Tag: samviskufrelsi

Samviskufrelsi og mannréttindaorðræða

Um daginn skrifaði ég grein hér á bloggsíðuna sem fjallaði um umræður um hjúskaparlög í Danmörku og valkvæða ákvæðið í íslenskum hjúskaparlögum. Valkvæða ákvæðið gerir ráð fyrir því að að prestum sé heimilt en ekki skylt að taka að sér vígslu samkynhneigðra. Greinin heitir „Um samviskufrelsi“ og hana má nálgast hér. Í þessari grein langar mig til að skoða nánar samviskufrelsið og í kjölfar umræðunnar í Danmörku lýsa efasemdum mínum um það að hið valkvæða ákvæði í íslenskum hjúskaparlögum eigi að gilda til langframa.

En hvað er samviskufrelsi? Samviskufrelsi (freedom of conviction) er einn af hornsteinum skoðanafrelsis og mikilvægur þáttur mannréttinda. Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna segir í 18. grein:

Allir skulu frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar. Felur sá réttur í sér frelsi til að skipta um trú eða sannfæringu og enn fremur frelsi til að rækja trú sína eða sannfæringu einslega eða með öðrum, opinberlega eða í einrúmi, með boðun, breytni, tilbeiðslu og helgihaldi.

Með nokkrum sanni má segja að lúthersk hefð byggi á samviskufrelsi. Jesús frá Nasaret dó á krossi fyrir þann boðskap sem hann hafði að flytja mönnunum. Marteinn Lúther negldi hinar 95 tesur á kirkjuhurðina og hætti lífi sínu til þess. Enginn sá sem tekur þessa óhlýðnisarfleifð alvarlega getur skautað hratt yfir spurningar um samviskufrelsi. Spurningin er bara….samviskufrelsi hvers?

Er rökrétt að nota æðstu gildi mannréttinda um frelsi samviskunnar til að mismuna öðru fólki á grundvelli kynhneigðar? Á grundvelli samviskufrelsis finn ég mig knúna til að svara þessari spurningu neitandi. Ég má ekki mismuna öðrum á grundvelli samviskufrelsis, en ég hef samviskufrelsi til að koma skoðunum mínum á framfæri, svo fremi sem þær gera ekki lítið úr manngildi annarra.

Danska umræðan um einu hjúskaparlögin og samviskufrelsið tekur á sig margar skrýtilegar myndir. Þannig hafa 157 danskir prestar, prófastar, sóknarnefndarfólk og einstaklingar nýlega sent bænaskjal til kirkjumálaráðherrans um að grafarar, organistar, meðhjálparar og annað starfsfólk safnaðarins geti einnig afsakað sig frá athöfnum fyrir samkynhneigt fólks vegna trúarsannfæringar. Þessi umræða hefur ekki komið upp á Íslandi og ég veit ekki til þess að einn einasti organisti hérlendur hafi neitað að spila við brúðkaup samkynhneigðra para.  Ef marka má Politiken virðast Danirnir reyndar ganga enn lengra, og vilja fá sig undan öllum athöfnum fyrir samkynhneigt fólk.  Meira að segja grafarinn flaggar samviskufrelsinu. Hvað er eiginlega í gangi þarna í gamle Danmark?

Danski kirkjumálaráðherrann Manu Sareen samkvæmt Politiken segir nei við bænaskjalinu (sjá greinina í Politiken hér) og uppástendur að „hið guðfræðilega ábyrgð á hjónavígslum hvíli á herðum prestsins.“ Skilningur danska kirkjumálaráðherrans virðist sumsé vera sá að prestar hafi sérstakt samviskufrelsi sem guðfræðingar, sem organistinn, grafarinn og meðhjálparinn hafi ekki.

Hver skyldi vera staðan hér á landi?  Ég veit ekki til þess að kenningarnefnd íslensku þjóðkirkjunnar hafi sent frá sér álit um samviskufrelsi frá því að lögin voru samþykkt 2010.  Ef svo er liggur það álit ekki á lausu. Síðasta álit kenningarnefndar sem nefnir samviskufrelsi sem ég finn er frá 2006 og má finna hér. Þar er talað um samviskufrelsið í lið 1:D) og segir:

Íslenska þjóðkirkjan rúmar ólíkar skoðanir á siðferðilegum álitamálum. Engin ein stofnun eða embætti kirkjunnar getur talist ótvíræð rödd hennar eða gefi úrskurði er bindi samvisku manna. Kirkjan vill stuðla að opnu samtali sem víðast á vettvangi kirkju og samfélags til að ná víðtækri sátt um grundvallaratriði. Það á eins við um siðferðileg álitamál, túlkun ritninganna, helgisiði kirkjunnar og starfshætti hennar.

