sækir Jóhanna hjálp í frumefnin, í vatnið sem myndar þrjá fjórðu af líkamsmassa okkar, í eldinn sem brennur innra með okkur og milli okkar, í loftið sem við eigum sameiginleg og öndum saman að okkur, í jörðinni undir fótum okkar.

Jóhanna er fædd fyrir tíma nútíma mannréttindaorðræðu en samt má finna sterkan samhljóm milli þess sem hún segir og þess sem lesa má út úr mikilvægustu mannréttindabálkum nútímans. Það eru ekki girðingarnar sem gera okkur að manneskjum, ekki trúin sem við játum, liturinn á höndum okkar og andlitum, kyn okkar eða kyn þeirra sem við elskum af hjarta og sálu. Það er ekki aldur okkar sem ræður úrslitum um það hvort við séum manneskjur og elskuverð, ekki hæfi okkar eða fötlunarstig, ríkidæmi, þjóðerni eða stétt. Við erum einfaldlega öll manneskjur og óendanlega dýrmæt sem slík. Við höfum stjórnarskrárvarin réttindi til trúar og trúleysis á okkar eigin hátt, við eigum rétt á að njóta mannréttinda ferða-, félaga og tjáningafrelsis, að eiga kynverundarréttindi, að lifa án ótta við hatur og fordóma sem beint er gegn minnihlutahópum. Slík réttindi eru grundvallarréttindi, en þeim er víða gleymt í veröldinni og reisn allra manneskja er svo oft fótum troðin. Og þess vegna eru tiltekin mannréttindi ekki einhver einkamál þeirra sem mannréttindi eru brotin á og búa við undirskipun og kúgun. Þau eru líka málefni þeirra sem búa við forréttindi. Og kannski eru stærstu forréttindi lífsins þau að hafa enga hugmynd eða meðvitund um það að maður búi við forréttindi. Slíkt andóf gegn forréttindablindu og með mannréttindum þarf að eiga sér stað á öllum sviðum mannlífsins þar með talið Þjóðkirkjunni sem ég tilheyri. Þess vegna er ég glöð yfir framtaki Laugarneskirkju sem boðar til Regnbogamessu annað kvöld 29. september klukkan átta í nafni mannréttinda.

Fyrir rúmlega þúsund árum töldu menn að þeir þyrftu að velja á milli heiðni og kristni til að halda friði í landinu. Þúsöld síðar er þessi þörf til að vera eins og trúa eins ekki til staðar. Fjölbreytnin og fjölhyggjan leggur okkur flóknar og erfiðar skyldur á herðar, skyldur sem byggja á mannréttindum, manngæsku og mannvirðingu, Við viljum geta lifað saman í sátt. Við viljum geta glímt hvert við annað með því að takast á í rökræðu, gagnrýnt hvert annað, samið, eða ákveðið að vera ósammála um tiltekin atriði, í stað þess að beita valdi, útilokun, hatursorðræðu og fordómum. Þessar skyldur gera það að verkum að við verðum sem þjóð að þjálfa okkur í því að hlusta, greina og eiga saman glæstar vonir.

Mannréttindahátíðin Glæstar vonir er gott nafn. Það sem er best við nafnið er að von okkar er ekki ein, vegna þess að við erum vatn og eldur og loft og jörð og það barn sem við björgum undan hríð, sótt og þorsta kemur til okkar úr ólíkum áttum að sækja sér næturstað. Við eigum okkur ólíkar vonir og ólík viðhorf til lífsins og hjálp okkar fæðist með okkur sjálfum og í tengslunum okkar á milli. Sumir kjósa að líta á þau tengsl sem guðleg, önnur ekki. Og það er allt í lagi.

Hver kemur barni til bjargar? Megi vatnið í æðum okkar sem Jóhanna af Krossi yrkir um, eldurinn í brjóstum okkar, loftið sem við öndum að okkur og jörðin sem við stöndum á sem byggir með okkur glæstar vonir gegn lítillækkun, hatri og kúgun í sérhverri mynd.
cropped-regnbogi.jpg

Hinsegin Guð, neðan og utan frá

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I.

Mig langar til að hefja þessa ræðu á viðburði gærdagsins, gleðigöngunni, sem markar hápunkt Hinsegin daga í Reykjavík ár hvert. Mér var boðið að taka þátt í atriði Páls Óskar Hjálmtýssonar í gleðigöngunni í gær. Atriðið fólst í því að stillt var upp tveimur flöggum sem á stóð „Hatrið fór ekkert“ og „Hatrið er á ferðalagi“. Síðan komu fánar þjóðlanda þar sem hómófóbía er ríkjandi, þar sem er hættulegt að vera hinsegin og liggur jafnvel dauðarefsing við. Allt í kringum fólkið með fánana voru síðan kaðalberar, sem héldu svæðinu auðu í kringum þjóðfánana.

Í göngunni gekk ég með grænan fána Malasíu og horfði á skiltið „Hatrið er á ferðalagi“ meðan ég gekk. Í Malasíu má ekki sýna kvikmyndir með samkynhneigðum persónum, nema að þær iðrist eða deyi í myndinni. Þar hefur frá árinu 1994 verið í gildi bann við að samkynhneigt fólk komi fram í hinum ríkisreknu fjölmiðlum. Í Malasíu er í gildi refsilöggjöf sem gerir munnmök og sódómíu refsiverða með sektum, fangelsunum og jafnvel dauðarefsingum. Fáni Malasíu tók í og þunginn var ekki eingöngu fólkinn í vigt fánans sjálfs, heldur öllu því hinsegin fólki sem mannréttindi eru brotin á í því landi á degi hverjum. Fyrir framan mig mátti sjá fána Máritíu, Serbíu og Sádí-Arabíu og fyrir aftan mig blöktu fánar Hondúras, Íran, Rússlands, Súdan, Kamerún, Nígeríu og fleiri ríkja.

Ég hef mætt í gleðigönguna áður, dillað mér þar við skemmtilega tónlist meðan gengið er og fagnað fjölbreytileikanum. En í þessu atriði voru hvorki vagg né velta við hæfi.  Göngumenn voru látnir fá svarta gúmmíræmu sem bundnar voru fyrir munninn á þeim. Ég gat ekki brosað til fólksins í göngunni eða kallað til þeirra. Ég heyrði tónlistina frá hinum atriðunum, en þetta flot, þetta atriði göngunnar færðist áfram í þögn. Það er undarleg tilfinning að vera keflaður við þessar aðstæður, að vera slitinn úr samhengi við annað fólk og að hafa veruleika haturs og mannfyrirlitningar fyrir augum og í sinni.

Þess vegna eru Hinsegin dagar mikilvægir. Þeir vekja athygli á því misrétti og ofbeldi sem viðgengst í heiminum. Þeir rjúfa þögn og vekja til vitundar, ekki aðeins um aðstæður hinsegin fólks, heldur allra mannréttinda. Og Hinsegin dagar vekja þessa meðvitund á listrænan, gleðilegan og oft fyndinn, skrýtinn og skemmtilegan hátt. Þeir trufla gagnhneigðarhyggjuna sem við höfum verið forrituð með frá frumbernsku, hrista upp í hversdeginum okkar og hjálpa okkur til að sjá nýjar hliðar á veruleikanum. Megintákn hinsegin fólks er regnboginn, sem sýnir litróf hinna ólíku lita. Regnboginn er líka sterkt tákn í kristni og gyðingdómi um sáttmála á milli manns og Guðs, eins og sungið var fyrir okkur áðan. Hinsegin dagar eru þannig leið til þess að greina nýjar hliðar fjölbreytileikans, takast á við ögranir hans og minna okkur á það að það er hægt að mæta hatri með kærleika. Hinsegin dagar eru leið til þess að þroskast trúarlega í því að rækta sáttmálann við Guð sem er kærleikur og sprettur í tengslum milli lífvera.

II.