Ef  „engin ein stofnun eða embætti kirkjunnar geta bundið samvisku manna“, hvað þá um samvisku organistans og grafarans? Af hverju nýtur bara presturinn þessa stofnanasamþykkta samviskufrelsis?

Rökstuðningur kenningarnefndar fyrir ólíkum skoðunum hentar ágætlega sem grundvöllur fyrir því að virða ólíkar skoðanir, en tekur ekki á þeim veruleika þegar flöggun samviskufrelsisins leiðir af sér mismunun annarra. Slík mismunun, ekki síst þegar hún er varin með lagagreinum og kirkjulegum samþykktum getur leitt af sér afstæðishyggju sem er hliðstæð því sem anglíkanska kirkjan á Bretlandseyjum glímir við varðandi vígslu kvenna. Þar eru margar prestsstöður auglýstar með þeim fyrirvara að söfnuðirnir viðurkenni ekki vígslu kvenna og vilji ekki láta slíkar persónur þjóna við altari Drottins, sjá hér. Stöðurnar eru auglýstar með því fororði að „Resolution A, B or C is in place“. Á venjulegu máli heitir þetta:  „Við viljum ekki konur.“  Slíkar eru öfgarnar sem stofnanablessað samviskufrelsi getur leitt okkur í.

Mér sýnist full ástæða til að kenninganefnd þjóðkirkjunnar komi saman og ræði samviskufrelsið aftur.

Davíð Þór Jónsson skrifar grein um samviskufrelsið í dag sem lesa má hér.  Davíð telur að biskupinn eða nefndir á vegum hennar geti ekki sagt prestum fyrir verkum og því sé réttast að söfnuðirnir taki málið í eigin hendur og losi sig við presta sem ekki telja sig geta vígt samkynhneigt fólk í hjónaband af samviskuástæðum. Ég er ósammála þessari nálgun Davíðs. Mér finnst að ekki eigi að velta ábyrgð mannréttinda yfir á söfnuðina. Ég tel að sú aðgerð myndi aðeins auka enn á að gera mannréttindaumræðuna afstæða. Það á ekki að vera undir einstökum safnaðarmeðlimum komið hvort samkynhneigðu fólki sé mismunað í íslensku þjóðkirkjunni. Þá getum við alveg eins farið að tala um samviskufrelsi grafara.

Kristnir menn geta ekki vikið sér undan þeim krefjandi guðfræðispurningum um trúararfinn sem mannréttindakröfur nútímans leggja okkur á herðar. Hvenær er samviskufrelsi mitt farið að bitna á öðru fólki?

Nú eru að verða tvö ár síðan ein hjúskaparlög voru samþykkt á Íslandi. Lögin má lesa hér.  Í rökstuðningi með frumvarpinu komu fram ástæður þess að lögin voru höfð valkvæð. Athugasemdir 6.1  má í heild sinni hér)

Við túlkun ákvæðisins um vígsluheimild eða vígsluskyldu hefur m.a. verið nefnt að setja megi það skilyrði að annað hjónaefna eða bæði tilheyri því trúfélagi sem á í hlut. Þá hefur einnig verið nefnt að til álita komi að prestur megi neita að vígja hjónaefni ef hann telur slíkt andstætt samvisku sinni og sannfæringu. Ákvæði af því tagi eru í dönskum rétti, sbr. reglur um vígslu innan og utan þjóðkirkjunnar frá 1974. Í 13. gr. norsku hjúskaparlaganna er ákvæði um að kirkjulegur vígslumaður megi neita að vígja hjónaefni ef annað tilheyri ekki viðkomandi trúfélagi eða sé fráskilið og fyrrverandi maki sé enn á lífi. Við þá breytingu sem tók gildi 1. janúar 2009 var bætt við ákvæði 13. gr. að kirkjulegur vígslumaður mætti neita ef hjónaefni væru af sama kyni. Samkvæmt sænsku hjúskaparlögunum er kirkjulegum vígslumönnum almennt ekki skylt að framkvæma hjónavígslu en ekki er til tekið hvaða ástæður geti réttlætt neitun þeirra.
Eins og áður sagði þá byggist heimild kirkjulegra vígslumanna til að staðfesta samvist, samkvæmt breytingalögum nr. 55/2008, á því að prestar muni ekki synja af öðrum ástæðum en vegna trúarsannfæringar sinnar.