Í dag, á lokadegi Hinsegin daga og á 11. sunnudegi eftir þrenningarhátíð langar mig til að lesa fyrir ykkur hrafl úr hugleiðingu bandaríska hinsegin guðfræðingsins Virginíu Ramey Mollenkott þar sem hún fjallar um það hvernig hún fari að því að lesa Biblíuna sem lesbía. Mollenkott segir:

Ég er fædd árið 1932 og alin upp á fimmta og sjötta áratugnum. Ég er kristin lesbía og sem slík þurfti ég að læra að lesa hin hebresku og kristnu rit að neðan og utan frá. Ég þurfti að lesa neðan frá vegna þess að ég er kvenkyns. Konur nutu minni virðingar og voru stöðugt þaggaðar niður í kirkju æsku minnar. Þar voru konur og stúlkur látnar bera hatta til að tákna það að við heyrðum undir hið karllæga vald og okkur var ekki leyft að spyrja spurninga í Biblíuleshópnum. Ég þurfti að læra að lesa utan frá, vegna þess að vitund mín frá ellefu ára aldri um að ég væri lesbísk , tók frá mér lágmarks stöðu þess að ég gæti heyrt til í samfélagi sem nefndi ekki einu sinni slíkar syndir á nafn.

Einhver las fyrir mig Rómverjabréfið þegar ég var þrettán ára og sagði mér að ef ég héldi áfram að elska konur þá myndi sjást á mér að ég væri „guðlaus“ og „réttdræp“. Og þar sem ég var auðsveip og elskaði Guð reyndi ég, eins og svo margir hinsegin unglingar, að drepa mig. En verri en sú tilraun voru ár hins lifandi dauða sem ég átti í hjónabandi með manni, sem var sannfærður um að Guð hefði skapað mig til þess eins að þrífa upp eftir hann.

Ég varð að læra að lesa hin helgu rit að neðan og utan frá, vegna þess að ég hafði verið þjálfuð frá unga aldri við að samsama mig sjónarhorni hins hvíta, gagnkynhneigða og karllæga þegar ég las Biblíuna.

Mollenkott segir okkur að hún hafi sem kona og sem samkynhneigður einstaklingur þurft að þjálfa sig upp í að lesa Biblíuna með gleraugum sinnar eigin reynslu. Þar sem var alin upp við tvöfalda kúgun í kirkju sinni og samfélaginu öllu, þá þurfti hún að beita tveimur ólíkum aðferðum til að geta tekið trúarboðskapinn með inn í sitt daglega líf. Hún þurfti að lesa Biblíuna neðan frá vegna þess að hún bjó við undirskipan og kvenfyrirlitningu. Og hún þurfti að lesa Biblíuna utan frá vegna þess að hneigð hennar til kvenna gerði það að verkum að hún varð utangarðsmanneskja í samfélagi sem aðeins líður gagnkynhneigðar ástir og bælir aðrar niður með harðri hendi.

En hvernig les maður Biblíuna neðan og utan frá?  Mollenkott svarar því til að sá lestur sé fólginn í því að samsama sig ekki með hefðbundnum lestri á helgum texti, heldur að túlka þá texta í ljósi reynslunnar, í ljósi þeirra útskúfuðu og undirskipuðu. Hún bætir við:

Verkefnið framundan er þannig að nota allar þær leiðir sem tiltækar eru til að finna aftur raddir okkar innan hins biblíulega texta, innan stofnana trúarbragðanna og innan samfélagsins í heild. Og þegar við höfum fundið raddir okkar aftur, eigum við að nota þær til að flytja hinum fátæku fagnaðarerindið, leysa bandingana, gefa blindum sýn og hinum kúguðu frelsi.

Biblían er trúarbók rúmlega tveggja milljarða manna um heim allan. Þessi stóri hópur á það sameiginlegt að sækja huggun, styrk, sjálfsmynd og gildismat í helga trúartexta og túlka þá á ýmsa vegu. Sú túlkun tekur breytingum frá einni öld til annarrar og stundum er trúað fólk líka ósammála því sem tjáð er á síðum hinnar helgu bókar. Við tökum afstöðu til þess sem okkur finnst vera úrelt gildismat gamalla tíma og hvað það er sem við teljum hafa staðist betur tímans tönn. Og stundum koma þessir textar okkur á óvart þegar við sjáum þá í nýju ljósi, uppgötvum þá frá hliðum sem við höfðum ekki séð áður. Engin ein túlkun er hin rétta túlkun og enginn okkar hefur beinan aðgang að því sem guðdómurinn vill koma á framfæri við okkur. Þess vegna þurfum við gleraugu, ákveðið sjónarhorn sem við lesum frá og túlkum líf okkar með. Í ljósi ráðlegginga Mollenkott um Biblíulesturinn neðan og utan frá og orða hennar um raddir hinsegin fólks sem við verðum að finna til að flytja hinum fátæku og þjáðu fagnaðarerindið skulum við líta á texta dagsins með okkar nýfengnu hinsegin gleraugum neðan og utan.

II.

Fyrri ritningarlesturinn er einn af uppáhaldssálmum Ágústínusar og Lúthers og einn af iðrunarsálmum hinna hebresku rita. Þar er fjallað með ólíkum myndlíkingum um synd og sagt frá því að syndin leggist jafnt á andlega og líkamlega heilsu.

Syndinni í sálminum er líkt við þungt farg sem manneskjan er að sligast undan og skömm sem sálmaskáldið reynir í sífellu að fela. Og henni er ekki aflétt fyrr en Guð tekur af skáldinu syndabyrðina og flytur það burtu sem að ekki verður hulið með mannlegum gerðum. Í stað þess að varpa syndabyrðinni yfir á herðar hinsegin einstaklinga eins og tvö þúsund ára túlkunarhefð kristinnar kirkju hefur margsinnis gert, skulum við nota gleraugun hennar Mollenkott og horfast í augu við kerfislæga synd fóbíunnar.

Hómófóbía er kerfislæg synd. Hómófóbíunnar vegna situr ungur maður í fangelsi í Kamerún og afplánar þriggja ára dóm við hörmulegar aðstæður fyrir þær sakir að vera samkynhneigður. Hann heitir Jean-Claude Roger Mbede og Amnesty samtökin hafa nýlega sent út ákall til heimsbyggðarinnar til að leysa hann úr fangelsi. Ég hvet ykkur öll til að skrifa undir ákallið og hjálpa þannig til að draga úr áhrifum hómófóbíunnar á heimsvísu.

Bífóbía er kerfislæg synd. Hennar vegna búa tvíkynhneigðir einstaklingar við fordóma bæði frá samkynhneigðum og gagnkynhneigðum einstaklingum.

Transfóbía er kerfislæg synd. Hennar vegna ganga transexúal og transgender einstaklingar gegnum eld fordóma og niðurlægingar í velflestum samfélögum. Og við erum varla byrjuð að ræða aðstæður þeirra sem eru intersex einstaklingar, sérstakir og dýrmætir og skapaðir í Guðs mynd.

Vegna hómófóbíu, transfóbíu, bífóbíu og allra hinna kerfislægu villnanna sem við búum við sitja svo margar manneskjur inni í skápum sínum og ljúga til um það hverjar þær raunverulega eru. Og hennar vegna er heilsa, bein, lífsþróttur og frelsi hinsegin fólks um veröld víða í hættu.

Þú ert skjól mitt
verndar mig í þrengingum
bjargar mér, umlykur mig fögnuði.

segir sálmurinn og gengur þannig með okkur gönguna sem minnir á hómófóbíu og mannréttindabrot heimsins yfir til ástar, öryggis, verndar og umljúkandi fögnuðar.

Guðspjall dagsins er einnig góður vettvangur fyrir þann sem vill stilla lestrarlinsurnar neðan og utan frá. Þar segir frá konu einni sem kom í hús farísea, að því er virðist óboðin. Hún settist til fóta Jesú, smurði fætur hans, vætti þá tárum og þerraði með hári sínu, sem væntanlega hefur fallið frjálst og óbundið fram. Faríseinn og vinir hans höfðu af þessu hinn mesta ama, enda trufluðu kveinstafir konunnar þetta fína boð sem hann hafði kallað til í tilefni komu rabbíans frá Nasaret.