Valkvæða ákvæðið samkvæmt athugasemdunum er talið sambærilegt við ákvæði í norrænum lögum, þar sem prestar geta á grundvelli trúarsannfæringar sinnar neitað að gefa saman hjón vegna þess að þau hafa verið gift áður. Þetta er merkilegt í ljósi þess að engar slíkar valkvæðar heimildir eru í íslenskum hjúskaparlögum vegna fráskilins fólks. Prestar íslensku þjóðkirkjunnar gefa saman hjón hvort sem hjúskapur þeirra er sá fyrsti, tólfti eða fimmtugasti. Hvers vegna þarf valkvætt ákvæði vegna hjúskapar samkynhneigðra sem ekki þurfti vegna hjúskapar fráskildra?

Umræðan er guðfræðileg og snýst um eðli samviskufrelsis. Í athugasemdunum með lagafrumvarpinu 2010 var talað um að hvetja megi „til þess að ráðuneytið skoði að höfðu samráði við biskup og jafnvel fleiri hvort ástæða sé til að setja nánari reglur á grundvelli 22. gr. hjúskaparlaga.“ Það er með öðrum orðum tekið fram í athugasemdum með lögunum að ákvæðið um samviskufrelsið geti tekið breytingum og verði jafnvel tekið burt.

Umræðan um vígslu kvenpresta er löngu búin í íslensku kirkjunni. Hér eru engar stöður auglýstar með Resolution A, B og C. Engan hef ég heyrt minnast á samviskufrelsi grafara sem vilja fá sig undan því að grafa samkynhneigt fólk. Ég veit ekki til þess að nokkur þjóðkirkjuprestur kinoki sér við að jarða samkynhneigðan mann eða gifti ekki fráskilda. Um allt þetta ríkir eining sem einhvern veginn komst á.

Eining samviskunnar sem er frjáls og leggur af fordóma í stað þess að næra þá með tilvísun til mannréttindaorðræðu. 

Samviskufrelsi

Umræðan um hjúskap samkynhneigðra hefur skekið dönsku þjóðkirkjuna að undanförnu í kjölfar þess að nýtt frumvarp hefur verið lagt fram í þinginu um ein hjúskaparlög.  Samkvæmt fréttum politiken.dk er gert ráð fyrir að prestar geti neitað því að vígja samkynhneigð pör í hjónaband á grundvelli samviskufrelsis, sem er samsvarandi við núgildandi lög á Íslandi. Í greininni er því einnig haldið fram að þriðjungur danskra presta sé á móti því að gefa samkynhneigð pör í hjónaband og að mjög sé um það rætt innan dönsku þjóðkirkjunnar að þjóðkirkjan afsali sér valdi til að framkvæma hjónavígslur að lögum. Greinina í Politiken má lesa hér.

Tvennt þykir mér áhugavert við þessar fréttir frá Danmörku. Í fyrsta lagi virðist mikill munur vera á afstöðu til hjónabands samkynhneigðs fólks meðal íslenskra og danskra presta. Í öðru lagi tel ég að danska umræðan um framsal vígsluvaldsins sé eitthvað sem getur skotið upp kollinum á Íslandi aftur í umræðu um samviskufrelsi presta.

En á hverju byggi ég það að íslenskir prestar séu almennt meiri homma- og lesbíuvinir en hin dönsku starfssystkin þeirra?

5. júlí 2008 gerði dagblaðið 24 stundir könnun meðal presta þjóðkirkjunnar um afstöðu þeirra til blessunar staðfestrar samvistar og birti niðurstöður með nöfnum presta og dreifingu um landið. Greinina má lesa hér og hér. Þar kom fram að þrír af hverjum fjórum prestum þjóðkirkjunnar var tilbúinn að taka að sér vígslur, nokkur hópur vildi ekki gefa upp viðhorf sitt og níu prestar sögðust ekki taka að sér slíka vígslu, þar af sex sem eru enn í embætti.