Á dögum Jesú lágu karlmenn útaf í borðhaldi en sátu ekki til borðs. Þeir hafa stungið upp í sig bita og bita og sopið á fínum veigum milli þess sem þeir lágu  hver upp við annan á mörgum lágum hægindum og spjallað um guð og náungann, og hvernig ætti að koma fram hver við annan. Þetta hefur eflaust verið hið ánægjulegasta veisluboð og auðvitað hafa umræður þeirra um Guð og manneskjurnar miðast við þeirra eigin þjóðfélagsstöðu, gildismat og sýn á lífið og tilveruna. Það er til dæmis mjög ólíklegt að þeir hafi velt fyrir sér konum og hinsegin fólki þegar þeir ræddu um synd, ábyrgð og samband við guðdóminn. Og mitt í þessari dýrlegu veislu með vínberjum og lambakjöti og ostum og ávöxtum og góðu víni sem faríseinn hafði reitt fram, mitt í þessu notalega spjalli í nánd og hlýju og gáfulegum samræðum við gestinn aðkomna frá Nasaret, þá er alltaf verið að trufla þá.

Það er kona til fóta Jesú, boðflenna í fína boðinu,
sem lítur upp til hans og til þeirra allra.
Og þessi kona les aðstæðurnar frá sinni eigin stöðu
sem kvenkyns vera og sem utangarðsmaður.
Þarna nýtur hún engrar virðingar og gestgjafinn vill ekki hafa hana.
Og það er ekki eins og þessi óboðna kona sitji einu sinni kyrr.
Hún gefur frá sér hljóð og er með óviðeigandi læti.
Hún grætur og snýtir sér.
Hún kyssir fætur Jesú með ósæmandi hætti.
Hún hefur rakið upp hárið.
Engin sómakær kona lætur sjá sig með hárið svona út um allt.
Og þessi ótilhlýðilegu hljóð
þessi óhæfilega snerting
þessir kossar
þetta flæðandi hár
þessi lykt af smyrslum í miðri matarveislu
eru náttúrulega alveg út úr kortinu.

Hún er ein stór truflun
og það man enginn lengur hvert hinar hátimbruðu samræður voru komnar.
Hún er eitthvað hinsegin, manneskjan
Og samt nær hún athygli Jesú óskiptri.
Kannski sá hún eitthvað hinsegin í honum líka,
eitthvað sem passaði ekki inn í fínu veisluna.
Kannski horfðist hún í augu við hinsegin Guð
sem skildi tvöfaldan utangarðsmann.
Og þess vegna, einmitt þess vegna
er alveg eins rétt að segja Jesús sé hommi og að segja að hann sé eitthvað annað.
Hommi er ekki skammaryrði
nema á vörum þeirra sem þjást af hómófóbíu.

Krossferli að fylgja þínum
fýsir mig Jesús kær

segir Hallgrímur í Passíusálmi sínum
og speglar þannig aðstæður sínar sem líkþrár og einangraður einstaklingur
í krossferli Jesú.

Engum í þrjúhundruð ára sögu íslenskrar kristni hefur þótt neitt athugavert við það eða velt því fyrir sér hvort hinn sögulegi Jesús frá Nasaret hafi þjáðst að líkþrá eða ekki. Það er vegna þess að hugmynd Hallgríms um líkindin milli krossferils síns og krossferils lausnarans fjallar um þann Krist sem við túlkum og endurtúlkum líf okkar og baráttu í öld eftir öld.

Barátta hinsegin fólks og andspyrnusögur þeirra í fortíð og nútíð eru dýrmætar og mikils virði. Og þær má spegla í lífsferli og krossferli lausnarans á sama hátt og við megum mála myndir af konunni Kristu á krossinum, hinum þeldökka Kristi og Kristi krossfestum í hjólastól.

Í þessum skilningi er Jesús hommi.
Jesús er kona.
Jesús er lesbía.
Jesús er transgender einstaklingur.
Jesús er intersex.
Jesús er transsexúal, heterósexúal, asexúal og pansexúal
og ef við ætlum að horfast í augu við gagnkynhneigðarhyggju heimsins og kirkjunnar
þurfum við að lesa lífið neðan frá og utan frá.
Vegna þess að Orðið varð hold
og holdið er fjölbreytt, truflandi, lifandi og sterkt.

Kannski truflaði konan í boðinu Jesú á kærkominn hátt
vakti hann til vitundar um að veröldin væri stærri
kannski hjálpaði hún honum að sjá heiminn
ekki bara út frá kósí karlasamfélagi með rauðvíni og ostum
heldur neðan frá og utan að.
Það er konan og utangarðsmaðurinn sem hann beinir orðum sínum til
ekki gestgjafinn og lærðu vinirnir hans
þegar hann segir:

Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.

IV.

Mitt í þessum hugleiðingum um hið ótilhlýðilega, óboðna og ósæmandi sem Jesús blessaði er ég aftur kominn í gleðigöngu með grænt flagg til merkis um hómófóbíu heimsins. Ég horfi til fánanna tveggja sem sögðu „Hatrið fór ekkert“. og“Hatrið er á ferðalagi.“

Hatrið er að sönnu á ferðalagi. Mannréttindi geta breyst og aðstæður minnihlutahópa eins og hinsegin fólks geta skyndilega versnað þegar fasísk afturhaldsöfl komast til valda í þjóðríkjum. Það skiptir miklu máli að við höldum ekki að vegna þess að aðstæður kvenna, hinsegin fólks, fatlaðra og annarra þeirra sem hafa búið við undirskipun, fordóma og kúgun hafa batnað mikið á síðustu áratugum, haldi framþróun mannréttinda, reisnar og virðingar sjálfkrafa áfram. Hatrið er á ferðalagi, og óttinn sem hatrið byggir á getur alltaf leitt til bakslags.  Hatrið stendur alltaf í stað. Hatrið er húmorslaust. Hatrið vill ekki láta trufla sig.

Þess vegna er svo mikilvægt að sofa ekki á mannréttindavaktinni. Þess vegna er svo mikilvægt að við truflum veislur og hátíðir þeirra sem völdin hafa, til þess að sjónarhornin verði fleiri og til að við verðum meðvituð um þjáningu og misrétti annars fólks. Við getum ekki lengur látið eins og hægt sé að pakka hinsegin fólki og öðrum minnihlutahópum niður í skúffu meðan við göngum um og prédikum kristilegan kærleik. Hluti kirkjunnar er samkynhneigður, tvíkynhneigður, transsexúal, transgender, intersex eða leitandi. Og á bak við hvern þann einstakling er fjölskylda og vinir sem ber áfram hann og hana og þau sem ekki tengja sig við eitt kyn frekar en annað. Boðflennan er til staðar í veislunni. Hún kyssir Jesú. Hún snertir hann og grætur við fætur hans. Með hennar hjálp lesum við að neðan og utan frá.

Það að við truflum slíkar veislur merkir ekki að við sem truflum, hristum okkur í gleðigöngu og berum mannréttindaspjöld séum „góða fólkið“ eins og að okkar sjónarhorn á veruleikann sé alltaf það eina rétta. Það er lífstíðarverkefni að læra að mismuna ekki öðrum og bera virðingu fyrir öðru fólki og öllu lífi. Og hluti af því lífstíðarverkefni er að reyna að nálgast veruleika annarra með því að hlusta vel, láta truflast svolítið, elska mikið og vera glöð. Guð veitir okkur skjól, Guð elskar okkur hvert og eitt alveg eins og við erum og við erum umlukin fögnuði.

Gangan liðast áfram, stöðvast um hríð og heldur svo áfram. Þegar fánarnir um hatrið og hómófóbíuna hafa liðið hjá og andlitin með kefluðum munnunum eru ekki lengur í sjónmáli, er einn fáni eftir. Á honum stendur:

Takk, Hinsegin Ísland fyrir að mæta hatri með kærleika.