Stór hópur íslenskra presta, djákna og guðfræðinga vann til mannréttindaverðlauna Samtakanna 78 árið 2010 fyrir að hafa lagt lóð á vogarskálarnar við umfjöllun og afgreiðslu einna hjúskaparlaga á Íslandi. Texta viðurkenningarinnar og nöfn þeirra sem hana fengu má lesa á þessari síðu hér. Á grundvelli þessara upplýsinga úr 24 stundum og lista þeirra sem fengu mannréttindaverðlaunin er hægt að draga ályktanir af viðhorfum velflestra íslenskra presta til hjúskapar samkynhneigðra.

Niðurstaða yfirgnæfandi meirihluta íslenskra þjóðkirkjupresta er sú að þeir gefa samkynhneigð pör saman í hjónaband til jafns við gagnkynhneigð pör. Þess má líka geta að presturinn sem samdi nýtt kynhlutlaust hjónavígsluritúal handa þjóðkirkjunni í tilefni einna hjúskaparlaga 2010 er orðinn biskup í Skálholti og að báðir biskupskandídatarnir sem kosið er um til embættis biskups Íslands voru í hópi þeirra sem samtökin 78 verðlaunuðu 2010. En er það nóg að velflestir prestar taki að sér að gefa samkynhneigð pör í hjónaband og að hjónaband homma og lesbía njóti velvildar og skilnings hjá biskupum? Er samkynhneigðu fólki ekki enn mismunað í íslensku þjóðkirkjunni meðan prestar geta neitað að vígja það í hjónaband?

Séra Baldur Kristjánsson skrifaði stuttan pistil á heimasíðu sinni fyrir skömmu þar sem hann taldi að tími væri kominn til að valkvæða ákvæðið í hjúskaparlögunum frá 2010 væri numið úr gildi. Þar með yrði það ekki lengur á valdi einstakra presta að ákveða hvort þeir taki að sér hjónavígslu samkynhneigðra eða ekki, heldur sé það sameiginleg ákvörðun trúfélagsins þar sem þeir þjóna. Séra Baldur segir:

Kirkjan ætti auðvitað að taka af skarið sjálf  og sýna að hún giftir ekki samkynhneigt fólk með hangandi hendi, allir þjónar hennar geri það með sama geði og um gagnkynhneigt fólk væri að ræða eða leyni lund sinni ella.

Ég er sammála sr. Baldri í því að þjóðkirkjan á að fjalla um valkvæða ákvæðið í stað þess að bíða eftir því að einhver ákveði að taka af skarið á þingi. Guðfræðileg umræða tekur langan tíma og þjóðkirkjan getur ekki sinnt þessari umræðu á eigin forsendum nema að hún taki frumkvæði. Ég var hlynnt þessu ákvæði á sínum tíma og tel að það hafi átt sinn þátt í að hjálpa til við að koma lögunum á og skapa rými til aðlögunar. Svo er önnur spurning hvort valkvæða ákvæðið eigi að gilda um eilífð og aldur. Umræðan í Danmörku virðist komin miklu styttra áleiðis en á Íslandi, en kannski verður hún til að ýta við umræðu í íslensku þjóðkirkjunni í þessu máli.

Ef farið verður að hrófla við valkvæðisákvæðinu í lögunum, eru tvær leiðir færar. Sú fyrsta væri sú að allir vígðir þjónar þjóðkirkjunnar tækju að sér  hjónavígslu samkynhneigðra. Hin leiðin væri sú að íslenska þjóðkirkjan afsalaði sér vígsluvaldinu á sama hátt og danska kirkjan er að velta fyrir sér að gera.

Er hægt að fá alla presta til að taka að sér að vígja samkynhneigða í hjónaband?  Á að knýja þessa fáu sem eru á móti til að annast vígslurnar, eða „leyna lund sinni“? Hvað nákvæmlega leysist við það að kirkja afsali sér vígsluvaldi?  Breytir það ábyrgð kirkjunnar gagnvart samkynhneigðum sóknarbörnum sínum?

Hvað felst í samviskufrelsi og á samviskufrelsi sér takmörk? Ég ætla að pæla í þessu áfram í öðrum pistli um samviskufrelsið á morgun m.a. út frá 18. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

(Innskot viku síðar:  Það tók mig reyndar viku að skrifa grein númer tvö. Hana er hægt að lesa með því að smella hér).