Og þar eru læti. Þar eru sprengdar sprengjur fullar af skærum og gleðiþrungnum pappírsstrimlum sem þeytast út í loftið til merkis um það að ástin, engu síður en hatrið er á ferðalagi. Ástin og gleðin eru sterkari en hatrið. Hinni kerfislægu synd hómófóbíunnar mun af létta. Ástin hlær. Hún springur út í hatrinu og misréttinu miðju og hendir litríkum strimlum út í ágústloftið. Gleðin er truflandi, hún rýfur þögnina kringum ofbeldið og ógnina. Hún er ekki kefluð lengur. Hún truflar svæfandi lognmollu valdbeitingarinnar og einsleitninnar.  Hún kemur óboðin. Hún kyssir, hlær og grætur. Hún snertir hið ósnertanlega og smyr það dýrum smyrslum. Hún er ótilhlýðileg og brýtur af sér bönd siðvenjunnar. Hún horfir á hið heilaga neðan frá og utan frá og uppgötvar á því nýjar hliðar.

Hún er umlukin fögnuði
í hlífðarskjóli Guðs
á heimsins köldu strönd.

Dýrð sé Guði  föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
SG í Gay Pride
Á myndinni má sjá Sigríði ganga með Malasíufánann í Gay Pride, 10. ágúst 2013. Myndina tók Karen Ósk.

Gay Pride, Timur, typpi, gat

Timur og rússneska rétttrúnaðarkirkjan virðast hafa miklar áhyggjur af typpunum og götunum á Gay Pride og senda okkur þess vegna pastellituð blóm með fjölskyldumyndum og úrelta kynlífssiðfræði fyrri aldar til að rétta kúrsinn. Flestir aðrir Íslendingar virðast hins vegar ekki hafa áhyggjur af því að typpin rati í rétt göt og einbeita sér frekar að því að gleðjast yfir jafnrétti og ást. Ég samsinni þeim og bið frekar um regnboga en pastel.

Snorri í Betel og hatursorðræða

Safnaðarhirðinum Snorra Óskarssyni í Betel hefur verið sagt upp kennarastörfum. Bloggskrif hans eru ástæða uppsagnarinnar. Margir hafa gagnrýnt þessa uppsögn og telja að Akureyrarbær ráðist þar gegn stjórnarskrárvörðu málfrelsi og trúfrelsi Snorra.  Er Snorri í Betel fórnarlamb ritskoðunar og skoðanakúgunar?

Meðal bloggskrifa Snorra eru pistillinn „Leiðrétting?“ þar sem hann hafnar því að hægt sé að tala um kynleiðréttingu transfólks. Samkvæmt þessum pistli Snorra á kynferði að vera óumbreytanlegt og því ganga kynleiðréttingar gegn vilja Guðs að hans mati. Annar pistill sem virðist liggja til grundvallar uppsögninni er „Gildum er hægt að breyta!“. Þar kemur Snorri víða við og afgreiðir í einu vetfangi Anders Behring Breivik, fóstureyðingar og samkynhneigð. Í pistlinum telur hann aðeins stigsmun á fóstureyðingum og fjöldamorðum Breivik í Úteyju og að samkynhneigð sé andstæð Guðs vilja.  Fjölmargir af pistlum Snorra aðrir fjalla um samkynhneigð og virðist grunnstef þeirra allra vera það sama, sumsé það að samkynheigð sé af hinu illa og merki um siðferðilega hnignun, að gagnkynhneigð sé eina kynhneigðarnormið sem hinum kristna guðdómi er þóknanlegt og að hægt sé að „lækna“ fólk af „kynvillu“.

Aðdragandinn að uppsögn Snorra hefur staðið í tvö ár. Snorri var sendur í launalaust leyfi í febrúarmánuði vegna skrifa sinna og samkvæmt fréttum Pressunnar 10. feb. s.l. var hann talinn hafa brotið gegn mannauðsstefnu Akureyrarkaupstaðar, 12. grein grunnskólalaga um fagmennsku í störfum og 24. grein sömu laga um mismunun nemenda. Auk þess var Snorri skv. Pressufréttinni talinn hafa  virt að vettugi 7. grein grunnskólalaga um jöfn tækifæri nemenda, sniðgengið kröfur aðalnámskrár grunnskóla um umburðarlyndi og skilning ásamt fleiri greinum sem taldar eru upp í Pressufréttinni.  Ef marka má fréttir Snorra af uppsögninni byggði Akureyrarkaupstaður uppsögn sína m.a. á því að Snorri hefði brotið siðareglur kennara. Siðareglur kennara og greinargerð með þeim má lesa hér. Þar er meðal annars kveðið á um að kennurum beri að virða réttindi nemenda og efla sjálfsmynd þeirra. Þeim ber að hafa jafnrétti allra nemenda að leiðarljósi , þeir eiga að vinna gegn fordómum og mega ekki mismuna nemendum t.d. vegna kyns, trúarskoðana eða þjóðernis. Nýjustu fréttir frá á föstudaginn herma að Snorri íhugi dómsmál vegna uppsagnarinnar og telji hér um prófmál að ræða.

Tjáningarfrelsi er eitt mikilvægasta einkenni lýðræðislegrar umræðu sem um getur og því ættu skorður við tjáningarfrelsi eingöngu að vera settar að mjög vel athuguðu máli. Í síðustu viku unnu tveir blaðamenn mál gegn íslenska ríkinu fyrir mannréttindadómstólnum í Strassborg vegna ólögmæts fordæmis sem Hæstiréttur setti 2009. Í þar síðustu viku kom upp mál þar sem fyrrverandi alþingismaður krafðist þess að biskup Íslands viki guðfræðingi úr starfi fyrir að kalla forseta Íslands lygara og rógtungu á blogginu sínu. Ég fjallaði einmitt um það mál í þessum pistli hér.  Í ljósi þess hvað tjáningarfrelsi eru dýrmæt réttindi í hverju lýðræðisríki  hljóta fréttir af því að maður sé rekinn úr vinnu vegna bloggskrifa sinna að vekja athygli og áhyggjur. Það er full ástæða til að nema staðar og hugsa um mál Snorra í Betel.

Snorri Óskarsson missir vinnuna vegna þess að hann talar af lítilsvirðingu um hóp manna, þau sem fara í fóstureyðingar, þau sem eru samkynhneigð og þau sem láta leiðrétta kyn sitt. Ætla má að einhverjir nemendur Snorra tilheyri þessum minnihlutahópi og að Snorri hafi þannig gerst brotlegur við siðareglur um bann við mismunun og baráttu gegn fordómum.

Því má halda fram að ýmislegt það sem kemur fram í pistlum Snorra í Betel megi reikna sem hatursorðræðu. Margar af siðareglum fagstétta eru einmitt settar til að vinna gegn slíkri orðræðu í því fagsamfélagi sem siðareglurnar fjalla um. Hatursorðræða eða „hate speech“ felst í því að einstaklingur eða hópur eru teknir út úr, gert er lítið úr þeim og þeim lýst sem viðurstyggð vegna t.d. kynþáttar, þjóðernis, kynferðis, eða trúarbragða.  Hatursorðræða felst einnig í því að kynda undir ofbeldi gegn þessum hópum. Slík hatursorðræða er hegningarskyld samkvæmt íslenskum lögum og setur lagaramminn þannig tjáningarfrelsi borgaranna allnokkur mörk. Í 233 grein hegningarlaga stendur:

Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum  eða fangelsi allt að 2 árum.

Evrópuráðið hefur líka sent frá sér tilmæli um hatursorðræðu.  Tilmælin má lesa hér. Þar lýsir Evrópuráðið yfir vaxandi áhyggjum vegna vaxandi núnings sem rekja megi til mismununar minnihlutahópa t.d. vegna kynþáttahyggju, antísemítisma og félagsaðstæðna. Í tilmælunum er því beint til Evrópuþjóða að greina slíka orðræðu, berjast gegn hatursorðræðu og efla rannsóknir á rótum vandans.

Það er mikilvægt að standa vörð um tjáningarfrelsið. Það er einnig mikilvægt í nútímasamfélagi að greina orðræðu sem gerir lítið úr manneskjum vegna þess sem sjálfsmynd þeirra byggir á, trú, kynhneigð, kynferði, þjóðerni. Og þess vegna eru umræður um tjáningarfrelsi og hatursorðræðu mjög dýrmætir fletir á lýðræðisumræðu sem jafnframt leiðir til friðar.

Ég held því að það væri áhugavert fyrir lýðræðið í landinu að Snorri í Betel færi í mál.